Fjárlög 2010

Þriðjudaginn 15. desember 2009, kl. 12:38:11 (0)


138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um fæðingarorlof og Fæðingarorlofssjóð. Hann var á sínum tíma mjög merkilegt framlag, bæði til að gæta hagsmuna barna en ekki síður og kannski sérstaklega varðandi jafnrétti kynjanna.

Fréttir hafa borist af því að það eigi að hringla með þennan sjóð og menn hafa hringlað með hann undanfarnar vikur og mánuði með ótrúlegum hætti. Það vill nefnilega svo til, frú forseti, að fólk er búið að geta börn og það verður ekki aftur snúið með það. Fólk er búið að gera ákveðnar áætlanir í fjölskyldunni. Ég skora því á ríkisstjórnina að hætta þessu hringli. Sérstaklega eiga menn að varast að lækka hámarkið vegna þess að þá er verið að gefa merki um að það eigi að vera jafnrétti alls staðar nema í háu laununum. Á sama tíma geta menn afnumið sjómannaafsláttinn á fjórum árum, frú forseti.