Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 114. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 122  —  114. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um Vestfirði sem vettvang kennslu í sjávarútvegsfræðum og vettvang rannsókna á málefnum hafsins og strandsvæða.

Flm.: Ólína Þorvarðardóttir, Ásbjörn Óttarsson, Ásmundur Einar Daðason,


Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skilgreina Vestfirði sem vettvang kennslu í sjávarútvegsfræðum og vettvang rannsókna á málefnum hafsins og strandsvæða, m.a. á sviði atferlis- og veiðarfærarannsókna og þorskeldis. Skilgreiningin verði höfð til hliðsjónar við ákvarðanir um fjárframlög og stuðning við fyrirtæki og stofnanir á Vestfjörðum. Þetta verði gert í tengslum við þá heildarstefnumótun sem fram undan er af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins í málefnum háskóla landsins og sem liður í því að:
          marka hverjum landshluta sérstöðu í rannsóknum og kennslu, og
          leggja grunn að uppbyggingu og verkaskiptingu á sviði rannsókna og háskólakennslu á landsvísu.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi lýtur að stefnumörkun háskólastarfs í landinu annars vegar og markvissum stuðningi og stefnu fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni hins vegar.
    Mennta- og menningarmálaráðherra hefur boðað heildarendurskoðun á málefnum háskólanna. Slík endurskoðun kallar á skýrari stefnumótun en verið hefur þar sem umsvif háskólastarfsemi hafa aukist ört í landinu undanfarin ár. Við mótun mennta- og rannsóknastefnu háskólastigsins er mikilvægt að horfa til sérstöðu háskólasvæðanna og nýta sem best það atgervi og þær stofnanir sem fyrir eru í hverjum landshluta.
    Þegar taka þarf ákvarðanir í atvinnumálum er einnig mikilvægt að líta til nýsköpunar- og þróunarmöguleika í samstarfi atvinnufyrirtækja og háskólaumhverfisins.
    Á Vestfjörðum hefur nú þegar þróast háskóla- og rannsóknaumhverfi með Háskólasetri Vestfjarða, Rannsókna- og fræðasetrum Háskóla Íslands í Bolungarvík og á Patreksfirði, Vestfjarðaakademíunni, Fræðslumiðstöð Vestfjarða (sem lagði grunn að háskólastarfi á Vestfjörðum fyrir tilkomu Háskólaseturs), útibúi Hafrannsóknastofnunarinnar á Ísafirði, Matís (áður Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins) og fleiri aðilum.
    Atvinnufyrirtæki og sveitarfélög í fjórðungnum sameinuðust fyrir fjórum árum um stofnun Háskólaseturs Vestfjarða ásamt háskólunum í landinu, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og fleirum. Háskólasetrið hefur nú byggt upp námsleið í haf- og strandsvæðastjórnun í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Á sama tíma hefur Hafrannsóknastofnunin á Ísafirði verið að gera merkilegar veiðarfærarannsóknir í samstarfi við Impru á Nýsköpunarmiðstöð og Hraðfrystihúsið Gunnvör og Matís hafa verið með þorskeldistilraunir, auk þess sem ný rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík og á Patreksfirði, Náttúrustofa Vestfjarða og Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands hafa sinnt umhverfis-, snjóflóða- og dýralífsrannsóknum, svo að nokkuð sé nefnt.
    Nú, þegar ákveðið hefur verið að skerpa stefnumótun íslenska háskólastigsins, liggur beinast við að byggja á þeim grunni sem þegar er til orðinn. Þannig væri eðlilegast að miða rannsókna- og fræðastarf á Vestfjörðum við málefni hafsins og strandsvæða almennt. Slík skilgreining mundi efla rannsóknastofnanir á Vestfjörðum og þau atvinnufyrirtæki sem nú þegar sinna rannsóknum og þróunarstarfi.
    Vestfirðir eru náttúruleg rannsóknastofa á sviði sjávarlíffræði, fiskeldisrannsókna, veiðarfærarannsókna, sjávarvistkerfa og stranda, hafstrauma og annarra umhverfisþátta sem tengjast hafinu. Rannsókna- og fræðasetur þau sem fyrir eru hafa góð tök á innbyrðis samstarfi sem og samstarfi við atvinnufyrirtæki í nágrenninu. Má þar nefna vélsmiðjur, rafmagnsverkstæði, sjávarútvegsfyrirtæki (t.d. þorskeldisrannsóknir Hraðfrystihússins Gunnvarar) og hátækniframleiðslu (3X-technology). Þetta þróunar- og rannsóknastarf mætti efla enn frekar og nýta í þágu háskólastigsins og atvinnulífsins á Vestfjörðum.
    Í sóknaráætlun Fjórðungssambands Vestfirðinga sem samþykkt var á síðasta þingi þess er lögð áhersla á aukinn stuðning við þróunar- og nýsköpunarstarf innan sjávarútvegsins, t.d. í fiskeldi, kræklingarækt, sjávartengdri ferðaþjónustu og nýjungum í matvælaframleiðslu. Enn fremur að rekstrargrundvöllur og núverandi námsframboð Háskólaseturs Vestfjarða verði tryggt til framtíðar ásamt nauðsynlegu fjármagni til frekari uppbyggingar nýrra námsbrauta, t.d. í meistaranámi. Þá er skorað á stjórnvöld að tryggja áfram fjármögnun til rannsóknastarfs á Vestfjörðum.
    Í þessu sambandi má einnig minna á að í gildandi byggðaáætlun fyrir Vestfirði er meðal annars litið til nálægðarinnar við auðlindir sjávarútvegsins, fiskimiðin, og lagt til að rannsóknamiðstöð í þorskeldi verði á Vestfjörðum. Sömuleiðis verði atferlis- og veiðarfærarannsóknir starfræktar í samvinnu rannsóknastofnana á Vestfjörðum.
    Þingsályktunartillaga þessi er þannig í góðu samræmi við áður fram komna stefnumótun sveitarfélaga og atvinnulífs.
    Í nágrannalöndum okkar er að finna dæmi þess hvernig öflugar háskóla- og rannsóknastofnanir hafa orðið til á grundvelli skilgreiningar sérstöðu af því tagi sem hér er lögð til. Má til dæmis nefna háskólann í Tromsö, sem hefur skilgreint sig á alþjóðavísu sem miðstöð rannsókna og kennslu í málefnum haf- og strandsvæða á norðurslóð, m.a. varðandi lífríki sjávar, veiðar, vistkerfi, loftslag, vatna- og sjávarlíffræði, lífsskilyrði sjávardýra, fæðuval og fæðuframboð, auðlindastjórnun og umhverfishagfræði svo að nokkuð sé nefnt.