Umhverfis- og auðlindaskattur

Föstudaginn 18. desember 2009, kl. 15:45:02 (0)


138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[15:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér mjög merkilegt frumvarp um skatta, frumvarp til laga um umhverfis- og auðlindaskatta heitir það. Ég held að ekki sé verið að skattleggja umhverfið sem slíkt heldur að reyna væntanlega að vernda það, þetta ætti kannski frekar að heita umhverfisverndarskattur fyrst maður fer svona í orðaleiki.

Margt í frumvarpinu er mjög mótsagnakennt en ég ætla að byrja á að tala um atvinnulífið og velferð vegna þess að núverandi ríkisstjórn er kölluð velferðarstjórn en mér finnst eins og hún átti sig ekki á því að velferðin byggir á traustu og heilbrigðu atvinnulífi. Hvergi eru dæmi um það í heiminum að til séu góð velferðarkerfi nema þar sem er gott atvinnulíf, sterkt og öflugt. Þess vegna er sú stefna sem ríkisstjórnin tekur í mörgum málum mjög varasöm, að ráðast eiginlega á atvinnulífið. Það eru margir sem hafa ímugust á atvinnulífinu, tala illa um það og vilja skattleggja það og reyna að ná af því eins miklu og hægt er en átta sig ekki á því að um leið og þeir leggja klyfjar á atvinnulífið eru þeir í rauninni að ráðast gegn velferðinni.

Það sem verst var við frumvarpið var eiginlega tilkynningin á því í fjárlagafrumvarpinu þar sem átti að koma 1 kr. á hverja kílóvattstund og var í raun „signal“ út í heim til allra þeirra sem hugðust fjárfesta á Íslandi vegna ódýrrar orku, við skulum bara kalla það eins og það er, hagkvæmrar og hreinnar orku líka, að hér væri ekkert að marka lagasetningu og samninga sem gerðir væru. Ótrúleg ummæli opinberra starfsmanna, sumra, eða eins, um að það væri í lagi að brjóta samninga er náttúrlega ekki beint til þess að vekja traust á landinu sem samningsaðila við þá sem ætla að fjárfesta um að hér sé stöðugt atvinnulíf.

Nú erum við með frumvarp sem er í rauninni atlaga að atvinnulífi framtíðarinnar því að við vonumst náttúrlega til þess að hingað komi aðilar til að fjárfesta í ýmsum greinum. Vonandi ekki meira í áli fyrir minn smekk af því ég tel að álframleiðslan sé orðin nægilega stór sem áhættuþáttur í atvinnulífinu og það eru eingöngu þau sjónarmið sem leiða til þess að ég tel að hún sé orðin nægilega mikil. Ég mundi vilja fara út í margt fleira til að nýta orkuna því að við þurfum tvímælalaust að nota hana.

Þá er spurningin, þetta heitir auðlindaskattur. Ég ætla að byrja á að ræða pínulítið um hann. Hvað er eiginlega auðlind? Það er ekkert rætt í frumvarpinu, það er voða lítið um markmið frumvarpsins, hvað auðlind er. Auðlind er eitthvað sem skapar verðmæti án mikillar fyrirhafnar. Menn tala um sjávarútveg. Menn tala um orku sem auðlind en fallvötnin voru engin auðlind fyrir 200 árum, þá voru þau meira til bölvunar meðan þau voru óbrúuð, mikil bölvun í sveitum og ollu mikilli einangrun. Menn komust ekki yfir slík vötn með góðu móti, ég minni á Öræfasveitina. Fallvötnin urðu ekki auðlindir fyrr en allt í einu fyrir stuttu þegar mannshugurinn gat breytt þeim í verðmæti, þ.e. orku.

