Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 273. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 443  —  273. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um br. á l. nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ágúst Þór Sigurðsson, Hönnu S. Gunnsteinsdóttur, Sturlaug Tómasson, Vilborgu Ingólfsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Gissur Pétursson og Unni Sverrisdóttur frá Vinnumálastofnun, Karl Björnsson og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Stellu K. Víðisdóttur frá Reykjavíkurborg, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Ragnar Árnason og Jón H. Magnússon frá Samtökum atvinnulífsins, Sonju Ýri Þorbergsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna, Þórð Hjaltested frá Kennarasambandi Íslands, Ingólf B. Sigurgeirsson og Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttur frá Stúdentaráði Háskóla Íslands, Guðjón Þór Guðmundsson frá Nemendafélagi Háskólans á Bifröst, Nönnu Kristínu Tryggvadóttur frá Stúdentafélagi Háskólans í Reykjavík, Þorkel Einarsson, Sindra Snæ Einarsson frá Sambandi íslenskra framhaldsskólanema og Hjördísi Jónsdóttur frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis. Umsagnir bárust nefndinni frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Tryggingastofnun ríkisins, Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri, Stúdentafélagi Hólaskóla og Nemendafélagi Landbúnaðarháskóla Íslands, Reykjavíkurborg, Jafnréttisstofu, Öryrkjabandalagi Íslands, Stúdentaráði Háskóla Íslands, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Árna Þorvaldi Jónssyni og Bændasamtökunum.

Frumvarpið.
    Frumvarpinu er m.a. ætlað að koma á meiri festu við framkvæmd atvinnuleysistryggingakerfisins svo koma megi í veg fyrir misnotkun. Lagðar eru til breytingar sem m.a. er ætlað að skýra skyldur þeirra sem tryggðir eru samkvæmt lögunum auk þess sem þær miða að auknu eftirliti, strangari viðurlögum og lengri biðtíma. Frumvarpið rennir styrkari stoðum undir eftirlit Vinnumálastofnunar með því að tryggðir einstaklingar samkvæmt lögunum uppfylli skilyrði laganna m.a. um virka atvinnuleit. Að auki eru heimildir Vinnumálastofnunar styrktar, m.a. til innheimtu ofgreiddra bóta, auk þess sem stofnunin fær heimild til að halda eftir greiðslu hafi hún rökstuddan grun um að hinn atvinnulausi uppfylli ekki skilyrði laganna eða hafi fengið ofgreiddar bætur. Þá eru m.a. lagðar til breytingar þess efnis að námsmenn í námshléum teljast ekki tryggðir samkvæmt lögunum, hlutabætur til sjálfstætt starfandi einstaklinga eru takmarkaðar í tíma og úrskurðir úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta verði aðfararhæfir.
    Auk breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar eru lagðar til breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga þess efnis að sveitarfélagi verði heimilt að setja reglur sem binda fjárhagsaðstoð viðkomandi sveitarfélags skilyrðum sem miða að því að tengja slíka aðstoð við virkni þeirra sem sækja um eða njóta slíkrar aðstoðar, svo sem við virka atvinnuleit og þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof þess efnis að úrskurðir úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála um endurkröfu ofgreiðslna verði gerðir aðfararhæfir.

