Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 22:56:27 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Frú forseti. Þetta hefur um margt verið merkilegur dagur. Miklar umræður og að flestu leyti góðar hafa átt sér stað hér í dag. Við byrjuðum daginn á því að hér fór fram hressileg umræða um það hvort greiða skyldi atkvæði og hvernig atkvæði skyldu falla um það að lengja þingfundartímann hér í dag. Þær voru um margt athygliverðar, þær yfirlýsingar sem þar komu fram. Meðal annars kom sú gagnrýni frá stjórnarliðum að við í stjórnarandstöðunni hefðum engar hugmyndir og hefðum engar skoðanir á því hvað skyldi gera héðan í frá.

Vegna þessara ummæla stjórnarþingmanna hef ég eftir föngum leitað svara hjá þeim hv. þingmönnum sem hafa flutt ræður hér í dag um það hvað þeir telja gott að gera í stöðunni og fengið hin ágætustu svör við því. Ég vona að hv. þingmenn stjórnarliðsins hafi fylgst með þeirri umræðu og séu þá búnir að átta sig á því að hér er gott fólk á ferð með hugmyndir.

Frú forseti. Nú er það svo að erfiðir tímar í efnahagsmálum — (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Herra forseti!) Já. Herra forseti, þetta er alveg nýtt, hæstv. forseti, að maður sé stöðvaður í miðri til að vekja athygli manns á því að það sé kominn nýr forseti í stólinn, en jæja, maður verður bara að sætta sig við þessi nýju vinnubrögð. Ég biðst innilega forláts, herra forseti, þetta fór algjörlega fram hjá mér og algjörlega á bak við mig.

En það er þannig, herra forseti — þetta er mér ekki tamt, herra forseti, en ég skal reyna að halda mig við efnið — að það er auðveldara um að tala en í að komast að stjórna landinu þessa dagana, það skal ég játa fyrst manna. Ég held að allir séu sammála um að þetta er ekki auðvelt hlutskipti. Mönnum ber að vanda sig og allir eru af vilja gerðir að hjálpa til. Ég tel að þau skilaboð sem komu úr þinginu í sumar, eftir þetta langa sumarþing, séu að það hafi verið hægt að setjast niður, stjórn og stjórnarandstaða, og leita lausna í erfiðum málum. Ég hafði það á tilfinningunni að þjóðin væri sátt við þessi nýju vinnubrögð og horfðu margir hverjir til nýrra tíma þar sem samstaða og samvinna yrði höfð að leiðarljósi.

Því miður, herra forseti, höfum við ekki borið gæfu til að vinna á sömu nótum í þessu máli. Þegar Alþingi var búið að afgreiða lög þar sem þeir fyrirvarar sem fjárlaganefndin hafði smíðað voru lögfestir tók við nýtt ferli þar sem ríkisstjórnarflokkunum bar að fylgja þeim lögum eftir. Ég taldi fullljóst eftir fyrri samningalotuna þar sem núverandi ríkisstjórn leiddi þá vinnu að einhver lærdómur hefði verið dreginn. Ég man eftir að hafa spurt marga hv. þingmenn í umræðunni í sumar hvaða lærdóm við ættum að draga af þessu máli og hann var sá að tala saman og leita leiða til að hafa stjórnarandstöðuna inni í málum. Hins vegar var valið að gera það ekki. Ég fór aðeins yfir það í fyrri ræðu minni í þessu máli á þriðjudagskvöldið að m.a. lásum við sem alþjóð í netfjölmiðlum að aðstoðarmaður fjármálaráðherra hefði skrifað minnisblað um fundi sem tengdust þessu máli í flugvél, á sama tíma og hæstv. fjármálaráðherra svaraði þingmönnum og fréttamönnum því að ekkert væri að frétta og engar viðræður farnar af stað. Þá strax var sleginn tónninn um að engu yrði breytt í vinnubrögðum frá því í fyrri atrennu samningalotunnar um Icesave. Það olli mér sem og fleirum miklum trega.

En hingað erum við komin, frú forseti — herra forseti. Og þá þarf bara að tala um hlutina eins og þeir eru. Nú höfum við í höndum og til umfjöllunar þetta nýja frumvarp ríkisstjórnarflokkanna um ríkisábyrgð á Icesave-samningunum. Samkvæmt útskýringum stjórnarliða er um að ræða lítilvægar breytingar á þeim lögum sem Alþingi samþykkti í sumar og ekki það mikilsverðar að þær skipti höfuðmáli, það sé betra að klára málið á þennan hátt en að leita betri leiða fyrir Ísland. Þessu er ég ósammála.

