Tekjuöflun ríkisins

Laugardaginn 19. desember 2009, kl. 20:49:20 (0)


138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[20:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar.

Með frumvarpinu er ríkisstjórnin að leggja til grundvallarbreytingar á íslensku skattkerfi. Nái þær fram að ganga óbreyttar verður það mesta breyting sem orðið hefur á skattkerfinu í áratugi. Fyrirvarinn við breytinguna er sex virkir dagar sem er algjörlega óviðunandi að mati 1. minni hluta. Breytingarnar sem boðaðar eru fela í sér mikla afturför og óvissu í skattframkvæmd og ekki liggur fyrir hverju þær munu skila í auknum tekjum til ríkissjóðs.

Í kjölfar hrunsins skruppu skattstofnar ríkisins gríðarlega saman vegna lækkunar launa, minni hagnaðar, eignahruns, samdráttar í fjárfestingu og minni neyslu. Á sama tíma jukust útgjöld ríkisins vegna kostnaðar við hrunið, aukins atvinnuleysis og aukins vaxtakostnaðar. Augljóst er að til margvíslegra aðgerða þarf að grípa til að leiðrétta þessa stöðu. Ríkisstjórnin hefur kosið þá leið að skera niður útgjöld og hækka skatta.

Í samstarfsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda frá því í nóvember 2008 er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með 150 milljarða kr. halla á árinu 2009. Gert er ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs verði jákvæður á árinu 2011 og tekjujöfnuður verði jákvæður árið 2013. Nú liggur fyrir að halli ársins 2009 er mun meiri en gert er ráð fyrir í samstarfsáætlun sjóðsins og stjórnvalda. Þannig er nú gert ráð fyrir að hallinn á þjóðhagsgrunni verði 253 milljarðar kr. á árinu. Stafar hækkunin af því að stjórnvöld hafa látið undir höfuð leggjast að framfylgja fjárlögum ársins af nægjanlegri festu eins og Ríkisendurskoðun hefur bent á. Þá eru verðbætur á lán ríkisins hjá Seðlabanka miklar, um 23 milljarðar kr., og áfallnir vextir af Icesave-lánunum um 40 milljarðar kr. Agaleysi við framkvæmd fjárlaga hefur því myndað 40 milljarða kr. umframhalla á tekjugrunni.

Hér hefur ekki verið tekið tillit til 100 milljarða gengishækkunar vegna Icesave-lánanna, enda hefur ríkisábyrgð ekki enn verið lögfest, hvað svo sem seinna kann að verða.

Ríkisstjórnin hefur kosið að mæta verkefninu með því að hækka þá skatta sem fyrir eru og kynna til sögunnar nýja, svo sem umhverfis- og — meinta — auðlindaskatta. Þá eru jafnframt í frumvarpi um tekjuöflun ríkisins lagðar til mjög viðamiklar breytingar á tekjuskattkerfinu, bæði því sem snýr að fyrirtækjum og heimilum. Þá er áður aflagður skattur, eignarskattur endurvakinn og nefndur auðlegðarskattur og sjómannaafslátturinn felldur niður á fjórum árum.

Ljóst er að þjóðhagsforsendur fjárlagafrumvarpsins, eins og þær birtast í fyrri hluta þess, eru óraunhæfar enda voru þær settar fram áður en fyrir lá hvernig tekjuöflun ríkisins yrði endanlega háttað og vekur það furðu 1. minni hluta. Gert er ráð fyrir að eftirspurn muni dragast verulega saman á næsta ári. Þó er því spáð að einkaneysla dragist einungis saman um 6,1%, þrátt fyrir að ráðstöfunartekjur á mann muni dragast saman um 7% og kaupmáttur um 11,4%.

Mér sem hagfræðingi þykir þetta sæta furðu og finnst það nokkuð afrek að geta fengið það út að 11,4% kaupmáttarrýrnun leiði einungis til 6,1% rýrnunar á einkaneyslu.

