Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 68. máls.

Þskj. 68  —  68. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      A-liður 2. mgr. orðast svo: hafa búsetu innan aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
     b.      Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ferðaskrifstofa eða ferðaskipuleggjandi sem hefur leyfi innan Evrópska efnahagssvæðisins skal tilkynna starfsemi sína til Ferðamálastofu og leggja fram viðeigandi gögn um starfsemi sína. Ferðamálastofa metur hvort starfsemi leyfishafa sé í samræmi við ákvæði laga sem um slíka starfsemi gilda. Ferðamálastofa skal halda skrá yfir þá aðila sem tilkynnt hafa um starfsemi og birta hana með aðgengilegum hætti.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Ferðamálastofa leggur mat á fjárhæð tryggingar á grundvelli fyrirliggjandi gagna og er heimilt að leita umsagnar endurskoðanda.
     c.      Í stað orðanna „endurskoðaðan ársreikning“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: ársreikning áritaðan samkvæmt lögum um ársreikninga, nr. 3/2006.
     d.      Í stað orðanna „að fenginni umsögn löggilts endurskoðanda“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: og er heimilt að óska eftir umsögn endurskoðanda.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 1. gr. öðlast þó gildi 28. desember 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í iðnaðarráðuneytinu, að höfðu samráði við fulltrúa Ferðamálastofu og Samtaka ferðaþjónustunnar. Tilgangur breytinganna er að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar, einfalda málsmeðferð og lækka kostnað fyrir leyfishafa. Breytingarnar lúta annars vegar að innleiðingu tilskipunar 2006/123/EB um þjónustuviðskipti og þeim kröfum sem hún gerir m.a. til leyfisveitinga. Hins vegar lúta breytingarnar að málsmeðferð Ferðamálastofu við mat á fjárhæð tryggingar og framlagningu gagna. Eftir sem áður er tryggt að fyrir liggi nauðsynlegar upplýsingar fyrir yfirvöld til þess að hafa eftirlit með að tryggingar ferðaskrifstofa vegna sölu alferða séu í samræmi við lög og tilskipun 90/314/EBE um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka.
    Frumvarp til laga um þjónustuviðskipti er lagt fram á Alþingi samhliða þessu frumvarpi og eru þær breytingar sem hér eru lagðar til í tengslum við það frumvarp. Tilgangur þjónustutilskipunarinnar er að koma á raunverulegum innri markaði á sviði þjónustuviðskipta með því að fjarlægja lagalegar og stjórnsýslulegar hindranir svo að þjónustuveitendur og þjónustuviðtakendur eigi auðveldara með að veita og nýta sér þjónustu yfir landamæri. Tilskipunin á að tryggja þjónustuveitendum þau grundvallarréttindi sem kveðið er á um í 32. og 36. gr. EES-samningsins og innri markaðurinn byggist á, þ.e. staðfestufrelsi og frelsi til að veita þjónustu. Með afnámi hindrana verður auðveldara fyrir þjónustuveitendur að veita þjónustu án staðfestu sem jafnframt eykur samkeppni og leiðir því til hagræðis fyrir viðtakendur þjónustu í formi lægra verðs og betri gæða. Ákvæði tilskipunarinnar gera kröfu um að aðildarríkin yfirfari öll leyfisferli og einfaldi eins og kostur er en einföldun ferla kemur sér ekki einungis vel fyrir þjónustuveitendur heldur er til þess fallin að minnka álag og útgjöld stjórnvalda. Í 44. gr. tilskipunar 2006/123/EB um þjónustuviðskipti er lögð sú skylda á aðildarríki að hafa samræmt öll lög og reglugerðir er lúta að þjónustuviðskiptum við ákvæði tilskipunarinnar fyrir 28. desember 2009. Er því gert ráð fyrir í frumvarpi þessu að ákvæði 1. gr. taki einnig gildi sama dag.
    Í frumvarpinu er lagt til að búsetuskilyrði a-liðar 2. mgr. 9. gr. laga um skipan ferðamála, nr. 73/2005, verði breytt á þann veg að þeir sem óska eftir ferðaskipuleggjenda- eða ferðaskrifstofuleyfi geti einnig haft búsetu annars staðar á EES-svæðinu. Nauðsynlegt er að áfram verði gert að skilyrði fyrir rekstri ferðaskrifstofu eða ferðaskipuleggjanda innan lands að viðkomandi þurfi að afla sér leyfis Ferðamálastofu. Slíkt er til þess fallið að tryggja gæði þjónustunnar ásamt því að veita neytendum nægjanlegt öryggi. Í þessu felst jafnframt að viðkomandi ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa þarf að leggja fram tryggingar hérlendis, nema hann sýni fram á með fullnægjandi hætti að þær tryggingar sem hann hefur lagt fram í öðru EES-ríki fullnægi skilyrðum íslensku laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagðar eru til tvær breytingar á 9. gr. núgildandi laga.
    Í a-lið er lagt til að búsetuskilyrði laganna verði fellt brott og er það í samræmi við efni frumvarps til laga um þjónustuviðskipti sem byggist á tilskipun 2006/123/EB, en þar er gert ráð fyrir allar hindranir á frjálsum þjónustuviðskiptum verði afnumdar fyrir 28. desember 2009. Lagt er til að búsetuskilyrði takmarkist ekki eingöngu við Ísland heldur að umsækjandi um leyfi hafi búsetu innan EES-svæðisins.
    Í b-lið er lagt til að ferðaskrifstofur eða ferðaskipuleggjendur sem þegar hafa leyfi á EES- svæðinu þurfi ekki að sækja um slíkt leyfi aftur hjá Ferðamálastofu. Hins vegar er lögð sú skylda á þá aðila að þeir tilkynni starfsemi sína til Ferðamálastofu og sýni fram á að þeir uppfylli skilyrði laganna um veitingu leyfa. Lög um alferðir byggja á tilskipun 90/314/EBE um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka. Ástæða þess að lög um alferðir eru nefndar sérstaklega hér er sú að ákvæði þeirra laga hafa það m.a. að markmiði að tryggja hagsmuni neytenda. Telja verður að með því að Ferðamálastofa gangi úr skugga um að ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur á EES-svæðinu sem hyggjast stunda þjónustustarfsemi hér á landi uppfylli að minnsta kosti þær kröfur sem gerðar eru til alferða sé öryggi neytenda tryggt með fullnægjandi hætti.

