Tekjuöflun ríkisins

Laugardaginn 19. desember 2009, kl. 21:37:45 (0)


138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[21:37]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér létti stórum að vita að ekkjur og ekklar eru enn þá sérstakur skjólstæðingahópur Sjálfstæðisflokksins (TÞH: Allir Íslendingar.) eins og allir Íslendingar. Það minnir mig á gamlar rætur Sjálfstæðisflokksins sem eru í íhaldssamari hugmyndafræði og vona ég svo sannarlega að hún verði ofan á á næstu árum, sérstaklega nú þegar nýfrjálshyggjan er orðin gjaldþrota með hruni bankakerfisins.

En það er annað sem ég mundi vilja spyrja hv. þingmann út í, það er sú fullyrðing að betra sé að fresta upptöku þrepaskattsins. Ég vil spyrja hann að því hvort ástæða sé til að fresta upptökunni í stað þess að fara þá leið sem við förum, að taka eitt skref í ár þar sem við innleiðum þriggja þrepa skatt en hreyfum ekki við persónuafslættinum, (Forseti hringir.) sem þyrfti að lækka til að við næðum fram norrænu skattkerfi.