Þá er gert ráð fyrir að samneysla muni dragast saman um 3,6%. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að fjárfesting muni vaxa um 4,8%, en sú spá virðist ekki eiga sér neina stoð í raunveruleikanum eins og hann lítur út um þessar mundir. Þá er gert ráð fyrir að þjóðarútgjöld muni dragast saman um 3%.

Gert er ráð fyrir því að beinir og óbeinir skattar muni hækka um rúma 44 milljarða kr. á næsta ári og telur 1. minni hluti ljóst að það muni hafa neikvæðari eftirspurnaráhrif en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu vegna eðlis þeirra skatta sem lagðir verða á ef tillögur ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga. Samdráttur í eftirspurn mun minnka skattstofna. Því er það álit 1. minni hluta að forsendur tekjuhlutans séu byggðar á afar ótraustum grunni og tekjur muni aukast minna en að er stefnt.

Fyrsti minni hluti áréttar að í eðli sínu er tryggingagjald skattur á atvinnu þar sem hann leggst á laun allra starfsmanna. Sú mikla hækkun sem boðuð er á tryggingagjaldi veldur því að dýrara verður fyrir fyrirtæki að hafa fólk í vinnu sem leiðir til þess að minna verður ráðið af fólki og meiri hætta er á uppsögnum. Hjá illa stöddum fyrirtækjum kann þessi skattahækkun að verða kornið sem fyllir mælinn. Enn fremur eru margvíslegir skattar á áhættufé hækkaðir. Áhættufé er nauðsynlegt fyrir nýsköpun og fjárfestingar í atvinnulífi og mikilvægt að standa vörð um það, sérstaklega þegar lánardrottnar eru áhættufælnir eins og nú um stundir vegna hrunsins, en talið er að allt að 70 þúsund manns á öllum aldri hafi tapað um 5 millj. kr. hver að meðaltali. Mikilvægt er að skapa aftur traust á áhættufé þannig að fjárfesting örvist og störf skapist.

Aðgangur fyrirtækja að áhættufé er forsenda þess að ný störf skapist. Að mati 1. minni hluta beinast frumvörpin, að því er virðist, gegn tilkomu nýrra starfa þótt það hafi eflaust ekki verið tilgangurinn. Þetta gæti aukið atvinnuleysi sem aftur skaðar afkomu ríkissjóðs því að sérhver maður sem missir starf sitt breytist úr skattgreiðanda í bótaþega — tekjur ríkissjóðs minnka og gjöld hækka. Hvert starf sem glatast mun auka hallann um 4 millj. kr. Þá leiða nýir skattar á kolefni og orku til aukins kostnaðar fyrir heimili og fyrirtæki sem kemur fram í minni eftirspurn og rýrnandi skattstofnum, auk þess sem tilviljanakennd og fyrirvaralaus upptaka skattanna kann að skaða ímynd Íslands sem lands með stöðugt stjórnarfar.

Fyrsti minni hluti geldur varhuga við því flækjustigi sem fjölþrepa skattkerfi hefur í för með sér. Nái breytingar frumvarpsins fram að ganga er ljóst að staðgreiðsluframkvæmd mun verða flóknari og ónákvæmari. Sér í lagi þegar það verður jafnframt á ábyrgð launþega að upplýsa atvinnurekanda um það í hvaða skattþrepi hann skuli skattlagður. Fyrir hinn almenna launþega getur verið erfitt að átta sig á hvaða skatta hann skuli raunverulega greiða, enda eru heimilar ákveðnar tilfærslur á milli skattþrepa. Enn fremur bendir 1. minni hluti á að fyrirsjáanlegt er að staðgreiðsluskil versni og að eftirágreiðslur aukist mikið.

Á heildina litið virðast forsendur tekjuhliðar fjárlagafrumvarpsins óraunhæfar enda voru þær gefnar áður en fyrir lá hvernig skattheimtu yrði háttað á næsta ári. Telur 1. minni hluti slík vinnubrögð bæði ófagleg og furðuleg í meira lagi.

