Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 274. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 441  —  274. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um Ábyrgðasjóð launa, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um málefni aldraðra og lögum um húsnæðismál, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ágúst Þór Sigurðsson, Hönnu S. Gunnsteinsdóttur, Sturlaug Tómasson, Vilborgu Ingólfsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Sigríði Lillý Baldursdóttur, Rögnu Haraldsdóttur og Runólf Pétursson frá Tryggingastofnun ríkisins, Gissur Pétursson og Unni Sverrisdóttur frá Vinnumálastofnun, Guðmund Bjarnason frá Íbúðalánasjóði, Karl Björnsson og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Stellu K. Víðisdóttur frá Reykjavíkurborg, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Ragnar Árnason og Jón H. Magnússon frá Samtökum atvinnulífsins, Sonju Ýri Þorbergsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna, Þórð Hjaltested frá Kennarasambandi Íslands, Guðríði Ólafsdóttur og Guðmund Magnússon frá Öryrkjabandalaginu, Helga Hjálmsson og Valgerði H. Jónsdóttur frá Landssambandi eldri borgara, Unnar Stefánsson, Sigurð Einarsson og Kristjönu H. Guðmundsdóttur frá Félagi eldri borgara og Friðrik Sigurðsson frá Þroskahjálp. Umsagnir bárust nefndinni frá Velferðarvaktinni, Alþýðusambandi Íslands, Jafnréttisráði, Samtökum fjármálafyrirtækja, Þroskahjálp, Jafnréttisstofu, Tryggingastofnun ríkisins, Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri, Stúdentafélagi Hólaskóla, Nemendafélagi Landbúnaðarháskóla Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.

Ákvæði frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á sex lögum. Umfangsmestar eru breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007. Í fyrsta lagi er lagt til að valdsvið úrskurðarnefndar almannatrygginga verði rýmkað. Í öðru lagi að hámarksfrestur úrskurðarnefndarinnar verði lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá. Í þriðja lagi verði kveðið á um aðfararhæfi endurkrafna ofgreiddra bóta. Í fjórða lagi verði örorkulífeyrir greiddur frá 18 ára aldri í stað 16 ára sem hafi þó ekki áhrif á þá sem þegar fá greiddan lífeyri en hafa ekki náð 18 ára aldri. Í fimmta lagi að heimilt verði að greiða bætur í einu lagi eftir á óski bótaþegi þess og í sjötta lagi er lagt til að breytingar verði gerðar á reglum um innheimtu ofgreiddra bóta.
    Þeim breytingum sem lagðar eru til á lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, er m.a. ætlað að styrkja ríkjandi framkvæmd og veita henni skýra lagastoð. Þá eru lagðar til breytingar á ákvæði um heimild til greiðslu barnalífeyris ef annar foreldra eða báðir eru látnir sem og ef annar foreldra eða báðir eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar. Önnur veigamikil breyting sem lögð er til er að heimilt verði að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði á grundvelli endurhæfingaráætlunar auk þess sem m.a. er ekki lengur skilyrði lífeyrisins að á undan hafi verið greiddir sjúkradagpeningar eða slysadagpeningar. Þá er lagt til að ákvæði um sérstaka uppbót á lífeyri taki breytingum í samræmi við framkvæmd og ákvæði reglugerðar. Einnig er lagt til að það tímabil sem þarf að líða milli greiðslna uppbóta og styrkja til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða verði lögfest en það er fimm ár samkvæmt reglugerð.
    Á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, eru lagðar til þær breytingar að kröfur lífeyrissjóða um lífeyrisiðgjöld í sjóðinn beri vexti til jafns við aðrar kröfur tengdar launum. Þá er lagt til að ábyrgðagjald í sjóðinn hækki úr 0,2% í 0,25% af gjaldstofni. Með þessu er verið að hverfa frá breytingum sem gerðar voru á lögunum og tóku gildi 1. júlí 2009.
    Lagt er til að við lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, bætist ákvæði til bráðabirgða sem ætlað er að fresta greiðslum vegna þriðja sameiginlega mánaðar foreldra í orlofi þar til 36 mánuðir eru liðnir frá fæðingu barns eða frá því að barn kom inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur. Ákvæðin eiga að gilda frá 1. janúar 2010 til 31. desember 2011.