Atvinnuleysistryggingakerfið.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að breytingarnar sem boðaðar eru í frumvarpinu miði að því að styrkja atvinnuleysisbótakerfið, þétta það, skýra reglur og standa vörð um það svo að um það ríki sátt og fjármunum sé varið til þeirra sem á þurfa að halda, í samræmi við markmið kerfisins. Þá leggur meiri hlutinn ríka áherslu á að náið verði fylgst með framkvæmd laganna og virkni þeirra breytinga sem frumvarpið mælir fyrir um. Mikilvægt sé að tryggja virkni þeirra og að unnið sé gegn misnotkun á kerfinu, en jafnframt þarf kerfið að vera mannsæmandi svo að þeir sem nýta rétt sinn til atvinnuleysisbóta meðan atvinnuleysi varir séu ekki álitnir sökudólgar. Ekki má ganga svo hart fram að rofin verði sú sátt sem ríkir um atvinnuleysistryggingakerfið.
    Meiri hlutinn áréttar að hertar reglur um eftirlit, aðhald og eftirfylgni Vinnumálastofnunar eigi að vera til hagsbóta fyrir fólk í atvinnuleit. Nauðsynlegt er að Vinnumálastofnun geti tímanlega gripið til nauðsynlegra vinnumarkaðsaðgerða og aðstoðar í þágu atvinnulausra og að þjónustan aukist eftir því sem einstaklingar eru lengur atvinnulausir.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á fundum sínum og kynnt sér þær breytingar sem í því felast auk sjónarmiða ýmissa hagsmunahópa og aðila. Meiri hlutanum er ljóst að mikilvægt er að ljúka ákveðnum hluta frumvarpsins fyrir áramót vegna tengsla við fjárlagafrumvarp, en sá tími sem nefndin hefur haft til vinnslu málsins hefur verið nokkuð knappur. Að auki eru í frumvarpinu lagðar til breytingar sem eru umdeildar og hafa verið gagnrýndar harðlega af aðilum vinnumarkaðarins, hagsmunafélögum stúdenta og sveitarfélögunum. Meiri hlutanum þykir einsýnt að á þeim samdráttartímum sem nú eru verði að gæta að útgjöldum ríkissjóðs og stýra þeim þannig að fjármunum sé varið á sem sanngjarnastan hátt og að sátt ríki í samfélaginu um þau bótakerfi sem fjármunum er varið til.
    Þau málefni sem fengu mesta umfjöllun í meðförum nefndarinnar voru m.a. nauðsyn þess að tryggja sátt um atvinnuleysistryggingakerfið og virkni þess og jafnframt nauðsyn þess að tryggja eftirlit, aðhald og eftirfylgni Vinnumálastofnunar með atvinnuleitendum. Rætt var um nauðsyn aukinna vinnumarkaðsúrræða, atvinnuleysi ungmenna og aðkallandi þörf á aðgerðum þessum hópi til hagsbóta, rétt til atvinnuleysisbóta samhliða námi og samspil atvinnuleysistrygginga og námslánakerfisins. Þá var fjallað um hlutabætur og bætur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem og framfærsluskyldu sveitarfélaga og réttmæti þess að binda fjárhagsaðstoð sveitarfélaga ákveðnum skilyrðum.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á ákvæðum frumvarpsins en telur að nokkur ákvæði þurfi frekari umræðu og leggur því til að þau verði felld brott úr frumvarpinu svo að hægt sé að fjalla betur um álitaefni þeim tengd. Nánari grein verður gerð fyrir tillögum meiri hlutans að breytingum og niðurfellingu greina hér á eftir.

