Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 59. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 492  —  59. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 30/2007, um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Karl Alvarsson og Sigurð Örn Guðleifsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Georg Lárusson forstjóra og Ásgrím L. Ásgrímsson, yfirmann vaktstöðvar siglinga, Friðrik Friðriksson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Indriða Óskarsson frá Hvíldarkletti ehf., Finn Jónsson frá Sumarbyggð ehf. og Gunnar Val Sveinsson frá samtökum ferðaþjónustunnar.
    Umsagnir bárust frá Félagi skipstjórnarmanna, Landhelgisgæslunni, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi smábátaeigenda, Siglingastofnun Íslands og Ferðamálastofu.
    Tilgangur frumvarpsins er að efla öryggi og setja reglur um frístundafiskiskip. Lagt er til að frístundafiskiskip verði sérstaklega skilgreind í lögunum auk þess sem gerðar verði ákveðnar kröfur um hæfi þeirra sem stjórna slíkum skipum og að eigandi frístundafiskiskips beri ábyrgð á því að stjórnendur hafi fullnægjandi réttindi á skipið. Loks er lagt til að ráðherra hafi heimild til að setja nánari reglur um frístundafiskiskip í reglugerð.
    Umsagnaraðilar sem mættu á fund nefndarinnar voru flestir jákvæðir í garð frumvarpsins og töldu að með ákvæðum þess sé rennt styrkari stoðum undir þessa nýju atvinnugrein. Nefndin vill þó árétta mikilvægi þess að sett séu skýr stærðartakmörk og skýrar reglur um þær kröfur sem gerðar eru til frístundafiskiskipa og stjórnenda þeirra í reglugerð, sbr. 3. efnismgr. 5. gr. frumvarpsins. Nefndin telur frumvarpið vera mikilvægt skref í rétta átt með lögfestingu hæfnisskilyrða skipstjórnarmanna á frístundafiskiskipum.
    Björgvin G. Sigurðsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 18. des. 2009.



Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Róbert Marshall.


Oddný Harðardóttir.



Árni Þór Sigurðsson.


Ásbjörn Óttarsson.


Árni Johnsen.