Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 174. máls.

Þskj. 193  —  174. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 2. tölul. 4. mgr. orðast svo: Um afla báta sem eingöngu stunda frístundaveiðar gilda ekki ákvæði laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.
     b.      2. málsl. 6. mgr. orðast svo: Frístundaveiðiskip, sbr. 2. tölul. 4. mgr., sem jafnframt hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni skulu tilkynna Fiskistofu með viku fyrirvara um upphaf og lok tímabils sem skipinu er haldið til veiða í atvinnuskyni.
     c.      3. málsl. 6. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar „33%“ í 3. mgr. kemur: 15%.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra getur að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar hækkað fyrrgreint hlutfall aflamarks í einstökum tegundum telji hann slíkt stuðla að betri nýtingu tegundarinnar.
     c.      Í stað 1. og 2. málsl. 8. mgr. koma þrír nýir málsliðir sem orðast svo: Við línuveiðar dagróðrabáta með línu sem beitt er í landi má landa 20% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra. Einnig er heimilt við línuveiðar dagróðrabáta með línu sem stokkuð er upp í landi að landa 15% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra. Dagróðrabátur telst bátur sem kemur til hafnar til löndunar innan 24 klukkustunda frá því að hann heldur til veiða.
     d.      Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                      Ráðherra getur í reglugerð ákveðið að skylt sé að vinna einstakar tegundir uppsjávarfisks til manneldis. Hlutfall uppsjávarafla einstakra skipa sem ráðstafað er til vinnslu á því tímabili sem ráðherra ákveður skal ekki vera ákveðið hærra en 70%.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 5. mgr. orðast svo: Veiði fiskiskip minna en 50% á fiskveiðiári af úthlutuðu aflamarki sínu og aflamarki sem flutt hefur verið frá fyrra fiskveiðiári, í þorskígildum talið, fellur aflahlutdeild þess niður og skal aflahlutdeild annarra skipa í viðkomandi tegundum hækka sem því nemur.
     b.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Hið sama á við þegar skipi er haldið til veiða utan lögsögu á tegundum sem samið hefur verið um veiðistjórn á og ekki teljast til deilistofna.
     c.      6. mgr. orðast svo:
                      Tefjist skip frá veiðum í fimm mánuði samfellt vegna tjóns eða meiri háttar bilana hefur afli þess fiskveiðiárs ekki áhrif til niðurfellingar aflahlutdeildar samkvæmt þessari grein.
     d.      7. mgr. orðast svo:
                      Á hverju fiskveiðiári er heimilt að flytja af fiskiskipi 50% þess aflamarks sem skipi var úthlutað í þorskígildum talið á grundvelli verðmætahlutfalla einstakra tegunda, sbr. 19. gr. Auk þess er heimilt að flytja frá skipi það aflamark í einstökum tegundum sem flutt hefur verið til skips. Heimilt er Fiskistofu að víkja frá þessari takmörkun á heimild til flutnings á aflamarki vegna varanlegra breytinga á skipakosti útgerða eða þegar skip hverfur úr rekstri um lengri tíma vegna alvarlegra bilana eða sjótjóns, samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.

4. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2010 að undanskildum ákvæðum c-liðar 2. gr. um línuívilnun sem taka gildi 1. mars 2010, ákvæðum 3. gr. sem taka gildi 1. september 2010 og ákvæði til bráðabirgða I sem tekur gildi 15. febrúar 2010.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Á fiskveiðiárunum 2009/2010 og 2010/2011 hefur ráðherra til ráðstöfunar, auk aflaheimilda sem úthlutað er á grundvelli laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, allt að 2.000 lestir af skötusel hvort fiskveiðiár. Aflaheimildum þessum er heimilt að ráðstafa til fiskiskipa sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni. Útgerð á þess kost að fá úthlutað fyrir hvert skip gegn greiðslu gjalds allt að 5 lestum í senn. Fiskistofa annast úthlutun aflaheimildanna. Aflaheimildir sem úthlutað er samkvæmt þessari grein eru ekki framseljanlegar og eru veiðar á skötusel á grundvelli þessara aflaheimilda óheimilar á svæðinu á milli línu réttvísandi suður úr Krísuvíkurbergsvita 63°49´8 N og 22°04´2 V og línu réttvísandi suðaustur úr Hvítingum (grp. 18) 64°23´9 N og 14°28´0 V. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
    Verð á aflaheimildum skötusels er 120 kr. hvert kg og skal það greitt Fiskistofu fyrir úthlutun. Tekjur af aflaheimildum skulu renna í ríkissjóð og skal þeim ráðstafað á þann veg að 40% þeirra renni í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs og 60% renni í byggðaáætlun með það að markmiði að stuðla að atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum.

