Umhverfis- og auðlindaskattur

Föstudaginn 18. desember 2009, kl. 18:06:20 (0)


138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[18:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að kenna Sjálfstæðisflokknum um neitt sem miður hefur farið í ferðaþjónustunni. Hann ber enga sérstaka ábyrgð á því vegna þess að það er ekkert sérstakt innan ferðaþjónustunnar sem þarf að kenna einum eða neinum um. Ég held að á síðustu árum hafi allir flokkar séð að þar er um að ræða átakagrein sem er líkleg til að vaxa mjög vel. Ég ætla ekki að varpa neinni rýrð á þá sem gegndu áður embætti ferðamálaráðherra. Ég tel t.d. að Sturla Böðvarsson hafi gert það með miklum ágætum.

Samt sem áður var lögð hér fram fyrirspurn undir lok valdatíðar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks af þingmanni Sjálfstæðisflokksins þar sem spurt var um framlög til ferðaþjónustunnar síðustu 10 árin. Þar kom skýrt fram að aldrei hefði verið sett jafnmikið fé í að byggja upp ferðaþjónustuna og árið 2007 og það sem þá hafði lifað ársins 2008. Það er því alveg skýrt að á síðustu árum hafa þær ríkisstjórnir sem setið hafa lagt sig í líma við að byggja þetta upp. Ég tel sömuleiðis að ferðaþjónustan sé í miklum vexti.

Þegar verið er að leggja á skatta líkar það auðvitað engum, ekki mér sem fyrrverandi ferðamálaráðherra, ekki mér sem núverandi utanríkisráðherra og það væri óeðlilegt ef Samtök iðnaðarins eða ferðaþjónustan sendu sérstakar þakkir eða fagnaðarbréf út af því. Hitt liggur alveg ljóst fyrir að ferðaþjónustan er í sögulegu hámarki þrátt fyrir kreppu. Á sama tíma og hún dregst saman annars staðar út af efnahagslægð í heiminum er hún í sókn hér. Hv. þingmaður þekkir þetta sennilega miklu betur en ég og hún hefur lýst því yfir að í hennar kjördæmi séu verulega góðar bókanir. Það sama gildir um allt landið (Forseti hringir.) þannig að útlitið er þrátt fyrir allt mjög bjart fyrir ferðaþjónustuna.