Frú forseti. Mig langar aðeins að vitna í greinargerðina með frumvarpinu, í kafla 4.3 er fjallað um pólitísk álitaefni. Þar kemur fram að önnur ríki, frú forseti — nei, herra forseti, setji þau skilyrði fyrir lánveitingum til Íslands að aðstoðin falli að áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og að í ljós hafi komið að frekari lán verði ekki veitt íslenska ríkinu nema Icesave-málið verði leyst. Þetta er fullyrt í greinargerð. Samkvæmt umfjöllun fjölmiðla og aðeins umfjöllun á þinginu ríkir talsverður efi í mínum huga um að þessi staðreynd standist þannig að þetta er nokkuð sem er vert að taka til skoðunar í vinnu fjárlaganefndar um þetta mál.

Þá kemur jafnframt fram í þessum kafla greinargerðarinnar að pólitísk staða Íslands á alþjóðavettvangi verði að teljast veik. Það er reyndar því miður rétt, en hins vegar styrkist hún ekki við það að gefin séu út þau skilaboð að við gefum eftir í hvert einasta skipti sem reynir á að ríkisstjórn Íslands sé tilbúin að gefa eftir og veita afslátt af þeim lögum sem Alþingi Íslands samþykkir. Það tel ég ekki sterk skilaboð og það tel ég ekki skilaboð um að hér séu á ferð sterkir pólitíkusar sem séu tilbúnir til að berjast fyrir þessum málstað. Ég tel því miður að hér hafi ríkisstjórnarflokkarnir nokkuð runnið út af sporinu í þessu máli.

Þá segir á bls. 17 í kafla 4.4 þar sem lagt er heildarmat á það hvort betra sé að víkja frá lögum Alþingis, semja upp á nýtt og koma inn með þetta frumvarp eða gera það ekki, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi verður að taka afstöðu til þess hvort viðaukasamningarnir og frumvarp þetta feli í sér viðunandi lausn málsins.“

Það er akkúrat það sem við erum að gera hér í dag í vinnu Alþingis.

Þannig er, herra forseti, að það er ekki búið að klára þetta mál. Ég hvet hv. þingmenn, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, að halda áfram að kynna sér öll þau nýju gögn sem koma fram í málinu og alla þá pólitísku vinnu sem fram fer bak við tjöldin vegna þess að Alþingi verður að taka afstöðu til þess hvort viðaukasamningarnir og frumvarp þetta feli í sér viðunandi lausn málsins. Alþingi Íslendinga er ekki búið að gera það. Við eigum enn þá möguleika á að hverfa af þessari braut. Og við eigum enn þá möguleika á að standa við þá miklu vinnu sem fór fram hér í sumar og segja einfaldlega: Það er búið að samþykkja lög frá Alþingi. Svo verðum við að fella þetta frumvarp. Hin lögin standa þá. Miðað við fréttir dagsins mun Evrópuþingið reyndar ekki vera hresst með það. Evrópuþingið sendi frá sér ályktun í dag sem fjallað hefur verið um, bæði í þingsölum og á Bloomberg-fréttaveitunni, þar sem kemur fram að þaðan í frá sé pressa á að við hér, Alþingi Íslendinga, afgreiðum þetta mál á ákveðinn hátt. Þetta tel ég afskaplega óheppilegt og hættulegt fyrir fullveldi okkar. Ef við ætlum að fara að bregðast við þrýstingi frá þessum slóðum í því augnamiði að þóknast Evrópusambandinu þannig að við eigum auðveldari aðgang þar inn spyr ég: Á hvaða vegferð erum við? Og á hvaða vegferð eru þá sérstaklega Vinstri grænir? Það tel ég vera spurningu dagsins. Ég vonast til að fá að ræða hana hér við nokkra hv. þingmenn Vinstri grænna sem ég geri ráð fyrir að óski eftir að veita andsvar við þessa ræðu mína.

Frú forseti. (Gripið fram í.) Ef einhver á skuld að gjalda er kröfuhafinn vanur því, og það þekki ég eftir að hafa starfað hjá sýslumannsembættum þangað sem kröfuhafar geta leitað með sín mál og til þess að setja fram kröfur sínar og fá þær viðurkenndar, að semja um ýmislegt meðan hann veit til þess að skuldarinn geti greitt. Þrátt fyrir að við mundum fella þetta frumvarp geri ég einfaldlega ráð fyrir því að Bretar og Hollendingar mundu enn þá vilja ræða við okkur. Að öðrum kosti mundu þeir einfaldlega fara með málið fyrir dómstóla, það er þá bara það sem gerist ef ekki næst saman. Staðan er þá sú að við erum hérna með lög frá Alþingi sem við samþykktum í sumar eftir mikla vinnu og mikla viðhöfn. Þá er það bara á borðinu, það er tilboðið sem íslenska ríkisstjórnin hafði heimild til að gefa og það var bara ekkert annað en það. Það fólst ekki í því nein heimild til ríkisstjórnarinnar til að gefa afslátt af þeim lögum. Ég þekki ekki að það sé slík heimild í lagasafni okkar til handa ríkisstjórninni.

