Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 396. máls.

Þskj. 705  —  396. mál.




Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009,
um breytingu á X. viðauka (Hljóð- og myndmiðlun) og XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009, frá 9. júní 2009, um breytingu á X. viðauka (Hljóð- og myndmiðlun) og XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009, frá 9. júní 2009, um breytingu á X. viðauka (Hljóð- og myndmiðlun) og XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006, hér eftir nefnd þjónustutilskipunin eða tilskipunin, var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009 frá 9. júní 2009. Tillaga að þjónustutilskipun var fyrst lögð fram á vettvangi ESB í janúar 2004. Markmiðið var að greiða fyrir og auka þjónustuviðskipti milli landa en þrátt fyrir ákvæði um innri markað voru töluverðar hindranir á frjálsu flæði þjónustu ennþá til staðar sem komu niður á bæði þjónustuveitendum og neytendum. Tillagan fékk mikla athygli og var pólitískt umdeild, sér í lagi vegna ákvæða um heilbrigðisþjónustu og vinnurétt sem voru upphaflega hluti af tillögunni. Hin svokallaða upprunalandsregla var einnig afar umdeild og óttast var að hún fæli í sér félagsleg undirboð en samkvæmt henni giltu um þjónustuveitanda reglur þess lands þar sem hann var með staðfestu en ekki þar sem þjónustan var veitt.
    Í ljósi þeirrar miklu gagnrýni sem tillagan hlaut lagði framkvæmdastjórnin fram nýja tillögu þar sem tekin voru út ákvæði um heilbrigðisþjónustu og vinnurétt og verulegar breytingar gerðar á upprunalandsreglunni og var sú tillaga samþykkt í desember 2006. Tilskipunin fékk töluverða athygli í Noregi og gerðu Norðmenn ítarlegar úttektir á hinum ýmsu afleiðingum tilskipunarinnar. Að lokum náðist þó samstaða um hana og var hún eins og áður segir tekin upp í EES-samninginn 9. júní 2009.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Bæði Ísland og Noregur gerðu fyrirvara við innleiðingu tilskipunarinnar þegar hún var tekin upp í EES-samninginn. Þeir voru sambærilegir en með þeim voru löndin að skerpa á því að tilskipunin gildi ekki um vinnurétt og að hún hafi ekki áhrif á rétt stjórnvalda til að ákveða hvaða þjónusta er veitt af hinu opinbera og hvernig sú þjónusta er skipulögð og fjármögnuð. Það var mat framkvæmdastjórnarinnar að fyrirvarar landanna tveggja hefðu ekki áhrif á efni hennar. Í Noregi hafa nú verið sett lög um þjónustuviðskipti (Lov om tjenestevirksomhet) sem byggjast á ákvæðum tilskipunarinnar, líkt og frumvarp til laga um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins gerir. Það var lagt fyrir á yfirstandandi þingi og í kjölfar 1. umræðu var því vísað til viðskiptanefndar (277. mál á 138. löggjafarþingi).
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Efni gerðarinnar.
Tilgangur.
    Tilgangur þjónustutilskipunarinnar er að koma á raunverulegum innri markaði á sviði þjónustuviðskipta með því að fjarlægja lagalegar og stjórnsýslulegar hindranir svo að þjónustuveitendur og viðtakendur þjónustu eigi auðveldara með að veita og nýta sér þjónustu yfir landamæri. Tilskipunin á að tryggja þjónustuveitendum þau grundvallarréttindi sem kveðið er á um í 32. og 36. gr. EES-samningsins og innri markaðurinn byggist á, þ.e. staðfestufrelsi og frelsi til að veita þjónustu. Með afnámi hindrana verður auðveldara fyrir þjónustuveitendur að veita þjónustu án staðfestu, sem jafnframt eykur samkeppni og leiðir því til hagræðis fyrir viðtakendur þjónustu í formi lægra verðs og meiri gæða.

Gildissvið.
    Tilskipunin er rammatilskipun sem reglusetur og útfærir gildandi EES-rétt á sviði þjónustu, bæði almennt og á sérstökum sviðum, en ákvæði hennar víkja fyrir ákvæðum annarra sérstakra tilskipana EES-réttar. Eins og áður hefur komið fram var henni upprunalega ætlað að ná yfir nánast öll svið þjónustu, en um það náðist ekki samstaða innan Evrópusambandsins. Margs konar þjónustusvið eru því undanskilin gildissviði hennar.

Staðfesturéttur þjónustuveitenda og frelsi til að veita þjónustu án staðfestu.
    Í tilskipuninni er gerður greinarmunur annars vegar á þjónustu sem veitt er á grundvelli staðfesturéttar þjónustuveitanda (9.–15. gr. tilskipunarinnar) og hins vegar því þegar þjónustuveitandi veitir þjónustu í öðru aðildarríki en því þar sem hann hefur staðfestu (16.–21. gr. tilskipunarinnar). Að auki eru svo almennar reglur sem gilda óháð því hvort þjónustuveitandi hyggst vera með staðfestu í aðildarríki eða veita þjónustu án staðfestu.
    Eins og áður hefur komið fram byggðist upphaflega tillagan á því að um alla þjónustu á gildissviði tilskipunarinnar mundi gilda fyrrgreind upprunalandsregla en sú ætlun olli töluverðum deilum. Málamiðlunin var því sú að láta upprunalandsregluna einungis gilda þegar þjónusta er veitt án staðfestu og er það ástæða fyrrgreindrar kaflaskiptingar.

Einföldun leyfisferla og yfirferð yfir löggjöf.
    Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar er gerð krafa um að aðildarríkin yfirfari öll leyfisferli og einfaldi eins og kostur er. Einföldun ferla kemur sér ekki einungis vel fyrir þjónustuveitendur heldur er hún til þess fallin að minnka álag og útgjöld stjórnvalda. Horfa verður til þess hvort gögn sem farið er fram á að þjónustuveitandi leggi fram séu nauðsynleg, hvort hann þurfi nauðsynlega að leggja þau fram sjálfur eða hvort stjórnvald geti nálgast þau, t.d. frá öðru stjórnvaldi. Samkvæmt tilskipuninni er stjórnvaldi einnig óheimilt að krefjast frumrits, staðfests endurrits eða að löggild þýðing fylgi skjali nema brýnir almannahagsmunir krefjist þess eða önnur EES-löggjöf. Leiki vafi á því hvort skjal sé ófalsað ætti að vera auðvelt að nálgast þær upplýsingar með samvinnu milli ríkja en um slíka samvinnu hefur tilskipunin að geyma sérstök ákvæði eins og nánar er komið að síðar. Ríki verða einnig að samþykkja skjöl frá öðrum aðildarríkjum sem augljóslega þjóna sama tilgangi og það sem beðið er um eða þar sem skýrt kemur fram að viðeigandi skilyrði hafi verið uppfyllt.
    Í tilskipuninni eru einnig ákvæði um skilyrði sem óheimilt er að setja fyrir veitingu þjónustu. Ráðuneyti fengu hvert og eitt það hlutverk að fara yfir leyfisferli og löggjöf á sínu sviði til að einfalda leyfisferli og afmá skilyrði sem ekki samrýmast ákvæðum tilskipunarinnar. Samband íslenskra sveitarfélaga aðstoðaði sveitarfélög við að gera slíkt hið sama.

Rafræn málsmeðferð.
    Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar verða þjónustuveitendur að geta sótt um leyfi til að stunda starfsemi sína á Íslandi með rafrænum hætti. Að sama skapi eiga þau að geta fengið svör frá lögbærum yfirvöldum með rafrænum hætti. Af þeim sökum hefur forsætisráðuneytið ásamt efnahags- og viðskiptaráðuneytinu unnið að uppsetningu vefsvæðis (upplýsinga- og þjónustuveitu) þar sem þjónustuveitendur eiga að geta sótt um viðeigandi leyfi með rafrænum hætti.

Viðtakendur þjónustu.
    Í tilskipuninni eru ákvæði sem lúta að réttindum viðtakenda þjónustu og er m.a. ætlað að auka upplýsingar og gagnsæi varðandi þjónustuveitendur og þjónustu þeirra. Ákvæðin leggja ákveðnar skyldur á þjónustuveitendur, t.d. um að hafa tilteknar upplýsingar aðgengilegar fyrir neytendur sem og kvaðir á aðildarríkin um að breyta löggjöf á ákveðnum sviðum.

Samvinna stjórnvalda.
    Til að markmið tilskipunarinnar um aukið flæði þjónustu með afnámi hindrana og einföldun ferla náist er afar mikilvægt að aðildarríkin eigi með sér gott samstarf. Á vegum Evrópusambandsins hefur því verið komið upp sérstöku evrópsku upplýsingakerfi sem ætlað er að auðvelda lögbærum yfirvöldum ólíkra landa að hafa samskipti sín á milli. Samvinna stjórnvalda er einnig afar mikilvæg til að tryggja nægjanlegt eftirlit með þjónustuveitendum.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Til að innleiða ákvæði tilskipunarinnar var ákveðið að semja rammafrumvarp þar sem helstu efnisákvæði tilskipunarinnar eru tekin upp en það nefnist frumvarp til laga um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Það var lagt fyrir yfirstandandi þing og í kjölfar 1. umræðu var því vísað til viðskiptanefndar (277. mál á 138. löggjafarþingi).
    Tilgangur frumvarpsins er að greiða fyrir frjálsum þjónustuviðskiptum og tryggja jafnræði þeirra sem veita þjónustu innan EES. Gildissvið frumvarpsins er víðtækt en þó eru mörg stór og mikilvæg þjónustusvið undanskilin, svo sem heilbrigðisþjónusta, félagsþjónusta og fjármálaþjónusta. Í frumvarpinu er kveðið á um í hvaða tilfellum heimilt verði að láta aðgang að því að veita þjónustu vera háðan leyfum og hvaða skilyrði óheimilt verði að setja fyrir veitingu leyfa. Þá gilda mismunandi reglur eftir því hvort þjónustuveitandi hyggst veita þjónustu með eða án staðfestu. Ef aðgangur að því að veita þjónustu með staðfestu er háður leyfum skulu skilyrði fyrir veitingu leyfa vera án mismununar, nauðsynleg vegna brýnna almannahagsmuna og í samræmi við meðalhóf. Hins vegar er eingöngu heimilt að setja sérstök skilyrði fyrir veitingu þjónustu án staðfestu ef það er nauðsynlegt með vísan til allsherjarreglu, almannaöryggis, lýðheilsu eða umhverfisverndar.
    Til að tryggja jafnræði þeirra sem veita þjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu er í frumvarpinu kveðið á um rafræna málsmeðferð en það felur í sér að þjónustuveitandi á að geta sótt um leyfi til að stunda starfsemi sína rafrænt og fengið rafræn svör frá leyfisveitendum. Einnig er þar að finna ákvæði er lúta að gildistíma leyfa og málsmeðferð við leyfisveitingar. Eins er kveðið á um að óheimilt sé að mismuna viðtakendum þjónustu og að þeir eigi rétt á aðgangi að ákveðnum upplýsingum um þjónustuveitendur. Að auki eiga viðtakendur rétt á ákveðinni aðstoð frá íslenskum stjórnvöldum við að leita sér upplýsinga um hvaða reglur gilda um veitingu þjónustu í öðrum EES-ríkjum, einkum hvað varðar réttindi neytenda.
    Auk framangreindra lagabreytinga er nauðsynlegt að leggja fram bandorm sem leggur til breytingar á ýmsum lögum í samræmi við fyrrgreinda yfirferð hvers ráðuneytis yfir löggjöf á sínu sviði. Það nefnist frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna þjónustuviðskipta á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Líkt og áðurnefnt frumvarp hefur það verið lagt fyrir yfirstandandi þing og var í kjölfar 1. umræðu vísað til viðskiptanefndar (278. mál á 138. löggjafarþingi). Í því eru lagðar til eftirfarandi lagabreytingar:
          Lagt er til að lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, verði breytt þannig að skilyrðið sem kveður á um að búseta á Íslandi sé forsenda rekstrarleyfis samkvæmt lögunum gildi ekki um ríkisborgara og lögaðila innan EES, aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga. Lagt er til að sams konar breytingar verði gerðar á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, lögum nr. 145/1994, um bókhald, og lögum nr. 64/2000, um bílaleigur. Að sama skapi er lögheimilisskilyrði fellt niður í lögum nr. 36/1994, um húsaleigu. Samkvæmt núgildandi vopnalögum, nr. 16/1998, skal beina umsóknum um leyfi til lögreglustjóra í því umdæmi þar sem umsækjandi á lögheimili. Það gerir það að verkum að eingöngu þeir sem eiga lögheimili á Íslandi geta sótt um leyfi en það skilyrði er ósamrýmanlegt þjónustutilskipuninni. Af þeim sökum er lagt til að ef umsækjandi er ríkisborgari eða lögaðili ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins, Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja skuli beina umsókn um leyfi til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
          Með breytingum á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, er lagt til að efnahags- og viðskiptaráðherra geti falið einum sýslumanni að veita leyfi til sölu notaðra ökutækja og leyfi til uppboðsstjóra í stað þess að hver og einn sýslumaður veiti leyfi í sínu umdæmi. Er slík tilfærsla til einföldunar og hagræðingar.
          Í lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, og lögum nr. 64/2000, um bílaleigur, er lagt til að orðalagi hvað varðar starfsábyrgðartryggingar verði breytt og allur vafi tekinn af um að heimilt er að taka starfsábyrgðartryggingu hjá öðrum vátryggingafélögum en íslenskum, hafi umrædd félög öðlast heimild til að veita þjónustu hér á landi samkvæmt lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.
          Lagt er til að tímabinding leyfa samkvæmt lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, og samkvæmt lögum nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, verði felld niður en þau eru nú veitt til fimm ára í senn.
          Lagt er til að hvor tveggja lögin öðlist gildi 28. desember 2009 en þann dag skal vera búið að innleiða tilskipunina í landsrétt.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 45/2009

frá 9. júní 2009

um breytingu á X. viðauka (Hljóð- og myndmiðlun) og XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         X. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2007 frá 7. desember 2007 ( 1 ).

2)         XI. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2009 frá 24. apríl 2009 ( 2 ).

3)         Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum ( 3 ).

4)         Gerðir, sem lúta að hljóð- og myndmiðlun og nú er vísað til í X. viðauka, eiga framvegis að falla undir XI. viðauka.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


X. og XI. viðauki við samninginn breytist sem segir í viðauka við ákvörðun þessa.

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2006/123/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi daginn eftir að síðasta tilkynning samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins berst sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

VIÐAUKI

við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009


X. og XI. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.         X. viðauki hljóði svo:

„ALMENN ÞJÓNUSTA

Skrá sem kveðið er á um í 2. mgr. 36. gr.


