Efnahagsástandið og brottflutningur af landinu

Mánudaginn 07. desember 2009, kl. 12:17:14 (0)


138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

efnahagsástandið og brottflutningur af landinu.

[12:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar séu á góðri leið með að koma sér í stöðu sem gerir þeim kleift að spyrna sér út úr kreppunni. Ísland var fyrsta landið sem féll í efnahagskreppunni en ég tel að það verði líka fyrsta landið sem nær sér upp. Ég tel að undir lok fyrri árshelmings næsta árs munum við sjá að hér fer hagvöxtur að aukast.

Eins og ég sagði um lágnættið þegar ég spratt til lífs, eins og hv. þingmaður orðaði það svo skemmtilega, nefndi ég tvennt sérstaklega: Annars vegar að atvinnuleysi er töluvert minna en spáð var, og hins vegar að samdráttur landsframleiðslu er töluvert minni en spáð var. Síðan bætti ég við að fólksflótti hefur orðið miklu minni en menn spáðu. Ég minni á að menn töluðu ekki bara um 10 þúsund, ekki 12 þúsund, heldur töluðu menn um allt upp að 18 þúsundum manna sem mundu flytjast frá Íslandi. Hv. þingmaður ætti að fara aftur heim og skoða betur gögn sín.

Hvernig er fólksflóttinn sem hún kallar svo í dag? Jú, 4 þúsund Íslendingar hafa farið, en hversu margir eru brottfluttir umfram aðflutta? Ég spyr hv. þingmann: Veit hún hversu margir hafa farið umfram þá sem flust hafa að?