Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 23:44:45 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:44]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að úti í samfélaginu sé fólk algerlega búið að fá nóg af þessu máli og ég held að því miður sé það ekki að hlusta á okkur eða fylgjast með umræðunni og öllum þeim nýju staðreyndum og sannindum sem þar koma fram. Þetta ástand er mjög hættulegt því þegar við höfum öll fengið nóg af þessu og viljum fara að landa þessu förum við að vera kærulaus og við viljum bara landa þessu einhvern veginn þannig að núna held ég að sé hættulegasta augnablikið.

Nú heyrði ég ekki þetta umrædda viðtal við hæstv. félagsmálaráðherra en ég get tekið undir það að mér finnst ruglið og vinnubrögðin ekki til sóma og það er ýmislegt sem viðgengst sem má segja að sé bruðl og að peningunum væri miklu betur varið í annað, t.d. að halda fæðingarorlofinu óbreyttu eða úrræði fyrir atvinnulausa eða fátæka, en við þurfum að spyrja okkur annarrar spurningar og það er hvernig við ætlum að nota þennan sparnað. Ef við ætlum að nota hann bara til að greiða vextina af Icesave þá getum við alveg sleppt þessu. Það er ekki þess virði. Það er ekki þess virði að skera niður velferðarkerfið til að greiða Bretum og Hollendingum vexti fyrir skuld sem enginn veit hvort við eigum að greiða eða ekki. Það þarf að koma þessum grundvallaratriðum á hreint áður en við höldum lengra. En við þurfum náttúrlega að skera niður vegna þess að við skuldum fleira og við þurfum að vanda okkur við það. Við þurfum að standa vörð um velferðarkerfið og fólkið í landinu og við verðum að fara að hugsa um hvernig þjóðfélagi við viljum búa í, (Forseti hringir.) ekki bara tjasla þessu einhvern veginn saman.