Nú liggja fyrir frumvörp ríkisstjórnarinnar um hvernig skattheimtu verður háttað á næsta ári. Tillögurnar setja allar forsendur sem gefnar eru í fjárlagafrumvarpi í algjört uppnám. 1. minni hluti efnahags- og skattanefndar gerir það því að tillögu sinni að þjóðhagsspá sem myndar grunninn að tekjuáætlun ríkissjóðs verði endurgerð með nýjar forsendur um skattlagningu að leiðarljósi. Jafnframt bendir 1. minni hluti fjárlaganefndar á að breytingar á skattlagningu séreignarsparnaðar, sbr. þskj. 255, 230. mál, getur frestað og komið í veg fyrir boðaðar skattahækkanir. Þá gæfist betra tóm til að vinna að tillögunum en hraðinn á þessum flóknu skattbreytingum er hættulega mikill. Skattlagning séreignarsparnaðar snýr eingöngu að mjög fáum skattgreiðendum og er vel afmörkuð og einföld. Mundi sú ráðstöfun leiða til mun minni eftirspurnaráhrifa en boðuð leið ríkisstjórnarinnar og um leið tryggari skattgrunna og raunhæfari fjárlaga.

Ég ætla nú að fjalla um einstakar greinar frumvarpsins.

Í meginatriðum má skipta frumvarpinu í breytingar á skattkerfinu sem snúa að fyrirtækjum, sbr. 3.–11. gr. og 39. gr., og breytingar sem snúa að heimilum, sbr. 2. gr. og 12.–38. gr.

Önnur grein fjallar um gengishagnað innlánsreikninga. Hún er sögð vera breyting á 8. gr. tekjuskattslaganna að því er varðar skattlagningu gengishagnaðar af innlánsreikningum.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að verið sé að kveða skýrar að orði án þess að um efnisbreytingu sé að ræða. Það orðalag sem lagt er til í frumvarpinu er, að mati 1. minni hluta, hins vegar ekki skýrt og tæpast til bóta. Á sínum tíma, þegar þetta ákvæði var sett inn í tekjuskattslögin, var Seðlabanka Íslands falið að gera tillögu að framkvæmd greinarinnar. Það er skemmst frá því að segja að eftir 13 ára vinnu Seðlabankans hafa reglurnar ekki litið dagsins ljós. Skýringin á þessum drætti er að svo til ómögulegt er að reikna gengishagnað af úttekt af bankareikningi hjá einstaklingum.

Fyrsti minni hluti bendir á að hægt er að reikna gengishagnað af viðskiptum einstaklinga með hvers konar verðbréf (skráð sem óskráð) og afleiðusamninga, en hið sama á ekki við um bankareikninga. Bankareikningar eru ekki verðbréf. Innstæður bankareikninga eru í raun annað form á peningum, að því frátöldu að innlánseigandi tekur kreditáhættu á innlánsstofnun þá sem hann ávaxtar fjármuni sína hjá. Þegar fólk tekur peninga út af bankareikningi, er það einfaldlega að breyta formi peningaeignar úr innláni í seðla eða tékka. Það myndast enginn gengishagnaður við þá aðgerð.

Þeir sem komnir eru á miðjan aldur hafa margir átt bankareikninga í erlendum gjaldeyri í nokkra áratugi, innan lands og utan. Á þeim tíma hafa hundruð eða jafnvel þúsundir inn- og útfærslna átt sér stað. 1. minni hluti spyr af hvaða stofni eigi að reikna áfallinn gengishagnað. Er ætlunin að fólk haldi nákvæmt bókhald um allar inn- og útfærslur í fjölda áratuga og skrái samtímis gengi viðkomandi gjaldmiðils miðað við íslensku krónuna til þess að geta reiknað út vegið verðmæti viðkomandi bankareikninga í hvert sinn sem það hreyfir innstæðu? 1. minni hluti leggur til að þetta ákvæði verði fellt út úr frumvarpinu þar sem það er nær óframkvæmanlegt.

Nú hefur komið fram breytingartillaga frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar. Hún leiðréttir ekki ágallann þrátt fyrir að það sé ætlunin. Þessi tillaga okkar í 1. minni hluta stendur því enn. Þá víkur að 3. gr.

