Eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.

Þriðjudaginn 22. desember 2009, kl. 12:11:58 (0)


138. löggjafarþing — 60. fundur,  22. des. 2009.

eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.

336. mál
[12:11]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég spurði sérstaklega þingflokksformann minn hvort ekki væri í lagi að taka til máls við 3. umr. um eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, Arion banka og NBI banka og mér skildist að það væri í lagi þannig að ég óska eftir að fá um það nánari upplýsingar þegar ég er búin aðeins að ræða þetta.

Ég ætla ekki að tala lengi en verð hins vegar að segja að ég gat eiginlega ekki orða bundist um þetta mál vegna þess að þegar hæstv. fjármálaráðherra kynnti samningana við skilanefndirnar kom mjög oft fram í orðum hans og í fjölmiðlum að þar með kæmu erlendir bankar og yfirtækju rekstur þá núna Íslandsbanka og Arion banka. Ég vil bara fá að leiðrétta þann misskilning þannig að enginn þingmaður sem situr hérna í þingsalnum haldi að þeir sem halda á kröfunum í þrotabúunum á gömlu bönkunum fari að reka banka á Íslandi á næstu árum.

Það er þessi klassíska spurning sem ég held að hver einasti þingmaður hafi spurt: Hverjir eru þessir kröfuhafar? Það hafa verið nefnd nöfn eins og Deutsche Bank, Sumitomo Bank og menn sáu jafnvel fyrir sér að það yrði skipt út og við fengjum að sjá hérna nöfn á virtum bönkum sem lánuðu gömlu bönkunum peninga. En svo er ekki. Það er algjörlega á hreinu að þeir sem eru að fara að stjórna bönkum hérna í gegnum Arion banka og Íslandsbanka eru skilanefndir gömlu bankanna þannig að það er náttúrlega mun nær að þingmenn spyrji sig: Hverjir sitja í þessum skilanefndum, hverjir skipa þessar slitastjórnir og hvaða lagaumhverfi stjórnar þessum bönkum?

Mig langar til að renna aðeins í gegnum og ég hvet þingmenn til að kynna sér það, ég sendi spurningu á síðasta löggjafarþingi til viðskiptaráðherra um skilanefndirnar þar sem ég spurði í fyrsta lagi:

1. Hver skipar og hvernig er skipað í skilanefndir?

2. Hver eru verkefni, markmið, ábyrgð og valdsvið skilanefndar?

3. Gagnvart hverjum eru skilanefndirnar ábyrgar?

4. Eftir hvaða viðmiðum og/eða reglum er farið við skipun skilanefndar?

5. Hvernig og hve oft gera skilanefndir grein fyrir störfum sínum?

6. Hver hefur eftirlit með störfum skilanefnda?

7. Hafa fulltrúar í skilanefnd þurft að hætta störfum, og ef svo er af hverju?

Ef ég fer bara hratt í gegnum þetta er hlutverk skilanefnda að annast, þrátt fyrir afturköllun starfsleyfis, tiltekna leyfisbundna starfsemi fjármálafyrirtækis, að svo miklu leyti sem hún er nauðsynleg vegna ráðstöfunar hagsmuna fyrirtækisins; taka við þeim réttindum og skyldum sem stjórn fyrirtækisins og hluthafafundur eða fundur stofnfjáreigenda höfðu á hendi, sbr. þó 3. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki; leggja mat á, þegar kröfulýsingarfrestur er á enda, hvort horfur séu á að eignir fjármálafyrirtækis nægi til að standa undir skuldbindingum þess og ráðstafa hagsmunum fyrirtækisins eftir sömu reglum og gilda um bústjórn skiptastjóra við gjaldþrotaskipti og hafa að markmiði að fá sem mest fyrir eigur fjármálafyrirtækis, þar á meðal að bíða eftir efndatíma á útistandandi kröfum fremur en að koma þeim fyrr í verð nema sýnt megi telja að hagsmunir kröfuhafa og eftir atvikum hluthafa séu meiri eftir því sem ráðstafað er slíkum réttindum á fyrri stigum til að ljúka megi slitameðferð.

Til þess að kröfuhafar sem við erum alltaf að horfa til geti haft áhrif á ákvarðanir skilanefndanna verða þeir að mæta á kröfuhafafund og hver einasti þeirra þarf að vera sammála. Ef einn kröfuhafi ákveður að taka afstöðu með skilanefndinni stendur ákvörðun skilanefndarinnar. Við skulum bara gera okkur grein fyrir því að það sem við erum að gera hérna er að við afhenda einstaklingum, sem voru skipaðir á vegum Fjármálaeftirlitsins í hruninu, þessa banka og þeir munu ráðstafa þeim eignum sem eru þarna undir. Við hv. þm. Árni Þór Sigurðsson höfum sent inn fyrirspurnir og óskað eftir upplýsingum sem við teljum eðlilegt að fá sem þingmenn, sem vörsluaðilar og fulltrúar almennings. Og við höfum fengið nei, við höfum fengið synjun um þessar upplýsingar.

Ég tel að lagaumhverfið sem varðar þessa gífurlegu fjármuni, þessa gífurlegu hagsmuni sé mjög ófullkomið. Það skiptir mjög miklu máli að viðskiptanefnd endurskoði löggjöfina þannig að það sé a.m.k. tryggt að við þingmenn vitum hvað við erum að gera þegar við erum að samþykkja tillögu eins og þessa, að við vitum hvað er ætlunin að gera við þessa fjármuni, hvað er ætlunin að gera við fjármuni hvers einasta heimilis og hvers einasta fyrirtækis í landinu.