II.

    Frá og með fiskveiðiárinu 2010/2011 skal skipta leyfilegum heildarafla í karfa upp í gullkarfa og djúpkarfa. Skal aflahlutdeild hvers fiskiskips í hvorri tegund í upphafi fiskveiðiársins 2010/2011 vera hin sama og hún hefði að óbreyttum lögum orðið í karfa.

III.

    Þrátt fyrir ákvæði 1.–2. málsl. 5. mgr. 15. gr. laganna skal úthlutað aflamark í úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2009/2010 ekki leiða til þess að fiskiskip missi aflahlutdeild í úthafsrækju eða öðrum tegundum.

IV.

    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 11. gr. laganna, sbr. a-lið 2. gr. laga þessara, er á fiskveiðiárinu 2009/2010 einungis heimilt að flytja allt að 10% af aflamarki hverrar botnfisktegundar og aflamarki úthafsrækju, humars og síldar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og felur í sér nokkrar breytingar á löggjöf er varðar stjórn fiskveiða. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir endurskoðun þeirra laga er lúta að fiskveiðistjórnun og hefur verið sett á laggirnar sérstök nefnd sem að því vinnur og í sitja fulltrúar stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila. Auk þess eru í stjórnarsáttmálanum tilgreind atriði sem ríkisstjórnin telur til brýnna aðgerða á þessu sviði og tekur frumvarp þetta m.a. til nokkurra þeirra þátta. Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu þessu eru:
     1.      Heimilað verði að stunda veiðar í atvinnuskyni á sama tímabili og frístundaveiðar eru stundaðar.
     2.      Dregið úr heimild til að flytja aflamark milli fiskveiðiára úr 33% í 15%.
     3.      Línuívilnun aukin.
     4.      Heimild til að kveða á um vinnsluskyldu á uppsjávarfiski.
     5.      Svokölluð veiðiskylda aukin en í því sambandi tekið tillit til veiða utan lögsögu úr stofnum sem ekki teljast til deilistofna.
     6.      Heimild til flutnings aflamarks frá skipi takmörkuð.
     7.      Bráðabirgðaákvæði er lýtur að veiðistjórnun á skötusel og gjaldtöku fyrir úthlutun aflamarks.
     8.      Skipting leyfilegs heildarafla í karfa.
    Með frumvarpinu eru heimildir útgerða sem stunda frístundaveiðar, og þurfa að eiga aflaheimildir, rýmkaðar þannig að þeim skipum sem einnig hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni verði eftirleiðis heimilt innan sama fiskveiðiárs að stunda frístundaveiðar og veiðar í atvinnuskyni. Frá upphafi kvótakerfisins hefur verið að finna ákvæði í lögum sem heimilar að ákveðið hlutfall aflaheimilda sé flutt á milli fiskveiðiára. Á síðasta ári var heimild þessi hækkuð úr 20% í 33% af aflamarki hverrar botnfisktegundar, úthafsrækju, humars og síldar. Á þeim tíma bentu útgerðarmenn m.a. á mikilvægi þess að geta flutt ýsu á milli fiskveiðiára þar sem líklegt væri að aflaheimildir í ýsu mundu dragast saman. Nú er lagt til að heimild til flutnings aflaheimilda milli ára verði lækkuð í 15%. Það er talið nægilegt til að ná markmiðum um hagkvæma nýtingu fiskistofna og til að hafa nauðsynlegan sveigjanleika í kerfinu, enda er gert ráð fyrir að ráðherra hafi heimild til að hækka hlutfallið verði það talið stuðla að betri nýtingu tegundar. Lagt er til að svokölluð veiðiskylda verði aukin þannig að miðað verði við að 50% af aflamarki skips sé nýtt með veiðum þess á hverju fiskveiðiári í stað þess að láta duga að það sé gert annað hvert ár eins og kveðið er á um í núgildandi lögum. Auk þess er veiðiskyldan látin ná til aflamarks sem flutt hefur verið frá fyrra fiskveiðiári.
