Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 15. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 15  —  15. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.

Flm.: Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Í sveitarstjórn skal fjöldi sveitarstjórnarmanna standa á oddatölu og vera að lágmarki sá sem hér greinir:
              a.      þar sem íbúar eru innan við 1.000: 7 aðalmenn,
              b.      þar sem íbúar eru 1.000–4.999: 11 aðalmenn,
              c.      þar sem íbúar eru 5.000–24.999: 17 aðalmenn,
              d.      þar sem íbúar eru 25.000–49.999: 31 aðalmaður,
              e.      þar sem íbúar eru 50.000–99.999: 47 aðalmenn,
              f.      þar sem íbúar eru 100.000–199.999: 61 aðalmaður,
              g.      þar sem íbúar eru 200.000–399.999: 71 aðalmaður.
     b.      Í stað orðanna „í átta ár“ í 2. mgr. kemur: í tvö ár.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Markmið frumvarps þessa er að viðmið um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa á Íslandi verði færð til samræmis við það sem þekkist í nágrannalöndunum. Ákvæði 12. gr. sveitarstjórnarlaga um hámarksfjölda kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum eiga sér hvergi hliðstæðu í Evrópu að því best er vitað. Til að mynda má benda á ákvæði í sænskum sveitarstjórnarlögum þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda kjörinna fulltrúa í bæjar- og borgarstjórnum (sjá fylgiskjal). Ákvæði um lágmarksfjölda eru eins eða svipuð annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópu (sjá vef Evrópuráðsins: www.coe.int).
    Í janúar 1908 var bæjarfulltrúum í Reykjavík fjölgað í 15. Hundrað og einu ári síðar eru kjörnir fulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur enn 15 að tölu þótt fjöldi íbúa hafi fimmtánfaldast á heilli öld. Frá 1908 hefur landsframleiðsla á hvern íbúa einnig fimmtánfaldast og því má fullyrða að efnahagsleg umsvif í Reykjavík hafi a.m.k. 225-faldast á einni öld.
    Frambjóðandi til borgarstjórnar í Reykjavík nú til dags þarf að fá um 7% atkvæða til að ná kjöri og eru engin fordæmi um jafnfáa kjörna fulltrúa og jafnháan lýðræðisþröskuld í ámóta fjölmennu sveitarfélagi í nágrannalöndum okkar. Samkvæmt lögum annars staðar á Norðurlöndum, í Evrópu og víðar ættu borgarfulltrúar í Reykjavík því að vera 43–61 hið minnsta.
    Hér er um að ræða lýðræðisskerðingu sem stríðir gegn anda Evrópusáttmálans, mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem og Ríó-sáttmálans um Staðardagskrá 21 sem er heildaráætlun ríkja Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun samfélaga fram á 21. öldina í samráði við íbúana á hverjum stað og með þátttöku atvinnulífs og félagasamtaka. Þessi skerðing er alvarlegt mannréttindabrot. Hún er andstæð viðhorfum og venjum annars staðar á Norðurlöndum, í Evrópu og víðar þar sem lýðræði er í hávegum haft, þar sem meginmarkmiðið er ekki að torvelda heldur auðvelda þátttöku borgaranna í ákvarðanatöku um eigin mál og mótun samfélagsins til framtíðar.
    Nærri útilokað er fyrir einstaklinga og samtök utan hefðbundinna stjórnmálasamtaka að komast til áhrifa í sveitarstjórnum og ríkir því fákeppni í sveitarstjórnarmálum og fáveldi í stjórnunarháttum sveitarstjórna (oligarkí, einhvers staðar á milli einræðis og lýðræðis).
    Í borgarstjórn Reykjavíkur og öðrum fámennum íslenskum sveitarstjórnum er fáveldið auk þess undirstrikað enn frekar með ranghugmyndinni um þörf á „starfhæfum meiri hluta“, sem veldur því að 8–9 borgarfulltrúar hlaða á sig völdum og vegtyllum á meðan minni hlutinn situr hjá verklítill.
    Fjöldi aðalmanna í þessari tillögu er fenginn með því að miða við helmingsmun á ákvæðum í sænskum (hærri gildi) og norskum sveitarstjórnarlögum, sbr. myndina:

Lágmarksfjöldi kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum í Noregi og Svíþjóð samkvæmt ákvæðum í þarlendum lögum um sveitarstjórnir og fylkisþing.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Frekari samanburður við nágrannalöndin leiðir eftirfarandi í ljós:
Íbúar Sveitarfélög Sveitarstjórnarmenn Meðaltal
Ísland 300 þús. 98 648 6,6
Finnland 5,2 millj. 431 12.157 28,2
Danmörk 5,4 millj. 98 2.520 25,7
Noregur 4,6 millj. 431 13.000 30
Svíþjóð 8,9 millj. 290 12.762 44

Fjöldi sveitarstjórnarmanna í nokkrum einstökum
sveitarfélögum á Norðurlöndum.

