Umhverfis- og auðlindaskattur

Föstudaginn 18. desember 2009, kl. 15:12:40 (0)


138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[15:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Það háttaði þannig til að ég brá mér aðeins frá í um það bil þrjú korter en á leiðinn til baka í bílnum varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að hlusta á útsendinguna héðan frá fundinum og þar á meðal orðaskipti þeirra hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar og Tryggva Þórs Herbertssonar sem söknuðu mín eða okkar Vinstri grænna mjög. Ég hafði af þessu nokkra skemmtan, satt að segja skellti ég upp úr alloft hlustandi á útvarpið, (BJJ: Það er þá ekki til einskis.) og svona til að upplýsa allt og að ég var ekki að svíkjast um að gamni mínu þá stóð þannig á að einn sona minna var að útskrifast sem stúdent og ég vona að hv. þingmenn taki það gilt að ég hafði gaman af því að bregða mér frá og vera við útskriftina en ég stoppaði þar í þrjú korter.

Ég tók m.a. eftir því að hv. þingmenn gátu sett út á nafn frumvarpsins. Það var ekki bara innihaldið sem var ómögulegt heldur meira að segja nafnið ekki nothæft. Ég verð að hrósa hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar fyrir þetta. Þetta er eiginlega hugkvæmni í stjórnarandstöðu og mótþróa að ónotast út í nafngift á frumvarpi, sérstaklega þegar það er algerlega tilefnislaust því að frumvarpið heitir nákvæmlega það sem það á að heita. Þetta er tímamótafrumvarp í skattlagningu því að það felur í sér hvort tveggja umhverfisgjöld, í raun og veru í meiri mæli en þau hafa áður komið við sögu í íslenska skattkerfinu, því að hér er innleiddur kolefnisskattur á allt jarðefnaeldsneyti. Slíkir skattar hafa komið á mjög mörgum löndum í kringum okkur, eru að verða að veruleika víða annars staðar, meira að segja í Bandaríkjunum þar sem einkabíllinn er nú heilagt atriði. Það hefur stundum verið sagt að einkabíllinn í Bandaríkjunum væri jafnheilagur og kýrnar á Indlandi og yfirleitt hafa bandarísk stjórnvöld aldrei komist lönd né strönd með skattlagningu á eldsneyti eða annað í þeim dúr. Það vita það allir að þetta er eitt af því sem hefur hindrað Bandaríkjamenn mjög í því að geta tekið á eðlilegum forsendum þátt í eðlilegu samstarfi í loftslagsmálum, að þrýstihóparnir þar eru svo sterkir, ítök olíufélaga og bílaiðnaðarins sem og hitt að það er svo inngróið í ameríska þjóðarsál að einkabíllinn sé heilagur.

Það hefur svo aftur leitt til þess, hversu lágt eldsneyti er skattlagt í Bandaríkjunum, að bílaflotinn þar er ákaflega óheppilega saman settur í umhverfislegu tilliti með stórar og eyðslufrekar vélar og mætti hafa um það langt mál en tíminn leyfir það ekki. Það er lítt til eftirbreytni hvernig staðið hefur verið að málum þar. Flestar aðrar þjóðir hafa þróað þessi mál í aðrar áttir og eru að hvetja til orkusparnaðar og beina kaupum yfir í sparneytnari og umhverfisvænni bíla með stýriaðgerðum af því tagi sem fólgnar eru í sköttum m.a. Hér erum við að fara inn á þessa braut með upptöku kolefnisgjalds á allt jarðefnaeldsneyti. Því er ætlað að hafa þessi sömu áhrif, að stuðla að þróun sem hvetur til orkusparnaðar, hvetur til þess að menn leiti hagkvæmustu lausna og dragi þar með úr losun um leið og þjóðarbúið sparar þá auðvitað gjaldeyri. Minna þarf að flytja inn í landið af jarðefnaeldsneyti.