Hertar reglur og nýjar heimildir.
    Frumvarpið hefur að geyma nokkur ákvæði sem fela í sér hertar reglur og viðurlög, svo og nýjar heimildir til handa Vinnumálastofnun. Verður hér gerð grein fyrir helstu athugasemdum meiri hlutans hvað þessi ákvæði varðar.
    Í 4. og 6. gr. frumvarpsins er lagt til að Vinnumálastofnun fái heimild til að boða atvinnuleitendur til sín með mjög skömmum fyrirvara og er í athugasemdum við ákvæðin talað um allt niður í sólarhrings fyrirvara. Nefndin fékk þær upplýsingar að í reynd væri þessi frestur oftast lengri en mikilvægt væri að heimild af þessu tagi væri til staðar svo að Vinnumálastofnun gæti tryggt að sá sem fær bætur greiddar samkvæmt lögunum uppfyllti sannanlega skilyrði þeirra um að vera á landinu og í virkri atvinnuleit. Gerir meiri hlutinn ekki athugasemdir við ákvæðið.
    Í nokkrum greinum frumvarpsins er lagt til að biðtími eftir atvinnuleysisbótum verði lengdur um helming, þ.e. úr 10 virkum dögum í mánuð. Telur meiri hlutinn að breytingin sé ekki nægjanlega rökstudd og leggur því til að biðtíma verði haldið óbreyttum, þó með þeirri breytingu að miðað verði við hálfan mánuð í stað 10 virkra daga í samræmi við önnur ákvæði frumvarpsins.
    Í 19. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting að þegar atvinnuleitandi sætir biðtíma í annað skipti á sama tímabili skv. 29. gr. laganna eigi hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði. Meiri hlutinn leggur til að ákvæði um viðurlög verði með sama hætti og er í gildandi lögum að því frátöldu að tíminn verði reiknaður í mánuðum í stað virkra daga og verður því eftir atvikum tveir eða þrír mánuðir en ekki sex mánuðir eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Í 10. gr. frumvarpsins er lagt til að Vinnumálastofnun fái heimild til að halda eftir greiðslu atvinnuleysisbóta þegar hún hefur rökstuddan grun um að skilyrði laganna séu ekki uppfyllt eða að viðkomandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun eru settar þröngar skorður við beitingu ákvæðisins og í athugasemdum við greinina kemur skýrt fram að hana á að túlka þröngt, gætt verði að ákvæðum stjórnsýslulaga og að greitt verði til baka með vöxtum komi í ljós að viðkomandi hafi átt rétt á greiðslunni eða hluta hennar. Telur meiri hlutinn því að heimildin sé nægilega afmörkuð og áréttar að hófs verði gætt við beitingu hennar.
    Nefndin ræddi ítarlega þann frest til að tilkynna um tilfallandi vinnu sem veittur er með 11. gr. frumvarpsins en þar er lagt til að tilkynna þurfi um tilfallandi vinnu með minnst sólarhrings fyrirvara en samdægurs ef Vinnumálastofnun metur það svo að ekki hafi verið unnt að tilkynna fyrr. Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að starfsmenn sem kallaðir væru til vinnu á kvöldvakt samdægurs mundu því brjóta gegn ákvæðinu og missa rétt sinn. Telur meiri hlutinn ákvæðið nauðsynlegt til að Vinnumálastofnun geti sinnt hlutverki sínu en áréttar þó að gæta þurfi að því að heimildin verði ekki til þess að tryggður einstaklingur missi rétt sinni vegna aðstæðna sem hann getur ekki haft áhrif á. Þess er getið í athugasemdum að gert sé ráð fyrir að tilkynning geti verið rafræn í gegnum vefsvæði stofnunarinnar og telur meiri hlutinn því vandséð að upp komi tilvik þar sem ekki er hægt að tilkynna samdægurs hið minnsta um tilfallandi vinnu. Meiri hlutinn telur þó mikilvægt að fylgst verði með virkni og beitingu ákvæðisins og gerðar breytingar sé þess þörf.
    Í 13. gr. frumvarpsins er m.a. lagt til að álag á ofgreiddar atvinnuleysisbætur verði hækkað úr 15% í 30% og í athugasemdum við greinina kemur fram að breytingunni sé ætlað að auka fælingarmátt álagsins. Um 100% hækkun er að ræða og telur meiri hlutinn hana ekki nægilega rökstudda og leggur því til að hún verði felld brott og 15% álagið látið halda sér að sinni.
    Í 23. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á viðurlögum sé litið svo á að atvinnuleysisbóta hafi verið aflað með sviksamlegum hætti. Á þetta við þegar atvinnuleitandi hefur vísvitandi veitt Vinnumálastofnun rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur svo að hann teljist ranglega tryggður að fullu eða hluta. Þá á þetta við um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma auk þess sem ákvæðið á við ef ætlaður atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu. Samkvæmt gildandi lögum fær viðkomandi ekki bætur í tvö ár og varðar brotið sektum og má kæra til lögreglu. Breytingin felur í sér að viðkomandi verði að vinna 12 mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann getur sótt aftur um atvinnuleysisbætur og endurgreiði ofgreiddar bætur. Meiri hlutinn telur breytinguna mikilvæga til að sporna gegn misnotkun á atvinnuleysisbótum.
    Meiri hlutinn áréttar að þótt að nokkru sé gengið til baka með þær breytingar og hertu reglur sem frumvarpið mælir fyrir um er ekki loku fyrir það skotið að gripið verði til þessara breytinga síðar. Meiri hlutinn telur jafnframt mikilvægt að verði ákvæðin sem hún leggur til að felld verði brott nú lögð til að nýju fylgi þeim greinargóður og ítarlegur rökstuðningur.

