138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:26]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir andsvarið og jafnframt vil ég þakka fyrir hvað hann hefur lagt sig eftir að hlusta eftir ræðu minni, sem ég met mikils.

Fyrsta spurningin: Hvaða ráðherra hefði átt að veita þetta leyfi? Nú er það svo að þetta hefur ekkert með framkvæmdarvaldið að gera, ráðherrar veita engin leyfi í þessu. Það er bara einföld tilkynning frá fyrirtækinu til fjármálaeftirlits að athuga hvort það uppfylli skilyrði og síðan getur fyrirtækið opnað útibú. Það er engin leyfisveiting í þessu og enginn ráðherra sem bar ábyrgð á þessu nema bara sú ábyrgð sem Björgvin G. Sigurðsson bar á Fjármálaeftirlitinu.

Í öðru lagi: Af hverju var sú leið ekki fær að hafna út af fjárhagslegum burðum? Nú er það þannig að Landsbankinn, alveg fram á hið síðasta var talinn uppfylla öll starfsleyfi hér á Íslandi og ef það hefði átt að stöðva opnun útibús hefði raunverulega átt að setja Landsbankann á hausinn, vegna þess að það að svipta banka starfsleyfi jafngildir því að setja hann í gjaldþrot. Bæði var það leið sem hefði ekki verið hægt að fara í fyrsta lagi og í öðru lagi var það leið sem þurfti ekki fara eða það var ekkert sem gaf tilefni til þess.

Varðandi þriðju spurninguna um Fjármálaeftirlitið, hvað hefði Fjármálaeftirlitið getað gert? Fjármálaeftirlitið gat ekkert gert. Það var bara einfaldlega þannig að Landsbankinn uppfyllti lög og reglur, Fjármálaeftirlitið lét þá uppfylla lög og reglur og þeir voru sagðir uppfylla lög og reglur í Bretlandi og Hollandi, sem ég er reyndar ekki alls kostar sammála, sérstaklega ekki í Hollandi vegna þess að (Forseti hringir.) reikningarnir voru leyfðir þegar það var ljóst að íslenskir bankar voru komnir í mjög slæma stöðu.