Ísland Íbúar Sveitarstjórnarmenn
Reykjavík 119.547 15
Kópavogur 29.976 11
Hafnarfjörður 25.850 11
Akranes 6.609 9
Ísafjarðarbær 3.972 9
Akureyri 17.541 11
Fjarðabyggð 4.723 9
Fljótsdalshérað 3.695 11
Hornafjörður 2.112 7
Vestmannaeyjar 4.086 7
Árborg 7.922 9

Danmörk
Læsö 1.993 9
Aarhus 303.318 31
Fredericia 49.690 21
Ringsted 32.442 21
Gladsaxe 63.233 25

Noregur
Trondheim 169.000 85
Bergen 253.000 67
Stavanger 122.000 67
Utsia 215 15
Træna 480 11
Drammen 91.000 49
Larvik 23.000 35
Lillehammer 19.000 47
Narvik 18.000 41

Svíþjóð
Jönköping 125.000 81
Vesterås 107.000 61
Trollhättan 55.000 61
Falkenberg 40.000 51

Finnland
Oulu 137.000 67
Pori 76.000 59

    Greinilegt er að miðað við nágrannalöndin er mikill lýðræðishalli hér á landi hvað varðar þátttöku og möguleika almennings til áhrifa í sveitarstjórnum og slíkar fámennisstjórnir sem hér hafa tíðkast eru einsdæmi. Vissulega má gefa sér að þetta fyrirkomulag sé einfaldlega barn síns tíma en með gjörbreyttu og stórlega auknu hlutverki sveitarstjórna sem stjórnsýslustigs verður að gera þá kröfu að almenningur og smærri samtök fái að hafa meiri áhrif á framgang mála.
    Með fjölgun sveitarstjórnarmanna má einnig gera ráð fyrir að nefndir og ráð sveitarstjórna yrðu skipuð kjörnum fulltrúum en ekki varamönnum eða öðrum liðsmönnum þeirra flokka sem sæti eiga í sveitarstjórninni. Slíkt mundi gera allt ferlið við ákvarðanatöku markvissara og ábyrgð kjörinna fulltrúa yrði einnig skýrari. Eins má gera ráð fyrir að krafa um stærri og öflugri sveitarstjórnir mundi enn frekar ýta undir sjálfviljuga sameiningu sveitarfélaga sem nú eru 77 talsins þrátt fyrir umtalsverða fækkun á liðnum árum. Sveitarfélögin hafa öll sömu stöðu og sömu skyldum að gegna samkvæmt lögum þrátt fyrir að vera ólík og misjöfn að landfræðilegri stærð og íbúafjölda. Hlutverk sveitarfélaga hefur tekið breytingum síðustu ár og verkefnin aukist umtalsvert og þörfin fyrir öflugar sveitarstjórnir og aðkomu fleiri að þeim hefur því farið vaxandi.


Fylgiskjal.


1. mgr. 5. kafla í sænsku sveitarstjórnarlögunum
er sem hér segir (óformleg þýðing).



5. kafli. Sveitarstjórnir

Fjöldi fulltrúa og varafulltrúa

1. mgr.
    Sveitarstjórnin ákveður fjölda fulltrúa í sveitarstjórn.
    Skal fjöldinn standa á oddatölu og fulltrúarnir ekki færri en
          31 í sveitarfélögum með 12.000 eða færri kosningabærum íbúum og í lénsþingum með 140.000 eða færri kosningabærum íbúum,
          41 í sveitarfélögum með yfir 12.000 og allt að 24.000 kosningabærum íbúum,
          51 í sveitarfélögum með yfir 24.000 og allt að 36.000 kosningabærum íbúum, og í lénsþingum með yfir 140.000 og allt að 200.000 kosningabærum íbúum,
          61 í sveitarfélögum með yfir 36.000 kosningabærum íbúum, og
          71 í lénsþingum með yfir 200.000 kosningabærum íbúum.
          Í sveitarfélaginu Stokkhólmi og í lénsþingum með yfir 300.000 kosningabærum íbúum, skal fjöldi fulltrúa hinsvegar ekki vera færri en 101.
    5 kap. Fullmäktige

    Antalet ledamöter och ersättare


    1 § Fullmäktige bestämmer hur många ledamöter som fullmäktige skall ha.
    Antalet skall bestämmas till ett udda tal och till minst
          31 i kommuner med 12 000 röstberättigade invånare eller därunder och i landsting med 140 000 röstberättigade invånare eller därunder,
          41 i kommuner med över 12 000 till och med 24 000 röstberättigade invånare,
          51 i kommuner med över 24 000 till och med 36 000 röstberättigade invånare och i landsting med över 140 000 till och med 200 000 röstberättigade invånare,
          61 i kommuner med över 36 000 röstberättigade invånare, och
          71 i landsting med över 200 000 röstberättigade invånare.
          I Stockholms kommun och i landsting med över 300 000 röstberättigade invånare skall dock antalet ledamöter bestämmas till minst 101.