Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 21:05:51 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:05]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vék í ræðu sinni nokkuð að umfjöllun tveggja heiðursmanna, Galbraith og Black, um efnahagsástandið á Íslandi. Því er rétt að taka fram að þótt þetta séu að því er ég best veit ágætir menn sem kunna vel sitt fag hafa þeir ekki fengið mjög góðar upplýsingar um ástand mála og virðast því draga nokkuð rangar ályktanir um stöðu mála á Íslandi.

Þeim er reyndar nokkur vorkunn því að tölur um m.a. skuldastöðu Íslands og íslenska ríkisins hafa því miður ekki verið jafnskýrar og menn hefðu óskað, m.a. vegna þess að inni í ýmsum tölum fyrir Ísland hafa verið tölur fyrir hina föllnu banka sem teljast vitaskuld enn þá hluti af íslenskum veruleika og íslensku efnahagslífi þótt fyrir liggi að skuldir þeirra verða ekki greiddar nema að mjög litlu leyti og þá einungis að því leyti sem eignir þeirra standa undir þeim.

Nú vill svo til að fyrr í dag birti Seðlabanki Íslands ágætisyfirlit yfir eigna- og skuldastöðu íslenska þjóðarbúsins þar sem greint var á milli annars vegar skulda hinna föllnu banka, og reyndar eigna þeirra líka, og svo hins vegar skulda og eigna annarra hluta hagkerfisins, sem er vitaskuld það sem máli skiptir því að eins og ég sagði áðan munu hinir föllnu bankar ekki greiða skuldir sínar nema að mjög litlu leyti.

Þegar þetta er skoðað og búið er að draga frá allt sem viðkemur gömlu bönkunum kemur nefnilega í ljós mynd sem er hreint ekki svo dökk. Þá kemur í ljós að hreinar skuldir þjóðarbúsins eru að mati Seðlabankans 524 milljarðar kr., þ.e. skuldir umfram eignir, og þótt það sé ekki ánægjuleg tala er hún einungis rétt um þriðjungur af landsframleiðslu og brúttóskuldir um 3.137 milljarðar, sem eru 210% af landsframleiðslu. Þessar tölur eru í góðu samræmi við það sem almennt gengur og gerist í Vestur-Evrópu og því fer fjarri að hægt sé að draga þá ályktun af þeim að við eigum okkur ekki viðreisnar von. (Gripið fram í.)