Ummæli sem féllu í umræðum um störf þingsins

Miðvikudaginn 16. desember 2009, kl. 11:15:34 (0)


138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

ummæli sem féllu í umræðum um störf þingsins.

[11:15]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim félögum mínum sem hér hafa rætt um mikilvægi þess máls sem var rætt í fjárlaganefnd í morgun. Ég geri það að tillögu minni, frú forseti, að boðað verði til fundar með þingflokksformönnum og hæstv. forseta hið fyrsta þannig að við getum sest yfir það sameiginlega verkefni sem við stöndum frammi fyrir sem er að sinna þeim þingstörfum og ljúka þeim málum sem brýn eru á sem bestan og skynsamlegastan hátt. Ég tek undir með formanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, það er lykilatriði í þeim störfum sem fram undan eru að nefndirnar sem eru störfum hlaðnar, þá sérstaklega hv. fjárlaganefnd, fái tíma til að vinna að þeim fjölmörgu verkefnum sem þær standa frammi fyrir. Ég tek eftir því að til að mynda á dagskrá þingsins í dag eru fjölmörg mál en með allri virðingu fyrir þeim málum sem eru þar á dagskrá geta fjölmörg þeirra beðið fram á næsta ár (Forseti hringir.) og þannig mætti að ósekju vinna tíma til að nefndirnar fengju meiri tíma til að fara betur yfir brýn mál (Forseti hringir.) og þar með spara tíma í umræðum í þingsal.