        INNGANGUR

        Þegar gerðir, sem vísað er til í þessum viðauka, fela í sér hugmyndir eða vísa til málsmeðferðaratriða, sem eru sérkennandi fyrir réttarreglur bandalagsins, svo sem varðandi

                   inngangsorð,

                   viðtakendur gerða bandalagsins,

                   vísanir til yfirráðasvæða eða tungumála EB,

                   vísanir til réttinda og skyldna aðildarríkja EB, opinberra stofnana þeirra, fyrirtækja eða einstaklinga hvers gagnvart öðrum og

                   vísanir til málsmeðferðar varðandi upplýsingar og tilkynningar,

        gilda ákvæði bókunar 1 um altæka aðlögun, nema kveðið sé á um annað í þessum viðauka.

        GERÐIR SEM VÍSAÐ ER TIL

        1.     32006 L 0123: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum (Stjtíð. ESB L 376, 27.12.2006, bls. 36).

                Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                a)    Í stað orðanna „reglur sáttmálans“ í 3. mgr. 3. gr. komi orðin „reglur EES-samningsins“.

                b)    Í stað orðanna „50. gr. sáttmálans“ í 1. mgr. 4. gr. komi orðin „37. gr. EES-samningsins“.

                c)    Í stað orðanna „48. gr. sáttmálans“ í 2. og 3. mgr. 4. gr. komi orðin „34. gr. EES- samningsins“.

                d)    Í stað orðanna „43. gr. sáttmálans“ í 5. mgr. 4. gr. komi orðin „31. gr. EES-samningsins“.

                e)    Ákvæði 8. mgr. 4. gr. hljóði svo:

                    „ „brýnir almannahagsmunir“: með fyrirvara um ákvæði 6. gr. EES-samningsins þeir hagsmunir sem viðurkenndir hafa verið sem slíkir í dómum Dómstóls Evrópubandalaganna, meðal annars eftirtalið: allsherjarregla, almannaöryggi, lýðheilsa, varðveisla fjárhagslegs grundvallar almannatryggingakerfisins, vernd neytenda, þjónustuþega og starfsmanna, sanngirni í viðskiptum, barátta gegn svikum, umhverfisvernd og vernd þéttbýlisumhverfis, heilbrigði dýra, hugverkaréttur, varðveisla sögulegs og listræns þjóðararfs, markmið félagsmálastefnu og markmið stefnu í menningarmálum,“.

                f)    Eftirfarandi undirgrein bætist við á eftir fyrstu undirgrein 7. mgr. 15. gr.:

                    „Þegar framkvæmdastjórnin og Eftirlitsstofnun EFTA skiptast á upplýsingum um tilkynningar, sem berast frá aðildarríkjum Evrópusambandsins annars vegar og EFTA-ríkjunum hins vegar, í samræmi við staflið d) í 4. mgr. bókunar 1 við EES- samninginn, skal framkvæmdastjórnin framsenda aðildarríkjum Evrópusambandsins upplýsingar sem berast frá Eftirlitsstofnun EFTA og Eftirlitsstofnun EFTA skal framsenda fastanefnd EFTA-ríkjanna upplýsingar sem berast frá framkvæmdastjórninni. Eftirlitsstofnun EFTA skal jafnframt upplýsa fastanefndina um tilkynningar sem berast frá EFTA-ríkjunum.“.

                g)    Eftirfarandi undirgrein bætist við í 2. mgr. 21. gr.:

                    „Þegar framkvæmdastjórnin og Eftirlitsstofnun EFTA skiptast á upplýsingum um nöfn, póstföng og þess háttar, sem berast frá aðildarríkjum Evrópusambandsins annars vegar og EFTA-ríkjunum hins vegar, í samræmi við staflið a) í 4. mgr. bókunar 1 við EES-samninginn, skal framkvæmdastjórnin framsenda aðildarríkjum Evrópusambandsins upplýsingar sem berast frá Eftirlitsstofnun EFTA og Eftirlitsstofnun EFTA skal framsenda fastanefnd EFTA-ríkjanna upplýsingar sem berast frá framkvæmdastjórninni.“.

                h)    Ákvæði stafliðar d) í 1. mgr. 22. gr. taka ekki til EFTA-ríkjanna.

                i)    Eftirfarandi bætist við í 8. mgr. 28. gr.:

                    „Að því er EFTA-ríkin varðar skal Eftirlitsstofnun EFTA hafa það með höndum að upplýsa þau með reglulegu millibili um framkvæmd ákvæða um gagnkvæma aðstoð.“.

                j)    Eftirfarandi bætist við í 2. mgr. 39. gr.:

                    „Með fyrirvara um ákvæði stafliðar d) í 4. mgr. bókunar 1 við EES-samninginn skal framkvæmdastjórnin framsenda Eftirlitsstofnun EFTA skýrslur, sem berast frá aðildarríkjum Evrópusambandsins, til dreifingar hjá EFTA-ríkjunum, og Eftirlitsstofnun EFTA skal framsenda upplýsingar, sem berast frá EFTA-ríki, öðrum EFTA-ríkjum, fastanefnd EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórninni, til dreifingar hjá aðildarríkjum Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórnin og Eftirlitsstofnun EFTA skulu skiptast á upplýsingum um athugasemdir sem berast frá aðildarríkjum Evrópusambandsins annars vegar og EFTA-ríkjunum hins vegar.“.

                k)    Eftirfarandi bætist við í 3. mgr. 39. gr.:

                    „EFTA-ríkjunum er einnig heimilt að leggja skýrslur og athugasemdir fyrir nefndina.“.

                l)    Eftirfarandi undirgrein bætist við í 5. mgr. 39. gr.:

                    „Þegar framkvæmdastjórnin og Eftirlitsstofnun EFTA skiptast á upplýsingum um kröfur, sem tilkynntar eru af hálfu aðildarríkja Evrópusambandsins annars vegar og EFTA-ríkjanna hins vegar, í samræmi við staflið d) í 4. mgr. bókunar 1 við EES-samninginn, skal framkvæmdastjórnin framsenda aðildarríkjum Evrópusambandsins upplýsingar sem berast frá Eftirlitsstofnun EFTA og Eftirlitsstofnun EFTA skal framsenda fastanefnd EFTA-ríkjanna upplýsingar sem berast frá framkvæmdastjórninni. Eftirlitsstofnun EFTA skal jafnframt upplýsa fastanefndina um kröfur sem tilkynntar eru af hálfu EFTA-ríkjanna.“ “

        2.    Í stað núverandi fyrirsagnar XI. viðauka, „FJARSKIPTAÞJÓNUSTA“, komi „RAFRÆN FJARSKIPTI, HLJÓÐ- OG MYNDMIÐLUN OG UPPLÝSINGASAMFÉLAGIГ.

        3.    Eftirfarandi bætist við á eftir lið 5o (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2006/215/ EB) í XI. viðauka:

„Hljóð- og myndmiðlun


                5p.         389 L 0552: Tilskipun ráðsins 89/552/EBE frá 3. október 1989 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur (Stjtíð. EB L 298, 17.10.1989, bls. 23) eins og henni var breytt með:

                        –     397 L 0036: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/36/EB frá 30. júní 1997 (Stjtíð. EB L 202, 30.7.1997, bls. 60).

                        Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                        a)    Í stað orðanna „52. gr. og áfram í stofnsáttmála Evrópubandalagsins“ í 5. mgr. 2. gr. komi orðin „31. gr. og áfram í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið“.

                        b)    Að því er EFTA-ríkin varðar eru verkin, sem um getur í staflið c) í 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar, einnig verk sem verða til, eins og lýst er í 3. mgr. 6. gr., hjá og með framleiðendum sem hafa staðfestu í þriðju Evrópulöndum sem viðkomandi EFTA-ríki hefur gert samninga við á þessu sviði.

                            Hyggist samningsaðili gera samning af því tagi, sem um getur í 3. mgr. 6. gr., ber honum að tilkynna það sameiginlegu EES-nefndinni. Samráð um efni slíkra samninga getur átt sér stað að beiðni eins og sérhvers samningsaðila.

                        c)    Eftirfarandi bætist við ákvæði 15. gr. tilskipunarinnar:

                            „EFTA-ríkjunum er frjálst að skylda kapaldreifingarfyrirtæki, sem starfa á yfirráðasvæði þeirra, að trufla eða breiða með öðrum hætti yfir auglýsingar á áfengum drykkjum í dagskrárliðum sjónvarpsstöðva sem einkum er horft á í einu EFTA-ríkjanna sem eiga aðild að EES. Við mat á því hvort tiltekinn dagskrárliður eða tiltekin auglýsing fellur undir þennan aðlögunarlið skal meðal annars höfð hliðsjón af eftirtöldum atriðum:

                            –    hvort útsendingin næst í raun aðallega í einu EFTA-ríkjanna sem eiga aðild að EES,

                            –    hvort varan eða þjónustan, sem auglýst er, fæst keypt í landinu þar sem útsendingin næst,

                            –    hvort tungumál landsins, þar sem útsendingin næst, er notað í dagskrárliðum eða auglýsingum,

                            –    hvort vísað er í auglýsingunum til sölustaða í landinu þar sem útsendingin næst,

                            –    hvort verð er gefið upp í gjaldmiðli landsins þar sem útsendingin næst.

                            Þegar auglýsingar eru truflaðar eða breitt yfir þær með öðrum hætti má það ekki hafa þau áhrif að takmarka endurútsendingu á einstökum hlutum dagskrárliða öðrum en auglýsingum á áfengum drykkjum.

                            Samningsaðilar skulu endurskoða þessa undanþágu í sameiningu árið 2003.“

                        Nánari tilhögun samstarfs við sérfræðinga frá Liechtenstein, Íslandi og Noregi í samræmi við 101. gr. samningsins:

                            Hverju EFTA-ríki er heimilt að tilnefna einn fulltrúa lögbæra yfirvaldsins, sem hvert EFTA-ríki tilgreinir, til þátttöku í fundum tengslanefndar um sjónvarpsrekstur sem um getur í 23. gr. a í tilskipun ráðsins 89/552/EBE.

                            Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna skal senda þátttakendum boð á fundi tengslanefndarinnar og viðeigandi gögn með tilhlýðilegum fyrirvara.

                    5q.     398 L 0084: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/84/EB frá 20. nóvember 1998 um lögvernd þjónustu sem byggist á eða hefur í sér fólginn skilyrtan aðgang (Stjtíð. EB L 320, 28.11.1998, bls. 54).“

    4.        Eftirfarandi bætist við á eftir 30. lið (ályktun ráðsins 96/C 376/01) í XI. viðauka:

„Hljóð- og myndmiðlun


                31.          394 Y 0702(02): Ályktun ráðsins 94/C 181/02 frá 27. júní 1994 um stefnumótun bandalagsins varðandi stafrænar sjónvarpssendingar (Stjtíð. EB C 181, 2.7. 1994, bls. 3).

                32.          398 X 0560: Tilmæli ráðsins 98/560/EB frá 24. september 1998 um að bæta samkeppnishæfni evrópskrar hljóð- og myndmiðlunar og upplýsingaþjónustu með því að stuðla að því að settur verði innlendur lagarammi sem miðar að því að koma á sambærilegri og virkri verndun ólögráða barna og mannlegrar reisnar (Stjtíð. EB L 270, 7.10.1998, bls. 48).

                33.          499 Y 0205(01): Ályktun ráðsins og fulltrúa ríkisstjórna aðildarríkjanna, sem komu saman á vegum ráðsins, 1999/C 30/01 frá 25. janúar 1999 um opinberan útvarpsrekstur (Stjtíð. EB C 30, 5.2.1999, bls. 1).

                34.          32005 H 0865: Tilmæli Evrópuþingsins og ráðsins 2005/865/EB frá 16. nóvember 2005 um kvikmyndaarf og samkeppnishæfni tengdrar atvinnustarfsemi (Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 57).“
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2006/123/EB
frá 12. desember 2006
um þjónustu á innri markaðnum


