Fjárlög 2010

Mánudaginn 21. desember 2009, kl. 21:32:35 (0)


138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:32]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi fá að koma að upplýsingum varðandi matið eða hjúkrunarþyngdarstuðlana, þannig að á stofnunum með öldrunarþjónustu sé greitt samkvæmt hjúkrunarþyngd.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þessar stofnanir hafa margþætta þjónustu, ég tala nú ekki um á Sauðárkróki og í Skagafirðinum. En þjónustan hefur verið að breytast, mér finnst mjög mikilvægt að heilbrigðisráðuneytið fari mjög vel yfir alla þá þætti sem hér voru nefndir því að þjónustan hefur líka breyst, hún hefur verið að færast út af sjúkrahúsinu, það er verið að efla þjónustu utan sjúkrahússins og það hefur líka verið að gerast á fleiri stöðum sem er mjög jákvætt. Það er ódýrara, það er betra, það kallar á samþættingu og í raun og veru framlengingu á heilbrigðisþjónustu viðkomandi stofnunar að hún sé ekki alveg bundin innan stofnunarinnar. Auðvitað þarf að fara mjög vel yfir þetta, þannig að viðkomandi stofnanir geti sinnt þeirri starfsemi sem þeim er samkvæmt lögum ætlað að sinna.

Við skulum líka vera raunsæ og horfa til þess að í gegnum árin hafa stofnanir, og sérstaklega meðan vistunarmatið var ekki eins strangt og það er núna, fengið greitt fyrir hjúkrunarsjúklinga sem voru kannski ekki svo þungir hjúkrunarsjúklingar og þar af leiðandi hefur rekstrargrunnurinn verið styrktur. En þá segi ég: Það var bara rangt gefið, grunnurinn var ekki réttur.

Ef við ætlum að færa okkur inn í þetta módel eða eitthvað í þessa átt verðum við a.m.k. að fylgjast mjög vel með hvernig rekstri stofnunarinnar reiðir af og fara yfir augljós vandkvæði ef þau koma eða ábendingar sem fram koma.