Eins er með sjávarútveginn. Við Ísland fórust, ætli það hafi ekki verið tugir eða hundruð manna á hverju einasta ári við vinnu í sjávarútvegi, ég mundi nú varla kalla það auðlind þar sem fórnirnar voru svo miklar. Ég vil taka það fram, frú forseti, að ég gladdist mikið á síðasta ári því að það er fyrsta árið í Íslandssögunni, þó að það komi málinu kannski ekki við, sem enginn sjómaður fórst við Ísland, sem er mjög athyglisvert. Því var lítið haldið á lofti af því að það máttu víst ekki koma góðar fréttir á því ári. En því miður hefur nú orðið slys, annars hefði þetta ár orðið annað árið í röð þar sem enginn sjómaður hefði farist. En það voru mjög miklar fórnir í gegnum aldirnar á Íslandi, geysilegar fórnir. Hver einasti sjómaður sem ferst er náttúrlega mikill harmleikur. Sjávarútvegurinn verður ekki auðlind fyrr en það kemur hugvit, þekking og tækni sem gerir það að verkum að hægt er að ná í verðmæti úr sjávarútvegi með minni tilkostnaði, arðurinn af honum er þannig að verða auðlind.

En það er margt fleira auðlind. Ég vil segja að grasið á túnum bænda sé líka auðlind. Það vex upp úr engu, það þarf reyndar áburð og það þarf að rækta en eftir það kemur það upp úr túninu og gefur mikinn arð. Einnig er tíðnisvið á rafbylgjusviðinu í útsendingum á alls konar útvarpssendum og sjónvarpssendum, þeir fjarskiptamöguleikar, það er að verða auðlind líka vegna takmörkunar á fjölda fjarskiptarása. Þær eru því margar auðlindirnar.

Þess vegna finnst mér að vanda þurfi vel til verka þegar á að skattleggja auðlind eða rentuna af henni. Því miður er þetta frumvarp akkúrat ekki skattlagning á auðlindina. Lítum t.d. á heita vatnið. Þar er sagt að auðlindagjaldið eigi að vera 2% af útsöluverði heits vatns. Það þýðir að þær hitaveitur á landinu sem eru óarðbærastar eru með hæsta verðið, og þær eru nokkrar, vegna þess að annaðhvort er vatnið of kalt, þ.e. gefur ekki nægilega mikla orku eða borhola er of langt frá byggðu bóli, þar yrði skatturinn hæstur, 2% af háu verði. Þar sem auðlindin er lélegust og minnst auðlind, þar er verðið hæst.

Þar sem auðlind er hins vegar mjög verðmæt eins og á Sauðárkróki, þar sem borholan er mjög nálægt bænum og mjög heit og þarf lítið að hafa fyrir henni, þar er útsöluverðið mjög lágt, þar er gjaldið lægst. Þetta er eiginlega, ég vil kalla það anti-auðlindagjald eða öfugt auðlindagjald. Þess vegna finnst mér frumvarpið bara alls ekki vera nægilega vel úthugsað. Ef menn ætla að fara virkilega í auðlindagjald hefðu menn átt að skattleggja orkuna við borholuna sem hefði náttúrlega fækkað greiðendum gífurlega frá því að verða öll heimili landsins í það að vera kannski um 100 gjaldendur og hefði gert kerfið miklu ódýrara.

Ég ætla að nefna líka annað í þessu sambandi, bæði hvað varðar raforkuna og vatnið, að verið er að búa til alveg ógurlegan fjölda af greiðslum. Nú veit ég ekki hvort hver einasti skattgreiðandi á Íslandi eða hver einasti hv. þingmaður skilji það þegar hann borgar fasteignagjöldin, þegar hann borgar raforkugjöldin og þegar hann borgar öll þessi gjöld, hvað hann er eiginlega að borga. Það eru ákveðin gjöld á t.d. húsnæði sem ég er ekki viss um að allir hafi á hreinu. Mig brestur minni til að telja upp þau gjöld sem ég þarf að borga sjálfur af húsnæði mínu. Nú á að fara að bæta við tveimur gjöldum á hvert einasta heimili, þ.e. raforkugjald og heitavatnsgjald. Hvert einasta heimili á landinu á að fara að borga gjald. Hvað skyldi það nú verða hátt, frú forseti, á hvert heimili? Ég reyndi að slá á það hvað þetta væri hátt. Heimilin eiga að borga 85 milljónir samkvæmt greinargerð með frumvarpinu og ef maður deilir því á sirka 100 þúsund heimili þá er þetta 850 kr. á heimili á ári. Þetta kemur væntanlega inn á reikninginn annan hvern mánuð, það er þannig hjá mér alla vega. Það mundi þýða að þetta væri um 100–120 kr. á hverjum reikningi. Það er verið að búa til alveg ógrynni af færslum, sennilega um 600 þúsund færslur í kerfinu til að ná í þessar 85 milljónir.