Aðstæður þær sem breyttri skattlagningu er ætlað að taka til eru tvíþættar. Annars vegar þær að félag úthlutar arði til eigenda sem er umfram 20% af skattalegu bókfærðu eigin fé félags og hins vegar þær að hluthafi sem arðinn fær starfar fyrir félag og ber þess vegna að reikna sér endurgjald fyrir vinnuframlag sitt. Breytingin felst í að við þessar aðstæður skuli helmingur arðsins skattlagður sem launatekjur og helmingur sem tekjur af arði.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun í skattframkvæmd enn frekar reyna á hið óljósa hugtak „ráðandi aðili“ en gert hefur hingað til. Telur 1. minni hluti að nær væri að kveða skýrar á um hverjir skuli reikna sér endurgjald. Þá er í tillögunni ekkert horft til þess hvað það var sem skapaði hagnað til arðsúthlutunar né á hve löngum tíma eigið fé félags hefur byggst upp. Sem dæmi gæti hagnaður verið kominn til vegna söluhagnaðar á atvinnuhúsnæði. Í ákvæðinu felst að þyngri álögur verða lagðar á aðila sem hafa byggt upp fyrirtæki sitt með eigin fé en ekki lánsfé og fer það augljóslega gegn mikilvægum jafnræðissjónarmiðum.

Jafnframt getur þetta ákvæði, ef það verður að lögum, leitt til þess að það skapist hvati til að skuldsetja fyrirtæki meira og greiða meira út sem arð en ella.

Með hliðsjón af framangreindu leggst 1. minni hluti gegn þessu ákvæði og mælir með því að reglur um reiknað endurgjald verði fremur endurskoðaðar.

Víkur þá að afleiðusamningum með hlutabréf eða 4. gr. frumvarpsins.

Í 4. gr. er lagt til að orðin „og afleiðusamningar sem seldir eru á skipulegum verðbréfamörkuðum, þar sem undirliggjandi verðbréf eru eingöngu hlutabréf“ verði felld brott. Til að varðveita hagkvæmni er mikilvægt að hlutabréf og hvers konar afleiður af þeim verði skattlögð með sama hætti. Að öðrum kosti er skilvirkni og uppbyggingu markaða með hlutabréfaafleiður stefnt í voða að mati 1. minni hluta.

Þetta kom líka fram í umsögnum umsagnaraðila.

Með 5. gr. er lagt til að framlag launagreiðenda til öflunar lífeyrisréttinda umfram 2 millj. kr. verði skattlagt sem tekjur en þó ekki ef framlagið er samkvæmt kjarasamningi. Við þessa grein gerir 1. minni hluti tvær athugasemdir. Fyrir einstakling með 1 millj. kr. í mánaðarlaun jafngildir þetta 16,7% lífeyrissjóðsframlagi launagreiðanda. Það er ekki nægilega mikið til þess að einstaklingur með stutta starfsævi geti byggt upp viðeigandi lífeyri. Þá kveður frumvarpið á um að mismuna skuli fólki eftir því hvort það á aðild að stéttarfélagi og þiggur laun samkvæmt kjarasamningum eða semji sjálft um laun sín. Ekki er ólíklegt að slíkt brjóti í bága við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar og að hér geti orðið um tvísköttun á lífeyrisframlagi að ræða.

Fyrsti minni hluti leggur til að í stað 2 millj. kr. hámarks verði hámarkið 2 millj. kr., eftir að lögbundið lágmarksframlag, nú 12%, hefur verið greitt. Þá er lagt til að í stað kjarasamnings verði miðað við ráðningarsamning.

Í breytingartillögu meiri hlutans hefur verið farið að þessari tillögu og er það gott.

Í 7. gr. er lagt til að heimild félaga til þess að færa frádrátt, sem nemur fengnum arði og hagnaði af sölu hlutabréfa, verði takmörkuð við að félag eigi minnst 10% í félagi sem arðinn greiðir. Í athugasemdum er tillagan sögð vera samræming við tilskipun 90/435/EBE um móður- og dótturfélög frá Evrópusambandinu. Skilyrðið um 10% eignarhald er lágmark sem ríki EES verða að undanþiggja hvað varðar arð ef um 10% eignarhald er að ræða. Samkvæmt sömu tilskipun er óheimilt að takmarka frádrátt með því að ganga fyrst á yfirfæranlegt tap félags.