Námsmenn.
    Með þeim breytingum sem lagðar eru til í 5. gr. frumvarpsins verða námsmenn ekki tryggðir samkvæmt lögunum í námshléum, enda uppfylli þeir ekki skilyrði laganna um virka atvinnuleit. Meiri hlutinn leggur til að greinin verði samþykkt óbreytt enda er hún hluti af ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í september sl. um að hækka framfærslugrunn Lánasjóðs íslenskra námsmanna í um 120.000 kr. á mánuði í stað um 100.000 kr. til að draga úr þeim mun sem verið hafði á ráðstöfunartekjum fólks á atvinnuleysisbótum annars vegar og námslánum hins vegar. Breytingin miðaði að því að fjölga þeim sem sæju sér hag í því að fara í nám. Samtímis var tilkynnt um fyrirhugaðar breytingar á reglum Atvinnuleysistryggingasjóðs sem dregið gætu úr möguleikum fólks til að stunda einingabært háskólanám á atvinnuleysisbótum, sbr. 16. gr. frumvarpsins, og afnám réttar námsmanna til töku atvinnuleysisbóta í námsleyfum. Meiri hlutinn telur óheppilegt að ekki hafi verið hugað að sumarframfærslu námsmanna samfara þessari breytingu og beinir því til félags- og tryggingamálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga að fara yfir þessi mál í sameiningu og samráði við námsmenn svo fundinn verði farvegur fyrir framfærslu námsmanna í námsleyfum.
    Með 16. gr. frumvarpsins er atvinnulausum tryggður réttur til að stunda nám á háskólastigi sem nemi 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé námshlutfall þá ekki þannig að það hindri hann í virkri atvinnuleit. Meiri hlutinn ræddi ákvæðið ítarlega og tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í athugasemdum við greinina í frumvarpinu að mikilvægt sé að tryggja jafnræði milli námsmanna enda telur meiri hlutinn mikilvægt að komið sé í veg fyrir að námsmenn í nánast sambærilegum einingafjölda í lánshæfu námi sé mismunað þannig að annar sé á námslánum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna en hinn fái framfærslu sína úr atvinnuleysistryggingum. Þá er mikilvægt að móta skýr skil milli þessara tveggja framfærslukerfa til að tryggja gott samspil milli þeirra. Meiri hlutinn telur ákvæðið ekki skýra þessi skil nægilega vel, hvað þá að það tryggi gott samspil milli kerfanna. Þá hafa fulltrúar hagsmunasamtaka námsmanna bent á að mikil hætta sé á að fólk lendi milli tveggja kerfa þannig að það geti hvorki átt rétt til atvinnuleysisbóta né til námsláns hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Því leggur meiri hlutinn til þá breytingu á ákvæðinu að Vinnumálastofnun fái heimild til að meta hvort sá sem stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið sé ekki lánshæft. Meiri hlutinn telur þó ljóst að námsmenn sem eru í svo miklu námi geti ekki jafnframt talist í fullri virkri atvinnuleit og leggur því til að skilyrt sé að Vinnumálastofnun meti hvort námið komi til með að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit auk þess sem atvinnuleysisbætur skerðist í samræmi við umfang náms.
    Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að horft sé heildstætt á þetta mál og beinir því til félags- og tryggingamálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að skýra nánar hvernig samspil náms og réttarins til atvinnuleysistrygginga fer saman þannig að tryggt sé að þeir sem eru atvinnulausir missi ekki hvatann til að sækja sér menntun.

Ungir atvinnulausir.
    Meiri hlutinn fagnar því að samhliða frumvarpinu sé boðað að unnið verði sérstaklega að málefnum atvinnulausra ungmenna en 2.600 ungmenni á aldrinum 18–24 ára eru án atvinnu. Reynsla erlendis frá og rannsóknir sýna að þessi hópur er í hvað mestri hættu að lenda í langvarandi atvinnuleysi og verða varanlegir bótaþegar. Því er sú hætta til staðar að hópurinn náist aldrei aftur út á vinnumarkað en því fylgja augljóslega félagsleg vandamál fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild.
    Stór hluti ungra atvinnulausra er einungis með grunnskólamenntun, eða 77,4%, og því telur meiri hlutinn ljóst að leita þurfi úrræða sem tryggja að ungir atvinnulausir geti sótt sér menntun. Vinna þarf heildstætt að lausn á vandanum í náinni samvinnu félags- og tryggingamálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra og leita leiða til að fjármagn fylgi þeim atvinnulausa inn í framhaldsskólann. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið fulltrúa námsmannahreyfinganna sem komu á fund nefndarinnar um að ekki sé nægilegt að horfa eingöngu til menntakerfisins. Þörf er á fjölbreyttum úrræðum fyrir þennan hóp og telur meiri hlutinn mikilvægt að aðgerðir verði sniðnar að þörfum hópsins. Leita verður margþættra leiða til að tryggja virkni ungs fólks og endurkomu þess á vinnumarkað.