    Samkvæmt núgildandi lögum er óheimilt að flytja frá skipi meira en sem nemur 50% úthlutaðs aflamarks í þorskígildum talið nema þegar breyting hefur orðið á skipakosti útgerðar eða skip hefur horfið úr rekstri um lengri tíma vegna alvarlegra bilana eða sjótjóns. Framkvæmdin hefur í einhverjum tilvikum verið sú að aflamark hefur verið flutt til skips í þeim tilgangi að auka svigrúmið til að flytja úthlutað aflamark frá skipi. Til að stuðla að því að aflaheimildir séu nýttar til veiða er lagt til að einungis verði heimilt að flytja af fiskiskipi 50% þess aflamarks sem skipi var úthlutað, í þorskígildum talið. Enn fremur er lagt til að framvegis verði að koma til varanleg breyting á skipakosti til að breyting á skipakosti leiði til aukinnar flutningsheimildar aflamarks. Með varanlegri breytingu á skipakosti er átt við þau tilvik þegar útgerð selur skip sitt, útgerð kaupir til sín skip og gerir út og þegar skip er tekið af skipaskrá.
    Með frumvarpi þessu er enn fremur lögð til breyting á ákvæði laganna sem snýr að línuívilnun, þ.e. þeirri reglu að afli sem veiddur er á línu reiknast ekki, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að fullu til aflamarks hlutaðeigandi báts. Samkvæmt núgildandi lögum nær línuívilnun einungis til afla sem veiðist á línu sem beitt hefur verið í landi en í frumvarpi þessu er lagt til að sé lína stokkuð upp í landi taki ívilnunarregla einnig til þess afla sem á hana veiðist. Þó er gert ráð fyrir að sé lína beitt í landi verði ívilnunin meiri en þegar línan er stokkuð upp og byggist það á því að beiting línu í landi skapar þar fleiri störf.
    Að lokum er gert ráð fyrir að sett verði í lög ákvæði sem heimilar ráðherra að skylda útgerðir skipa er stunda veiðar á uppsjávarfiski til að vinna hluta aflans. Gert er ráð fyrir að ráðherra verði heimilt, með reglugerð, að kveða á um vinnsluskyldu makríls, síldar, norsk- íslenskrar síldar, loðnu og kolmunna þegar fyrir liggur að viðkomandi tegund er hæf til vinnslu. Er þetta gert í þeim tilgangi að tryggja betur að hámarksverðmæti fáist við nýtingu þeirra stofna þannig að fiskur fari ekki til bræðslu þegar hann er vel hæfur til manneldis.
    Í ljósi þess að útbreiðsla skötusels hefur breyst verulega frá því að aflaheimildum var úthlutað á grundvelli veiðireynslu og skötuselur hefur í auknum mæli verið að veiðast sem meðafli hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra boðað að breytingar verði gerðar á lögum í því skyni að auka aðgengi útgerðarmanna að aflaheimildum í skötusel. Með vísan til þessa er lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða sem heimilar ráðherra á fiskveiðiárunum 2009/2010 og 2010/2011 sérstaka ráðstöfun á allt að 2.000 lestum af skötusel án þess að þeim verði úthlutað á grundvelli aflahlutdeilda í tegundinni. Gert er ráð fyrir að útgerðum skipa sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni verði heimilað að sækja um að fá hluta af þeim aflaheimildum gegn greiðslu gjalds sem rennur í ríkissjóð. Tekjur af aflaheimildum verði ráðstafað á þann veg að 40% þeirra renni í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs og 60% renni í byggðaáætlun með það að markmiði að stuðla að atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum. Með þessu móti er verið að gera útgerðum betur kleift að fá aflaheimildir í skötusel enda verði þær einungis nýttar með veiðum hlutaðeigandi skips.
    Þá eru bráðabirgðaákvæði sem varða skiptingu úthlutunar karfaaflaheimilda í gullkarfa og djúpkarfa og ákvæði sem kveður á um að úthlutað aflamark í úthafsrækju leiði ekki til þess að fiskiskip missi aflahlutdeild í úthafsrækju eða öðrum tegundum, en samhljóða ákvæði hefur verið í gildi síðastliðin fjögur fiskveiðiár.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er svonefndum frístundaveiðiskipum heimilað að stunda almennar veiðar í atvinnuskyni á sama fiskveiðiári og frístundaveiðar. Það er skilyrði að skip hafi leyfi til veiða í atvinnuskyni og tilkynni Fiskistofu með viku fyrirvara um upphaf og lok hvers tímabils sem skipi er haldið til veiða í atvinnuskyni. Því eru afnumin ákvæði laga er lúta að takmörkunum hvað þetta varðar. Í samræmi við þetta eru það einungis útgerðir skipa sem stunda frístundaveiðar eingöngu sem undanþegnar eru ákvæðum laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sem lúta að gerð samnings útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum.

