Rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008

Laugardaginn 19. desember 2009, kl. 19:20:51 (0)


138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[19:20]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit og breytingartillögur vegna svokallaðrar þingmannanefndar, sem hefur að mínu viti ekki farið nægilega vel af stað og er sumum þingmönnum og forsætisnefnd og allsherjarnefnd kunnugt um hvers vegna.

Virðulegur forseti. Ég tel að í rauninni hafi ekki staðið steinn yfir steini í málflutningi hv. formanns allsherjarnefndar í þessu máli. Það eru að vísu nokkur atriði sem eru góðra gjalda verð, eins og það að taka tillit til þess að rannsóknarnefndin hafi þurft að fá lengri tíma og að ekki verði hægt að sækja meðlimi hennar til saka fyrir verk þeirra, en það er svo margt að þessu frumvarpi og svo margt að í málflutningi þeirra stjórnarliða og þingmanna sem styðja það, að engu tali tekur. Mér finnst virkilega dapurlegt að Alþingi ætli að afgreiða þetta mál með þeim hætti sem fyrir liggur.

Á fundi allsherjarnefndar hafnaði formaður hennar því að umsagnir yrðu sendar inn um málið frá sérfræðingum utan þingsins. Formaður allsherjarnefndar hafnaði líka alfarið að gestir yrðu kallaðir til á fund nefndarinnar, nema þeir sem hv. formaður valdi sérstaklega sjálf. Ég hef sagt það áður að ég bar vantraust til þingsins áður en ég kom hér inn og það hefur ekki minnkað við setu mína hér og það sem ég hef séð til þingmanna varðandi þetta frumvarp, breytir engu þar um. Ef eitthvað er, þá er það til hins verra, því miður.

Við í Hreyfingunni lögðum fram mjög ítarlegar og skynsamlegar tillögur við þetta frumvarp, breytingartillögur sem hefðu gert það að verkum að það hefði verið útilokað annað en að treysta því að vel væri staðið að verki við afgreiðslu þingsins á málinu. Það var það sem við höfðum í huga og höfum í huga. Þeim tillögum hefur öllum verið hafnað án nokkurra röksemda. Það er verið að nota hér pólitíska orðræðu um það að Alþingi sé það eina sem geti sinnt þessu máli. Ég leyfi mér bara að benda á það að rannsóknarnefndin er ekki þingmannanefnd, rannsóknarnefndin er skipuð mönnum utan þingsins. Þannig að það er einfaldlega ekki rétt að Alþingi sé það eina sem geti skoðað þetta mál. Til eru fjölmargar nefndir aðrar sem ekki eru skipaðar þingmönnum sem koma með alls konar tilmæli og álit inn til þingsins og ábendingar um það sem ætti að þurfa að gera.

Tillögur okkar hafa alfarið verið á þá leið að — jú, jú, gott og vel — Alþingi skipi þingmannanefnd til þess að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar, en fái aðila utan þingsins til að koma með ábendingar um þau álitamál í skýrslunni sem snúa beint að þingmönnum sjálfum, fyrrverandi þingmönnum, ráðherrum, fyrrverandi ráðherrum eða fjölskyldumeðlimum þeirra, ef þeirra er getið í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og einhverjar ákvarðanir þarf að taka varðandi þá. Þessi tillaga okkar stafar einfaldlega af því að við vantreystum því að þingmenn geti tekið á þessu máli sjálfir og ekkert í þeirri vinnu sem ég hef séð í þessu frumvarpi bendir til annars en þess að það verði erfitt fyrir þingmenn að höndla þetta mál. Það er óþarfi að leggja það á þingmenn að standa undir því. Það er hægt að komast fram hjá því með þessum breytingartillögum sem við leggjum til og nú mun ég lesa upp breytingartillögurnar, með leyfi forseta, eins og við leggjum til að þær verði teknar inn:

„Við 1. gr. B-liður orðist svo: Í stað 2. og 3. mgr. koma sex nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Alþingi kýs sex þingmenn í nefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, einn úr hverjum flokki, ásamt þingmanni utan flokka. Enginn nefndarmanna skal hafa átt sæti á Alþingi fyrir október 2008 eða hafi óumdeilanlega nokkur tengsl við þá atburði eða gerendur þeirra atburða sem getið er í heiti laganna. Nefndin skal í störfum sínum:

a. móta viðbrögð Alþingis við niðurstöðum skýrslunnar, þar á meðal hvaða lærdóma eigi að draga af þeim atburðum sem urðu haustið 2008, aðdraganda þeirra og afleiðingum,

b. kanna grundvöll ábyrgðar á þeim atburðum sem leiddu til falls bankanna, kerfishruns og djúpstæðrar kreppu í fjármálalífi þjóðarinnar sem og algers samfélagslegs siðrofs,

c. móta tillögur og leggja til breytingar á lögum og reglum í því skyni að koma í veg fyrir að atburðir af því tagi, sem urðu hérlendis haustið 2008, endurtaki sig.

Um þingmannanefndina gilda ákvæði þingskapa um fastanefndir, eftir því sem við á, en nefndin setur sér að öðru leyti verklagsreglur. Hún skilar tillögum og skýrslum til Alþingis.

Nefndin skal kanna einstaka þætti skýrslunnar og getur gert tillögur um úrbætur, sem einstakar fastanefndir fjalla frekar um og útfæra í lagaform, eða óskað eftir því að ríkisstjórn láti undirbúa heildarendurskoðun laga á ákveðnum sviðum.

Nefndin skal láta rannsaka einstaka þætti málsins betur sem og atriði sem rannsóknarnefndin hefur ekki fjallað sérstaklega um ef tilefni gefur til. Hún felur þá einum eða fleiri sérfróðum aðilum umsjón framhaldsrannsóknarinnar. Reglur II., III. og VI. kafla þessara laga gilda um slíka framhaldsrannsókn eftir því sem við á, þar á meðal um rannsóknarheimildir, þagnarskyldu og birtingu upplýsinga sem háðar eru þagnarskyldu.

Nefndin skal svo fljótt sem auðið er taka afstöðu til þess hvort einhverjum hluta rannsóknargagna verði skilað síðar til Þjóðskjalasafns en áætlað er ef til framhaldsrannsóknar kemur. Þeir sem annast framhaldsrannsókn eiga aðgang að öllum þeim gögnum sem rannsóknarnefndin hefur aflað. Komi til slíkrar rannsóknar skal skýrslu um hana skilað til Alþingis og hún kynnt opinberlega.

Þingmannanefndin skal ljúka störfum fyrir 1. maí 2010.“

Frú forseti. Þessi grein er nánast samhljóða upphaflegum drögum að frumvarpinu eins og þau voru lögð fram. Það sem gerðist í meðförum forsætisnefndar var að verksvið nefndarinnar var algerlega fellt út. Það er ekki skilgreint með neinu móti hvað nefndin á nákvæmlega að gera, þannig að hún getur í rauninni gert hvað sem er. Það sem verra er, er að dagsetningin 10. maí 2010, þegar nefndin átti að skila af sér, var einnig felld út, þannig að nefndin þarf ekki að skila af sér fyrr en, eins og segir í breytingartillögu allsherjarnefndar, fyrir lok núverandi löggjafarþings. Því lýkur 30. september á næsta ári, þannig að þingmannanefndin getur haft upp í átta mánuði, ef ég skil rétt, til að skila af sér.

Ég leyfi mér að minna á það að Alþingi gerði rannsóknarnefndinni upphaflega að skila af sér skýrslu innan níu eða tíu mánaða þótt fresturinn hafi verið framlengdur til loka janúar. Eins og utanaðkomandi aðili sagði við mig í upphafi þegar ég benti á þetta frumvarp: Þessi þingnefnd mun einfaldlega skila af sér eintómri froðu um verslunarmannahelgina þegar enginn tekur eftir því.