Af því að einhver lýsti eftir eldmóði til að verja þetta frumvarp, þá er hann hér. Ég geri það með sannri ánægju að verja það og útskýra að í frumvarpinu eru fólgin tímamót. Hvað auðlindagjaldsþáttinn varðar þá hefur það sömuleiðis verið mjög lengi til umræðu á Íslandi að eðlilegt væri að þjóðin sjálf, að samfélagið fengi einhverja auðlindarentu jafnvel þó að þær væru nýttar af eða jafnvel í eigu einkaaðila. En í hinum yfirfærða skilningi er um sameiginlegar mikilvægar auðlindir landsmanna að ræða og það er eðlilegt að einhver hluti arðsins, auðlindarentunnar, renni til samfélagsins. Þessa umræðu eiga menn að þekkja, þeir sem fylgst hafa sæmilega vel með á undanförnum árum. Hún hefur ekki síst verið uppi í kringum sjávarútveginn og fiskveiðiauðlindina og þar er vísir að slíku gjaldi nú kominn. Að vísu stóð um það mikið stríð og gerir svo sem sumpart enn, en þá hefur líka jafnan verið rætt um það að eðlilegt væri að einhvers samræmis gætti og aðrar að einhverju leyti sambærilegar hliðstæðar auðlindir væru þá meðhöndlaðar með sama hætti. Þetta hefur verið undir í vinnu stjórnarskrárnefnda á undanförnum árum í tengslum við t.d. umræður um að taka sameign á þjóðarauðlindum inn í stjórnarskrá. Raforkugjaldið eða skattlagningin á raforku og jarðhita er fyrsti vísir að slíku almennu auðlindagjaldi á orkuauðlindirnar þannig að það er sömuleiðis fullgild innstæða fyrir nafngift frumvarpsins að því leyti til.

Varðandi áhrif þessa á flutningskostnað eða á landsbyggðina þá er það vissulega gilt sjónarmið. Að sjálfsögðu hefur þetta síðan áhrif. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Það verða ekki bæði innleidd kolefnisgjöld en samtímis öllum hlíft við þeim því að það gengur ekki upp. Það er mikilvægt að menn hafi í huga að forsenda þessarar gjaldtöku er auðvitað að hún sé almenn. Þannig verður það að vera, annars missir gjaldið marks og þar af leiðandi er frumvarpið svona að þetta leggst á allt jarðefnaeldsneyti án tillits til notandans. Svipað gildir um raforkuna og heita vatnið. Já, að sjálfsögðu hefur þetta áhrif en reynt er að sjá við að minnsta kosti tilfinnanlegustu þáttum þess eins og því að áhrifin eru nettuð út hvað varðar húshitun í megamagni og hvað varðar lýsingu í gróðurhúsum og reyndar rúmlega það, samanber breytingartillögur við 2. umr. um fjárlagafrumvarp þar sem með auknum niðurgreiðslum gengur til baka talsvert af raforkuverðshækkun undanfarinna mánaða eða missira gagnvart garðyrkjunni.

Í vor þegar bensín- og olíugjöld voru hækkuð var gripið til gagnráðstafana gagnvart einmitt flutningskostnaðinum. Það var í fyrsta lagi farið helmingi vægar í hækkunina gagnvart dísilolíu en bensíni og það var tvíþættur tilgangur með því. Það var annars vegar að laga aftur skekkjuna sem myndast hafði í verðlagningu þessara tveggja orkugjafa. Þegar olíugjald var innleitt á sínum tíma var ætlunin að dísilolían yrði einhverjum krónum ódýrari á lítrann en bensínið en síðan sofnuðu menn yfir því og hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu, sem var meira en hækkanir á bensíni, leiddi til þess að dísilolían var orðin dýrari. Hins vegar var meðvitað farið vægar í hækkunina vegna áhrifa á flutningskostnað og í atvinnulífinu þar sem dísilolía vegur að sjálfsögðu þyngra en bensín sem almennt er notað á einkabílinn einan. Og það voru auknar endurgreiðslur eða veittir auknir afslættir af þungaskatti gagnvart flutningsaðilum þannig að þegar upp var staðið komu slíkir aðilar vel út úr þeirri breytingu og hafa sennilega heldur notið hennar en goldið hennar. Þess vegna varð niðurstaðan nú að gera ekki sérstakar ráðstafanir í þessari umferð gagnvart þessum aðilum og þeir búa að því sem gert var að þessu leyti í vor.