Það er einfaldlega staðan. Ef við mundum gera það mundum við kannski líka halda aðeins meiri virðingu hér, þetta virðulega þing okkar. Við yrðum þá kannski álitin þing sem stendur við sín eigin lög, sem stendur að baki þeirri miklu vinnu sem fram fór hér í sumar. Það er eitt af því mikilvægasta sem við þurfum að hafa í huga við hverja einustu athöfn sem við framkvæmum hér í þinginu og víðast hvar annars staðar í stjórnkerfinu, að gæta að því að skapa traust. Hvernig gerum við það? Jú, með því að sýna sanngirni og réttsýni og standa við það sem við segjum. Það er stór liður í því, herra forseti, að skapa traust.

Við samþykktum lög hér í sumar, þ.e. ríkisstjórnarflokkarnir samþykktu þau að undangenginni mikilli vinnu í þinginu þar sem fyrirvararnir voru smíðaðir og frumvarpi ríkisstjórnarinnar gjörbylt. Við lögðum í þá vinnu. Við það skal standa. Í þennan ræðustól kom hver þingmaðurinn á fætur öðrum þegar sú vinna var að baki og lýsti yfir hrifningu sinni á þessum vinnubrögðum og hversu vel hefði verið að verki staðið, hversu langan veg við værum komin í því að taka upp ný vinnubrögð. Hverju skilaði það? Það skilaði því að ríkisstjórnin tók þessi lög, henti þeim út um gluggann og kom hingað með frumvarp til laga sem kollvarpar fyrirvörunum. (BJJ: Allt annað mál.) Hér er komið allt annað mál. Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur orðað það stendur eftir einstaka „og“ og „er“ og það er nákvæmlega það sama og gerðist með upphaflega frumvarpið frá ríkisstjórninni þegar fyrirvararnir höfðu komið inn í það, það stóð ekkert eftir af því frumvarpi. Nú gerir ríkisstjórnin það sama, kastar út lögunum og kemur með þetta frumvarp sem ég styð ekki, ef einhverjum hefur dottið annað í hug af málflutningi mínum.

Herra forseti. Ef við kíkjum aðeins yfir þá fyrirvara sem við samþykktum á Alþingi í sumar var í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að ríkisábyrgðin mundi gilda til 5. júní 2024. Indefence hefur farið vel og vendilega yfir þessa fyrirvara alla saman og tekið saman smásamantekt fyrir okkur og fyrir landsmenn alla um það hvað í rauninni er á ferðinni, hvernig lögunum hefur verið kollvarpað. Um þetta ákvæði segja samtökin Indefence, með leyfi forseta:

„Fyrirvari Alþingis hefur verið felldur niður að öllu leyti, ríkisábyrgðin er án takmarka.“

Herra forseti. Þetta var eitt þeirra atriða í fyrirvörunum og lögunum sem samþykkt voru frá Alþingi sem hvað mest vinna fór í að ná saman um og sem hvað mest vinna var lögð í að yrði skýrt og greinilega þannig að það mundi halda og til þess að ríkisábyrgðin yrði einmitt ekki takmarkalaus og óendanleg.

Í öðru lagi var rætt um þann fyrirvara, og hann lögfestur, að það bæri að kynna breskum og hollenskum stjórnvöldum fyrirvarana og þau yrðu að fallast á þá. Það er það sem Alþingi Íslendinga samþykkti, ef einhver er búinn að gleyma því. Um þetta atriði segir Indefence að niðurstaðan sé, með leyfi herra forseta:

„Bretar og Hollendingar hafa ekki fallist á alla fyrirvara Alþingis eins og gert er að skilyrði í 1. gr. laganna og því er ríkisábyrgð ekki í gildi.“

Það er einfaldlega staðan í dag. Ég vona að þingheimur átti sig á því. Það er staðan í dag.