Svona er viðhorfið til þingsins utan þingsins og þingmenn verða einfaldlega að átta sig á því. Þetta er ekki eitthvað sem við í Hreyfingunni erum að búa til hér inni á þingi. Ég upplifi það, frú forseti, að þingið sé ekkert betur á vegi statt heldur en það var fyrir 20. janúar síðastliðinn þegar menn ræddu sprúttsalafrumvarp með þúsundir mótmælenda fyrir utan sem voru að reyna að brjótast inn í þingið.

Ég leyfi mér að tala um það einfaldlega sem firringu, því miður get ég ekki talað um það með neinum öðrum hætti.

Það er ekki gott að þingið skuli ekki læra. Ég legg eindregið til að þessi grein verði sett inn. Þarna er einn þingmaður úr hverjum flokki, plús utanflokksþingmaðurinn, hv. þm. Þráinn Bertelsson. Þetta er ekki meirihlutanefnd, þetta er ekki pólitísk nefnd, heldur er þetta einfaldlega vinnunefnd sem fer yfir rannsóknarskýrsluna og fær ábendingar frá valinkunnum mönnum utan þingsins, eins og kemur fram í næstu breytingartillögu okkar.

Svo ég haldi áfram með breytingartillögurnar, frú forseti, 2. liður:

„Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi: Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein sem verður 15. gr. a og orðast svo:

Alþingi kýs nefnd fimm valinkunnra manna utan þings sem njóta óumdeilanlegs trausts þorra almennings. Nefndin hafi það hlutverk að fjalla um þá þætti skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem snerta alþingismenn og ráðherra, núverandi og/eða fyrrverandi, og fjölskyldur þeirra. Nefndin skal fjalla um öll atriði sem snerta Alþingi sjálft sem stofnun og koma fram í skýrslunni. Nefndin skal í störfum sínum:

a. koma með tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslunnar, þar á meðal hvaða lærdóma megi draga af þeim atburðum sem urðu haustið 2008, aðdraganda þeirra og afleiðingum,

b. kanna grundvöll ábyrgðar á þeim atburðum sem leiddu til falls bankanna, kerfishruns og djúpstæðrar kreppu í fjármálalífi þjóðarinnar sem og algers samfélagslegs siðrofs,

c. móta tillögur að breytingum á lögum og reglum í því skyni að koma í veg fyrir að atburðir af því tagi, sem urðu hér á landi haustið 2008, endurtaki sig.

Nefndin setur sér eigin verklagsreglur og skilar tillögum og skýrslum til þingmannanefndarinnar sem kveðið er á um í 15. gr. og kynnir þær opinberlega.

Nefndin skal ljúka störfum fyrir 15. mars 2010.“

Frú forseti. Hér er gert ráð fyrir því að þingmannanefndin sem Alþingi mun skipa fái utanaðkomandi aðhald og ábendingar vegna þeirra atriða sem hugsanlega koma fram í skýrslunni og snerta þingmenn, ráðherra eða nána ættingja þeirra. Þetta er einfaldlega gert til þess að eyða þeirri tortryggni sem skapast hefur nú þegar varðandi þessa þingmannanefnd. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti biðst afsökunar á að ónáða hv. þingmann í ræðu, en vill spyrja hvort hann eigi mikið eftir af ræðunni.)

Frú forseti. Ég á svona u.þ.b. fimm mínútur eftir af ræðunni og óska þess að fá að klára hana. Innan við fimm mínútur.

(Forseti (ÞBack): Innan við fimm mínútur. Ég tek tillit til þess.)

Takk fyrir.

Virðulegur forseti. Þessi skýrsla eða þessi nefnd mun létta Alþingi störfin og gefa almenningi það traust sem þarf að vera til staðar varðandi luktir þessa máls.