Um 2. gr.

    Fjórar breytingar eru gerðar á 11. gr. laganna. Í a-lið er svokallaður geymsluréttur minnkaður þannig að framvegis verður heimilt að flytja allt að 15% af aflamarki hverrar botnfisktegundar, úthafsrækju, humars og síldar á milli ára í stað 33% sem heimilt var að flytja af fiskveiðiárinu 2008/2009 yfir á fiskveiðiárið 2009/2010.
    Í b-lið er lagt til að ráðherra hafi heimild til að víkja frá hlutfalli aflamarks sem heimilt er að flytja á milli fiskveiðiára þannig að það verði hækkað þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Hér er vísað til mikilvægis þess að hægt sé að rýmka þessa heimild þegar staðan er þannig að takmarkaður leyfilegur heildarafli í tiltekinni tegund hefur þau áhrif að ekki er mögulegt að fullnýta aflaheimildir í annarri tegund líkt og átti sér stað á fiskveiðiárinu 2007/2008 með ýsu.
    Í c-lið er lögð til breyting á ákvæðum laganna sem lúta að línuívilnun. Gert er ráð fyrir að línuívilnun í þorski, ýsu og steinbít hjá bátum sem nota landbeitta línu verði aukin úr 16% í 20% umfram þann afla sem reiknast til aflamarks. Þá er gert ráð fyrir að sé lína stokkuð upp í landi verði línuívilnun einnig látin ná til þess afla sem á hana veiðist og megi landa 15% umfram þann afla sem reiknast til aflamarks í sömu tegundum. Afnumið er það skilyrði að bátar verði að koma til sömu hafnar til löndunar og haldið var til veiða frá.
    Í d-lið er kveðið á um heimild ráðherra til að skylda útgerðir skipa sem stunda veiðar á uppsjávarfiski til að vinna allt að 70% aflans til manneldis. Miðað er við að ráðherra geti á ákveðnu tímabili kveðið á um vinnsluskyldu tiltekinnar tegundar og ber honum að taka mið af ástandi fisksins á hverjum tíma með það að markmiði að hámarka verðmæti aflans. Aflanum skal landað til vinnslu eða hann unninn um borð í vinnsluskipi.

Um 3. gr.

