Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 318. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 596  —  318. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um tímabundna breytingu á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna á árunum 2010, 2011 og 2012 o.fl.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Minni hlutinn leggst gegn samþykkt frumvarpsins og vísar til álits 1. minni hluta fjárlaganefndar um frumvarpið.

Alþingi, 22. des. 2009.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


frsm.


Gunnar Bragi Sveinsson.


Birgir Ármannsson.



Margrét Tryggvadóttir.





Fylgiskjal.


Álit



frv. til l. um tímabundna breytingu á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna á árunum 2010, 2011 og 2012 o.fl.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



    Með tölvupósti 18. desember sl. óskaði iðnaðarnefnd Alþingis eftir umsögn fjárlaganefndar um 318. mál, á þingskjali 370. Óskað var eftir því að umsögn bærist eigi síðar en á mánudagsmorgun 21. desember nk.
    Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar hefur farið yfir frumvarpið og telur að ekki sé unnt að samþykkja það í óbreyttri mynd. Samkvæmt frumvarpinu verður ráðherra heimilt að kveða með reglugerð á um að tiltekin stóriðjufyrirtæki greiði árlega fyrir fram í þremur greiðslum 1,2 milljarða kr. á árunum 2010–2012. Greiðslan kæmi upp í væntanlega álagningu tekjuskatts og annarra opinberra gjalda á árunum 2013–2018 hjá tilteknum stóriðjufyrirtækjum og yrði tekjufærð í bókhaldi ríkisins á næstu þremur árum. Þær færslur eru ekki í samræmi við gildandi reikningsskilastaðla. Samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, eru skattar lagðir á og greiddir af tekjum og hagnaði liðins árs. Þó svo að tekjuskattur einstaklinga sé greiddur í staðgreiðslu er hann lagður á eftirá. Hið sama á við um fyrirtæki. Reikningsskil ríkisins eru færð á rekstrargrunni og ber samkvæmt því að tekjufæra tekjur þegar þeirra er aflað án tillits til þess hvenær þær eru innheimtar. Í 26. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, kemur fram að tekjur sem innheimtar eru á rekstrarárinu en varða síðari reikningsár skuli færa til skuldar í efnahagsreikningi sem fyrirframinnheimtar tekjur. Þá ber að sýna þær sérstaklega ef um verulegar fjárhæðir er að ræða eða geta þeirra í skýringum með ársreikningi en skýringar eru hluti ársreiknings. Á hinn bóginn eru tekjur reikningsársins sem innheimtast eftir lok þess eignfærðar í efnahagsreikningi.
    Af þessu má sjá að þó svo að heimilað verði að innheimta umrædda skatta fyrir fram verður ekki unnt að tekjufæra þá nema lagabreyting komi til. Þá er fyrirframinnheimtur skattur sem þessi ekkert annað en lánveiting sem færist á efnahagsreikning en ekki rekstrarreikning.
    Fyrirframgreiðsla skatta getur bætt greiðslustöðu ríkissjóðs til skamms tíma en ekki stöðu samkvæmt rekstrargrunni. Þá telur 1. minni hluti óeðlilegt að skattar séu innheimtir fyrir fram þar sem slík innheimta sé í reynd í mótsögn við það meginsjónarmið að sköttum ársins sé ráðstafað á sama ári. Þá vekur 1. minni hluti athygli á þeirri gengisáhættu sem kann að vera samfara þessari aðgerð. Auk þess telur 1. minni hluti að ekki sé við hæfi að ríkissjóður gangi á undan með slæmu fordæmi og brjóti bókhaldslög enda þótt lagaheimild sé veitt í íslenskum lögum til þessarar innheimtu. Innleiðing á regluverki Evrópusambandsins felur í sér aðlögun íslenskra laga. Líklega er því ekki heimilt að setja þessi lög vegna alþjóðlegra skuldbindinga, auk þess sem þau ganga gegn alþjóðlegum stöðlum um reikningshald og uppgjör.

Alþingi 19. desember 2009.

Kristján Þór Júlíusson.
Ásbjörn Óttarsson.
Þór Saari.