    Í V. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um málefni aldraðra, nr. 152/ 1999. Er þeim ætlað að hækka framlag í Framkvæmdasjóð aldraðra, lagfæra orðalag ákvæðis um heimild Tryggingastofnunar til að halda eftir greiðslum vistunarframlags til daggjaldastofnunar og framlengja ákvæði um leiðréttingu kostnaðarþátttöku vistmanns í vistunarframlagi. Að auki er lagt til að Framkvæmdasjóði aldraðra verði veitt heimild til að verja fé úr sjóðnum til reksturs hjúkrunarrýma fyrir aldraða rekstrarárin 2012–2013.
    Að síðustu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, sem er ætlað að veita Íbúðalánasjóði heimild til að lána sveitarfélögum fyrir allt að 100% af framkvæmdakostnaði við kaup eða byggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin hefur fjallað um málið á fundum sínum og kynnt sér þær breytingar sem í því felast auk þess sem nefndin hefur kynnt sér sjónarmið hinna ýmsu hagsmunahópa og aðila til frumvarpsins. Meiri hlutanum er ljóst að mikilvægt er að ljúka ákveðnum hluta frumvarpsins fyrir áramót vegna tengsla við fjárlagafrumvarp. Í því eru þó ákvæði sem hafa verið umdeild og gagnrýnd harðlega í samfélaginu. Hefur nefndin varið talsverðum tíma í að kynna sér sjónarmið aðila og leita lausna sem eru sársaukaminnstar í þeim niðurskurði sem gera þarf í ríkisfjármálum. Meiri hlutinn áréttar að þó að reynt sé að gæta að rétti þeirra sem hvað minnst hafa verður að draga úr útgjöldum ríkissjóðs og er ekki hægt að skorast undan þeirri niðurskurðarkröfu sem gerð er. Meiri hlutinn leggur þó áherslu á að þær ráðstafanir sem gripið er til séu tímabundnar og gangi til baka þegar aðstæður í ríkisfjármálum leyfa. Í frumvarpinu eru þó jafnframt ákvæði sem ríkir almenn sátt um, eru ívilnandi, ætluð til skýringar eða styrkja lagastoð framkvæmdar.

Breytingar á lögum um almannatryggingar.
    Í I. kafla frumvarpsins er m.a. lagt til að valdsvið úrskurðarnefndar almannatrygginga verði rýmkað og sá tími sem hún hefur til að kveða upp úrskurði sína verði lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá. Þeim sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni að þrír mánuðir mundu ekki duga úrskurðarnefndinni til að vinna mál sín, málafjöldi væri nú þegar mjög mikill og miklar tafir á úrskurðum frá henni. Meiri hlutinn telur þó nauðsynlegt að réttaróvissu varðandi valdsvið úrskurðarnefndarinnar verði eytt og áréttar mikilvægi þess að fleiri eigi greiða leið að henni. Þrátt fyrir mikið álag á úrskurðarnefndinni virðist hún sátt við útfærslu valdsviðs og að málafjöldi verði aukinn. Telur meiri hlutinn því ekki rétt að standa í vegi fyrir þeim réttarbótum sem ákvæðinu fylgja en telur þó mikilvægt að starfsemi úrskurðarnefndarinnar verði skoðuð nánar, málafjöldi hennar kannaður sem og meðalafgreiðslutími með það fyrir augum að gera þær breytingar á starfsemi hennar sem þörf er á. Kemur þar m.a. til álita að mati meiri hlutans að skoðuð verði sameining við aðrar úrskurðarnefndir sem heyra undir félags- og tryggingamálaráðherra.
    Nefndin ræddi sérstaklega þær breytingar sem lagðar eru til á aldursviðmiði örorkubóta að því verði breytt úr 16 ára aldri í 18 ára aldur. Í barnaverndarlögum, nr. 80/2002, er skýrt kveðið á um að einstaklingar undir 18 ára aldri séu börn og er það í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem til stendur að lögfesta. Þá er í mörgum lagaákvæðum miðað við 18 ára aldurinn, m.a. verða einstaklingar lögráða og fjárráða 18 ára og barnabætur, umönnunarbætur og meðlagsgreiðslur fást greiddar vegna barns til 18 ára aldurs þess. Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið og telur meiri hlutinn rétt að leitað verði eftir því að samræma aldursviðmið í lögum almennt og telur eðlilegt að skoðað verði að gera slíkt við lögfestingu barnasáttmálans. Ljóst er að þær bætur sem foreldrar fá vegna langveiks eða fatlaðs barns eru lægri en örorkubætur sem einstaklingur fær og því þarf að gæta að því að breytingin verði ekki til þess að of þungar byrðar verði lagðar á fjölskyldur langveikra og fatlaðra barna. Almenn sátt virðist þó vera um ákvæðið, m.a. meðal hagsmunahópa, svo sem Öryrkjabandalags Íslands og Þroskahjálpar.