Heita vatnið er svipað. Þar er gert ráð fyrir 200 milljónum. Ef það eru 100 þúsund heimili eru það um 2.000 kr. á hvert heimili á ári, það yrði um 300–330 kall í hverri færslu. Það er sem sagt verið að búa til sennilega um 1,2 milljónir færslna til að ná í nánast ekki neitt. Þetta er bara til þess að flækja lífið fyrir almennum borgurum, flækja það og eins og ég nefndi áðan hefur þetta lítið með auðlindina að gera nema í öfugu hlutfalli. Þess vegna er nefnilega spurning hvort þetta sé auðlindaskattur. Það er virkilega spurning um það og ef menn ætla að fara að flagga því út um heim að við Íslendingar séum að koma á auðlindaskatti þarf það að vera rétt.

Svo er það kolefnisgjaldið, það er eitt vandamálið í viðbót. Kolefnið kemur eiginlega bara fyrir í tveimur formum í heiminum, annars vegar í formi demants og hins vegar í formi grafíts sem er notað í blýanta og þar er það hreint. Ekki er meiningin að skattleggja demanta held ég í þessu þó að þetta heiti kolefnisgjald. Þetta sýnir enn einu sinni hve hugtökin eru brengluð í þessu. Ég ætla ekki að fara nánar út í það, ég ætla ekki að vera með neinar hártoganir, en þetta er dálítið undarlegt.

Ég leitaði að því í frumvarpinu hvort einhvers staðar sé talað um það af hverju kolefnisgjaldið er mismunandi á bensín, gasolíu, brennsluolíu o.s.frv. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra loksins við 2. umr. að það sé vegna þess að eldsneytin menga mismunandi mikið, búa til mismunandi mikið af koldíoxíði, sem er það sem við erum að reyna að hindra. Það er koldíoxíð sem við erum í rauninni að reyna að stöðva, þ.e. koltvísýringurinn. Það á að koma fram í frumvarpinu ef verið er að vinna gegn myndun koldíoxíðs, menn eiga að segja það í frumvarpinu, af hverju og til hvers.

Sama er með auðlindina, í frumvarpinu er ekkert talað um hvað auðlind er og af hverju á að skattleggja auðlind og hvernig á að fara að því, enda er niðurstaðan sú að þetta er eiginlega skattlagt öfugt.

Það hefði verið miklu einfaldara, frú forseti, að skattleggja hreinlega rafveiturnar sem eru miklu færri, þ.e. þær sem framleiða rafmagnið, skattleggja við uppsprettuna og setja 0,12 kr. á hverja kílóvattstund, það stendur þannig í frumvarpinu, ekki 12 aurar til að leiðrétta hæstv. ráðherra sem var að leiðrétta hérna áðan. Það hefði mátt skattleggja það hjá raforkuverunum sjálfum sem framleiða orkuna og leyfa þeim að veita því áfram. Þá hefði þetta verið mjög einfalt kerfi, örfáir greiðendur, gjaldið liggi skýrt fyrir og ekki verið að senda þær færslur til 100 þúsund heimila til að rugla fólk í ríminu. Þá hefði þetta líka verið skattlagning á auðlindina, þ.e. fallvatnið sjálft.

Eins er það með heita vatnið, þar hefði mátt setja skattinn á hverja borholu eftir því hvað hún er hagkvæm, t.d. hvað hún er langt frá byggð, hvað hún er heit og hversu auðvelt er að ná vatninu upp, hvort þurfi að dæla vatninu eða hvort það kemur sjálfrennandi. Menn þurfa virkilega að hafa hugann við það sem þeir eru að gera, þ.e. hvernig skattleggja á auðlind.