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum fyrsta og þriðja málslið 2. mgr. 47. gr. og 55. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Evrópubandalagið leitast við að koma á sífellt nánari tengslum milli ríkja og þjóða Evrópu og að tryggja efnahagslegar og félagslegar framfarir. Í samræmi við 2. mgr. 14. gr. sáttmálans myndar innri markaðurinn svæði án innri landamæra þar sem frjáls þjónustustarfsemi er tryggð. Í samræmi við 43. gr. sáttmálans er staðfesturéttur tryggður. Í 49. gr. sáttmálans er kveðið á um réttinn til að veita þjónustu innan Bandalagsins. Mikilvægt er að fjarlægja hindranir í vegi þróunar þjónustustarfsemi milli aðildarríkjanna í því skyni að efla samþættingu þjóða Evrópu og stuðla að jafnvægum og sjálfbærum efnahagslegum og félagslegum framförum. Þegar slíkum hindrunum er rutt úr vegi er mikilvægt að tryggja að þróun þjónustustarfsemi stuðli að því að þeim markmiðum, sem mælt er fyrir um í 2. gr. sáttmálans, verði náð, að í Bandalaginu öllu verði stuðlað að samstilltri, jafnvægri og sjálfbærri þróun atvinnustarfsemi, háu atvinnustigi og félagslegri vernd, jafnrétti milli karla og kvenna, sjálfbærum hagvexti án verðbólgu, mikilli samkeppnishæfni og samleitni efnahagslegs árangurs, háu stigi verndar og aukinna gæða umhverfisins, bættum lífskjörum og lífsgæðum og efnahagslegri og félagslegri samheldni og einingu meðal aðildarríkjanna.
2)          Mikilvægt er að samkeppni sé á markaði fyrir þjónustu í því skyni að stuðla að hagvexti og atvinnusköpun í Evrópusambandinu. Sem stendur kemur fjöldi hindrana á innri markaðnum í veg fyrir að þjónustuveitendur, einkum lítil og meðalstór fyrirtæki, færi kvíarnar út fyrir landamæri eigin ríkis og nýti sér innri markaðinn til fulls. Þetta dregur úr samkeppnishæfni þjónustuveitenda frá Evrópusambandinu um heim allan. Frjáls markaður, sem skyldar aðildarríkin til að ryðja úr vegi takmörkunum á að veita þjónustu yfir landamæri jafnframt því að auka gagnsæi og upplýsingaflæði til neytenda, gæfi neytendum kost á meira úrvali og betri þjónustu á lægra verði.
3)          Í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar Ástand innri markaðarins fyrir þjónustu eru tilgreindar fjölmargar hindranir sem koma í veg fyrir eða hægja á þróun þjónustu milli aðildarríkjanna, einkum þjónustu sem lítil og meðalstór fyrirtæki veita en þau eru ráðandi á þjónustusviðinu. Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að áratug eftir að fyrirhugað var að innri markaðnum yrði komið á er enn breitt bil milli framtíðarsýnarinnar um samþætt efnahagslíf Evrópusambandsins og raunveruleikans eins og evrópskir ríkisborgarar og þjónustuveitendur upplifa hann. Hindranirnar hafa áhrif á margs konar þjónustustarfsemi á öllum stigum starfsemi þjónustuveitanda og þær hafa nokkur sameiginleg einkenni, m.a. að þær stafa oft af íþyngjandi stjórnsýslu, lagalegri óvissu sem tengist starfsemi yfir landamæri og af því að gagnkvæmt traust skortir milli aðildarríkja.
4)          Þar eð þjónustustarfsemi er drifkraftur hagvaxtar og stendur undir 70% vergrar landsframleiðslu og atvinnu í flestum aðildarríkjum hefur þessi skipting innri markaðarins neikvæð áhrif á evrópskt efnahagslíf í heild, einkum á samkeppnishæfni lítilla og meðalstórra fyrirtækja og á för launþega, og hindrar aðgang neytenda að auknu úrvali þjónustu á samkeppnishæfu verði. Mikilvægt er að benda á að þjónustugeirinn er einkum mikilvægur vettvangur fyrir atvinnu kvenna og að ávinningur þeirra verði því mikill með tilkomu innri markaðar fyrir þjónustustarfsemi. Evrópuþingið og ráðið hafa lagt áherslu á að það sé forgangsmál að ryðja lagalegum hindrunum úr vegi við stofnun raunverulegs innri markaðar svo að ná megi því markmiði, sem leiðtogaráðið setti í Lissabon 23. og 24. mars 2000, að bæta atvinnuástand og efla félagslega samheldni og ná fram sjálfbærum hagvexti til að gera Evrópusambandið að samkeppnishæfasta og öflugasta þekkingarhagkerfi í heiminum fyrir árið 2010 með fleiri og betri störfum. Það að ryðja þessum hindrunum úr vegi ásamt því að tryggja háþróað, evrópskt velferðarkerfi er þannig grundvallarskilyrði fyrir því að sigrast á erfiðleikunum við framkvæmd Lissabon- áætlunarinnar og fyrir því að blása nýju lífi í evrópskt efnahagslíf, einkum með tilliti til atvinnu og fjárfestinga. Því er mikilvægt að koma á innri markaði fyrir þjónustu þar sem jafnvægi ríkir milli opnunar markaðarins og varðveislu opinberrar þjónustu, félagslegra réttinda og réttinda neytenda.
5)          Því er nauðsynlegt að fjarlægja hindranir sem standa í vegi fyrir því að þjónustuveitendur geti nýtt sér staðfesturéttinn í aðildarríkjunum og hindranir í vegi fyrir frjálsri þjónustustarfsemi milli aðildarríkjanna og að tryggja viðtakendum og veitendum þjónustu nauðsynlegt réttaröryggi til að þeir geti nýtt sér þessar tvær tegundir grundvallarfrelsis sem kveðið er á um í sáttmálanum. Þar eð hindranir í vegi fyrir innri markaðnum fyrir þjónustu hafa bæði áhrif á atvinnurekendur sem óska eftir staðfestu í öðrum aðildarríkjum og þá sem veita þjónustu í öðru aðildarríki án þess að hafa þar staðfestu er nauðsynlegt að gera þjónustuveitendum kleift að þróa þjónustustarfsemi sína á innri markaðnum, annaðhvort með því að fá staðfestu í aðildarríki eða með því að nýta sér frjálsa þjónustustarfsemi. Þjónustuveitendum skal gert kleift að velja á milli þessara tveggja tegunda frelsis eftir því hver afstaða þeirra er til vaxtar í hverju aðildarríki.
6)          Ekki er unnt að fjarlægja þessar hindranir með því að styðjast einvörðungu við beina beitingu 43. og 49. gr. sáttmálans þar eð það yrði annars vegar afar flókið fyrir stofnanir í ríkjunum og stofnanir Bandalagsins, einkum eftir stækkunina, að stofna til málsmeðferðar vegna brots gegn viðkomandi aðildarríkjum í hverju einstöku tilviki og hins vegar, þegar mörgum hindrunum er rutt úr vegi, þurfa einstök ríki að hafa samræmt löggjöf sína fyrir fram, m.a. með því að koma á samvinnu á sviði stjórnsýslu. Eins og Evrópuþingið og ráðið hafa viðurkennt gerir lagagerningur Bandalagsins það kleift að koma á raunverulegum innri markaði fyrir þjónustu.
7)          Með þessari tilskipun er settur almennur lagarammi til hagsbóta fyrir margs konar þjónustu og jafnframt tekið tillit til þess sem er sérkennandi fyrir hverja tegund starfsemi eða starfsgreinar og reglukerfis hennar. Þessi rammi byggist á virkri aðferð sem bundin er vali og hefur það sem forgangsverkefni að fjarlægja fyrst hindranir sem fljótlegt er að ryðja úr vegi og, að því er hinar hindranirnar varðar, að hleypa af stokkunum matsferli, samráðsferli og frekari samræmingu tiltekinna atriða sem mun gera kleift að nútímavæða smám saman og á samræmdan hátt reglukerfi fyrir þjónustustarfsemi í ríkjunum sem er mikilvægt í því skyni að koma á raunverulegum innri markaði fyrir þjónustu fyrir árið 2010. Séð skal til þess að fyrir hendi sé jafnvæg blanda ráðstafana sem nær til valinnar samræmingar, samvinnu stjórnvalda, frelsis til að veita þjónustu og hvatningar til þess að þróaðar séu siðareglur starfsstétta um tiltekin málefni. Þessi samræming á löggjöf ríkjanna skal tryggja mikla samþættingu laga í Bandalaginu og víðtæka gæslu almannahagsmuna, einkum neytendavernd, sem er nauðsynlegt til að traust myndist milli aðildarríkja. Í þessari tilskipun er einnig tekið tillit til annarra almannahagsmuna, m.a. verndunar umhverfisins, almannaöryggis og lýðheilsu, svo og þess að fara þarf að vinnulöggjöfinni.
8)          Rétt er að ákvæðin í þessari tilskipun, að því er varðar staðfesturétt og frjálsa þjónustustarfsemi, gildi því aðeins að viðkomandi starfsemi sé opin fyrir samkeppni svo að aðildarríkin séu ekki þvinguð til að auka frelsi í þjónustu sem hefur almenna, efnahagslega þýðingu, til að einkavæða opinberar stofnanir sem veita slíka þjónustu eða til að afnema núverandi einokun að því er varðar aðra starfsemi eða tiltekna dreifingarþjónustu.
9)          Þessi tilskipun gildir einungis um kröfur sem hafa áhrif á aðgang að þjónustustarfsemi eða á það að stunda þá starfsemi. Hún gildir því ekki um kröfur, s.s. reglur um umferð á vegum, reglur um þróun eða notkun lands, borgar- og landsbyggðarskipulag, byggingarstaðla svo og stjórnvaldssektir sem beitt er vegna þess að ekki er farið að slíkum reglum sem stýra ekki sérstaklega eða hafa sérstaklega áhrif á þjónustustarfsemina en sem þjónustuveitendur verða að virða þegar þeir stunda atvinnustarfsemi sína á sama hátt og einstaklingar sem taka sér eitthvað fyrir hendur í eigin nafni.
10)          Þessi tilskipun varðar ekki kröfur í tengslum við aðgang tiltekinna þjónustuveitenda að almannafé. Þar er m.a. um að ræða kröfur þar sem mælt er fyrir um skilyrði sem þjónustuveitendur verða að uppfylla til að eiga rétt á opinberum fjárframlögum, þ.m.t. tilteknir samningsskilmálar, einkum gæðastaðlar sem þjónustuveitendur verða að fylgja til að geta fengið fjármuni frá hinu opinbera, t.d. að því er varðar félagsþjónustu.
11)          Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á ráðstafanir sem aðildarríki grípa til, í samræmi við lög Bandalagsins, í tengslum við vernd eða eflingu menningarlegrar fjölbreytni, margbreytileika tungumála og fjölbreyttrar fjölmiðlunar, þ.m.t. fjármögnun þeirra. Með þessari tilskipun er ekki komið í veg fyrir að aðildarríkin geti beitt grundvallarreglum sínum og meginreglum sem tengjast prentfrelsi og tjáningarfrelsi. Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á lög aðildarríkja sem banna mismunun á grundvelli þjóðernis eða af ástæðum eins og þeim sem eru settar fram í 13. gr. sáttmálans.
12)          Með tilskipun þessari er stefnt að því að smíða lagaramma til að tryggja staðfesturétt og frjálsa þjónustustarfsemi milli aðildarríkjanna en ekki verið að samræma eða hafa áhrif á hegningarlög. Aðildarríkin skulu þó ekki geta takmarkað frelsi til að veita þjónustu með því að beita ákvæðum hegningarlaga sem hafa sérstaklega áhrif á aðgang að þjónustustarfsemi eða á það að stunda þá starfsemi og sniðgengið með því reglurnar sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
13)          Jafnmikilvægt er að þessi tilskipun virði að fullu framtaksverkefni Bandalagsins, sem byggjast á 137. gr. sáttmálans, í því skyni að ná fram markmiðunum í 136. gr. hans um eflingu atvinnu og bætt lífskjör og vinnuskilyrði.
14)          Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á ráðningarskilmála og -skilyrði, þ.m.t. hámarksvinnutími og lágmarkshvíldartími, lágmarksfjöldi greiddra, árlegra frídaga, lágmarkslaun, svo og heilbrigði og öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, sem aðildarríki beita í samræmi við lög Bandalagsins, og hefur ekki áhrif á samskipti milli aðila vinnumarkaðarins, þ.m.t. rétturinn til að semja um og ganga frá kjarasamningum og rétturinn til að fara í verkfall og grípa til aðgerða á vinnustað í samræmi við landslög og -venjur sem virða lög Bandalagsins, né heldur gildir hún um þjónustu sem starfsmannaleigur veita. Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á almannatryggingalöggjöf aðildarríkjanna.
15)          Í þessari tilskipun er virt nýting grundvallarréttinda, sem gilda í aðildarríkjunum, eins og þau eru viðurkennd í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi og í skýringunum, sem honum fylgja, þar sem þau eru samræmd við grundvallarfrelsið sem mælt er fyrir um í 43. og 49. gr. sáttmálans. Þessi grundvallarréttindi fela í sér rétt til að grípa til aðgerða á vinnustað í samræmi við landslög og -venjur sem eru í samræmi við lög Bandalagsins.
16)          Þessi tilskipun varðar aðeins þjónustuveitendur með staðfestu í aðildarríki og tekur ekki til ytri þátta. Hún varðar ekki samningaviðræður innan alþjóðastofnana um viðskipti með þjónustu, einkum innan ramma hins almenna samnings um þjónustuviðskipti (GATS).
17)          Þessi tilskipun tekur aðeins til þjónustu sem er veitt gegn endurgjaldi. Skilgreiningin í 50. gr. sáttmálans tekur ekki til þjónustu í almannaþágu og fellur þjónustan því ekki undir gildissvið þessarar tilskipunar. Þjónusta, sem hefur almenna, efnahagslega þýðingu, er þjónusta sem er veitt gegn endurgjaldi og fellur því undir gildissvið þessarar tilskipunar. Tiltekin þjónusta sem hefur almenna, efnahagslega þýðingu, t.d. á sviði flutninga, fellur þó utan gildissviðs þessarar tilskipunar og önnur tiltekin þjónusta sem hefur almenna, efnahagslega þýðingu, t.d. á sviði póstþjónustu, er háð undanþágu frá ákvæðinu um frelsi til að veita þjónustu sem sett er fram í þessari tilskipun. Í þessari tilskipun er ekki fjallað um fjármögnun þjónustu sem hefur almenna, efnahagslega þýðingu og gildir ekki um kerfi aðstoðar sem aðildarríkin veita, einkum á sviði félagsmála, í samræmi við samkeppnisreglur Bandalagsins. Í þessari tilskipun er ekki fjallað um eftirfylgni við hvítbók framkvæmdastjórnarinnar um þjónustu í almannaþágu.
18)          Fjármálaþjónusta fellur utan gildissviðs þessarar tilskipunar þar eð sú starfsemi er háð sértækri löggjöf Bandalagsins sem miðar að því, eins og þessi tilskipun, að koma á raunverulegum innri markaði fyrir þjónustu. Öll fjármálaþjónusta, s.s. á sviði bankaviðskipta, lána, vátrygginga, þ.m.t. endurtrygging, starfstengdur lífeyrir og séreignarlífeyrir, verðbréf, fjárfestingarsjóðir, greiðslu- og fjárfestingarráðgjöf, þ.m.t. þjónusta sem er talin upp í I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana ( 1 ), fellur því utan gildissviðs þessarar tilskipunar.
19)          Með tilliti til þess að árið 2002 var samþykkt safn lagagerninga um rafræn fjarskiptanet og -þjónustu, svo og um tilheyrandi tilföng og þjónustu, þar sem settur er fram reglurammi sem auðveldar aðgang að þessari starfsemi á innri markaðnum, einkum með því að leggja að mestu niður sérstakt fyrirkomulag leyfisveitinga, er nauðsynlegt að mál, sem þessir gerningar fjalla um, falli utan gildissviðs þessarar tilskipunar.
20)          Undanþágurnar frá gildissviði þessarar tilskipunar að því er varðar málefni rafrænnar fjarskiptaþjónustu, sem fjallað er um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/19/ EB frá 7. mars 2002 um aðgang að rafrænum fjarskiptanetum og samtengingu þeirra og tilheyrandi aðstöðu (tilskipun um aðgang) ( 2 ), í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/ 20/EB frá 7. mars 2002 um heimild fyrir rafrænum fjarskiptanetum og -þjónustu (heimildartilskipun) ( 3 ), í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/21/EB frá 7. mars 2002 um sameiginlegan regluramma um rafræn fjarskiptanet og -þjónustu (rammatilskipun) ( 4 ), í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/ 22/EB frá 7. mars 2002 um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og -þjónustu (tilskipun um alþjónustu) ( 5 ) og í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/58/EB frá 12. júlí 2002 um vinnslu persónuupplýsinga og um verndun einkalífs á sviði rafrænna fjarskipta (tilskipun um friðhelgi einkalífsins og rafræn fjarskipti) ( 6 ), skulu ekki aðeins gilda um álitamál sem sérstaklega er fjallað um í þessum tilskipunum heldur einnig um mál sem aðildarríkin geta með hliðsjón af skýrum ákvæðum í tilskipununum gert tilteknar ráðstafanir um á landsvísu.
21)          Flutningaþjónusta, þar á meðal flutningar í þéttbýli, leigubílar og sjúkrabílar, svo og hafnaþjónusta, fellur utan gildissviðs þessarar tilskipunar.
22)          Heilbrigðisþjónusta, sem fellur utan gildissviðs þessarar tilskipunar, tekur til heilbrigðis- og lyfjaþjónustu sem fagfólk í heilbrigðisþjónustu veitir sjúklingum til að meta, viðhalda eða endurheimta heilsu þeirra þegar þessi starfsemi er bundin lögvernduðum heilbrigðisstarfsgreinum í aðildarríkinu þar sem þjónustan er veitt.
23)          Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á endurgreiðslu heilbrigðisþjónustu sem veitt er í öðru aðildarríki en því þar sem sá sem nýtur heilbrigðisþjónustunnar hefur aðsetur. Dómstóllinn hefur margsinnis fjallað um þetta mál og hann hefur viðurkennt réttindi sjúklinga. Mikilvægt er að fjalla um þetta mál í öðrum lagagerningi Bandalagsins í því skyni að ná fram auknu réttaröryggi og skýrleika að svo miklu leyti sem ekki er þegar fjallað um þetta mál í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1408/71 frá 14. júní 1971 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja ( 1 ).
24)          Myndmiðlunarþjónusta, burtséð frá flutningsaðferðinni, þ.m.t. í kvikmyndahúsum, skal einnig falla utan gildissviðs þessarar tilskipunar. Þessi tilskipun gildir ekki heldur um aðstoð sem aðildarríki veita í hljóð- og myndmiðlageiranum sem samkeppnisreglur Bandalagsins taka til.
25)          Fjárhættustarfsemi, þar á meðal happdrætti og veðmálaviðskipti, fellur utan gildissviðs þessarar tilskipunar vegna sérstaks eðlis þeirrar starfsemi sem felur í sér að aðildarríkin hrindi í framkvæmd stefnu viðvíkjandi allsherjarreglu og neytendavernd.
26)          Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á beitingu 45. gr. sáttmálans.
27)          Þessi tilskipun tekur ekki til þeirrar félagsþjónustu á sviði húsnæðismála, barnagæslu og stuðnings við fjölskyldur og einstaklinga, sem þurfa á aðstoð að halda, sem ríkið sér um á innlendum, svæðisbundnum og staðbundnum vettvangi og þjónustuaðilar með umboð frá ríkinu eða viðurkennd góðgerðarfélög veita með það að markmiði að tryggja stuðning við þá sem þurfa á honum að halda, viðvarandi eða tímabundið, vegna ónógra fjölskyldutekna eða vegna þess að þeir eru öðrum háðir, að nokkru eða öllu leyti, og við þá sem eiga á hættu að lenda utangarðs. Þessi þjónusta er afar mikilvæg í því skyni að tryggja grundvallarrétt til mannlegrar reisnar og friðhelgi og hún er vitnisburður um meginreglurnar um félagslega samheldni og samstöðu og hefur þessi tilskipun ekki áhrif á hana.
28)          Þessi tilskipun fjallar ekki um fjármögnun félagsþjónustunnar eða stuðningskerfið sem henni tengist. Hún hefur heldur ekki áhrif á viðmiðanirnar eða skilyrðin sem aðildarríkin setja til að tryggja að félagsþjónustan ræki starf sitt á skilvirkan hátt í þágu almannaheilla og félagslegrar samheldni. Að auki hefur þessi tilskipun ekki áhrif á meginregluna um alþjónustu í félagsþjónustu aðildarríkjanna.
29)          Þar eð með sáttmálanum er lagður sérstakur, lagalegur grunnur fyrir skattlagningu og þar eð Bandalagið hefur þegar samþykkt lagagerninga á þessu sviði er nauðsynlegt að svið skattlagningar falli utan gildissviðs þessarar tilskipunar.
