Fjárlög 2010

Þriðjudaginn 15. desember 2009, kl. 11:59:18 (0)


138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum að afgreiða í 2. umr. fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2010 þar sem gerðar eru umtalsverðar breytingar frá 1. umr., einkum á tekjuáætlun ríkisins, þar sem stigin eru veigamikil skref til þess að bæta úr þeirri auknu mismunun sem átt hefur átt sér stað á undanförnum árum varðandi skattheimtu.

Í þeim tillögum hefur komið fram að verið er að hægja töluvert á aðlögun frá því sem upphaflega var lagt upp með en eftir sem áður standast fjárlögin þau markmið sem sett voru í samstarfsáætlun fjármálaráðuneytisins og raunar ríkisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í heildarniðurskurði á fjárlögunum á þessu ári hefur tekist að verja að mestu veigamestu þætti velferðarkerfisins sem skipta gríðarlega miklu máli og ber að fagna því.

Í lokin reiknum við með því að farið verði vandlega yfir málið að nýju á milli 2. og 3. umr. og má búast við að einhverjar breytingar verði (Forseti hringir.) gerðar á milli umræðna.