    Heildarendurskoðun á greiðslum til foreldra langveikra og fatlaðra barna stendur fyrir dyrum, bæði hvað varðar umönnunargreiðslur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og greiðslur til foreldra samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Nefndinni hefur verið tjáð að sú endurskoðun verði unnin í samráði við hagsmunasamtök þeirra foreldra sem hér um ræðir og þar verði tekið á öllum þeim þáttum sem lúta að málefnum langveikra og fatlaðra barna, svo sem umönnun, kostnaði og vinnutapi foreldra. Meiri hlutinn telur rétt að þeirri endurskoðun verði hraðað eftir föngum og lagðar til breytingar sem tryggja að heildstætt sé tekið á málefnum þessa hóps.
    Í c-lið 7. gr. frumvarpsins er lagt til að greiði lífeyrisþegar ekki ofgreiddar bætur til baka á 12 mánuðum eftir að krafa stofnaðist leggist 5,5% vextir á eftirstöðvar kröfunnar. Í athugasemdum með greininni kemur fram að ákvæðinu sé ætlað að vera hvati fyrir einstaklinga til að endurgreiða fjárhæð sem þeir hafa fengið ofgreidda. Á fundum nefndarinnar kom fram að hér væri um lítinn hóp að ræða og oft einstaklinga sem fengju litlar bætur vegna tiltölulega hárra tekna utan kerfisins eða væru jafnvel komnir út úr kerfinu og því væri erfitt að draga ofgreiðslu af bótagreiðslum. Þá var nefndinni tjáð að um 90% ofgreiddra bóta væri hægt að skuldajafna en kröfur vegna ofgreiddra bóta námu um 1,7 milljörðum kr. á síðasta ári. Hér er því um verulegar fjárhæðir að ræða. Í lokamálslið ákvæðisins er kveðið á um að heimilt sé að falla frá kröfu um vexti ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi og telur meiri hlutinn rétt að vextir verði einnig felldir niður hafi einstaklingur samið við Tryggingastofnun um endurgreiðslu ofgreiddra bóta, þó svo greiðslur samkvæmt þeim samningi standi lengur en 12 mánuði. Standi einstaklingur ekki við samning sinn um endurgreiðslur verði þó heimilt að leggja vexti á eftirstöðvar kröfunnar í samræmi við ákvæðið.
    Í frumvarpinu er lagt til að frítekjumark vegna atvinnutekna haldist óbreytt við útreikning tekjutryggingar örorkulífeyrisþega. Að auki er lagt til að bætur almannatrygginga og meðlagsgreiðslur hækki ekki í takt við launaþróun eða verðlagsþróun eins og kveðið er á um í 69. gr. laganna. Er það í samræmi við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010 en þar er kveðið á um að ekki komi til hækkana á launum ríkisstarfsmanna eða á grunnfjárhæðum bótakerfanna, svo sem almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, barnabótum, vaxtabótum og fæðingarorlofsgreiðslum. Við núverandi aðstæður í ríkisfjármálum og vegna annarra nýrra en óhjákvæmilegra útgjaldaskuldbindinga, sem leiða til mikillar skuldasöfnunar, hefur ríkið ekki bolmagn til slíkra hækkana, enda mundi það hafa í för með sér viðbótarútgjöld sem næmu ríflega 11 milljörðum kr. ef miðað er við verðbólguspá frumvarpsins og 3% launahækkun. Hér er um að ræða heildstæða ráðstöfun sem ljóst má vera að verður ekki gripið til nema af brýnni nauðsyn því að það mun óhjákvæmilega leiða til skerðingar kaupmáttar hjá þessum fjölmennu hópum, en jafnt mun yfir alla ganga. Í því sambandi þarf þó einnig að horfa til þess að bótaþegar sem eru með hámarkstryggingu fengu 20% hækkun um síðustu áramót og aðrir bótaþegar fengu tæplega 10% hækkun.
    Meiri hlutinn áréttar að mikilvægt sé að verja þennan hóp fyrir niðurskurði en bendir jafnframt á að bætur eru ekki lækkaðar auk þess sem ákvæði um frítekjumark vegna atvinnuþátttöku öryrkja er framlengt. Þá áréttar meiri hlutinn að um bráðabirgðaákvæði er að ræða og að lagafrumvarp um breytingar á almannatryggingakerfinu, sem byggist á heildarendurskoðun sem hefur farið fram frá árinu 2007, verði væntanlega lagt fram á vorþingi 2010.