30)          Fyrirliggjandi löggjöf Bandalagsins um þjónustustarfsemi er umfangsmikil. Þessi tilskipun byggist á gerðum Bandalagsins og er þannig viðbót við þær. Misræmi milli þessarar tilskipunar og annarra gerninga Bandalagsins hefur verið skilgreint og í þessi tilskipun er tekið á því, m.a. með undanþágum. Nauðsynlegt er þó að setja reglu um önnur tilvik og undantekningar ef misræmi er milli ákvæðis þessarar tilskipunar og ákvæðis annars gernings Bandalagsins. Ákvarða skal slíkt misræmi í samræmi við reglur sáttmálans um staðfesturétt og frjálsa þjónustustarfsemi.
31)          Þessi tilskipun er í samræmi við og hefur ekki áhrif á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi ( 2 ). Hún fjallar um álitamál önnur en þau sem tengjast faglegri menntun og hæfi, t.d. starfsábyrgðartryggingar, viðskiptaorðsendingar, þverfaglega starfsemi og einföldun stjórnsýslu. Að því er varðar tímabundna veitingu þjónustu yfir landamæri tryggir undanþága frá ákvæðinu í þessari tilskipun um frjálsa þjónustustarfsemi að það hefur ekki áhrif á II. bálk í tilskipun 2005/36/ EB um frelsi til að veita þjónustu. Ákvæðið um frelsi til að veita þjónustu hefur því ekki áhrif á neinar ráðstafanir sem gilda samkvæmt þessari tilskipun í aðildarríkinu þar sem þjónustan er veitt.
32)          Þessi tilskipun er í samræmi við löggjöf Bandalagsins um neytendavernd, s.s. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/EB frá 11. maí 2005 um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum (tilskipun um óréttmæta viðskiptahætti) ( 3 ) og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2006/2004 frá 27. október 2004 um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd (reglugerð um samvinnu um neytendavernd) ( 1 ).
33)          Þjónustan, sem þessi tilskipun tekur til, varðar fjölbreytta og síbreytilega starfsemi, þ.m.t. viðskiptaþjónusta s.s. rekstrarráðgjöf, vottun og prófun, viðhald og ræsting aðstöðu, þ.m.t. viðhald skrifstofa, auglýsingar, ráðningarþjónusta og þjónusta umboðsaðila. Tilskipunin tekur einnig til þjónustu sem veitt er bæði fyrirtækjum og neytendum, eins og lögfræði- eða skattaráðgjafar, fasteignaþjónusta, s.s. fasteignasala, byggingarstarfsemi, þ.m.t. þjónusta arkitekta, dreifingarstarfsemi, skipulagningar kaupstefna, bílaleiga og ferðaskrifstofa. Tilskipunin tekur einnig til neytendaþjónustu s.s. á sviði ferðamála, þ.m.t. leiðsögumenn, afþreyingarþjónusta, íþróttamiðstöðvar og skemmtigarðar og, að því marki sem hún fellur ekki utan gildissviðs tilskipunarinnar, til stuðningsþjónustu við heimili, s.s. aðstoð við aldraða. Undir þessa starfsemi getur fallið þjónusta sem krefst þess að veitandi þjónustunnar og viðtakandi hennar séu nærri hvor öðrum, þjónusta sem krefst þess að viðtakandi eða þjónustuveitandi ferðist og þjónusta sem unnt er að fjarmiðla, þ.m.t. um Netið.
34)          Samkvæmt dómaframkvæmd Dómstólsins verður að meta í hverju tilviki fyrir sig hvort tiltekin starfsemi, einkum starfsemi sem er fjármögnuð af almannafé eða sem opinberar stofnanir veita, telst vera „þjónusta“ og þá verður að hafa í huga öll einkenni hennar, einkum hvernig hún er veitt, skipulögð og fjármögnuð í viðkomandi aðildarríki. Dómstóllinn hefur úrskurðað að grundvallareinkenni þóknunar felist í því að hún er endurgjald fyrir viðkomandi þjónustu og hann hefur viðurkennt að einkenni þóknunar séu ekki fyrir hendi í starfsemi sem ríkið annast eða sem aðrir sjá um fyrir hönd ríkisins, og ekki er tekið endurgjald fyrir, í tengslum við skyldur ríkisins á sviði félags-, menningar-, mennta- og dómsmála, s.s. kennsla innan menntakerfis ríkis eða rekstur almannatryggingakerfa sem stunda ekki atvinnustarfsemi. Þegar viðtakandi þjónustu greiðir gjald, t.d. gjald sem námsmenn greiða fyrir kennslu eða innritun í því skyni að leggja fé af mörkum til rekstrarkostnaðar kerfis, telst það í sjálfu sér ekki vera þóknun vegna þess að þjónustan er eftir sem áður aðallega fjármögnuð af opinberu fé. Skilgreiningin á þjónustu í 50. gr. sáttmálans tekur því ekki til þessarar starfsemi og hún fellur þar af leiðandi ekki innan gildissviðs þessarar tilskipunar.
35)          Íþróttastarf áhugamanna, sem er ekki rekið í hagnaðarskyni, gegnir þýðingarmiklu félagslegu hlutverki. Markmið þess eru oft aðeins félagsleg eða tengjast tómstundastarfi. Það telst því ekki vera atvinnustarfsemi í skilningi laga Bandalagsins og skal falla utan gildissviðs þessarar tilskipunar.
36)          Hugtakið „þjónustuveitandi“ skal taka til hvers þess einstaklings sem er ríkisborgari í aðildarríki eða hvers þess lögaðila sem stundar þjónustustarfsemi í aðildarríki og nýtir sér annaðhvort staðfesturétt eða frjálsa þjónustustarfsemi. Þjónustuveitandahugtakið skal því ekki einskorðast við veitingu þjónustu yfir landamæri innan ramma frjálsrar þjónustustarfsemi heldur skal það einnig taka til tilvika þar sem rekstraraðili setur upp starfsstöð í aðildarríki í því skyni að þróa þjónustustarfsemi sína þar. Á hinn bóginn skal þjónustuveitandahugtakið ekki taka til útibúa fyrirtækja frá þriðju löndum í aðildarríki vegna þess að skv. 48. gr. sáttmálans getur staðfesturéttur og frjáls þjónustustarfsemi aðeins komið þeim fyrirtækjum til góða sem eru stofnuð í samræmi við lög aðildarríkis og eru með skráða skrifstofu, yfirstjórn eða aðalstarfsstöð innan Bandalagsins. Hugtakið „viðtakandi“ skal einnig taka til ríkisborgara þriðja lands sem njóta nú þegar góðs af réttindum sem gerðir Bandalagsins hafa veitt þeim, eins og reglugerð (EBE) nr. 1408/71, tilskipun ráðsins 2003/109/EB frá 25. nóvember 2003 um ríkisborgara þriðju landa sem hafa stöðu einstaklinga með fasta búsetu ( 2 ), reglugerð ráðsins (EB) nr. 859/2003 frá 14. maí 2003 um að láta ákvæði reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 og reglugerðar (EBE) nr. 574/72 ná til ríkisborgara þriðju landa sem þessi ákvæði taka ekki þegar til einungis á grundvelli þjóðernis þeirra ( 3 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/38/EB frá 29. apríl 2004 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsra flutninga og búsetu á yfirráðasvæði aðildarríkjanna ( 1 ). Aðildarríki geta enn fremur rýmkað merkingu viðtakandahugtaksins þannig að það nái til annarra ríkisborgara þriðja lands sem eru staddir á yfirráðasvæði þeirra.
37)          Ákvarða skal hvar þjónustuveitandi hefur staðfestu í samræmi við dómaframkvæmd Dómstólsins en samkvæmt henni felst í hugtakinu staðfesta að rekin er virk atvinnustarfsemi ótímabundið í fastri starfsstöð. Einnig er unnt að fullnægja þessari kröfu ef félag er stofnað til tiltekins tíma eða ef það leigir bygginguna eða stöðina þar sem það stundar starfsemi sína. Einnig er unnt að fullnægja henni ef aðildarríki veitir leyfi aðeins vegna tiltekinnar þjónustu í takmarkaðan tíma. Starfsstöð þarf ekki að vera í formi dótturfélags, útibús eða umboðsaðila heldur getur hún verið skrifstofa sem starfsfólk þjónustuveitanda rekur eða sjálfstæður aðili sem hefur ótímabundna heimild til að koma fram fyrir hönd fyrirtækisins, eins og þegar um umboðsaðila er að ræða. Samkvæmt þessari skilgreiningu, sem gerir kröfu um raunverulega atvinnustarfsemi á þeim stað þar sem þjónustuveitandinn hefur staðfestu, telst póstkassi ekki jafngilda starfsstöð. Ef þjónustuveitandi hefur staðfestu á mörgum stöðum er mikilvægt að ákvarða frá hvaða starfsstöð viðkomandi eiginleg þjónusta er veitt. Ef erfitt er að ákvarða, þegar um marga staðfestustaði er að ræða, frá hvaða staðfestustað tiltekin þjónusta er veitt telst staðfestustaðurinn vera sá staður þar sem þjónustuveitandinn veitir aðallega þessa tilteknu þjónustu.
38)          Hugtakið „lögaðilar“ gerir, samkvæmt ákvæðum sáttmálans um staðfestu, rekstraraðilum kleift að velja sér það rekstrarform að lögum sem þeir álíta viðeigandi fyrir starfsemi sína. Í samræmi við það merkir „lögaðilar“, í skilningi sáttmálans, allar einingar sem eru stofnaðar samkvæmt lögum aðildarríkis eða falla undir þau, óháð því hvert rekstrarform þeirra er að lögum.
39)          Hugtakið „fyrirkomulag leyfisveitinga“ skal m.a. taka til stjórnsýslumeðferðar við veitingu leyfa, heimilda, samþykkta eða sérleyfa en einnig til þeirrar skyldu að vera, í því skyni að geta stundað tiltekna starfsemi, skráður félagi í starfsgreinafélagi eða vera á skrá, á lista eða í gagnagrunni, opinberlega aðili að samtökum eða handhafi skírteinis sem staðfestir aðild að tiltekinni starfsgrein. Ekki er aðeins unnt að veita leyfi með formlegri ákvörðun heldur einnig með óbeinni ákvörðun, t.d. vegna þess að lögbært yfirvald lætur ekki í sér heyra eða vegna þess að hagsmunaaðilinn verður að bíða eftir staðfestingu á viðtöku yfirlýsingar til þess að geta hafið umrædda starfsemi eða til þess að hún verði lögmæt.
40)          Hugtakið „brýnir almannahagsmunir“, sem vísað er til í tilteknum ákvæðum þessarar tilskipunar, hefur þróast hjá Dómstólnum í dómaframkvæmd hans í tengslum við 43. og 49. gr. sáttmálans og getur haldið áfram að þróast. Eftirfarandi svið a.m.k. falla undir hugtakið eins og það er viðurkennt í dómaframkvæmd Dómstólsins: allsherjarregla, almannaöryggi og lýðheilsa í skilningi 46. og 55. gr. sáttmálans, viðhald reglu í samfélaginu, félagsleg stefnumið, vernd viðtakenda þjónustu, neytendavernd, starfsmannavernd, þ.m.t. félagsleg vernd starfsmanna, velferð dýra, varðveisla fjárhagslegs jafnvægis almannatryggingakerfisins, forvarnir gegn svikum, forvarnir gegn ósanngjarnri samkeppni, vernd umhverfisins og þéttbýlis, þ.m.t. borgar- og landsbyggðarskipulag, vernd lánardrottna, vernd öruggrar réttarvörslu, umferðaröryggi, vernd hugverka, markmið í menningarstefnu, þ.m.t. vernd tjáningarfrelsis á mismunandi sviðum, einkum félagslegra, menningarlegra, trúarlegra og heimspekilegra gilda samfélagsins, þörfin fyrir að tryggja góða menntun, viðhald fjölbreyttrar fjölmiðlunar og efling þjóðtungunnar, varðveisla sögulegs og listræns þjóðararfs og stefna í dýraheilbrigðismálum.
41)          Hugtakið „allsherjarregla“, eins og Dómstóllinn túlkar það, tekur til verndar gegn raunverulegri og nægilega alvarlegri ógnun við grundvallarhagsmuni samfélagsins og getur einkum falið í sér mál sem tengjast mannlegri reisn, vernd barna undir lögaldri og fullorðinna í áhættuhópi og velferð dýra. Á sama hátt felur hugtakið um almannaöryggi í sér málefni er varða öryggi borgaranna.
42)          Reglurnar, sem varða stjórnsýslumeðferð, skulu ekki miða að samræmingu stjórnsýslumeðferða heldur að því að afnema óþarflega íþyngjandi fyrirkomulag leyfisveitinga, verklag og formsatriði sem standa í vegi fyrir staðfesturéttinum og þar með stofnun nýrra þjónustufyrirtækja.
43)          Eitt helsta vandkvæðið, sem einkum lítil og meðalstór fyrirtæki standa frammi fyrir að því er varðar aðgang að þjónustustarfsemi og rekstur hennar, er hve stjórnsýslumeðferðin er flókin, tímafrek og hve lagaleg óvissa hennar er mikil. Af þeirri ástæðu og með tiltekin framtaksverkefni um nútímavæðingu og góðar stjórnsýsluvenjur, sem ráðist hefur verið í innan Bandalagsins og í ríkjunum, að fyrirmynd er nauðsynlegt að fastsetja meginreglur um einföldun stjórnsýslunnar, t.d. með því að takmarka kröfuna um fyrirframleyfi við þau tilvik þar sem það er mikilvægt og með því að taka upp meginregluna um þegjandi samþykki af hálfu lögbærra yfirvalda eftir að tiltekinn frestur er liðinn. Með slíkum aðgerðum til nútímavæðingar er ætlunin, jafnframt því sem þeim er ætlað að viðhalda kröfum um gagnsæi og uppfærslu upplýsinga um rekstraraðila, að útrýma töfum, kostnaði og letjandi áhrifum sem t.d. verða vegna ónauðsynlegra eða óþarflega flókinna og íþyngjandi starfshátta, tvíverknaðar, skriffinnsku við framlagningu skjala, handahófskenndrar beitingar valds af hálfu lögbærra yfirvalda, ótiltekins eða óþarflega langs afgreiðslutíma, takmarkaðs gildistíma veittra leyfa og óhóflegra gjalda og viðurlaga. Slíkar venjur hafa sérstaklega letjandi áhrif á þjónustuveitendur sem vilja þróa starfsemi sína í öðrum aðildarríkjum og þurfa á samhæfðri nútímavæðingu að halda innan stækkaðs innri markaðar um tuttugu og fimm aðildarríkja.
44)          Aðildarríkin skulu innleiða, þar sem við á, samræmd eyðublöð á vettvangi Bandalagsins, eins og framkvæmdastjórnin hefur ákvarðað, sem verða jafngild vottorðum, staðfestingum eða hvers konar öðrum skjölum í tengslum við staðfestu.
45)          Í því skyni að kanna hvort þörf sé á að einfalda málsmeðferð og formsatriði skulu aðildarríkin einkum geta tekið tillit til þess hvort þau eru nauðsynleg, til fjölda þeirra, hugsanlegs tvíverknaðar, kostnaðar, gagnsæis og aðgengis, svo og til tafa og erfiðleika sem þau gætu valdið viðkomandi þjónustuveitanda.
46)          Nauðsynlegt er, í því skyni að auðvelda aðgang að þjónustustarfsemi og að stunda hana á innri markaðnum, að fastsetja markmið, sem er sameiginlegt öllum aðildarríkjunum, um einföldun stjórnsýslunnar og að mæla fyrir um ákvæði, m.a. um réttinn til upplýsinga, rafrænnar málsmeðferðar og til þess að settur verði rammi um fyrirkomulag leyfisveitinga. Aðrar ráðstafanir, sem eru samþykktar í ríkjunum til að ná fram því markmiði, gætu falist í því að draga úr því hversu oft er gripið til málsmeðferðar og formsatriða sem gilda um þjónustustarfsemi og að takmarka slíka málsmeðferð og formsatriði við það sem eru nauðsynlegt til að þjóna almannahagsmunum og skarast ekki að því er varðar efni eða tilgang.
47)          Í þeim tilgangi að einfalda stjórnsýsluna skal ekki gera almennar, formlegar kröfur, eins og um að leggja fram frumrit skjala, staðfest endurrit eða löggilta þýðingu, nema þar sem það er rökstutt á hlutlægan hátt með vísan til brýnna almannahagsmuna, t.d. verndar starfsmanna, lýðheilsu, verndar umhverfisins eða neytendaverndar. Einnig er nauðsynlegt að tryggja að leyfi heimili alla jafna aðgang að þjónustustarfsemi eða að hún sé stunduð á öllu yfirráðasvæði ríkis nema það sé rökstutt efnislega með brýnum almannahagsmunum að nýtt leyfi þurfi fyrir hverja starfsstöð, t.d. fyrir hvern nýjan risamarkað, eða að leyfi sé takmarkað við tiltekinn hluta yfirráðasvæðis ríkis.
48)          Í því skyni að einfalda stjórnsýslumeðferð frekar þykir rétt að tryggja að hver þjónustuveitandi þurfi aðeins að fara á einn stað þar sem hann getur lokið allri málsmeðferð og gengið frá formsatriðum (hér á eftir nefndur „upplýsinga- og þjónustumiðstöð“). Fjöldi upplýsinga- og þjónustumiðstöðva í hverju aðildarríki getur verið mismunandi eftir svæðisbundnu eða staðbundnu valdsviði eða viðkomandi starfsemi. Stofnun upplýsinga- og þjónustumiðstöðva skal ekki hafa áhrif á skiptingu starfa milli lögbærra yfirvalda innan kerfis hvers ríkis. Ef mörg, lögbær yfirvöld eru á svæðis- eða staðarvísu getur eitt þeirra tekið að sér hlutverk upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar og samræmingaraðila. Yfirvöld á sviði stjórnsýslu eru ekki ein um að geta sett upp upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar heldur getur aðildarríki ákveðið að fela verslunarráðum eða starfsgreinafélögum, fagfélögum eða einkaaðilum að gera það. Upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar gegna mikilvægu hlutverki við að aðstoða þjónustuveitendur, annaðhvort sem það yfirvald sem með beinum hætti er til þess bært að gefa út þau skjöl sem eru nauðsynleg til að fá aðgang að þjónustustarfsemi eða sem milliliður milli þjónustuveitanda og þeirra yfirvalda sem eru til þess bær milliliðalaust.
49)          Gjaldið, sem upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar geta krafist, skal vera í réttu hlutfalli við kostnað af þeirri málsmeðferð og formsatriðum sem þær fást við. Þetta skal ekki koma í veg fyrir að aðildarríkin feli upplýsinga og þjónustumiðstöðvum að innheimta önnur umsýslugjöld, eins og þóknun til eftirlitsaðila.
50)          Veitendum og viðtakendum þjónustu er nauðsynlegt að hafa greiðan aðgang að tilteknum tegundum upplýsinga. Það skal vera á valdi hvers aðildarríkis að ákvarða, innan ramma þessarar tilskipunar, með hvaða hætti þjónustuveitendur og viðtakendur fá upplýsingar. Einkum gæti verið unnt að uppfylla þá skyldu, sem hvílir á herðum aðildarríkjanna, að tryggja að þjónustuveitendur og -viðtakendur eigi greiðan aðgang að viðeigandi upplýsingum, með því að veita almenningi hindrunarlausan aðgang að upplýsingunum á vefsetri. Allar upplýsingar skal veita á skýran og ótvíræðan hátt.
51)          Upplýsingar til veitenda og viðtakenda þjónustu skulu einkum fela í sér upplýsingar um málsmeðferð og formsatriði, um hvernig unnt er að ná sambandi við lögbær yfirvöld, um skilyrði fyrir aðgangi að opinberum skrám og gagnagrunnum og um tiltæk úrræði og upplýsingar um hvernig unnt er að ná sambandi við samtök og stofnanir þar sem þjónustuveitendur eða -viðtakendur geta fengið hagnýta aðstoð. Sú skylda lögbærra yfirvalda að aðstoða þjónustuveitendur og -viðtakendur skal ekki fela í sér lagalega ráðgjöf í einstökum tilvikum. Engu að síður skal veita almennar upplýsingar um hvernig kröfur eru alla jafna túlkaðar eða hvernig þeim er beitt. Aðildarríkin skulu ákvarða um málefni eins og ábyrgð sem fylgir því að veita rangar eða villandi upplýsingar.
52)          Afar brýnt er, vegna einföldunar stjórnsýslunnar á sviði þjónustustarfsemi, að í fyrirsjáanlegri framtíð verði komið á aðferðum til að ljúka málsmeðferð og ganga frá formsatriðum með rafrænum hætti, til hagsbóta fyrir þjónustuveitendur, þjónustuviðtakendur og lögbær yfirvöld. Hugsanlega þarf að aðlaga landslög og aðrar reglur, sem gilda um þjónustu, í því skyni að uppfylla skuldbindinguna um að ná árangri. Þessi skuldbinding skal ekki koma í veg fyrir að auk rafrænna aðferða leggi aðildarríkin til aðrar aðferðir til að ljúka slíkri málsmeðferð og ganga frá formsatriðum. Það að unnt skuli vera að ljúka þessari málsmeðferð og ganga frá formsatriðum með fjarmiðlun felur einkum í sér að aðildarríkin verða að sjá til þess að unnt sé að ganga frá þeim yfir landamæri. Skuldbindingin um að ná árangri tekur ekki til málsmeðferðar eða formsatriða sem eðlis þeirra vegna er ekki unnt að ganga frá með fjarmiðlun. Enn fremur hefur þetta ekki áhrif á löggjöf aðildarríkjanna um notkun tungumála.
53)          Við veitingu leyfa fyrir tiltekna þjónustustarfsemi geta lögbær yfirvöld þurft að boða umsækjanda í viðtal í því skyni að meta ráðvendni hans og hæfi til að veita viðkomandi þjónustu. Í slíkum tilvikum kann að vera óviðeigandi að ganga frá formsatriðum með rafrænum hætti.
