Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 21:44:49 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta fer að verða svolítið pínlegt, því að ég vil minna hæstv. forseta á að forseti er forseti allra þingmanna, ekki bara stjórnarliðsins, og sú æpandi þögn sem er búin að vera af hálfu forseta á síðustu tveimur þremur tímum, er náttúrlega í rauninni allt að því móðgun við þingmenn sem spyrja spurninga um þingstörfin og spurninga sem hugsanlega mundu, ef svör fengjust við, greiða fyrir frekari þingstörfum. Ég óska eftir að við förum að fá svör við spurningu sem til að mynda þingflokksformaður Hreyfingarinnar hefur borið hér fram og ég áðan. Ég hvet því forseta til að losa aðeins um málbeinið og svara þeim spurningum sem hér hafa verið bornar fram og eru í samræmi við þingsköp.