Tilhögun þingfundar

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 10:58:45 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:58]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í raun og veru er ég alveg sammála því sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sagði þann 4. október í fyrra í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC. Þar fullvissaði hann breska sparifjáreigendur um að innstæður í íslensku bönkunum, Kaupþingi og Landsbanka, væru öruggar. Þarna talaði efnahagsráðgjafi fyrrverandi forsætisráðherra (Gripið fram í.) og núverandi efnahagssérfræðingur Sjálfstæðisflokksins. Hann fjallaði um þetta allt saman og fullvissaði breska hlustendur og aðra um að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur þótt bankarnir væru að fara á hausinn, (Gripið fram í.) íslenska ríkið mundi standa á bak við (Gripið fram í.) hvaða innstæðutryggingu sem væri. (Gripið fram í.) Sannleikanum verður hver sárreiðastur, virðulegi forseti, (TÞH: Hvernig er staðan?) og það er eðlilegt að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson vilji lítið ræða um þetta viðtal (Gripið fram í: Hvar varst þú?) (Gripið fram í.) og það sem hann sagði þar. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Skilanefndir bankanna (Gripið fram í.) eru nú að skila af sér hver af annarri. Núverandi hæstv. ríkisstjórn er skilanefnd. Hún er að skila af sér (Forseti hringir.) fyrir stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks (Gripið fram í.) og það sem gert (Forseti hringir.) var hér. Efnahagshrunið á Íslandi (Gripið fram í.) er í boði (Gripið fram í.) sjálfstæðismanna og framsóknarmanna [Háreysti í þingsal.] og við erum að reyna að ganga frá þessu þrotabúi. (Gripið fram í.)