54)          Möguleiki á að fá aðgang að þjónustustarfsemi skal því aðeins háður leyfi lögbærra yfirvalda að ákvörðunin uppfylli skilyrði um bann við mismunun, um að hún sé nauðsynleg og að með henni sé gætt meðalhófs. Þetta felur einkum í sér að fyrirkomulag leyfisveitinga skal því aðeins vera leyfilegt að skoðun eftir á yrði árangurslaus vegna þess að útilokað væri að ganga úr skugga um galla á viðkomandi þjónustu eftir á, að teknu tilhlýðilegu tilliti til áhættu og hættu sem gæti stafað af því að ekki var skoðað fyrir fram. Ekki er þó hægt að reiða sig á ákvæði þess efnis í þessari tilskipun í því skyni að réttlæta fyrirkomulag leyfisveitinga sem aðrir gerningar Bandalagsins banna, s.s. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/93/EB frá 13. desember 1999 um ramma Bandalagsins varðandi rafrænar undirskriftir ( 1 ) eða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum („tilskipun um rafræn viðskipti“) ( 2 ). Niðurstöður gagnkvæms mats munu gera kleift að ákvarða, á vettvangi Bandalagsins, hvers konar starfsemi skal ekki falla undir fyrirkomulag leyfisveitinga.
55)          Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á þann möguleika aðildarríkjanna að afturkalla leyfi eftir að þau hafa verið gefin út ef skilyrðin fyrir leyfisveitingunni eru ekki lengur uppfyllt.
56)          Samkvæmt dómaframkvæmd Dómstólsins falla lýðheilsa, neytendavernd, heilbrigði dýra og vernd þéttbýlisumhverfis undir brýna almannahagsmuni. Slíkir brýnir almannahagsmunir geta réttlætt notkun fyrirkomulags leyfisveitinga og annarra takmarkana. Ekkert slíkt fyrirkomulag leyfisveitinga eða takmörkun skal þó mismuna á grundvelli þjóðernis. Að auki skal ávallt virða nauðsynjarregluna (principle of necessity) og meðalhófsregluna.
57)          Ákvæði þessarar tilskipunar um fyrirkomulag leyfisveitinga skulu varða tilvik þar sem aðgangur rekstraraðila að þjónustustarfsemi, eða það að stunda slíka starfsemi, er háð ákvörðun lögbærs yfirvalds. Þetta varðar hvorki ákvarðanir lögbærra yfirvalda um að setja á stofn opinberan aðila eða einkaaðila til að veita tiltekna þjónustu né samningagerð lögbærra yfirvalda vegna veitingar tiltekinnar þjónustu sem lýtur reglum um opinber innkaup, þar eð þessi tilskipun fjallar ekki um reglur um opinber innkaup.
58)          Í því skyni að auðvelda aðgang að þjónustustarfsemi og það að stunda hana er mikilvægt að meta og gefa skýrslu um fyrirkomulag leyfisveitinga og rökin fyrir því. Þessi kvöð um skýrslugjöf varðar aðeins það hvort fyrir hendi er fyrirkomulag leyfisveitinga en ekki viðmiðanir og skilyrði fyrir veitingu leyfis.
59)          Leyfið skal að jafnaði gera þjónustuveitandanum kleift að hafa aðgang að þjónustustarfsemi eða að stunda slíka starfsemi á öllu yfirráðasvæði ríkis nema unnt sé að færa rök fyrir því að takmarka svæðið með vísan til brýnna almannahagsmuna. Vernd umhverfisins getur t.d. réttlætt kröfu um að fá sérstakt leyfi fyrir hverju mannvirki á yfirráðasvæði ríkis. Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á svæðisbundnar eða staðbundnar valdheimildir til leyfisveitinga innan aðildarríkjanna.
60)          Þessi tilskipun, einkum ákvæðin um fyrirkomulag leyfisveitinga og gildissvæði leyfis, skal ekki hafa áhrif á skiptingu svæðisbundinna og staðbundinna valdheimilda innan aðildarríkjanna, þ.m.t. svæðisbundin og staðbundin sjálfstjórn og notkun opinberra tungumála.
61)          Ákvæðið um að skilyrði fyrir veitingu leyfis skuli ekki skarast kemur ekki í veg fyrir að aðildarríkin geti sett eigin skilyrði eins og tilgreint er í fyrirkomulagi leyfisveitinga. Í því er einungis gerð krafa um að lögbær yfirvöld taki, þegar þau íhuga hvort umsækjandi uppfylli þessi skilyrði, tillit til samsvarandi skilyrða sem umsækjandinn hefur þegar uppfyllt í öðru aðildarríki. Með þessu ákvæði er ekki gerð krafa um að beitt sé skilyrðum fyrir veitingu leyfis sem kveðið er á um í fyrirkomulagi leyfisveitinga í öðru aðildarríki.
62)          Ef fjöldi leyfa fyrir starfsemi er takmarkaður vegna þess að náttúruauðlindir eða tæknigeta eru af skornum skammti skal samþykkja aðferð til að velja á milli nokkurra hugsanlegra umsækjenda í þeim tilgangi að auka gæði á og bæta skilyrði fyrir framboð á þjónustu sem notendum stendur til boða í frjálsri samkeppni. Slík aðferð skal veita tryggingu fyrir gagnsæi og óhlutdrægni og leyfið, sem þannig er veitt, skal ekki gilda of lengi, það skal ekki endurnýjast sjálfkrafa eða fela í sér ávinning fyrir þjónustuveitanda sem er með nýútrunnið leyfi. Lengd leyfis, sem hefur verið veitt, skal einkum ákvarðað þannig að frjáls samkeppni takmarkist ekki eða skerðist umfram það sem nauðsynlegt er í því skyni að gera þjónustuveitanda kleift að endurheimta fjárfestingarkostnaðinn og fá sanngjarna ávöxtun á því fjármagni sem er fjárfest. Þetta ákvæði skal ekki koma í veg fyrir að aðildarríkin geti takmarkað fjölda leyfa af öðrum ástæðum en þeim að náttúruauðlindir eða tæknigeta séu af skornum skammti. Þessi leyfi skulu undir öllum kringumstæðum vera með fyrirvara um önnur ákvæði þessarar tilskipunar að því er varðar fyrirkomulag leyfisveitinga.
63)          Ef ekki er um annað fyrirkomulag að ræða skal litið svo á að leyfi hafi verið veitt hafi svar ekki borist innan tiltekins frests. Þó má nota annars konar fyrirkomulag að því er varðar tiltekna starfsemi ef það er rökstutt með tilliti til brýnna almannahagsmuna, þ.m.t. lögmætir hagsmunir þriðja aðila. Annars konar fyrirkomulag af þessu tagi getur falið í sér landsreglur þar sem kveðið er á um að umsókn hafi verið hafnað ef svar berst ekki frá lögbæru yfirvaldi en að skjóta megi niðurstöðunni til dómstóla.
64)          Til að koma á raunverulegum innri markaði fyrir þjónustu er nauðsynlegt að afnema allar takmarkanir á staðfesturétti og frjálsri þjónustustarfsemi sem enn eru bundnar í lög tiltekinna aðildarríkja og samrýmast ekki 43. og 49. gr. sáttmálans. Takmarkanirnar, sem skal banna, hafa einkum áhrif á innri markaðinn fyrir þjónustu og skal afnema þær kerfisbundið eins fljótt og auðið er.
65)          Staðfesturéttur grundvallast einkum á meginreglunni um jafna meðferð sem leiðir af sér að öll mismunun á grundvelli þjóðernis er ekki aðeins bönnuð heldur einnig öll óbein mismunun á öðrum grundvelli sem getur leitt til sömu niðurstöðu. Aðgangur að þjónustustarfsemi eða það að stunda hana í aðildarríki, annaðhvort sem meginstarfsemi eða aukastarfsemi, skal því ekki vera kominn undir viðmiðunum eins og staðfestustað, búsetustað, lögheimili eða hvar meginstarfsstöð þjónustustarfseminnar er staðsett. Viðmiðanir þessar skulu þó ekki taka til krafna þess efnis að þjónustuveitandi eða einn starfsmanna hans eða fulltrúi verði að vera til staðar þegar starfsemin fer fram þegar það er réttlætt með vísan til brýnna almannahagsmuna. Enn fremur skal aðildarríki ekki takmarka gerhæfi eða rétt félaga, sem hafa verið lögformlega stofnuð í samræmi við lög annars aðildarríkis, þar sem þau hafa aðalstarfsstöð sína, til að hefja málarekstur. Auk þess skal aðildarríki ekki vera unnt að veita þjónustuveitendum, sem hafa sérstök félagsleg og hagræn tengsl á landsvísu eða staðarvísu, neins konar ávinning, né heldur skal því vera unnt að takmarka frelsi þjónustuveitanda, á grundvelli þess hvar hann hefur staðfestu, til að afla sér, nýta eða ráðstafa réttindum og vörum eða til að fá aðgang að mismunandi lánum eða húsnæði að því leyti sem þetta val er gagnlegt vegna aðgangs að þessari starfsemi eða til að gera stundað hana á skilvirkan hátt.
66)          Aðgangur að þjónustustarfsemi eða það að stunda hana á yfirráðasvæði aðildarríkis skal ekki vera háður efnahagslegri greiningu. Bann við efnahagslegri greiningu sem nauðsynlegri forsendu fyrir veitingu leyfis skal taka til efnahagslegrar greiningar sem slíkrar en ekki til krafna sem eru rökstuddar á hlutlægan hátt með vísan til brýnna almannahagsmuna, eins og verndar þéttbýlisumhverfis, félagsmálastefnu eða lýðheilsu. Bannið skal ekki hafa áhrif á það hvernig yfirvöld, sem eru ábyrg fyrir beitingu samkeppnislaga, beita valdheimildum sínum.
67)          Að því er varðar fjárhagslegar ábyrgðir eða tryggingu skal bannið aðeins varða skuldbindingu um að fjárhagslegar ábyrgðir eða trygging, sem óskað er eftir, verði að koma frá fjármálastofnun með staðfestu í viðkomandi aðildarríki.
68)          Að því er varðar forskráninguna skal bannið aðeins varða þá skuldbindingu að þjónustuveitandi hafi verið á skrá í tiltekinn tíma í viðkomandi aðildarríki áður en hann öðlast staðfestu.
69)          Í því skyni að samræma nútímavæðingu landsreglna þannig að þær samrýmist kröfum innri markaðarins er nauðsynlegt að meta tilteknar innlendar kröfur sem mismuna ekki og sem, eðlis síns vegna, gætu mjög takmarkað eða jafnvel komið í veg fyrir aðgang að starfsemi eða að hún verði stunduð samkvæmt staðfesturéttinum. Þetta mat takmarkast við að þessar kröfur samrýmist viðmiðunum þeim sem Dómstóllinn hefur þegar ákvarðað um staðfesturétt. Það skal ekki varða beitingu samkeppnislaga Bandalagsins. Ef slíkar kröfur mismuna eða eru ekki rökstuddar á hlutlægan hátt með vísan til brýnna almannahagsmuna eða ef þær eru óhóflegar verður að fella þær niður eða breyta þeim. Niðurstaða þessa mats verður mismunandi eftir eðli starfseminnar og viðkomandi almannahagsmunum. Slíkar kröfur gætu átt fullan rétt á sér þegar með þær eru til framfylgdar markmiðum félagsmálastefnu.
70)          Í þessari tilskipun og með fyrirvara um 16. gr. sáttmálans getur þjónusta aðeins talist vera þjónusta sem hefur almenna, efnahagslega þýðingu ef hún er veitt til að sinna sérstöku verkefni í almannaþágu sem viðkomandi aðildarríki hefur falið þjónustuveitanda. Þetta verkefni skal inna af hendi með stuðningi við eina réttarreglu eða fleiri og ákveður viðkomandi aðildarríki form þeirra og skilgreinir nákvæmlega hvað felst í þessu sérstaka verkefni.
71)          Gagnkvæma matsferlið, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, skal ekki hafa áhrif á frelsi aðildarríkja til að setja í löggjöf sína víðtæka vernd almannahagsmuna, einkum að því er varðar markmið félagsmálastefnu. Enn fremur er nauðsynlegt að í gagnkvæma matsferlinu sé tekið fullt tillit til sérstöðu þjónustu sem hefur almenna, efnahagslega þýðingu og verkefna sem felld hafa verið undir hana. Þetta getur réttlætt tilteknar takmarkanir á staðfesturéttinum, einkum ef slíkar takmarkanir varða vernd lýðheilsu og markmið félagsmálastefnu og ef þær uppfylla skilyrðin sem eru sett fram í a- til c-lið 3. mgr. 15 gr. Að því er varðar skuldbindinguna um að hafa tiltekið, lögákveðið rekstrarform til að stunda vissa þjónustu á sviði félagsmála hefur Dómstóllinn þegar viðurkennt að það geti t.d. verið réttlætanlegt að krefjast þess að þjónustuveitandi stundi ekki rekstur í hagnaðarskyni.
72)          Undir þjónustu, sem hefur almenna, efnahagslega þýðingu, eru felld mikilvæg verkefni sem tengjast félagslegri og svæðisbundinni samheldni. Matsferlið, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, skal ekki standa í vegi fyrir því að þessi verkefni séu unnin. Þetta ferli skal ekki hafa áhrif á kröfur sem eru nauðsynlegar til að ljúka slíkum verkefnum jafnframt því að fjallað skal um óréttmætar takmarkanir á staðfesturéttinum.
73)          Meðal krafna sem þarf að rannsaka eru innlendar reglur, sem af öðrum ástæðum en þeim sem tengjast faglegri menntun og hæfi, einskorða aðgang að tiltekinni starfsemi við tiltekna þjónustuveitendur. Þessar kröfur taka einnig til skuldbindinga sem lagðar eru á herðar þjónustuveitanda um að hann hafi tiltekið, lögákveðið rekstrarform, einkum að hann sé lögaðili, fyrirtæki í einstaklingseigu, samtök sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni eða félag sem er að öllu leyti í eigu einstaklinga, svo og krafna sem tengjast hlutafjáreign í félagi, einkum skuldbindinga um að ráða yfir lágmarkshlutafé að því er varðar tiltekna þjónustustarfsemi eða um að uppfylla ákveðin skilyrði til að geta átt hlutafé í eða stjórnað tilteknum félögum. Mat á því hvort föst lágmarks- og/eða hámarksgjöld samrýmast staðfesturéttinum varðar aðeins gjöld sem lögbær yfirvöld leggja sérstaklega á í því skyni að veita tiltekna þjónustu og varðar t.d. ekki almennar reglur um verðákvörðun, eins og á húsaleigu.
74)          Gagnkvæma matsferlið felur í sér að á lögleiðingartímabilinu verða aðildarríkin fyrst að skima löggjöf sína í því skyni að komast að raun um hvort einhverjar framangreindra krafna eru fyrir hendi í réttarkerfum þeirra. Aðildarríkin skulu, í síðasta lagi við lok lögleiðingartímabilsins, gera skýrslu um niðurstöður þessarar skimunar. Hver skýrsla verður send til allra annarra aðildarríkja og hagsmunaaðila. Aðildarríkin hafa þá sex mánuði til að senda inn athugasemdir sínar við þessar skýrslur. Framkvæmdastjórnin skal semja yfirlitsskýrslu í síðasta lagi einu ári eftir lögleiðingu þessarar tilskipunar og láta fylgja með henni tillögur að frekari framtaksverkefnum, ef við á. Ef nauðsyn krefur gæti framkvæmdastjórnin aðstoðað aðildarríkin, í samstarfi við þau, við að útfæra sameiginlega aðferð.
75)          Það að í þessari tilskipun eru tilgreindar nokkrar kröfur sem aðildarríkin verða að fella niður eða meta á lögleiðingartímabilinu hefur ekki áhrif á málsmeðferð vegna brota gegn aðildarríki fyrir að hafa ekki uppfyllt skuldbindingar sínar skv. 43. eða 49. gr. sáttmálans.
76)          Þessi tilskipun varðar ekki beitingu 28.–30. gr. sáttmálans að því er varðar frjálsa vöruflutninga. Takmarkanirnar, sem eru bannaðar samkvæmt ákvæðinu um frelsi til að veita þjónustu, eiga við um kröfur um aðgang að þjónustustarfsemi eða um það að stunda hana en ekki um þær kröfur sem gilda um vörur sem slíkar.
77)          Þegar rekstraraðili fer til annars aðildarríkis til að stunda þar þjónustustarfsemi skal gera greinarmun á aðstæðum sem staðfesturétturinn tekur til og aðstæðum sem frjáls þjónustustarfsemi tekur til vegna tímabundins eðlis viðkomandi starfsemi. Að því er varðar greinarmun á staðfesturétti og frjálsri þjónustustarfsemi er lykilatriðið, samkvæmt dómaframkvæmd Dómstólsins, það hvort rekstraraðilinn hefur staðfestu í aðildarríkinu þar sem hann veitir viðkomandi þjónustu eða ekki. Ef rekstraraðilinn hefur staðfestu í aðildarríkinu þar sem hann veitir þjónustu sína skal hann falla undir gildissvið staðfesturéttarins. Ef rekstraraðilinn hefur á hinn bóginn ekki staðfestu í aðildarríkinu þar sem þjónustan er veitt skal starfsemi hans falla undir frjálsa þjónustustarfsemi. Í samræmi við dómaframkvæmd Dómstólsins skal tímabundið eðli viðkomandi starfsemi ekki aðeins ákvarðað í ljósi lengdar þjónustutímabils heldur einnig í ljósi þess hversu reglubundin, tíð eða samfelld hún er. Það að starfsemin er tímabundin skal þó ekki hindra þjónustuveitanda í að koma sér upp ýmsum grunnvirkjum í aðildarríkinu þar sem þjónustan er veitt, s.s. skrifstofu, lögmannsstofu eða lækningastofu, að því leyti sem slíkt grunnvirki er nauðsynlegt í þeim tilgangi að veita viðkomandi þjónustu.
78)          Í því skyni að tryggja skilvirka framkvæmd frjálsrar þjónustustarfsemi og tryggja að viðtakendur og veitendur geti nýtt sér og veitt þjónustu í öllu Bandalaginu óháð landamærum er nauðsynlegt að skýra að hve miklu leyti er unnt að gera þær kröfur sem gilda í aðildarríkinu þar sem þjónustan er veitt. Óhjákvæmilegt er að sjá til þess að ákvæðið um frelsi til að veita þjónustu komi ekki í veg fyrir að aðildarríkið, þar sem þjónustan er veitt, geti sett fram sérstakar kröfur sínar í samræmi við a- – c-lið 1. mgr. 16. gr. með vísan til allsherjarreglu eða almannaöryggis eða til verndar lýðheilsu eða umhverfis.
79)          Í samræmi við dómaframkvæmd Dómstólsins halda aðildarríkin þeim rétti að grípa til ráðstafana í því skyni að koma í veg fyrir að þjónustuveitendur geti nýtt sér meginreglur innri markaðarins á ólögmætan hátt. Sýna skal fram á misnotkun af hálfu þjónustuveitanda í hverju tilviki fyrir sig.
80)          Nauðsynlegt er að tryggja að þjónustuveitendur geti tekið með sér búnað, sem er órjúfanlegur þáttur í veitingu þjónustu þeirra, þegar þeir ferðast til að veita þjónustu í öðru aðildarríki. Einkum er mikilvægt að forðast tilvik þar sem ekki væri unnt að veita þjónustuna án búnaðarins eða aðstæður þar sem þjónustuveitendur stofna til viðbótarkostnaðar, t.d. með því að leigja eða kaupa búnað sem er frábrugðinn þeim sem þeir nota alla jafna eða ef þeir þurfa að víkja verulega frá því hvernig þeir stunda alla jafna starfsemi sína.
81)          Hugtakið „búnaður“ vísar ekki til efnislegra hluta sem þjónustuveitandi annaðhvort afhendir viðskiptavininum eða sem verða þáttur í efnislegum hlut sem felst í þjónustunni, m.a. byggingarefni eða varahlutir, eða sem er neytt eða eru skildir eftir á staðnum á meðan þjónustan er veitt, t.d. eldsneyti, sprengiefni, flugeldar, varnarefni, eiturefni eða lyf.
82)          Ákvæði þessarar tilskipunar skulu ekki koma í veg fyrir að aðildarríki geti beitt reglum um ráðningarskilmála. Reglur í lögum og stjórnsýslufyrirmælum skulu, í samræmi við sáttmálann, vera rökstuddar með ástæðum sem varða vernd starfsmanna og vera án mismununar, nauðsynlegar og í þeim gætt meðalhófs, í samræmi við túlkun Dómstólsins, og í samræmi við önnur viðeigandi lög Bandalagsins.
83)          Nauðsynlegt er að tryggja að ekki sé unnt að víkja frá ákvæði um frelsi til að veita þjónustu nema á þeim sviðum sem undanþágur taka til. Þessar undanþágur eru nauðsynlegar svo að tekið sé tillit til stöðu samrunaferlis innri markaðarins eða til tiltekinna gerninga Bandalagsins vegna þjónustu þar sem þjónustuveitandi er háður beitingu annarra laga en þeirra sem gilda í staðfestuaðildarríkinu. Auk þess skal í undantekningartilvikum einnig samþykkja ráðstafanir gegn tilteknum þjónustuveitanda í einstökum tilvikum og samkvæmt tilteknum ströngum skilyrðum um málsmeðferð og efnisskilyrðum. Að auki skal aðeins í undantekningartilvikum heimila takmörkun á frjálsri þjónustustarfsemi ef hún er í samræmi við þau grundvallarréttindi sem eru óaðskiljanlegur hluti almennra meginreglna laga sem eru réttarfarið í Bandalaginu hefur að geyma.
84)          Undanþága frá ákvæðinu um frelsi til að veita þjónustu að því er varðar póstþjónustu skal bæði taka til starfsemi sem er bundin við veitanda altækrar þjónustu og annarrar póstþjónustu.