    Fjórar breytingar eru gerðar á 15. gr. laganna. Í a-lið er að finna ákvæði sem kveður á um að fiskiskipum beri á hverju fiskveiðiári að veiða sem nemur 50% af úthlutuðu aflamarki sínu í þorskígildum talið og auk þess aflamark sem flutt hefur verið á milli fiskveiðiára, ella fellur aflahlutdeild skips niður.
     B-liður. Samkvæmt núgildandi lögum lækkar svokölluð veiðiskylda um 5% fyrir hverja fulla 30 daga sem skipi er haldið til veiða utan fiskveiðilandhelgi Íslands á fiskveiðiárinu á þeim tegundum sem ekki hefur verið samið um veiðistjórn á. Veiðistofnar sem veiðast innan og utan íslensku lögsögunnar, deilistofnar, falla undir veiðiskyldu og veiðar á þeim, hvort sem er innan eða utan lögsögunnar, telja því til veiða samanlagðs aflamarks skips skv. 1. málsl. 5. mgr. 15. gr. Breytingin skv. b-lið felur í sér að reglan um lækkun viðmiðunarhlutfalls aflamarks sem gildir um veiðar utan lögsögu, í tegundum sem ekki hefur verið samið um veiðistjórn á, er jafnframt látin taka til þeirra tegunda sem ekki teljast til deilistofna og samið hefur verið um. Er þetta gert til að koma til móts við útgerðir skipa sem stunda veiðar utan lögsögu verulegan hluta ársins og eiga þar með erfiðara með að uppfylla skilyrði um veiðar.
     C-liður. Núgildandi lög gera ráð fyrir að tafir frá veiðum í sex mánuði eða lengur innan sama fiskveiðiárs vegna tjóns eða meiri háttar bilana leiði til þess að afli þess fiskveiðiárs hafi ekki áhrif til niðurfellingar aflahlutdeildar skv. 5. mgr. 15. gr. laganna. Gerð er sú breyting á þessu ákvæði að framvegis gildi sama regla þegar skip hefur tafist frá veiðum í fimm mánuði samfellt, þannig að mánuðum er fækkað um einn og tímabilið getur spannað tvö fiskveiðiár.
     D-liður. Útgerðir hafa getað aukið heimild sína til flutnings aflamarks frá skipi með því að flytja til sín aðrar tegundir og með þeim hætti flutt frá sér meira en 50% af upphaflegu aflamarki skips. Nú er gerð sú breyting á heimild til flutnings aflamarks að heimildin er takmörkuð við 50% þess aflamarks sem skipi er úthlutað þannig að óheimilt er að flytja af skipi meira en helming aflamarks í þeim tegundum sem skipi var úthlutað á grundvelli aflahlutdeildar í þorskígildum talið. Eftir sem áður er heimilt að flytja frá skipi allt aflamark sem flutt hefur verið til þess.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Hér er ráðherra veitt sérstök heimild til að ráðstafa gegn greiðslu tilteknum aflaheimildum í skötusel á fiskveiðiárunum 2009/2010 og 2010/2011. Útgerðir skipa sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni eiga þess kost að fá aflamark í skötusel. Veiðar samkvæmt heimildum þessum eru ekki leyfðar á upphaflegri veiðislóð skötusels á svæði við Suðurland.
    Hvert skip getur að hámarki fengið 5 lestir af skötusel hverju sinni. Unnt er að sækja um minna magn. Fiskistofa annast úthlutun aflaheimilda samkvæmt þessari grein. Ráðherra setur reglur um framkvæmd ákvæðisins, svo sem um úthlutun aflaheimilda og frekara fyrirkomulag veiðanna, en tryggja þarf að fyrir liggi hvort veiðar séu stundaðar á skötusel sem úthlutað er samkvæmt ákvæði þessu eða skötusel sem úthlutað hefur verið á grundvelli aflahlutdeildar.
    Verð á aflaheimildum er 120 kr. hvert kg sem er í samræmi við meðaltalsverð á aflamarki í skötusel síðustu 18 mánaða fyrir upphaf fiskveiðiársins 2009/2010. Greiðsla fyrir aflaheimildir skal innt af hendi fyrir úthlutun aflamarks. Er við það miðað að tekjur þessar renni í ríkissjóð. Þá er gert ráð fyrir að ríkissjóður útdeili þessum tekjum, annars vegar í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs, sbr. lið 04-417-1.10 á fjárlögum 2009 (40%) og hins vegar í byggðaáætlun, sbr. lið 11-401-1.10 á fjárlögum 2009, þar sem markmiðið er að með styrkjum verði stuðlað að atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Allt frá upphafi kvótakerfisins árið 1984 hefur úthlutun aflaheimilda í karfa tekið til tveggja tegunda karfa, þ.e. djúpkarfa og gullkarfa. Hafrannsóknastofnunin hefur í nokkur ár lagt til í ráðgjöf sinni að aflamarki í gullkarfa og djúpkarfa verði úthlutað aðskildu. Þann 14. nóvember 2008 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp sem ætlað var að gera tillögur um reglur við framkvæmd skiptingar á heildaraflamarki fyrir gull- og djúpkarfa. Var hópurinn skipaður fulltrúum Landssambands íslenskra útvegsmanna, Hafrannsóknastofnunarinnar og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Lagt er til að hvert skip fái sömu aflahlutdeild í gullkarfa og djúpkarfa og aflahlutdeild þess hefði verið í karfa. Yrði þannig aflahlutdeild í gullkarfa og djúpkarfa hin sama. Er hér lagt til að tillögu nefndarinnar verði fylgt. Hópurinn skilaði tillögum sínum til ráðherra með bréfi, dags. 12. desember 2008. Ákvæði þessa efnis var lagt fram á síðasta þingi og er nú lagt fram á ný óbreytt.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.

