Fjárlög 2010

Mánudaginn 14. desember 2009, kl. 11:53:00 (0)


138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sérstaklega ánægður með yfirlýsingu hv. formanns fjárlaganefndar um að menn trúi ekki á Icesave og ætli ekki að bóka það vegna þess að líklegt er að það verði ekki samþykkt. Ég er mjög ánægður með það. Ég giska á að Icesave hefði kostað bara vegna gengishækkunar á árinu 105 milljarða því lánasamningurinn gildir frá ársbyrjun og gengið hefur hækkað gífurlega mikið síðan. Hann hefði kostað 45 milljarða í vexti sem er eitt stykki sjúkrahús á hverju einasta ári, frú forseti. Svo eru menn að skera niður úti um allt á sama tíma. Það er sérstaklega áhugavert.

Nú er búið að eyðileggja fyrir mér hljóðfærið hörpu. Ég naut þess að hlusta á það en nú man ég alltaf eftir eyðslukló og 2007 o.s.frv, þegar ég hugsa um tónlistarhúsið heyri ég bara peninga klingja. Það er mjög merkilegt að nefndin skuli komast að þeirri niðurstöðu að þetta kosti ekki neitt. Auðvitað kostar þetta og við getum ekki hætt að borga t.d. leigugreiðslur. Þetta er nákvæmlega eins og lánaskuldbinding sem búið er að taka á sig. Þetta eru sveitarfélögin að rekast á núna varðandi Egilshöll og margt fleira. Þetta er skuldbinding, menn eiga að fara með hana sem slíka og horfast í augu við það fyrir hönd skattgreiðenda framtíðarinnar, litlu barnanna, því með Hörpu eru menn að taka á sig 30 ára skuldbindingu, svo ég nefni ekki Icesave.

Hv. þingmaður talaði um að skera niður í ýmsum stofnunum. Íbúðalánasjóður gerir ráð fyrir því að auka útgjöldin um 10,6% á næsta ári í lækkandi launum, frú forseti, í minni umsvifum og ég spyr: Er ekki þarna hundraðmilljónkall til að skera niður?