85)          Undanþágan frá ákvæðinu um frelsi til að veita þjónustu í sambandi við innheimtu skulda fyrir dómi og vísan til hugsanlegs samræmingargernings í framtíðinni skal einungis varða aðgang að starfsemi sem nánar tiltekið felst í því að höfða mál fyrir dómstólum vegna innheimtu skulda og það að stunda hana.
86)          Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á ráðningarskilmála sem gilda, samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/71/EB frá 16. desember 1996 um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu ( 1 ), um starfsmenn sem hafa verið sendir til að veita þjónustu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis. Í slíkum tilvikum er mælt fyrir um það í tilskipun 96/71/EB að þjónustuveitendur verði að fara að ráðningarskilmálum á nokkrum tilgreindum sviðum sem gilda í aðildarríkinu þar sem þjónustan er veitt. Um er að ræða eftirfarandi svið: hámarksvinnutíma og lágmarkshvíldartíma, lágmarksfjölda greiddra orlofsdaga, lágmarkslaun, þ.m.t. yfirvinna, skilyrði fyrir framráðningu starfsmanna, einkum vernd starfsmanna sem eru framráðnir af afleysingafyrirtækjum, heilbrigði, öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, verndarráðstafanir að því er varðar ráðningarskilmála vanfærra kvenna eða kvenna, sem hafa nýlega alið barn, og barna og ungs fólks og jöfn réttindi karla og kvenna og önnur ákvæði um bann við mismunun. Þetta varðar ekki aðeins ráðningarskilmála sem kveðið er á um í lögum heldur einnig þá sem kveðið er á um í kjarasamningum eða gerðardómum sem opinberlega hefur verið lýst yfir að gildi eða gilda almennt í reynd í skilningi tilskipunar 96/71/EB. Auk þess skal þessi tilskipun ekki koma í veg fyrir að aðildarríkin geti beitt ráðningarskilmálum í öðrum málum en þeim sem eru talin upp í 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 96/71/EB á grundvelli allsherjarreglu.
87)          Þessi tilskipun skal ekki heldur hafa áhrif á ráðningarskilmála í tilvikum þar sem starfsmaður, sem starfar við að veita þjónustu yfir landamæri, er ráðinn í því aðildarríki þar sem þjónustan er veitt. Þessi tilskipun skal heldur ekki hafa áhrif á þann rétt aðildarríkisins, þar sem þjónustan er veitt, að ákvarða hvort fyrir hendi er ráðningarsamband og greinarmunur gerður á sjálfstætt starfandi einstaklingum og launþegum, þ.m.t. „falskir sjálfstætt starfandi einstaklingar“. Að því leyti skal grundvallareinkenni ráðningarsambands í skilningi 39. gr. sáttmálans vera það að í tiltekinn tíma veitir einstaklingur þjónustu fyrir annan einstakling og undir stjórn hans og þiggur greiðslu fyrir. Öll starfsemi, sem einstaklingur innir af hendi utan sambands yfirmanns og undirmanns, skal flokkuð sem starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklings skv. 43. og 49. gr. sáttmálans.
88)          Ákvæðið um frelsi til að veita þjónustu skal ekki gilda í tilvikum þar sem starfsemi í aðildarríki er, í samræmi við lög Bandalagsins, bundin við tiltekna starfsgrein, t.d. kröfur um að veiting lögfræðilegrar ráðgjafar sé bundin við lögfræðinga.
89)          Undanþágan frá ákvæðinu um frelsi til að veita þjónustu varðandi skráningu ökutækja, sem eru tekin á leigu í öðru aðildarríki en því þar sem þau eru notuð, stafar af dómaframkvæmd Dómstólsins sem hefur viðurkennt að aðildarríki geti sett slíka kvöð í tilviki ökutækja sem eru notuð á yfirráðasvæði þess með skilyrðum þar sem meðalhófs er gætt. Sú undanþága tekur ekki til tilfallandi eða tímabundinnar leigu.
90)          Samningsbundin tengsl milli þjónustuveitanda og viðskiptavinar, svo og milli starfsmanns og vinnuveitanda, skulu ekki falla undir þessa tilskipun. Gildandi lög um samningsbundnar eða aðrar skuldbindingar þjónustuveitanda skulu ákvarðast af reglum alþjóðlegs einkamálaréttar.
91)          Nauðsynlegt er að gefa aðildarríkjum kost á því, í undantekningartilvikum og metið í hverju tilviki fyrir sig, að gera ráðstafanir til að víkja frá ákvæðinu um frelsi til að veita þjónustu að því er varðar þjónustuveitanda sem hefur staðfestu í öðru aðildarríki vegna öryggis þjónustunnar. Þó skal aðeins vera unnt að gera slíkar ráðstafanir þegar samræmingu skortir á vettvangi Bandalagsins.
92)          Takmarkanir á frjálsri þjónustustarfsemi, sem eru andstæðar þessari tilskipun, geta ekki aðeins komið upp vegna ráðstafana sem beitt er gegn þjónustuveitendum heldur einnig vegna fjölmargra hindrana í vegi fyrir því að viðtakendur, sérstaklega neytendur, geti notað þjónustuna. Í þessari tilskipun eru nefndar sem dæmi tilteknar tegundir takmarkana sem beitt er gegn viðtakanda sem óskar eftir því að nýta þjónustu veitanda sem hefur staðfestu í öðru aðildarríki. Þetta nær einnig til tilvika þar sem viðtakendur þjónustu eru skuldbundnir til að afla leyfis frá lögbærum yfirvöldum sínum eða senda þeim yfirlýsingu í því skyni að fá þjónustu frá veitanda sem hefur staðfestu í öðru aðildarríki. Þetta varðar ekki almennt fyrirkomulag leyfisveitinga sem gildir einnig um notkun á þjónustu sem veitandi, sem hefur staðfestu í sama aðildarríki, býður fram.
93)          Hugtakið „fjárhagsaðstoð sem er veitt vegna notkunar á tiltekinni þjónustu“ skal ekki gilda um aðstoð sem aðildarríkin veita, einkum á sviði félagsmála eða í menningargeiranum, sem samkeppnisreglur Bandalagsins taka til, né heldur skal það gilda um almenna fjárhagsaðstoð sem tengist ekki notkun tiltekinnar þjónustu, t.d. um styrki eða lán til námsmanna.
94)          Í samræmi við reglur sáttmálans um frjálsa þjónustustarfsemi er bannað að mismuna á grundvelli þjóðernis viðtakandans eða þess í hvaða landi eða á hvaða stað hann býr. Slík mismunun gæti falist í skuldbindingu sem aðeins væri lögð á herðar ríkisborgara annars aðildarríkis um að leggja fram frumrit skjala, staðfest endurrit, vottorð um ríkisfang eða löggilta þýðingu á skjölum í því skyni að geta notið þjónustu eða fengið hagstæðari skilmála eða verð. Bann við kröfum sem leiða til mismununar skal þó ekki koma í veg fyrir að tilteknir viðtakendur geti notið ávinnings, einkum að því er varðar gjöld, ef slíkur ávinningur byggist á lögmætum og hlutlægum viðmiðunum.
95)          Meginreglan um bann við mismunun á innri markaðnum þýðir að ekki megi meina viðtakanda, og sérstaklega neytanda, aðgang að þjónustu sem almenningi býðst eða takmarka hann á grundvelli viðmiðunar um þjóðerni eða búsetustað viðtakandans sem er að finna í almennum skilyrðum sem almenningi eru tiltæk. Af þessu leiðir ekki að um ólöglega mismunun sé að ræða ef í almennum skilyrðum er ákvæði um að mismunandi gjöld og skilyrði gildi við veitingu þjónustu ef þessi gjöld, verð og skilyrði eru rökstudd með hlutlægum rökum sem geta verið mismunandi frá einu landi til annars, s.s. viðbótarkostnaður sem stofnað er til vegna fjarlægðar eða tæknilegir eiginleikar þjónustunnar eða mismunandi markaðsaðstæður, s.s. meiri eða minni eftirspurn vegna áhrifa árstíðabundinna þátta, mismunandi orlofstími í aðildarríkjunum og mismunandi verðlagning samkeppnisaðila eða viðbótaráhætta sem tengist reglum sem eru ólíkar reglum í staðfestuaðildarríkinu. Af þessu leiðir heldur ekki að það sé ólögleg mismunun að veita neytanda ekki þjónustu vegna þess að nauðsynleg hugverkaréttindi eru ekki fyrir hendi á tilteknu yfirráðasvæði.
96)          Rétt þykir að kveðið sé á um að meðal þeirra leiða sem þjónustuveitandi getur farið til að gera þær upplýsingar, sem honum ber skylda til að veita, vel aðgengilegar viðtakanda sé að hann skýri frá netfangi sínu og slóð vefseturs síns. Enn fremur skal sú skylda að tilteknar upplýsingar séu aðgengilegar í upplýsingaskjölum þjónustuveitanda, þar sem er að finna nákvæmar upplýsingar um þjónustu hans, ekki taka til viðskiptaorðsendinga sem eru almenns eðlis, eins og auglýsingar, heldur til skjala sem gefa nákvæmri lýsingu á þjónustunni, sem í boði er, þ.m.t. skjöl á vefsetri.
97)          Í þessari tilskipun er nauðsynlegt að kveða á um tilteknar reglur um mikil gæði þjónustu, einkum að tryggja kröfur um upplýsingar og gagnsæi. Þessar reglur skulu gilda bæði þegar um er að ræða þjónustu, sem er veitt yfir landamæri milli aðildarríkja, og þjónustu í aðildarríki þar sem veitandi hennar hefur staðfestu, án þess að lagðar séu óþarfar byrðar á lítil og meðalstór fyrirtæki. Þær skulu ekki á neinn hátt koma í veg fyrir að aðildarríki geti, í samræmi við þessa tilskipun og önnur lög Bandalagsins, beitt kröfum um aukin gæði eða annars konar gæði.
98)          Rekstraraðilar, sem veita þjónustu sem felur í sér beina og sérstaka áhættu fyrir heilbrigði, öryggi eða fjármálaáhættu viðtakanda eða þriðja aðila, skulu að jafnaði hafa viðeigandi starfsábyrgðartryggingar eða annars konar ábyrgðir sem eru jafngildar eða sambærilegar, sem felur einkum í sér að slíkur rekstraraðili skal jafnan hafa viðunandi tryggingar vegna þjónustu sem er veitt í einu eða fleiri aðildarríkjum öðrum en staðfestuaðildarríkinu.
99)          Vátryggingin eða ábyrgðin skal hæfa eðli og umfangi áhættunnar. Af þeim sökum þarf þjónustuveitandinn aðeins að hafa tryggingu sem gildir yfir landamæri ef hann veitir í raun þjónustu í öðrum aðildarríkjum. Aðildarríkin skulu ekki setja nákvæmari reglur um vátryggingavernd og ákvarða t.d. lágmarksvátryggingarfjárhæðir eða takmarkanir á undanþágum frá vátryggingaverndinni. Þjónustuveitendur og vátryggingafélög skulu sýna nægilegan sveigjanleika til að semja um vátryggingar sem hæfa nákvæmlega eðli og umfangi áhættunnar. Enn fremur er ekki nauðsynlegt að gera kaup á viðeigandi tryggingum að lagalegri skyldu. Það á að vera nægilegt að tryggingarskyldan sé hluti siðareglna sem fagfélög setja. Loks skulu vátryggingafélög ekki vera skyldug að veita vátryggingavernd.
100)          Nauðsynlegt er að binda enda á algjört bann við viðskiptaorðsendingum frá lögvernduðum starfsgreinum, ekki með því að afnema bann á efni viðskiptaorðsendingar heldur með því að afnema þau bönn, sem almennt gilda um eina eða fleiri gerðir viðskiptaorðsendinga hjá tiltekinni starfsgrein, s.s. bann við öllum auglýsingum í einum tilteknum fjölmiðli eða nokkrum fjölmiðlum. Að því er efni og aðferðir við viðskiptaorðsendingar varðar er nauðsynlegt að hvetja fagaðila til að semja siðareglur starfsstétta á vettvangi Bandalagsins í samræmi við lög þess.
101)          Nauðsynlegt er, í þágu viðtakenda, einkum neytenda, að tryggja að þjónustuveitendur geti boðið fram þjónustu á mörgum sviðum og að takmarkanir að þessu leyti einskorðist við það sem nauðsynlegt er til að tryggja óhlutdrægni, sjálfstæði og ráðvendni lögverndaðra starfsgreina. Þetta hefur ekki áhrif á takmarkanir eða bönn við því að stunda tiltekna starfsemi sem miðar að því að tryggja sjálfstæði í tilvikum þar sem aðildarríki felur þjónustuveitanda tiltekið verkefni, einkum á sviði þéttbýlisskipulags, né heldur skal þetta hafa áhrif á beitingu samkeppnisreglna.
102)          Í því skyni að auka gagnsæi og stuðla að mati, sem byggist á sambærilegum viðmiðunum að því er varðar gæði þjónustu sem í boði er og veitt er viðtakendum, er nauðsynlegt að upplýsingar um merkingu gæðamerkja og annarra kennimerkja varðandi þessa þjónustu séu aðgengilegar. Gagnsæisskyldan er sérstaklega mikilvæg á sviðum eins og ferðaþjónustu, einkum í hótelrekstri, þar sem notkun flokkunarkerfa er mjög útbreidd. Auk þess er rétt að kanna að hve miklu leyti evrópsk stöðlun getur auðveldað samræmingu og gæði þjónustu. Evrópskir staðlar eru samdir af evrópskum aðilum sem annast setningu staðla, Staðlasamtökum Evrópu (CEN), Rafstaðlasamtökum Evrópu (CENELEC) og Fjarskiptastaðlastofnun Evrópu (ETSI). Framkvæmdastjórnin getur, ef við á og í samræmi við málsmeðferðir sem kveðið er á um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/34/EB frá 22. júní 1998 sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra staðla og reglugerða ( 1 ) sem og reglna um þjónustu í upplýsingasamfélaginu, gefið út umboð um að semja sértæka evrópska staðla.
103)          Í því skyni að leysa hugsanleg vandamál í sambandi við að fara að dómsniðurstöðum er rétt að kveðið sé á um að aðildarríkin viðurkenni jafngildar ábyrgðir sem eru varðveittar hjá stofnunum eða aðilum eins og bönkum, vátryggingaaðilum eða öðrum aðilum sem veita fjármálaþjónustu og sem hafa staðfestu í öðru aðildarríki.
104)          Þróun nets yfirvalda neytendaverndar í aðildarríkjunum, sem fjallað er um í reglugerð (EB) nr. 2006/2004, er til viðbótar því samstarfi sem kveðið er á um í þessari tilskipun. Beiting löggjafar um neytendavernd í tilvikum sem ná yfir landamæri, einkum að því er varðar nýja tegund markaðssetningar- og viðskiptahátta, svo og nauðsyn þess að fjarlægja tilteknar sértækar hindranir í vegi samstarfs á þessu sviði, þarfnast aukins samstarfs milli aðildarríkja. Einkum er nauðsynlegt á þessu sviði að tryggja að aðildarríkin skyldi rekstraraðila til að láta af ólöglegum starfsháttum á yfirráðasvæði sínu sem beinast að neytendum í öðru aðildarríki.
105)          Samstarf á sviði stjórnsýslu er mikilvægt til að innri markaðurinn á sviði þjónustu starfi eðlilega. Skortur á samstarfi milli aðildarríkja veldur því að reglur, sem gilda um þjónustuveitendur, verða fleiri eða veldur tvíverknaði við eftirlit á starfsemi yfir landamæri og viðskiptaaðilar, sem starfa ekki innan ramma laganna, geta einnig nýtt sér þennan skort til að komast hjá eftirliti eða til að fara í kringum gildandi landsreglur um þjónustu. Því er mikilvægt að leggja aðildarríkjum skýrar, lagalega bindandi skyldur á herðar um að hafa með sér skilvirkt samstarf.
106)          Að því er varðar kaflann um samstarf á sviði stjórnsýslu skal „eftirlit“ taka til starfsemi eins og vöktunar og gagnaöflunar, lausnar vandamála, fullnustu og setningar viðurlaga og síðari eftirfylgni.
107)          Undir eðlilegum kringumstæðum skal gagnkvæm aðstoð veitt með beinum tengslum milli lögbærra yfirvalda. Tengiliðunum sem aðildarríkin tilgreina skal því aðeins gert að auðvelda þetta ferli að upp komi erfiðleikar, t.d. ef aðstoðar er þörf til að benda á viðeigandi lögbært yfirvald.
108)          Vissar skuldbindingar um gagnkvæma aðstoð skulu gilda um öll málefni sem þessi tilskipun tekur til, þ.m.t. þau sem varða tilvik þar sem þjónustuveitandi setur upp starfsstöð í öðru aðildarríki. Aðrar skuldbindingar um gagnkvæma aðstoð skulu aðeins gilda ef um ræðir þjónustu sem er veitt yfir landamæri þar sem ákvæðið um frelsi til að veita þjónustu gildir. Frekari skuldbindingar skulu gilda ætíð þegar þjónusta er veitt yfir landamæri, þ.m.t. svæði sem ákvæðið um frelsi til að veita þjónustu tekur ekki til. Veiting þjónustu yfir landamæri skal taka til veitingar fjarþjónustu og þegar viðtakandi ferðast til staðfestuaðildarríkis þjónustuveitanda í því skyni að veita þjónustu viðtöku.
109)          Þegar þjónustuveitandi flytur tímabundið til aðildarríkis, annars en þess þar sem hann hefur staðfestu, er nauðsynlegt að kveða á um gagnkvæma aðstoð milli þessara tveggja aðildarríkja svo að hið fyrrnefnda geti framkvæmt athuganir, skoðun og rannsóknir að beiðni staðfestuaðildarríkisins eða framkvæmt slíkar athuganir að eigin frumkvæði ef þær eru aðeins gerðar til að kanna staðreyndir.
110)          Aðildarríkjunum á ekki að vera unnt að fara í kringum reglurnar sem kveðið er á um í þessari tilskipun, þ.m.t. ákvæðið um frelsi til að veita þjónustu, með því að framkvæma athuganir, skoðun eða rannsóknir sem mismuna eða eru ekki í samræmi við tilefnið.
111)          Ákvæði þessarar tilskipunar varðandi upplýsingaskipti um góðan orðstír þjónustuveitenda skulu ekki hafa áhrif á framtaksverkefni á sviði samstarfs lögreglu og dómstóla í sakamálum, einkum að því er varðar upplýsingaskipti milli löggæsluyfirvalda aðildarríkjanna og að því er varðar sakaskrár.
112)          Samstarf milli aðildarríkja þarf á starfhæfu, rafrænu upplýsingakerfi að halda til þess að lögbær yfirvöld geti auðveldlega skilgreint viðeigandi viðmælendur í öðrum aðildarríkjum og átt samskipti á skilvirkan hátt.
113)          Nauðsynlegt er að kveða á um að aðildarríkin, í samstarfi við framkvæmdastjórnina, hvetji hagsmunaaðila til að semja siðareglur starfsstétta á vettvangi Bandalagsins sem miða einkum að því að stuðla að gæðum þjónustunnar og taka tillit til sérstaks eðlis hverrar starfsgreinar. Þessar siðareglur starfsstétta skulu vera í samræmi við lög Bandalagsins, sérstaklega samkeppnislög. Þær skulu samrýmast lagalega bindandi reglum um siðferðilega breytni starfsstétta í aðildarríkjunum.
114)          Aðildarríkin skulu hvetja til þess að einkum fagfélög, -stofnanir og -samtök semji siðareglur starfsstétta á vettvangi Bandalagsins. Þessar siðareglur starfsstétta skulu fela í sér, eftir því sem hæfir sérstöku eðli hverrar starfsgreinar, reglur um viðskiptaorðsendingar lögverndaðra starfsgreina og reglur um siðferðilega breytni lögverndaðra starfsgreina sem miða einkum að því að tryggja sjálfstæði, óhlutdrægni og þagnarskyldu. Að auki skulu slíkar siðareglur starfsstétta taka til þeirra skilyrða sem lúta að starfsemi fasteignasala. Aðildarríkin skulu gera hliðarráðstafanir til þess að hvetja fagfélög, -stofnanir og -samtök til að taka siðareglur starfsstétta, sem eru samþykktar á vettvangi Bandalagsins, upp á landsvísu.
115)          Siðareglum starfsstétta á vettvangi Bandalagsins er ætlað setja lágmarkskröfur um breytni og þær eru til viðbótar við kröfur í lögum aðildarríkjanna. Þær koma ekki í veg fyrir að aðildarríkin geti, í samræmi við lög Bandalagsins, gert strangari ráðstafanir samkvæmt lögum eða að fagfélög á landsvísu geti veitt aukna vernd í siðareglum starfsstétta fyrir sitt land.
116)          Þar eð aðildarríkin geta ekki með fullnægjandi hætti náð fram markmiðum þessarar tilskipunar, þ.e. að fjarlægja hindranir sem eru í vegi fyrir staðfesturétti þjónustuveitenda í aðildarríkjunum og í vegi fyrir frjálsri þjónustustarfsemi milli aðildarríkja, og auðveldara verður að ná þeim fram á vettvangi Bandalagsins vegna umfangs aðgerðanna getur Bandalagið samþykkt ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og kveðið er á um í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná megi þessum markmiðum.
117)          Gera skal nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1 ).
118)          Aðildarríkin eru hvött, í samræmi við 34. mgr. samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 2 ), til að setja fram fyrir sig og í þágu Bandalagsins sínar eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafana til að lögleiða hana og birta þær.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI
1. gr.
Viðfangsefni