Breytingar á lögum um félagslega aðstoð.
    Almenn sátt virðist ríkja um þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um félagslega aðstoð. Þar eru lagðar til ívilnandi breytingar á greiðslu barnalífeyris vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18–20 ára. Í gildandi lögum er eingöngu heimilt að greiða einfaldan barnalífeyri og er lagt til að sú regla verði felld brott þannig að séu skilyrði ákvæðisins fyrir hendi vegna beggja foreldra sé heimilt að greiða tvöfaldan barnalífeyri. Ungmenni getur því fengið greiddan tvöfaldan barnalífeyri hafi það misst báða foreldra sína, annað foreldra er látið og hitt er örorkulífeyrisþegi eða báðir foreldrar eru öryrkjar eða geta ekki greitt framlag til menntunar eða starfsþjálfunar vegna efnaleysis.
    Önnur veigamikil breyting sem lögð er til er að heimilt verði að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði á grundvelli endurhæfingaráætlunar auk þess sem m.a. er ekki lengur skilyrði lífeyrisins að áður hafi verið greiddir sjúkradagpeningar eða slysadagpeningar. Meiri hlutinn er fylgjandi þessari breytingu og telur hana í anda þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru á örorkumatskerfinu. Samkvæmt þeim á að leggja áherslu á starfsgetu einstaklinga og starfsendurhæfingu þeirra fremur en vangetu til starfa og að örorkumat verði þannig starfsgetumat sem taki mið af getu einstaklinga. Hér er um stórt hagsmunamál að ræða sem stuðlað getur að bættum kjörum örorkulífeyrisþega og virkari þátttöku þeirra í samfélaginu. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að frumvarp um nýtt kerfi verði lagt fram sem fyrst.
    
Breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof.
    Í IV. kafla laganna eru lagðar til breytingar á fæðingar- og foreldraorlofi. Hörð gagnrýni hefur komið fram á breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og ber þar hæst sjónarmið um mikilvægi þess að börn njóti samvista við foreldra sína sem lengst. Margir umsagnaraðilar bentu á að varast skyldi að skerða þann tíma sem börn hefðu til samvista við foreldra sína á mikilvægum tíma í mótunarskeiði þeirra og að með þessari breytingu væri réttur barna einstæðra mæðra til samvista við foreldra í ákveðnum tilfellum skertur niður í fimm mánuði. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og bendir jafnframt á að tillagan feli ekki í sér sparnað heldur frestun á útgjöldum ríkissjóðs um 3–4 ár. Ekki telst raunhæft að ætla að staða ríkissjóðs veiti svigrúm til að auka útgjöld vegna fæðingarorlofs sem óhjákvæmilega hlýst af því að frestaðir mánuðir bætast við útgjöld vegna fæðingarorlofs á árunum 2013 og 2014.
    Samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2010 er gert ráð fyrir að draga úr útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs um 1.200 millj. kr. Það er sú fjárhæð sem vantar í sjóðinn til að hann geti staðið undir áætluðum útgjöldum ársins 2010.
    Meiri hlutinn leggur til að í stað þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu skuli mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skv. 3. mgr. 13. gr. aldrei nema hærri fjárhæð en 300.000 kr. Þá leggur meiri hlutinn til að hlutfall af meðaltali launa og reiknaðs endurgjalds sem kveðið er á um í 2. mgr. 13. gr. verði óbreytt, 80%, fyrir þann hluta launa sem er undir 200.000 kr. og 75% fyrir laun umfram 200.000 kr. Sömu reglur gildi um sjálfstætt starfandi einstaklinga. Þannig er þrep sett inn í fæðingarorlofskerfið. Meiri hlutinn velur að leggja til blandaða leið, þ.e. að lækka bæði hámarksgreiðslur og hlutfall launa af launum umfram 200.000 kr. Ef hlutfallið hefði verið óbreytt hefði þurft að lækka mánaðarlegar greiðslur mun meira og ef hámarksfjárhæðin hefði verið óbreytt hefði hlutfallið þurft að lækka meira. Með þessari tillögu er staðinn vörður um kjör þeirra sem eru með lægri tekjur en jafnframt reynt að koma til móts við þá tekjuhærri. Þá er þrepið einnig sett inn til að mismuna ekki þeim sem eru í fullri vinnu samanborið við fólk í hlutastarfi.