Áréttar 1. minni hluti að þessi breyting muni hafa neikvæð áhrif á uppbyggingu efnahagslífs landsins auk þess sem hún muni að öllum líkindum skila ríkissjóði óverulegum viðbótartekjum, nema ef til vill fyrsta árið. Með því að innheimta skatt af tekjum af arði og gengishagnaði af sölu hlutabréfa í eigu hlutafélaga er gerð tilraun til þess að tvískattleggja þessar tekjur, fyrst þegar viðkomandi hlutafélag greiðir skatt af tekjum og síðan þegar þessi hagnaður er greiddur til eigenda félagsins í formi arðs. Afleiðingin verður sú að menn munu leysa upp íslensk eignarhalds- og fjárfestingarfélög eða flytja fjárfestingar sínar úr landi. Þessu fylgir viðskiptakostnaður sem myndar engan virðisauka fyrir samfélagið og hefur því neikvæð efnahagsleg áhrif. Þá heftir ákvæðið dreifða eignaraðild ef það nær fram að ganga.

Meiri hluti efnahags- og skattanefndar hefur lagt til að greininni verði frestað þannig að hún taki gildi að ári og er það gott með það til hliðsjónar að hægt verði að lagfæra mestu ágallana.

Þá víkur að 8. gr. en þar er fjallað um frádráttarbærni vaxta við skuldsettar yfirtökur.

Með ákvæði 8. gr. er lagt til að við samruna félaga falli niður réttur sameinaðs félags til þess að telja til frádráttarbærra gjalda vexti af lánum sem sameinað félag hefur tekið til fjármögnunar kaupa á hlutum í félagi sem sameinast er. Sé ætlunin að stuðla að takmörkun á hversu mikið af vaxtagjöldum fyrirtækja sé hægt að draga frá skattskyldum rekstrartekjum með það að markmiði að draga úr hvata fyrirtækja til þess að fjármagna sig um of með lánsfé í stað eigin fjár þá er sú leið sem lagt er til að fara illa til þess fallin að mati 1. minni hluta. Verði tillagan að lögum er líklegt að hún verði erfið í framkvæmd. Hún mun skila litlum tekjum fyrir ríkissjóð en efnahagslegt tjón af henni kann að verða þó nokkuð. Áréttar 1. minni hluti að það væri mun æskilegra að vinna faglega úttekt á því hvort æskilegt sé að innleiða takmarkanir á hlutfalli lánsfjár í fjármögnun fyrirtækja við útreikning á heimild til frádráttar á skattskyldum rekstrartekjum (e. thin capitalisation rules), líkt og tíðkast í ýmsum löndum. Verði niðurstaðan sú að slíkt sé æskilegt væri eðlilegt að leggja í kjölfarið fram vandað frumvarp þess efnis fremur en að samþykkja illa ígrundaða og mögulega skaðlega breytingu sem þessa.

Hugmynd sú sem sett er fram í frumvarpinu er að mörgu leyti gölluð. Gengið er út frá því að bókfært eignavirði fyrirtækja endurspegli raunverulegt verðmæti rekstrar og að í viðskiptavild felist engin verðmæti, að viðskiptavild nýtist ekki til tekjuöflunar. Nú er það svo að rekstrarvirði fyrirtækja getur verið mun hærra eða lægra en bókfært virði. Það er ranghugmynd að aðeins sérstök fjárfestingarfélög noti þá aðferð sem er útlistuð í athugasemdum við frumvarpið. Rekstrarfélög kaupa iðulega önnur fyrirtæki og það yfirverð sem þau greiða umfram bókfært virði eigna (viðskiptavild) er oftast sannarlega tekjuberandi og því verðmætaskapandi fyrir sameinað félag. Það er óraunsætt að halda að það sé hægt að aðgreina lántökur sem notaðar eru til yfirtöku frá öðru fjármagni sem fyrirtæki kann að nota í rekstri sínum og til annarra fjárfestinga, sérstaklega þegar horft er til lengri tíma. Að aðgreina tilteknar lántökur eftir tilgangi er afar erfitt vegna ólíkra endurgreiðsluferla lána, endurfjármögnunar, sölu eigna o.s.frv. Gert er ráð fyrir að skuldsettum yfirtökum fylgi ávallt ofurskuldsetning. Breytingin skaðar því eðlileg og hóflega skuldsett kaup á fyrirtækjum, án þess að hafa minnstu áhrif á fyrirtæki sem yfirskuldsetja sig með öðrum aðferðum í öðrum tilgangi.