1.     Í þessari tilskipun eru sett almenn ákvæði sem greiða fyrir því að þjónustuveitendur geti nýtt sér staðfesturétt og veitt frjálsa þjónustustarfsemi en haldið jafnframt hágæðaþjónustu.
2.     Í þessari tilskipun er ekki fjallað um aukið frelsi í þjónustu sem hefur almenna, efnahagslega þýðingu og bundin er við opinbera aðila eða einkaaðila, né heldur er í henni fjallað um einkavæðingu opinberra stofnana sem veita þjónustu.
3.     Í þessari tilskipun er ekki fjallað um afnám einkaréttar á sviði þjónustustarfsemi né heldur um aðstoð sem aðildarríki veita og fellur undir samkeppnisreglur Bandalagsins.
Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á frelsi aðildarríkjanna til að skilgreina, í samræmi við lög Bandalagsins, það sem þau telja vera þjónustu sem hefur almenna, efnahagslega þýðingu, hvernig skipuleggja skuli þessa þjónustu og fjármagna hana, í samræmi við reglur um ríkisaðstoð og hvaða sérstöku skuldbindingar skulu gilda um hana.
4.     Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á ráðstafanir sem gerðar eru á vettvangi Bandalagsins eða í viðkomandi löndum, í samræmi við lög Bandalagsins, til að vernda eða stuðla að margbreytileika menningar og tungumála eða fjölbreyttri fjölmiðlun.
5.     Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á refsirétt aðildarríkjanna. Aðildarríkin geta þó ekki takmarkað frelsi til að veita þjónustu með því að beita ákvæðum hegningarlaga sem sérstaklega stýra eða hafa áhrif á aðgang að þjónustustarfsemi eða það að stunda hana og sniðgengið með því reglurnar sem kveðið er á um í þessari tilskipun.
6.     Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á vinnulöggjöf, þ.e. lagaleg eða samningsbundin ákvæði um ráðningarskilmála, vinnuskilyrði, þ.m.t. heilbrigði og öryggi á vinnustað og tengslin milli vinnuveitenda og starfsmanna, sem aðildarríki beita í samræmi við landslög sem eru í samræmi við lög Bandalagsins. Þessi tilskipun hefur heldur ekki áhrif á almannatryggingalöggjöf aðildarríkjanna.
7.     Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á nýtingu grundvallarréttinda eins og þau eru viðurkennd í aðildarríkjunum og í lögum Bandalagsins. Hún hefur heldur ekki áhrif á réttinn til að semja um, ganga frá og framfylgja kjarasamningum og grípa til aðgerða á vinnustað í samræmi við landslög og venjur sem eru í samræmi við lög Bandalagsins.

