Rannsókn samgönguslysa

Föstudaginn 04. desember 2009, kl. 21:48:27 (0)


138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

rannsókn samgönguslysa.

279. mál
[21:48]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um rannsókn samgönguslysa. Með frumvarpi þessu eru lög um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000, lög um rannsókn flugslysa, nr. 35/2004, og lög um rannsóknarnefnd umferðarslysa, nr. 24/2005, sameinuð í heildstæða löggjöf um slysarannsóknir í samgöngum. Gert er ráð fyrir að nefndirnar þrjár sem kveðið er á um í lögunum verði sameinaðar í eina fimm manna rannsóknarnefnd samgönguslysa og heyri undir ráðherra samgöngumála.

Í júní 2007 var komið á fót starfshópi með þátttöku forstöðumanna rannsóknarnefndanna og var hæstaréttarlögmaðurinn Andri Árnason ráðinn til að vinna með starfshópnum og semja drög að frumvarpi. Í upphafi árs 2009 voru frumvarpsdrögin endurskoðuð í samgönguráðuneytinu og send til umsagnar hagsmunaaðila. Komu fram fjölmargar góðar athugasemdir sem tekið var tillit til og frumvarpið í framhaldi af því aftur birt á heimasíðu ráðuneytisins og gafst hagsmunaaðilum tækifæri til að koma athugasemdum á framfæri að nýju vegna þeirra breytinga sem orðið höfðu á frumvarpinu.

Helsta markmið frumvarpsins er að auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir á Íslandi. Með sameiningu núverandi rannsóknarnefnda flugslysa, umferðarslysa og sjóslysa í eina nefnd verður unnt að koma þekkingu og starfskröftum sem þegar eru í hverri nefnd fyrir sig í eina sterka og öfluga sameinaða nefnd. Á þennan hátt verður unnt að efla og samnýta enn frekar þá fagþekkingu sem mikilvægt er að viðhalda í slíkum nefndum og gera nefndarmönnum kleift að nýta sér færni úr mismunandi rannsóknarflokkum til að styrkja frekari rannsóknir á sviðinu í heild.

Í sameiningunni felst einnig rekstrarleg hagræðing og mun heildarfjöldi nefndarmanna minnka en nú eru í rannsóknarnefnd flugslysa fimm nefndarmenn, fimm í rannsóknarnefnd sjóslysa og þrír í rannsóknarnefnd umferðarslysa auk sama fjölda varamanna.

Verði frumvarpið að lögum mun kostnaður ríkissjóðs af gildistöku laganna getað lækkað um allt að 12% til skemmri tíma en allt að 15% til lengri tíma. Frumvarpinu er ekki ætlað að gera grundvallarbreytingar á rannsóknarstarfi vegna sjó-, flug- og umferðarslysa og eru þau nýmæli er snúa að rannsóknarstarfinu flest tilkomin vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands. Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpinu eru því skipulags eðlis.

Virðulegi forseti. Ég vík nú að athugasemdum við helstu nýmæli frumvarpsins. Í 4. gr. er lagt til að komið verði á fót sérstakri nefnd um rannsókn samgönguslysa og alvarlegra samgönguatvika. Eins og háttað er með rannsóknarnefndir samkvæmt gildandi lögum er í ákvæðinu tekið fram að rannsóknarnefnd samgönguslysa skuli starfa sjálfstætt og óháð stjórnvöldum, öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Einnig er líkt og í gildandi lögum sérstaklega tekið fram að skýrslum rannsóknarnefndarinnar um rannsókn einstakra slysa og atvika skal ekki beitt sem sönnunargögnum í sakamálum og skal ekki leitast við að skipta sök eða ábyrgð.

Þau nýmæli er snúa beint að rannsóknarstarfinu tengjast þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands. Er þar um að ræða ákvæði um lögsögu er varðar rannsókn sjóslysa, í 15. gr. Ákvæði er lúta að tilkynningum til erlendra stjórnvalda í kjölfar slyss eru í 13. gr. og 17. gr. Ákvæði um varðveislu rannsóknargagna eru í 24. gr., ákvæði um þátttöku erlendra ríkja í rannsókn máls í 14. og 18. gr., ákvæði um tilkynningu til yfirvalda komi upp grunur um að beitt hafi verið ólögmætum aðgerðum gegn öryggi samgangna eru í 29. gr. og ákvæði um öflun ferðarita úr erlendu loftfari sem lendir hér á landi eru í 30. gr.

Í 39. gr. frumvarpsins er að finna nýmæli um skráningu slysa í samgöngum þar sem ráðherra er heimilt að fela rannsóknarnefnd samgönguslysa að annast skráningu og greiningu samgönguslysa og alvarlegra samgönguatvika.

Í frumvarpinu er einnig að finna ákvæði sem teljast til nýmæla fyrir suma slysaflokka en ekki aðra. Er þar m.a. um að ræða 38. gr. þar sem gert er ráð fyrir heimild rannsóknarnefndar samgönguslysa til að rannsaka atriði er varða almennt öryggi í samgöngum án þess að þau tengist tilgreindu slysi. Sambærilega heimild er að finna í 5. mgr. 8. gr. gildandi laga um rannsókn flugslysa. Hvorki er slíka heimild að finna í gildandi lögum um rannsókn sjóslysa né umferðarslysa.

Refsiheimildarákvæði 1. og 2. mgr. 41. gr. eru bæði nýmæli en í 1. mgr. er kveðið á um að hver sá sem hindrar starfsmenn eða nefndarmenn rannsóknarnefndar samgönguslysa við rannsóknarstörf sín skulu sæta sektum. Er þetta ákvæði sett í ljósi þess mikilvæga starfs sem nefndin og starfsmenn hennar vinna í þágu almannaöryggis með rannsóknum sínum.

Í 2. mgr. er kveðið á um að hver sá skuli sæta sektum sem upplýsir um innihald þeirra gagna sem fjallað er um í 27. gr. frumvarpsins, þ.e. ákvæði sem takmarkar aðgengi að tilteknum upplýsingum. Er þetta ákvæði sett vegna eðlis þeirra gagna og viðkvæmra persónuupplýsinga sem um ræðir. Refsiheimildarákvæði 3. mgr. er að hluta til nýmæli þar sem brot á tilkynningarskyldu vegna sjó- og flugslysa varðar refsingum, en refsiheimildarákvæði er aftur á móti ekki að finna í lögum um rannsóknarnefnd umferðarslysa. Er þessi heimild sett í frumvarpið vegna mikilvægis þess að nefndinni sé tilkynnt um slys sem verða innan lögsögu hennar sem og til að samræmis gæti milli slysaflokka.

Í frumvarpinu er svo að finna ákvæði til bráðabirgða er snýr að forstöðumönnum og starfsmönnum núverandi rannsóknarnefndar sjó-, flug- og umferðarslysa. Er í ákvæðinu kveðið á um að forstöðumönnum verði boðið starf rannsóknarstjóra hjá hinni nýju nefnd þar til núverandi skipunartíma þeirra lýkur. Einnig er kveðið á um að öðrum starfsmönnum nefndanna skuli boðið starf hjá hinni nýju nefnd. Er þetta gert til að tryggja að sem minnst rót verði á þeirri rannsóknarstarfsemi sem færist undir hina nýju rannsóknarnefnd sem á að tryggja að sú þekking sem er til staðar í núverandi rannsóknarnefndum glatist ekki.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.