Eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.

Mánudaginn 21. desember 2009, kl. 20:36:36 (0)


138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.

336. mál
[20:36]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér alleinkennilegt mál þar sem ríkisstjórnin hefur að mati Ríkisendurskoðunar afhent tvo banka í eigu ríkisins nýjum eigendum án heimildar. Karpað er um það hvort þörf sé á þessari löggjöf eða ekki og þar sem ég er ekki lögfræðingur eða endurskoðandi get ég kannski ekki endilega dæmt um það. Ég leyfi mér þó að halda því fram að ríkisendurskoðandi hefði ekki gert athugasemd við þessa ráðstöfun ef ekki hefði verið tilefni til.

Það sem mér finnst aftur á móti gott við að fá þetta mál hér inn, og ég hef saknað þess að það hafi ekki verið meira í umræðunni, er að hér er verið að ráðstafa bönkum, því að þetta eru ríkisbankar eða voru, og það er í rauninni verið að einkavæða bankana á sem kalla má amerískum hraða, koma þeim í hendur nýrra eigenda án allrar eðlilegrar umræðu að mínu mati. Nú er það svo að mér hugnast ekkert endilega bankar í eigu ríkisins og ég tel að bankar eigi kannski fyrst og fremst að vera einhvers konar fyrirtæki sem eru í eigu og rekin af einstaklingum svo fremi að þeim sé búin nægilega traust umgjörð eins og við höfum því miður ekki haft á Íslandi hingað til.

Það sem mig skortir hins vegar í þessu máli er hugmyndaflug til að láta mér detta í hug að þessir bankar hafi verið afhentir nýjum eigendum án þess að vitað sé hverjir þeir eru og við það geri ég athugasemd. Ekki er vitað hverjir kröfuhafarnir eru, það er vitað að einhverju marki en það er ekki vitað hverjir nýir eigendur bankanna eru. Það finnst mér mjög óþægilegt og ég tel að þetta ferli hefði aldrei átt að ganga til enda fyrr en það lægi algjörlega á hreinu hverjir eigendurnir væru og þá ekki einhverjar kennitölur eða nöfn á fyrirtækjum heldur bara persónur.

Svo tel ég að hér þurfi líka að marka einhverja stefnu í bankamálum um það hverjir verða eigendur þessara banka í framtíðinni að því marki sem hægt er. Við Íslendingar höfum brennt okkur heldur betur illilega á því, virðulegi forseti, að eigendur íslenskra banka hafa sett efnahagslífið hér á hausinn. Í núverandi bankalöggjöf hefur ekki verið gert ráð fyrir að þetta geti ekki gerst aftur. Þess vegna langar mig, og mér finnst ágætt að hafa hæstv. fjármálaráðherra hér, að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort því hafi á einhverjum tilteknum tímapunkti verið velt upp að ástæða væri til að setja einhverjar skorður við hugsanlegu framtíðareignarhaldi á bönkunum og hvort það muni verða gert og ef ekki þá hvers vegna ekki. Nú er það alls ekki óalgengt að eignarhaldi séu settar skorður og með því er að vissu leyti verið að flokka fólk en ég leyfi mér að benda á að við búum við kapítalískt hagkerfi og kapítalismi gengur einmitt út á það að flokka fólk. Því er ekkert óeðlilegt við það þegar einhverjir menn hafa sennilega sett samfélagið á hausinn, þó að það sé kannski ekki búið að dæma þá enn þá, að alla vega um eitthvert árabil verði settar ríkulegar takmarkanir á eignarhald á íslenskum bönkum einfaldlega til að koma í veg fyrir að svona aðstæður geti skapast hér aftur.

Að öðru leyti fagna ég því að endurreisn íslenska bankakerfisins sé komin vel á veg. Það verður gaman að sjá hvað verður um Landsbankann, ég er ekkert endilega þeirrar skoðunar að hann eigi að vera einkavæddur, a.m.k. ekki strax, en hvað varðar nýja eigendur að nýjum íslenskum bönkum geri ég alvarlegar athugasemdir við það að enginn veit hverjir þeir eru.