Síðan segir í greinargerð Indefence, ef ég má halda áfram, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin ætlast til að Alþingi staðfesti viðaukasamning sem er í raun brot á 1. gr. laga nr. 96/2009 með því að samþykkja breytingalög sem fella á 1. greinina úr lögunum. Fyrirvari Alþingis hefur verið felldur niður að fullu.“

Herra forseti. Nú hef ég rakið tvö atriði fyrirvaranna og mat Indefence-samtakanna. Ég tek undir matið og er fyllilega sammála því að þessum tveim fyrirvörum hefur verið kollvarpað og þeir felldir niður að fullu. Ég sé ekki hvernig það fer saman við það mat stjórnarþingmanna að fyrirvararnir séu að mestu leyti enn inni í viðaukasamningunum og nýja frumvarpinu. Ég get einfaldlega ekki skilið hvernig sá málflutningur er rökstuddur. Mér er líka gert svolítið erfitt fyrir með að skilja röksemdir hv. þingmanna stjórnarliðsins þar sem þeir tjá sig almennt ekki í þessu máli. Ég kalla eftir því að einhverjir þeirra setji sig á mælendaskrá og þá lít ég sérstaklega til þeirra sem unnu að því og börðust í mikilli orðræðu í morgun fyrir því að þessi fundur yrði lengdur svo hægt yrði að halda umræðunum áfram fram eftir kvöldi.

Nú sé ég að hv. þm. Guðbjartur Hannesson er kominn í hliðarsal og hlýðir á mál mitt … (BJJ: Kemst aldrei lengra.) Hv. þm. Birkir Jón Jónsson kallar hér fram í: ,,Hann kemst aldrei lengra.“ Hann kemst aldrei nær mér, en ég skora hér með enn og aftur á hv. þm. Guðbjart Hannesson að koma í andsvar við mig og ræða þessi atriði. Þá mundi ég sérstaklega vilja að hv. þm. Guðbjartur Hannesson færi aðeins með mér yfir málsmeðferðina í nefndinni. Hvernig má það vera að þeirri sjálfsögðu beiðni þingmanna Sjálfstæðisflokksins að fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fengi að koma fyrir nefndina var hafnað? Óskað var eftir því til þess að ræða ummæli hennar um að við Íslendingar hefðum gengið inn í þessa samninga eins og sakamenn. Það er sjálfsagt mál að fá nánari útskýringar á þessu frá fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem var meðal þeirra sem vann í þessu máli frá upphafi. Í ljósi þeirrar orðræðu sem átt hefur sér stað í þinginu frá kosningunum um góða stjórnsýslu og stóraukna áherslu á lýðræðisleg vinnubrögð skil ég ekki hvers vegna hv. formaður fjárlaganefndar varð ekki við þessari beiðni.

Þar sem mér sýnist ég við það að hafa það af að særa hv. þingmann upp í andsvar við mig — ég sé að hann er alveg að hafa sig í það — væri jafnframt gott að fá við það tækifæri útskýringu á því hvers vegna óskað var eftir áliti efnahags- og skattanefndar og hvers vegna þeirra — þetta voru fjögur minnihlutaálit — sér þá ekki stað í áliti meiri hluta fjárlaganefndar. Hvers vegna ekki var farið yfir þau? Hvers vegna voru þessi vinnubrögð viðhöfð í ljósi þeirra nýju, opnu og góðu stjórnsýsluhátta sem stjórnarliðar guma af á góðum stundum?

Jæja, herra forseti, nú held ég áfram og vonast til að ég sé búin að varpa fram nógu gáfulegum spurningum til hv. formanns fjárlaganefndar til að hann geti eytt tíma í að ræða við mig hér.

Frú forseti. Nokkrar af þeim góðu hugmyndum sem hentar hafa verið á lofti hér úr herliði stjórnarandstæðinga í dag eru vel athugandi og þar ber hæst hugmynd Péturs H. Blöndals sem á ákveðinn samhljóm með hugmynd Birgittu Jónsdóttur um að þingmenn skundi út í heim og tali fyrir málstað Íslendinga. Það er einfaldlega nokkuð sem hefur ekki verið gert í nægum mæli. Það þýðir ekki að ætla það að þingmenn í breska þinginu og þingmenn í hollenska þinginu viti hvert ástand mála er hér alla dag og viti hvert smáatriði um það. Við getum ekki ætlast til þess. Ef það er svipað vinnuálag á þeim þingmönnum og er á okkur á íslenska þinginu — og ég er ekki að kvarta yfir því — áttum við okkur á því að til þess að þeir fái greinargóðar upplýsingar um okkar stöðu verðum við sjálf að fara og segja þeim hvernig málin standa. Það er okkar hlutverk. Þess vegna tek ég undir þessar góðu hugmyndir þeirra Birgittu og Péturs og hvet forseta Alþingis til þess að beita sér fyrir því að farið verði í þessa vinnu. Þetta er það mikilvægasta sem við getum gert í dag, herra forseti.

Ég held að ef við mundum beita þessum vinnubrögðum mundi jafnvel sjálfur Gordon Brown veita okkur áheyrn, hann mundi láta svo lítið að svara beiðnum okkar um fund. Ég tel að svo sé og ég tel a.m.k. að það sé þess virði að láta reyna á það. Ég tel að þannig sé staðan og ég legg til, herra forseti, að forseti beiti sér fyrir því að þetta verði gert.