3. liður:

„Við 2. gr. Greinin orðist svo: Við lögin bætist ný grein sem verður 18. gr. og orðast svo:

Við birtingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis skulu öll gögn sem aflað hefur verið færð á Þjóðskjalasafn Íslands og þau gerð opinber. Tryggt verði að allar upplýsingar að baki skýrslunni sem og að baki skýrslum beggja nefnda skv. 15. gr. og 15. gr. a verði opnar öllum frá fyrsta birtingardegi. Ákvæði laga um persónuvernd skulu ekki gilda um upplýsingar þessar nema í algerum undantekningartilvikum og skulu þá rækilega rökstudd með tilliti til mikilvægustu persónuverndarsjónarmiða.“

Frú forseti. Breytingartillaga allsherjarnefndar sem var lesin upp áðan gerir það að verkum að þeir sem vilja skoða þessi gögn þurfa að fara á Þjóðskjalasafnið og greiða sjálfir þann kostnað sem hlýst af því að gera gögnin ópersónugreinanleg. Það er rétt að það komi fram að þjóðskjalavörður sjálfur kom á fund nefndarinnar og lýsti því yfir að útilokað væri að gera öll þessi gögn ópersónugreinanleg. Þannig að hér er einfaldlega um, ja, ég veit ekki, annað hvort misskilning, mistök eða blekkingarleik að ræða hvað varðar þessi gögn. Það er ekki vinnandi vegur að fólk geti skoðað þessi gögn eða rannsakað þau með sómasamlegum hætti þegar vinnu rannsóknarnefndarinnar er lokið og því verður að afgreiða þetta mál með öðrum hætti.

Í greinargerð með frumvarpinu með breytingartillögunum segir, með leyfi forseta:

„Hreyfingin leggur áherslu á að höfð sé í huga sú umræða sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu varðandi hvaða aðilar það eru sem bera höfuðábyrgð á því ástandi sem nú ríkir á Íslandi. Það er mat þinghóps Hreyfingarinnar að hætt sé við að tengsl og hagsmunaárekstrar muni gera trúverðugleika þingmannanefndarinnar að engu. Til að mark verði takandi á störfum nefndarinnar er það grundvallaratriði að þingmenn ákvarði ekki það verklag er varðar aðra þingmenn sem og ráðherra í þeirri vinnu sem fram undan er.

Með kosningu nefndar fimm manna utan þings, sem njóta óumdeilanlegs trausts þorra almennings, sem hefur það hlutverk sem breytingartillögur Hreyfingarinnar gera ráð fyrir, er auk þess tryggt að Alþingi verði ekki sett í þá stöðu að veita sjálfu sér aðhald heldur fái stofnunin sjálf og hlutaðeigandi aðilar nauðsynlegt utanaðkomandi aðhald.“

Frú forseti. Sú breytingartillaga sem fram hefur komið af hálfu allsherjarnefndar, að þingmannanefndin skuli ljúka störfum ekki síðar en 30. september, gerir það að verkum að mjög stutt er eftir af hugsanlegum fyrningartíma vegna brota ráðherra fyrir Landsdómi sem gerir það að verkum að tortryggni almennings mun enn fremur aukast. Þess vegna legg ég megináherslu á, frú forseti, að skýr dagsetning verði sett við lok starfa þingmannanefndarinnar og tekið verði fyllilega tillit til allra þessara breytingartillagna, því þær skipta höfuðmáli fyrir það að þingið njóti trausts í þessu máli. Ég leyfi mér að vara eindregið við því, frú forseti, að þingið haldi áfram með þessum hætti, því það mun einfaldlega skapa ólgu utan þingsins og ólgu í samfélaginu, ólgu sem óþarfi er að vekja upp ef skynsamlega er á málum haldið og það er ekki gert með þessu frumvarpi.