Tillagan um að vextir af lánum sem tekin eru til þess að greiða út arð skuli ekki vera frádráttarbærir frá skatti er furðuleg og ber að fella út úr frumvarpinu að mati 1. minni hluta. Í henni felast óeðlileg afskipti af eðlilegri fjármagnsskipan og fjárstýringu fyrirtækja. Hvers vegna ætti fyrirtæki sem er komið með of hátt eiginfjárhlutfall ekki að taka lán til þess að greiða út arð? Hvernig eiga skattyfirvöld að greina lántökur fyrirtækja í sundur eftir því hvort hluti lánanna kunni að hafa verið notaður til þess að greiða út arð eða annars? Vel rekin fyrirtæki sitja sjaldan á vannýttu lausu fjármagni og því er ekkert athugavert við að þau fjármagni útborgun arðs til hluthafa að hluta með lántökum. Ríkissjóður hefur tekjur af vaxtatekjum þess sem lánar fyrirtæki sama hvort lánið er notað til fjárfestinga, til þess að fjármagna veltufjármuni, greiða upp eldri lántökur eða greiða arð til hluthafa. Hvers vegna ætti lán sem að hluta eða öllu leyti er notað til þess að hægt sé að standa við arðgreiðslu ekki að vera meðhöndlað á sama hátt og aðrar lántökur viðkomandi fyrirtækis? Fyrir hendi eru skýr lög um takmarkanir á arðgreiðslum og áréttar 1. minni hluti að engin ástæða er til að skapa réttaróvissu með vanhugsaðri tillögu eins og þessari.

Nú ber svo við að meiri hluti efnahags- og skattanefndar hefur farið að viðvörunarorðum umsagnaraðila og minni hlutans og hefur fellt greinina út úr frumvarpinu þannig að þær áhyggjur sem ég hef lýst eiga ekki lengur við.

Í 14. gr. er lögð til umbylting á núverandi tekjuskattskerfi einstaklinga. Lagt er til að innleitt verði þrepaskipt skattkerfi og að horfið verið frá samsköttun hjóna að nokkru leyti. Ljóst er að þessi ráðstöfun gerir skattkerfið flókið og alla skattframkvæmd erfiðari og kostnaðarsamari. Undanskot verða auðveldari og eftirágreiðslur aukast í kerfinu. Þetta eru helstu gallar á nýju kerfi en aðalmarkmiðið er aukin tekjujöfnun sem talin er vera kostur. Stjórnarliðar hafa sagt að hér sé verið að taka upp kerfi svipað því sem tíðkast á Norðurlöndunum og er það sagt vera í þeim tilgangi að innleiða hér „norrænt velferðarkerfi“. Því er ekki úr vegi að skoða nánar hverjir eiginleikar nýs kerfis eru og bera saman við Norðurlöndin.

Í íslenska kerfinu er mun hærri persónufrádráttur en annars staðar á Norðurlöndum, bæði fyrir og eftir skattkerfisbreytinguna. Íbúar hinna norrænu ríkjanna greiða skatt af mun lægri tekjum en Íslendingar. Skattbyrði er lægri hér á landi í öllum tekjuhópum. Ef tillögur sem hér eru kynntar ná fram að ganga eykst skattbyrðin í millitekju- og hátekjuhópunum og verður við um 800 þús. kr. mánaðarlaun næsthæst á Norðurlöndunum, á eftir Svíþjóð. Ef markmiðið með breytingunum er að færa skattbyrði tekjulægstu hópanna á svipað stig og annars staðar á Norðurlöndunum hefur röng leið verið valin. Ef ná hefði átt því markmiði hefði þurft að lækka frítekjumarkið til muna og auka skattbyrðina á tekjulægstu hópana.