Það sem er kannski verst er að þetta er mjög dreifður skattur. Hann kemur niður á heimilum og atvinnulífi, kemur niður á landsbyggðinni eins hér hefur verið nefnt og nær ekki því markmiði að stöðva mengun. Það má kannski segja að hækkun á olíu og bensíni minnki óneitanlega neysluna og minnki líka brennsluna og það er í sjálfu sér ágætt. En það þyrfti að ganga miklu lengra ef menn ætluðu virkilega að hafa áhrif á neysluna og verðið. Reyndar held ég að flestum notendum þyki nóg um hvað verðið er orðið hátt á bensíni og olíu.

Svo getur maður ekki horft fram hjá því að í öllum umsögnum var kvartað mikið undan hraða. Hraðinn á vinnslu frumvarpsins er náttúrlega með ólíkindum. Það er lagt fram 26.11., tæpum mánuði fyrir jól, er í 1. umr. 5.12. og síðan afgreitt úr nefnd 18.12. Þetta er sem sagt þvílíkur hraði á umsögnum og vinnslu málsins að mál sem í sjálfu sér gæti verið gott og ætti að vera áhugavert t.d. fyrir vinstri græna — þ.e. þá hv. þingmenn sem eru grænir í þeim ágæta flokki, mér finnst þeir stundum vera ýmist rauðir eða grænir en fáir bæði — og þá sem hafa virkilega áhuga á umhverfismálum. Þeir ættu nú að vera viðstaddir umræðuna og segja okkur hvað það er stórkostlegt að við séum að fara að skattleggja auðlindir og umhverfi, sérstaklega umhverfið, skattleggja umhverfisspjöll eða umhverfismengun, en ekkert hefur farið fyrir þeirri umræðu. Mér finnst það vera dálítið miður.

Allir umsagnaraðilar sem komu að málinu kvörtuðu mikið undan hraðanum. Þetta væri ekki boðlegt að leggja á atvinnulífið og skattkerfið að koma með svona skatta með svo stuttum fyrirvara. Maður hefur dálitlar áhyggjur af því, virkilega, hvort þetta náist í gegn án þess að allt lendi í einhverri vitleysu og rugli í framkvæmdinni. Nú eru örfáir dagar eftir til áramóta en þá á þetta að taka gildi og þá á að fara að leggja á skatta og skattstofurnar — samþykkt voru lög um að þar eigi að fara að hræra í öllum mannaráðningum og mannskapnum. Fólk er óneitanlega upptekið af því þegar á að breyta miklu í starfsumhverfi þess en nú á það sem sagt allt í einu að veita upplýsingar um auðlindaskatta og umhverfisskatta sem eru að bresta á. Það verður að gera athugasemd við þetta. Ríkisstjórnin hefur haft tíma í eina níu mánuði að vinna svona frumvörp og það verður virkilega að gera athugasemd við það hvað frumvarpið kemur seint fram, enda var tekið fram í öllum umsögnunum að of skammur tími væri til að vinna skynsamlega að málinu.

Ég tel að það gæti verið svo sem áhugavert efni að ræða um skattlagningu á auðlindir og ræða um hvernig við reynum að koma í veg fyrir koldíoxíðmengun, ef hún skyldi nú vera ástæða þess að jörðin er að hitna sem margir telja og er núna heil ráðstefna í Kaupmannahöfn einmitt um það. Þetta er mjög áhugavert efni en það þarf að fá lengri tíma og miklu vandaðri umfjöllun. Þess vegna er ég eindregið á móti frumvarpinu vegna þess hve umræðan hefur verið stutt og lítil og alveg sérstaklega vegna þess að auðlindaskatturinn í frumvarpinu er öfugur, a.m.k. hvað varðar vatnið. Ég hef fært rök fyrir því að auðlindin er skattlögð með öfugum hætti, þ.e. léleg hitaveita er skattlögð meira en góð hitaveita.