Um 2. gr.


    Ákvæði núgildandi laga fjallar um mat á upphæð tryggingarfjárhæðar vegna alferða.
    Lögð er til sú breyting á 3. mgr. 18. gr. að áritun samkvæmt ákvæðum laga um ársreikninga dugi í stað endurskoðaðs ársreiknings. Sú breyting stuðlar bæði að einfaldari og ódýrari framkvæmd. Samkvæmt orðasafni Ríkisendurskoðunar felur áritun endurskoðanda (audit report) í sér eftirfarandi: Áritun endurskoðanda eða skoðunarmanns er yfirlýsing hans um reikningsskil. Slíkar áritanir eru annaðhvort án fyrirvara, það er þegar endurskoðandi telur að ársreikningur gefi glögga mynd af afkomu og efnahag stofnunar eða fyrirtækis, eða með fyrirvara, það er þegar hann hefur fyrirvara um einhver atriði sem snerta þessa þætti og lesandi þarf að taka tillit til. Með þessu er ætlað að létta undir með smærri rekstraraðilum enda gera núgildandi lög um ársreikninga, nr. 3/2006, ekki kröfu um að minni rekstraraðilar leggi fram endurskoðaða ársreikninga.
    Vert er að ítreka að það er eftir sem áður á ábyrgð ferðaskrifstofa að senda þau gögn sem lögin kveða á um og að þau séu í samræmi við lög um ársreikninga.
    Í greininni er lagt til að Ferðamálastofu verði ekki lengur skylt heldur heimilt að leita umsagnar endurskoðanda samkvæmt lokamálsliðum 2. og 3. mgr. 18. gr. gildandi laga.

Um 3. gr.


    Ætlunin er að lögin öðlist gildi í upphafi þings þar sem í október eru ferðaskrifstofur að senda gögn inn til Ferðamálastofu og vilji er til þess að sú ívilnandi ákvörðun að áritun ársreiknings dugi til framlagningar taki gildi hið fyrsta. Í frumvarpi til laga um þjónustuviðskipti er lagt til að lögin öðlist gildi 28. desember 2009 í samræmi við 44. gr. tilskipunar 2006/124/EB um þjónustuviðskipti. Þess vegna er lagt til að gildistaka 1. gr. þessa frumvarps taki mið af þeirri dagsetningu.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um skipan ferðamála, nr. 73/2005.

    Markmið frumvarpsins er að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar, einfalda málsmeðferð og lækka kostnað fyrir leyfishafa. Annars vegar felur frumvarpið í sér innleiðingu á tilskipun 2006/123/EB um þjónustuviðskipti en markmið hennar er að fjarlægja ýmsar lagalegar og stjórnsýslulegar hindranir svo að þjónustuveitendur og þjónustuviðtakendur eigi auðveldara með að veita og nýta sér þjónustu yfir landamæri. Hins vegar felur frumvarpið í sér breytingar er snúa að málsmeðferð Ferðamálastofu við mat á fjárhæð tryggingar og framlagningu gagna. Þannig er lögð til sú breyting á 3. mgr. 18. gr. að áritun samkvæmt ákvæðum laga um ársreikninga dugi í stað endurskoðaðs ársreiknings. Sú breyting á að skila einfaldari og ódýrari framkvæmd fyrir leyfishafa.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.