Frítekjumarkið á Íslandi er um 28% af meðallaunum í þjónustu og iðnaði sem er mun hærra en annars staðar á Norðurlöndum. Til samanburðar eru neðri mörkin í Finnlandi 2%, efri mörkin 3%, í Danmörku eru þau 12% og efri mörkin 14%, Í Noregi eru neðri mörkin 16% og þau efri 24% og í Svíþjóð eru þessar tölur 4% og 9%.

Þessi staðreynd sýnir að einstaklingurinn byrjar mun seinna að greiða skatt af tekjum sínum á Íslandi og því þarf að lækka persónufrádrátt mikið á Íslandi ef taka á upp „norrænt velferðarkerfi“ hvað varðar skattlagningu á Íslandi. Það er ekki nóg að taka upp þrepaskipt skattkerfi. Skattleysismörkin eru líkt og girðing sem skapar hindrun í tekjujöfnun. Há mörk, líkt og eru hér á landi, kalla fram háa jaðarskatta. Hins vegar er hægt að hafa áhrif á tekjudreifinguna með lágum skattleysismörkum og fjölþrepaskattkerfi með lágum jaðarsköttum á lægstu tekjuhópana. Þegar jaðarskattar eru orðnir 46%, framlag í lífeyrissjóð er 12% með framlagi vinnuveitenda og tryggingagjaldið er orðið 8% — samtals 66% — þá er ekki mikið eftir af síðustu krónum launa í efsta þrepinu.

Fyrir vinnuveitandann er jaðarkostnaðurinn af laununum — 66% seinustu krónunnar fara til ríkisins eða í lífeyrissjóðinn. Það er því verið að hækka gríðarlega kostnað við vinnuafl á Íslandi.

Á fundi nefndarinnar kom fram að gestir voru allir sammála um að eftirágreiðslur mundu aukast í kerfinu. Það er sett í hendur launþegans að tilkynna vinnuveitendum í hvaða skattþrepi hann er. Nú er það svo að margir launþegar hirða ekki um reglur sem þessar. Skattlagningin er þá leiðrétt eftir á og til álagningar kemur með 2,5% álagi ári síðar. Fyrrverandi ríkisskattstjóri, Garðar Valdimarsson, setti þær upplýsingar fram á fundum efnahags- og skattanefndar að við upptöku staðgreiðslukerfisins hér á landi hefði reynslan sýnt að um 95% tekna innheimtust í staðgreiðslukerfinu og um 50% í eftirágreiddu kerfi. Það er því ekki ólíklegt að tekjuáætlun vegna þessa sé ofmetin og skattstofnar verði ekki jafnsterkir og nú er.

Nú eru mörg lönd með fjölþrepa skattkerfi og virðast ekki glíma við þetta vandamál. Þá er til þess að taka að Íslendingar eru óvenjulegir að því leyti til að þeir vinna margir á fleiri en einum vinnustað. Þá er í öðrum löndum búið að girða fyrir vandamálið eins og til dæmis Danir hafa gert með því að veita vinnuveitendum aðgang að upplýsingum um hvar einstaklingurinn vinnur annars staðar. Þannig er hægt að leggja ábyrgðina á herðar vinnuveitendum en ekki er víst að allir væru ánægðir með slíka upplýsingagjöf.

Í breytingartillögu meiri hlutans hefur verið bætt inn nýrri klásúlu þar sem kveðið er á um að launaþrepin verði verðbætt með vísitölu launa og er það afar slæmt vegna þess að það dregur sveigjanleikann úr kerfinu og gerir það erfiðara í framkvæmd.

Mér vinnst ekki tími til að fara yfir fleiri greinar frumvarpsins en ég vil ljúka máli mínu með því að þakka formanni nefndarinnar, Helga Hjörvar, fyrir góða samvinnu en undir álitið skrifa Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur Blöndal.