    Verið er að takmarka heimild til flutnings aflamarks frá yfirstandandi fiskveiðiári yfir á það næsta. Í ljósi aðstæðna er talið mikilvægt að stuðla að því að aflamark þessa árs verði veitt.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að svonefndum frístundafiskiskipum verði heimilað að stunda almennar veiðar í atvinnuskyni á sama tímabili og frístundaveiðar. Þá er gert ráð fyrir að heimild til að flytja aflamark milli fiskveiðiára verði lækkuð úr 33% í 15% þar sem reynslan sýnir, að mati sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, að það sé nægilegt til að ná markmiðum um hagkvæma nýtingu fiskistofna og sveigjanleika í kerfinu. Lagt er til að reglur um línuívilnun verði rýmkaðar að því leyti að afli sem veiddur er á línu reiknist ekki, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að fullu til aflamarks hlutaðeigandi báts. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt með reglugerð að kveða á um vinnsluskyldu makríls, síldar, norsk- íslenskrar síldar, loðnu og kolmunna þegar fyrir liggur að viðkomandi tegund er hæf til vinnslu. Einnig er lagt til að miðað verði við að 50% af aflamarki skips sé nýtt með veiðum þess á hverju fiskveiðiári í stað annars hvers ár samkvæmt núgildandi lögum.
    Í ákvæði til bráðabirgða er meðal annars lagt til að fiskveiðiárin 2009/2010 og 2010/2011 hafi ráðherra til sérstakrar ráðstöfunar hvort ár um sig allt að 2.000 lestir af skötusel án þess að þeim verði úthlutað á grundvelli aflahlutdeilda í tegundinni heldur gegn greiðslu gjalds. Lagt er til að gjaldið verði 120 kr. á hvert úthlutað kíló aflamarks í skötusel sem er það sama og meðalverð sem tilkynnt hefur verið Fiskistofu við millifærslu á aflamarki í skötusel síðustu 18 mánuði. Gert er ráð fyrir að Fiskistofa annist innheimtu og skulu tekjur af gjöldunum renna í ríkissjóð. Gert er ráð fyrir að í fjárlögum verði veitt framlag til Rannsóknasjóðs til að auka verðmæti sjávarfangs sem svari til 40% af tekjunum og að Byggðaáætlun fái framlag sem svari til 60% af tekjunum. Markmiðið með þessari ráðstöfun er að stuðla að atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs muni aukast um allt að 240 m.kr. fyrir hvort fiskveiðiárið 2009/2010 og 2010/2011 vegna innheimtu gjalda við ráðstöfun á allt að 2.000 lestum af skötusel. Ekki liggur fyrir áætlun um hvernig tekjurnar gætu fallið til miðað við almanaksár. Verði veitt framlög til framangreindra verkefna sem nemur öllum áætluðum tekjum munu útgjöld ríkissjóðs samkvæmt þessari áætlun aukast um allt að 240 m.kr. vegna hvors fiskveiðiársins eða samtals um 480 m.kr. á u.þ.b. tveggja ára tímabili. Afkoma ríkissjóðs væri óbreytt eftir sem áður. Þá er gert ráð fyrir að gera þurfi einhverjar breytingar á hugbúnaði Fiskistofu sem áætlað er að geti kostað um 1 m.kr. Gert er ráð fyrir að sá kostnaður muni rúmast innan fjárheimilda stofnunarinnar.