Umhverfis- og auðlindaskattur

Föstudaginn 18. desember 2009, kl. 16:58:51 (0)


138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[16:58]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég vil svara þessari spurningu neitandi, við erum ekki á móti því að við sköpum í regluverkinu og skattkerfinu hvata fyrir fyrirtæki og almenning til að haga sér með umhverfisvænum hætti. Við getum svo sem tínt til dæmin um það að við höfum komið með tillögur og gert að lögum frumvörp um þetta, t.d. um að fella niður vörugjöld á rafmagnsbíla og annað þess háttar.

Ég vil líka nefna skýrslu sem gefin var út í maí 2008, heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis, sem lagði grunn að nýrri nálgun fyrir umhverfisgjöld og skattlagningu vegna mengunar sem stafar frá umferð á Íslandi. Það er því þvert á móti, við höfum viljað vera leiðandi í þeirri umræðu með hvaða hætti við getum notað regluverkið og lagarammann til að stuðla að og ýta undir þróun sem er skynsamleg fyrir landið til lengri tíma. En hér hefur bara verið gripið til þess ráðs að skella á skattlagningu í samræmi við tekjuþörf ríkisins. Það er engin hugmyndafræði sem býr að baki málinu.