Þá var nefndur í umræðunni einn hópur sem eru hópferðabílar. Það er rétt. Það var ekki með sambærilegum hætti gripið til aðgerða gagnvart þeim enda erfiðara að koma því við, mun erfiðara. Þar er ekki um þungaskatt að ræða og ekki endurgreiðslumöguleika þar og ekki nokkur leið að hafa olíugjöld öðruvísi en almennt lögð á. Að vísu verður framlengd heimild til að fella niður aðflutningsgjöld af hópferðabílum en ég get upplýst að mál þeirra eru sérstaklega í skoðun. Forsvarsmenn þeirra hafa sent inn tillögur um aðgerðir sem mætti skoða til að koma nokkuð til móts við þá. Það er eðlilegt og sanngjarnt að það sé skoðað. Ég vil upplýsa að það er verið að gera. Það þarf ekki að tengjast afgreiðslu þessa máls vegna þess að slíkar ráðstafanir, í hvaða formi sem þær yrðu, yrðu ívilnandi og þær má þá gera að lokinni vandaðri athugun á málinu og það er í skoðun. Það er rétt að upplýsa það hér en að sjálfsögðu get ég ekki lofað fyrir fram tiltekinni niðurstöðu þar en minn hugur stendur til þess að það verði reynt með einhverjum hliðstæðum hætti kannski og gert var gagnvart flutningskostnaði flutningabíla í vor að koma til móts við hópferðabíla því að það er rétt sem hér er sagt að þeir eru kannski sá hópur sem að öðru leyti verður fyrir mestum áhrifum af þessu og ekki hefur verið enn sem komið er gripið til neinna sérstakra gagnráðstafana gagnvart. Ég deili ekki þeim áhyggjum sem hv. þingmenn höfðu af því að þetta séu óviðráðanlegar byrðar á ferðaþjónustuna eða á landsbyggðina. Þetta hefur að sjálfsögðu áhrif. Það þýðir ekkert annað en horfast í augu við það. Það verður ekki bæði sleppt og haldið eins og ég sagði og þeir hv. þingmenn sem finna ráðstöfunum af þessu tagi allt til foráttu, eða skattahækkunum yfirleitt, verða þá náttúrlega að útskýra hvernig þeir sjá þessa hluti fyrir sér með öðrum hætti. Ég veit alveg um patentlausn Sjálfstæðisflokksins. Ég hef áður rætt hana úr þessum ræðustóli og ég get gert það við betra tækifæri.

Ég held þvert á móti að í vændum sé metár í ferðaþjónustu á Íslandi. Ég spái því að árið 2010 slái fyrri met, bæði í tekjum og fjölda, og það eru góðar vísbendingar um að í það stefni. Samkeppnishæfni landsins er mikil. Ferðaþjónustan nýtur mjög góðs af gengisskráningunni og hafði gott tekjustreymi í ár og allt stefnir í að hún geti haft það aftur þannig að ég held að með hliðsjón af aðstæðum séu þessar ráðstafanir beranlegar og þolanlegar jafnt fyrir þá aðila sem aðra. Við erum auðvitað að reyna að dreifa miklum byrðum sem víðast, m.a. með þessum ráðstöfunum hér þar sem nýir tekjustofnar verða til fyrir ríkið sem ekki hafa verið andlag skattlagningar áður og það hjálpar í glímunni við ríkisfjárvandann og þýðir að það er fleirum til að dreifa en launamönnum einum eða þá fyrirtækjunum beint í gegnum hefðbundnar aðferðir skattlagningar. Ég tel þar af leiðandi að það séu ekki innstæður fyrir þeim miklu áhyggjum sem hv. þingmenn höfðu uppi áðan. Ég get meira að segja upplýst að það voru áform uppi um frekari aðgerðir sem hefðu haft meiri áhrif á ferðaþjónustu beint en að lokum varð niðurstaðan, svo sem eins og hækka virðisaukaskatt á gistingu. Það var horfið frá því, m.a. af þeim sökum að það hefði beinst sérstaklega að þeirri grein og vegna þess að það er erfitt að hreyfa við slíku inni á miðju ári gjaldskráa sem menn hafa sett að hausti. Sömuleiðis voru lagðar til hliðar um sinn a.m.k. og eru í vinnslu frekari hugmyndir um farseðlagjöld, gistináttagjöld eða annað því um líkt sem reyndar var fyrst og fremst ætlað að vera tekjustofn fyrir greinina sjálfa til að byggja sig upp og auðvelda henni og okkur að ráðast í óumflýjanlegar aðgerðir til að mæta vaxandi fjölda ferðamanna. Ég vil nefna það hér vegna þess að það er þáttur sem má ekki lenda í útideyfu. Það er augljóst mál að það þarf viðamiklar ráðstafanir eigi það að takast að taka á móti þeim mikla vexti í fjölda erlendra ferðamanna sem allar spár gera ráð fyrir, aðeins spurning um tíma hvenær menn reikna með að milljón ferðamenn á ári heimsæki Ísland og við sjáum fyrir okkur það álag sem núverandi fjöldi, milli 500 og 600 þúsund á ári, veldur á fjölmörgum fjölsóttum stöðum þannig að það er algerlega augljóst að þarna þarf að undirbúa aðgerðir og ráðstafanir og til þess þarf fjármuni.

Ég tel, frú forseti, að þetta sé gott mál, heiti réttu nafni og bið hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að vera ekki svona niðurdregna og hafa ekki svona miklar áhyggjur af þessu.