    Meiri hlutinn telur óheppilegt að verið sé að skerða fæðingarorlofið í þriðja sinn á stuttu tímabili. 1. janúar 2009 lækkuðu mánaðarlegar greiðslur úr 480.000 kr. í 400.000 kr. og 1. júlí voru þær lækkaðar í 350.000 kr. Meiri hlutinn telur að lengra verði ekki gengið og ef þær breytingar sem nú eru lagðar til dugi ekki verði að hækka tryggingagjaldið eða endurskoða fæðingarorlofskerfið í heild sinni.
    Meiri hlutinn telur að skynsamlegra hefði verið að taka tillit til aukinnar fjárþarfar Fæðingarorlofssjóðs þegar tryggingagjaldið var hækkað 1. júlí sl. og í fyrirhugaðri hækkun 1. janúar 2010. Er það umhugsunarefni í ljósi þess að tryggingagjaldið er lögbundinn tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs. Fæðingarorlofskerfið var mun örlátara tryggingakerfi en önnur tryggingakerfi og því réttlætanlegt í því ástandi sem nú ríkir að skerða greiðslur þess umfram aðrar tryggingagreiðslur en nú telur meiri hlutinn að ekki verði lengra gengið. Áætlað er að breytingartillaga meiri hlutans skili 1.000 millj. kr. sparnaði í stað 1.200 millj. kr. eins og kveðið er á um í fjárlagafrumvarpi. Þessi leið er valin þar sem ekki er komin reynsla á fyrri skerðingar ársins. Vísbendingar eru um að karlar taki fæðingarorlof í minna mæli nú á síðari hluta ársins. Meiri hlutinn treystir sér ekki til að meta hvort það er vegna skerðingar hámarksfjárhæðar eða vegna þess að fólk sé hræddara um stöðu sína á vinnumarkaði. Þá telur meiri hlutinn að yfirlýsingar sem heyrst hafa á opinberum vettvangi um að eðlilegt væri að skerða rétt feðra til fæðingarorlofs í sparnaðarskyni séu ekki til þess fallnar að hvetja feður til að taka fæðingarorlof né í anda þeirrar jafnréttishugsjónar sem er ein af grunnstoðum fæðingarorlofskerfisins.
    Meiri hlutinn fer þess á leit við félags- og tryggingamálaráðherra að hann láti kanna áhrif skerðinga greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á orlofstöku foreldra með tilliti til framangreindra skerðinga. Það er mjög alvarlegt ef foreldrar stytta fæðingarorlof með börnum sínum af fjárhagslegum ástæðum og slæmt fyrir jafnrétti til lengri tíma ef feður stytta fæðingarorlofstíma sinn hlutfallslega meira en mæður. Þá telur meiri hlutinn rétt að skoðað verði hvort þörf sé á að setja reglur um skörun fæðingarorlofs foreldra þannig að hámark sé sett á þann tíma sem foreldrar geta verið í orlofi á sama tíma. Þeim sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni að nú geti foreldrar tekið allan orlofsrétt sinn á sama tíma sem leiðir til þess að heildarsamvistartími með barni verður fjórir og hálfur mánuður. Telur meiri hlutinn mikilvægt að tryggja barni rétt til a.m.k. sex mánaða samvista með foreldrum sínum og bendir á að í nágrannalöndum okkar er sá tími sem foreldrar barns geta verið í orlofi á sama tíma takmarkaður. Meiri hlutinn hefur þó ekki upplýsingar um hvernig framkvæmd fæðingarorlofsins er hér á landi hvað þetta varðar og hefur því ekki grundvöll til að meta nauðsyn lagabreytingar að sinni. Meiri hlutinn beinir því til félags- og tryggingamálaráðherra að kanna þessa þætti enda geti takmörkun á skörun orðið til frestunar útborgunar úr sjóðnum ef algengt er að foreldrar taki stóran hluta orlofsins á sama tíma.
