Fjárlög 2010

Þriðjudaginn 15. desember 2009, kl. 12:44:22 (0)


138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að hækka örlítið framlög til heilbrigðisstofnananna á Patreksfirði og Sauðárkróki en ég vil árétta það sem kom fram hér á undan að það er verið að skerða mjög mikið hjá heilbrigðisstofnununum á Blönduósi, Patreksfirði og Sauðárkróki, langt umfram aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu.

Það sem ég vil þó sérstaklega vekja athygli á er að á meðan þetta er gert er verið að auka útgjöld til aðalskrifstofunnar í Reykjavík um 8,4%, virðulegi forseti, á sama tíma og þjónustan við sjúklingana úti á landsbyggðinni er skert. Ég vænti þess að hv. fjárlaganefnd fari vandlega yfir þetta og leiðrétti þann mismun sem þarna á að verða því að ég tel svo sannarlega borð haft fyrir báru að skerða hjá aðalskrifstofunni í Reykjavík og færa það til sjúklinganna úti á landi.