Rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008

Laugardaginn 19. desember 2009, kl. 20:09:58 (0)


138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[20:09]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er eitt atriði sem mér finnst afar brýnt að komi fram í umræðunni og ég tek til máls hér í andsvari við ræðu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur en þetta á svo sem líka við um ræðu hv. þm. Þórs Saaris. Það virðist vera ákveðinn misskilningur á ferðinni varðandi hlutverk níu manna þingmannanefndarinnar. Það er ekki hún, það er ekki níu manna þingmannanefndin sem ákveður það að einhver ráðherra eða einhver fyrrverandi ráðherra verði ákærður og mál hans sent í landsdóm. Það er ekki þannig. Það er Alþingi sjálft. Ég veit ekki hve oft ég sagði það í fyrri ræðu minni að það er hópurinn sem hér situr sem er eini hópurinn sem getur ákveðið það hvort menn eru dregnir fyrir landsdóm eða ekki. Allt tal um það að ábyrgð þessarar níu manna þingmannanefndar sé svo mikil vegna þess að hún ákveði um örlög félaga sinna er bara bull og vitleysa. Það erum við hér inni og þið, ágætu félagar mínir í Hreyfingunni, sem munið á endanum ákveða það, ef til þess kemur, ásamt mér og mínum félögum, ef til þess kemur, að ákæra menn og draga þá fyrir landsdóm, ekki þessi níu manna þingmannanefnd.