Atvinnuleysistryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 16. desember 2009, kl. 22:51:54 (0)


138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:51]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil láta það koma fram í byrjun að ég sem glænýr þingmaður, og samt orðin gömul í þeim skilningi, er á fljúgandi ferð út af þingi mjög fljótlega og ég verð að segja að þetta er ekki sú þægilega innivinna sem fólki verður tíðrætt um. Nú vantar klukkuna sjö mínútur í ellefu á þessu kvöldi og ekki óalgengt að maður sé í þingsal á þeim tíma. En það fólk sem bauð sig fram til þingstarfa á þessu herrans ári 2009 mátti vel vita að mikið álag yrði á því og það er líka svo að það eru svo ofboðslega stór og mörg mál sem ríkisstjórnin og við á þingi þurfum að taka á, og mörg þeirra þarf að vinna mjög hratt. Það er raunveruleikinn sem við þurfum að horfast í augu við.

Ég verð að segja að þrátt fyrir að ég gleðjist yfir að við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson séum sammála um að félags- og tryggingamálanefnd hafi unnið gott starf í sinni vinnu, þá er ég ekki sammála honum um það að ráðherra hafi staðið sig illa. Þvert á móti hefur ráðherra staðið í ströngu allt þetta ár frá því hann varð félags- og tryggingamálaráðherra og tekið á mörgum gríðarlega stórum málum. Það má t.d. nefna skuldavanda heimilanna, sem er nú ekkert smámál, sem hann hefur unnið hratt og vel í.

Hvað varðar bótasvikin þá held ég að við verðum að leggja áherslu á eftirlitið og koma í veg fyrir þau frekar en hörð og þung viðurlög af því að það er ofboðslega fín lína á milli þess að koma í veg fyrir bótasvikin og að hafa eftirlit með kerfinu sem við öll viljum að gagnist þeim sem virkilega þurfa á því að halda og sé til staðar fyrir þá sem þurfa á að halda. Það er fín lína þar á milli og þess að gera alla fyrir fram að sökudólgum sem þurfa að leita í kerfið. (Forseti hringir.) Ég held að það sé svar mitt við því. En að flytja inn erlent vinnuafl, ég held við tölum um það aftur á eftir.