Eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.

Mánudaginn 21. desember 2009, kl. 20:41:20 (0)


138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.

336. mál
[20:41]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er í raun afrakstur vinnu fjárlaganefndar, ekki eingöngu nú í desember heldur má rekja grunninn að frumvarpinu allt til fjáraukalaga fyrir árið 2008 þar sem kom inn heimild um stofnun á þremur nýjum fjármálafyrirtækjum og jafnframt var ákvæði í 6. gr. heimild í fjárlögum ársins 2009 sem tók til þess að fjármálaráðherra væri heimilt að leggja fram allt að 385 milljarða í eigið fé til þessara þriggja banka.

Við bentum á það, stjórnarandstaðan í fjárlaganefnd, að lítill tími hefði gefist til þess að rýna fjáraukalögin og fara vandlega yfir þetta, enda kom svo á daginn að það voru skiptar skoðanir uppi um þetta og höfðu komið fram athugasemdir við þá gjörð að afgreiða fjáraukalögin með þeim hætti að gera ekki ráð fyrir heimild til handa fjármálaráðherra til að selja, eins og ég vil kalla það, eða breyta eignarhaldi á þeim þremur bönkum sem hér um ræðir og hefur raunar verið gert nú. Niðurstaðan er einfaldlega sú að fjáraukalögin fyrir árið 2009 voru afgreidd í hasti án þess að slík heimild væri komin inn og eftir það magnaðist þessi leikur sem endar með því að hér er lagt fram frumvarp um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlutum.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að þetta gangi á svig við stjórnarskrá og ég er ekki þeirrar skoðunar að þetta hafi ekki átt að gera. Ég er þeirrar skoðunar að það átti að ganga þann veg til enda sem markaður var með fjáraukalögunum fyrir árið 2008 og undirstrikað í fjárlagagerðinni fyrir líðandi ár, en þá sáu menn ekki fyrir endann á því að þetta tæki enda og gengi upp og raknaði upp með þeim hætti sem nú liggur fyrir á því herrans ári 2009.

Við getum þráttað endalaust um það hvort hér sé um að ræða sölu eða eignatilfærslu eða guð má vita hvað á að kalla þetta. Það breytir ekki þeirri staðreynd að frumvarpið er komið fram og því ber að fagna þó að vissulega hefði verið æskilegt að fá þetta inn í fjáraukalögin eins og margoft hefur verið sagt. Ég met það svo að hér sé um nauðsynlega aðgerð að ræða til þess að koma einhverju skikki á starfsemi bankanna. Engu að síður eru þær spurningar sem uppi eru í þessum efnum fyllilega réttmætar sem lúta að einhvers konar löggjöf utan um starfsemi þessara þriggja banka. Hv. þm. Þór Saari nefndi það áðan hvort menn ættu ekki leggja skorður við eignarhaldi. Það má vel vera, þær hugmyndir voru uppi í eina tíð að reyna að hafa eignarhald á bönkunum sem dreifðast. Því miður gekk það ekki eftir af einhverjum óútskýrðum ástæðum.

Það má líka velta þeirri spurningu upp: Hver eru áform ríkisstjórnarinnar varðandi löggjöf um bankastarfsemina í landinu? Í þeim efnum hef ég meiri áhuga á að efla þann þátt mála sem lýtur að því hverjir eiga bankana, hverjum er það heimilt, hvernig starfsemi þeir mega stunda, og ekki síst í þeim efnum hefur maður í ljósi reynslunnar áhyggjur af því að flækja saman með þeim hætti sem gert var viðskiptabankastarfsemina og fjárfestingarbankastarfsemina. Það væri mjög fróðlegt að heyra álit hæstv. fjármálaráðherra í þeim efnum, hvort ríkisstjórnin er með eitthvað á prjónunum varðandi þann þátt að skilja þarna á milli, því að flestir sem til þekkja og horfa til baka eru inni á því að þessum tveim þáttum í fjármálastarfseminni hafi verið blandað allt, allt of mikið saman, m.a með þeim árangri sem við höfum því miður þurft að horfast í augu við og er neikvæður árangur, ef svo mætti segja, af því að hræra þessu öllu saman. Það eru þeir þættir máls sem maður hefði áhuga á að fá upplýsingar um, hvernig stjórnarmeirihlutinn horfir til þeirra þátta og hvort það sé eitthvað á prjónunum í því efni.

Síðan er hinn handleggurinn sem snýr að hinni pólitísku hlið og lýtur að því í hvers hlut það kemur að einkavæða þessa íslensku banka og þá hittist bara svo á að í þessu tilfelli kemur það í hlut hæstv. fjármálaráðherra sem tilheyrir þeim stjórnmálaflokki sem hvað hæst gagnrýndi einkavæðingu bankanna á sínum tíma, m.a. kom þar fram að það væri illa gegnsætt hverjir væru að eignast þá, talað var um einkavinavæðingu eins og sagt var. Þó var það gert með allt öðrum hætti en við upplifum nú og í sjálfu sér er það skiljanlegt í ljósi þeirra aðstæðna sem við er að glíma í tengslum við hrun íslenska fjármálakerfisins, þannig að það er kannski dálítil meinfýsni að vera að velta hæstv. fjármálaráðherra upp úr þeim þætti máls. Engu að síður er það dálítið glettnislegt, svo ekki sé meira sagt, að það skuli koma í þeirra hlut, vinstri grænna, að standa þannig að verkum. En ég tek undir það að þetta er nauðsynjaverk sem þarf að vinna og án þess að hafa neinar forsendur fyrir því hvernig að þessu var unnið, þær koma væntanlega í ljós á síðari stigum þegar upplýsingar um þessa gjörð verða allar lagðar fram, ég efast ekkert um að menn hafi gengið til þessa verks af heilindum og heilum hug, ég dreg það ekkert í efa. Ég vænti þess hins vegar að þær upplýsingar verði allar lagðar á borð þegar tækifæri og tilefni er til. Stóra málið í mínum huga er það sem verður að svara í tengslum við þetta atriði: Hvers vegna í ósköpunum var heimildarinnar ekki leitað fyrr? Það hefur verið upplýst og sagt að lögfræðilegur ráðgjafi fjármálaráðuneytisins hafi gefið það álit að þess þyrfti ekki.

Í annan stað tel ég bráðnauðsynlegt að það sé upplýst í hverra eigu bankarnir eru. Ég tel að það sé grundvallaratriði fyrir fjármálastarfsemi landsins að það séu sem fyrst leiddar fram hugmyndir hæstv. ríkisstjórnar um það hvernig hún sér löggjöf utan um þessa starfsemi taka breytingum í framhaldi af þeirri sölu sem farið hefur fram og hvernig menn ætla að vinna með skiptin eða þessa tvo hluti, skiptin á milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi landsins. Ég hefði ómælda ánægju af því að heyra hæstv. fjármálaráðherra fara með nokkrar hugleiðingar sínar í þeim efnum.