Tekjuöflun ríkisins

Laugardaginn 19. desember 2009, kl. 22:17:41 (0)


138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef fulla samúð með þingmanninum varðandi handklæðin. En ég var að spyrja hann hvernig því fólki sem virkilega trúði á umræðupólitík, grasrótarstarf og annað slíkt liði þegar allt í einu væri dembt inn vinstri sinnuðum frumvörpum sem gætu verið mjög góð en þau fá enga umræðu og gætu verið meingölluð. Hvernig ætli því fólki líði að upplifa svona vinnulag? Ég fór í gegnum það í dag að þetta eru dæmigerð frumvörp vinstri manna en þau geta verið alveg stórgölluð vegna þess hraða sem er á vinnslunni. Þegar er komið í ljós að t.d. tvö atriði voru óframkvæmanleg, auðlegðargjaldið eða eignarskatturinn nýi og skattur á hagnað af gengistryggðum reikningum. Menn þurftu að laga þau í nefndinni og þetta er gert með þvílíku hraði að ég er nærri viss um að það eru einhverjir gallar enn þá.