    Meiri hlutinn áréttar að haldi svo fram sem horfir þarf að taka fjármögnun fæðingarorlofskerfisins alls til gagngerrar endurskoðunar. Því kerfi sem lagt var upp með við gildistöku laganna árið 2000 var ekki tryggt nægt fjármagn og nauðsynlegt er að tryggja kerfinu fjármagn jafnt í góðæri sem kreppu. Stefnir í metár í fæðingum á árinu og að þessi árgangur verði sá þriðji stærsti sögunnar á Íslandi. Meiri hlutinn telur rétt að fagna slíku fremur en að líta á það sem vandamál sem leiði til mikillar skerðingar réttinda. Meiri hlutinn ítrekar jafnframt að ákveðinn hluti tryggingagjalds á að fjármagna fæðingarorlofið en hefur þó ekki dugað til. Hefur nefndinni verið kynnt að hækka þurfi tryggingagjaldið um 0,17% til að tryggja fjármögnun sjóðsins miðað við gildandi lög. Meiri hlutinn áréttar að setja þurfi skýrar reglur um fjármögnun fæðingarorlofs og tryggja hana hvernig sem árar í efnahag þjóðarinnar. Mikilvægt er að standa vörð um fæðingarorlofskerfið og þá sátt sem um það ríkir enda náðist mikilvægur áfangi í jafnréttisbaráttu þegar kerfinu var komið á.
    Þá telur meiri hlutinn rétt að árétta að þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar til skerðingar orlofsins hefur ávallt verið ætlað að vera tímabundnar eins og kemur skýrt fram í athugasemdum frumvarpa við þær breytingar. Telur meiri hlutinn mikilvægt að þessu sé viðhaldið og eigi við jafnt um þá breytingu sem nú er lögð til sem og þær sem á undan hafa komið. Mikilvægt er að þegar aðstæður í ríkisfjármálum leyfa gangi skerðingarnar að fullu til baka.

Breytingar á lögum um málefni aldraðra.
    Í V. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um málefni aldraðra. M.a. er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra verði hækkað um 11,5%. Gjaldið hefur fram til þessa hækkað til samræmis við byggingarvísitölu og hefði samkvæmt því átt að hækka um 29,6%. Áætlað er að gjaldið skili í ríkissjóð 1.368 millj. kr. árið 2010 sem er sama fjárhæð og var í fjárlögum 2009.
    Hvað varðar b-lið 19. gr. frumvarpsins sem ætlað er að veita Framkvæmdasjóði aldraðra heimild til að standa fyrir rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma á árunum 2012–2013 telur meiri hlutinn rétt að árétta að eingöngu sé um tímabundna heimild að ræða og að hún verði bundin við þau tvö ár sem nefnd eru í ákvæðinu. Meiri hlutanum hafa verið kynntar upplýsingar þess efnis að um sé að ræða heimild fyrir 60 hjúkrunarrýmum. Sé gert ráð fyrir 7 millj. kr. kostnaði á rými er um að ræða 420 millj. kr. á ári. Telur meiri hlutinn mikilvægt að takmörk séu fyrir fjölda hjúkrunarrýmanna og þar með á fjárútlátum úr sjóðnum.

Breytingar á lögum um húsnæðismál.
    Í VI. kafla er lagt til að Íbúðalánasjóður fái heimild til að veita sveitarfélögum 100% lán til að standa undir framkvæmdakostnaði við kaup eða byggingu hjúkrunarrýma fyrir aldraða. Meiri hlutinn telur ljóst að binda þarf lánin frekari skilyrðum og auka skýrleika ákvæðisins m.a. hvað varðar lánskjör. Meiri hlutinn leggur því til að lán vegna hjúkrunarheimila verði skilgreind sérstaklega í 2. gr. laga um húsnæðismál og að auki verði gerðar viðeigandi breytingar á ákvæði frumvarpsins um lánin. Mikilvægt er að lánin verði einungis veitt sé leyfi til staðar og þörf á rýmum í því sveitarfélagi sem sækir um slíkt lán. Leggur nefndin því til að gert verði að skilyrði fyrir veitingu lánsins að samkomulag hafi náðst við félags- og tryggingamálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið um byggingu og leigu hjúkrunarheimilis. Að auki verði ákvæðið gert ítarlegra og skýrara. Þá hafa meiri hlutanum verið kynnt sjónarmið þess efnis að tryggja þurfi að fullnægjandi tryggingar standi að baki lánum af þessu tagi og leggur því til að tekinn verði af allur vafi um að veð í eigninni standi að baki en annars sé það Íbúðalánasjóðs að meta tryggingar. Jafnframt verði bætt við reglugerðarheimild þar sem ráðherra geti sett frekari ákvæði um skilyrði lána vegna hjúkrunarheimila, svo sem um lánsumsóknir, lánskjör og lánveitingu, þar með talið lánveitingu á framkvæmdatíma.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 15. des. 2009.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


varaform., frsm.


Árni Þór Sigurðsson.


Ólína Þorvarðardóttir.



Þuríður Backman.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Björn Valur Gíslason.