Hlutabætur.
    Í ákvæði frumvarpsins um hlutabætur til launamanna er m.a. lögð til sú breyting að skerðing starfshlutfalls launamanns þurfi að nema a.m.k. 20% til að hann eigi að rétt á hlutabótum. Að auki er lagt til að hámark verði sett á fjárhæð samanlagðra launa og bóta fyrir minnkað starfshlutfall og er við það miðað að hámarkið sé 521.318 kr. á mánuði. Í athugasemdum með ákvæðinu kemur fram að miðað sé við að hinn tryggði geti því haldið allt að 400 þús. kr. á mánuði fyrir hlutastarf án þess að til skerðingar á hlutabótum komi. Þar sem ákvæðið á við allt að 50% skerðingu starfs er því miðað við að mánaðarlaun séu mest 800.000 kr. fyrir skerðingu. Meiri hlutanum er ljóst að margir hafa orðið fyrir kjaraskerðingu í kjölfar hruns bankanna. Hjá stórum hópi hefur starfshlutfall verið minnkað og séu orsakir þess sérstakar aðstæður á vinnumarkaði sökum efnahagsástandsins eiga þeir nú rétt á hlutabótum vegna þess. Þá hafa margir af sömu ástæðum orðið fyrir því að mánaðarleg laun þeirra hafa lækkað vegna minnkaðrar yfirvinnu og afnáms annars konar umfram- og uppbótargreiðslna. Sá hópur á þó ekki rétt á bótum þrátt fyrir að hafa greitt af þessum launum sínum til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Draga þarf umtalsvert úr útgjöldum ríkissjóðs og telur meiri hlutinn að gæta þurfi nokkurs samræmis í skerðingu bóta. Viðmiðunarfjárhæð þessa ákvæðis er umtalsvert hærri en í öðrum ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar, laga um Ábyrgðasjóð launa og laga um fæðingar- og foreldraorlof. Leggur meiri hlutinn því til að samanlagðar tekjur fyrir hlutastarfið og atvinnuleysisbætur geti ekki verið hærri en 491.318 kr.
    Lögð er til sú breyting á ákvæði til bráðabirgða um hlutabætur til sjálfstætt starfandi einstaklings að slíkar bætur fáist greiddar samfellt í allt að þrjá mánuði en ekkert tímamark er fyrir. Þó er gerð sú undantekning að þeir sem þegar hafa fengið greiddar slíkar bætur geti fengið þær í allt að tvo mánuði til viðbótar óháð því hversu lengi þeir hafi fengið þær greiddar á undan. Er ákvæðinu ætlað að gefa sjálfstætt starfandi einstaklingum svigrúm til að mæta samdrætti í rekstri og gera ráðstafanir sem hugsanlega felast í því að loka rekstrinum. Telur meiri hlutinn hlutabætur mikilvægt tæki til skemmri tíma en augljóst að standi samdráttur yfir til langs tíma sé rekstrargrundvöllur hugsanlega brostinn. Þá hefur reynst erfitt að meta samdrátt í rekstri og því nokkur hætta á misnotkun ákvæðisins. Telur meiri hlutinn því eðlilegt að hlutabætur til sjálfstætt starfandi einstaklinga séu takmarkaðar með þessum hætti.

Breyting á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Í 28. gr. frumvarpsins er lagt til að sveitarfélögum verði heimilt að setja reglur sem binda fjárhagsaðstoð við virkni þeirra sem sækja um eða njóta slíkrar aðstoðar, svo sem við virka atvinnuleit og þátttöku þeirra í vinnumarkaðsaðgerðum. Meiri hlutinn áréttar að í lögunum sé nú þegar heimild fyrir sveitarfélög að setja reglur um fjárhagsaðstoð en bendir á að sveitarfélög hafa framfærsluskyldu gagnvart íbúum sínum. Telur meiri hlutinn ákvæðið ekki nægilega ígrundað eða rökstutt og þarfnist frekari umfjöllunar. Leggur meiri hlutinn því til að það verði fellt brott.

Gildistími o.fl.
    Auk þeirra breytinga sem gerð er grein fyrir hér að framan leggur meiri hlutinn til breytingu sem frestar gildistöku ákvæða sem miða að því að breyta fyrirkomulagi greiðslna atvinnuleysisbóta í mánaðargreiðslur í stað greiðslna fyrir virka daga. Meiri hlutinn leggur til að gildistöku ákvæðanna verði frestað til 1. maí nk. vegna kerfisbreytinga sem gera þarf vegna greiðslnanna. Þessar breytingar á gildistöku hafa ekki áhrif á tekjuöflunarþátt frumvarpsins. Þá eru lagðar til smávægilegar breytingar tæknilegs eðlis og til leiðréttingar á texta.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 15. des. 2009.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


varaform., frsm.


Guðmundur Steingrímsson,


með fyrirvara.


Ólína Þorvarðardóttir.



Árni Þór Sigurðsson.


Þuríður Backman.


Björn Valur Gíslason.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.