Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki

Mánudaginn 21. desember 2009, kl. 10:17:57 (0)


138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

82. mál
[10:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þær eru kvalafullar, þessar atkvæðaskýringar stjórnarandstöðunnar. Það er greinilega svo erfitt að styðja framfaramál frá ríkisstjórninni (Gripið fram í.) að maður veltir fyrir sér hvort stjórnarandstæðingar eigi að vera að leggja það á sig að koma í atkvæðaskýringar, [Háreysti í þingsal.] þetta tekur svo í.

Aðalatriði málsins er það (GÞÞ: Alltaf sameinar þú fólk, Steingrímur.) að með þeim tveimur frumvörpum sem nú hafa komið hér til atkvæða, þessu og hinu sem á undan var, er verið að móta heildstætt lagaumhverfi um stuðningsumgjörð fyrir nýsköpunarstarfsemi í landinu. (Gripið fram í.) Þeir sem til þeirra mála þekkja best, sem eru væntanlega forsvarsmenn slíkrar starfsemi, hafa sjálfir orðað það þannig að með þessum breytingum sé umhverfi nýsköpunar á Íslandi orðið með því hagstæðasta sem þekkist í heiminum. Það hlýtur að vera okkur öllum fagnaðarefni að svo sé og sama ætti að vera hvaðan gott kemur þannig að aðalatriðið er að málið (Forseti hringir.) er að fá hér framgang.