2. gr.
Gildissvið

1.     Þessi tilskipun skal gilda um þjónustu sem veitendur með staðfestu í aðildarríki veita.
2.     Þessi tilskipun gildir ekki um eftirtalda starfsemi:
a)    þjónustu í almannaþágu sem er ekki af efnahagslegum toga,
b)    fjármálaþjónustu, s.s. bankaviðskipti, lánaþjónustu, vátryggingar og endurtryggingar, starfstengdan lífeyri eða séreignasjóði, verðbréf, fjárfestingarsjóði, greiðslu- og fjárfestingaráðgjöf, þ.m.t. þjónusta sem er skráð í I. viðauka við tilskipun 2006/48/EB,
c)    rafræna fjarskiptaþjónustu og net og tilheyrandi aðstöðu og þjónustu að því er varðar málefni sem tilskipanir 2002/19/EB, 2002/20/EB, 2002/21/ EB, 2002/22/EB og 2002/58/EB taka til,
d)    þjónustu á sviði flutninga, þ.m.t. hafnarþjónusta, sem fellur innan gildissviðs V. bálks sáttmálans,
e)    þjónustu fyrirtækja um framleigu starfsmanna,
f)    heilbrigðisþjónustu, hvort sem hún er veitt fyrir milligöngu heilbrigðisstofnana eða ekki og óháð því hvernig hún er skipulögð og fjármögnuð á landsvísu eða hvort hún er opinber eða einkarekin,
g)    myndmiðlunarþjónustu, þ.m.t. kvikmyndaþjónusta, hver sem aðferðin við framleiðslu, dreifingu og útsendingu hennar er, og útvarpssendingar,
h)    fjárhættustarfsemi sem felur í sér að veðja fjármunum í áhættuspilum, þ.m.t. happdrætti, fjárhættustarfsemi í spilavítum og veðmálaviðskipti,
i)    starfsemi sem tengist framkvæmd opinbers valds eins og fram kemur í 45. gr. sáttmálans,
j)    félagsþjónustu að því er varðar félagsbústaði, barnagæslu og stuðning við fjölskyldur og einstaklinga, sem eru aðstoðar þurfi um stundarsakir eða til frambúðar, og sem ríkið, þjónustuveitendur með umboð frá ríkinu eða góðgerðarfélög, sem eru viðurkennd sem slík af ríkinu, veita,
k)    öryggisþjónustu á vegum einkaaðila,
l)    þjónustu lögbókenda og fógetafulltrúa sem eru skipaðir af hinu opinbera.
3.     Tilskipun þessi gildir ekki um skattamál.

3. gr.
Tengsl við önnur ákvæði í lögum Bandalagsins

1.     Ef ákvæði þessarar tilskipunar stríða gegn ákvæði annarrar gerðar Bandalagsins sem gildir um sérstaka þætti aðgangs að þjónustustarfsemi í ákveðnum geirum eða það að stunda hana eða í ákveðnum starfsgreinum skal ákvæði hinnar gerðar Bandalagsins ganga framar og gilda um þau sérstöku svið eða starfsgreinar. Þessar gerðir eru m.a.:
a)    tilskipun 96/71/EB,
b)    reglugerð (EBE) nr. 1408/71,
c)    tilskipun ráðsins 89/552/EBE frá 3. október 1989 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur ( 1 ),
d)    tilskipun 2005/36/EB.
2.     Þessi tilskipun varðar ekki reglur um alþjóðlegan einkamálarétt, einkum á það við um reglur um lög sem gilda um samningsbundnar skuldbindingar og aðrar skuldbindingar, þar á meðal þær sem tryggja að neytendur njóti ávinnings af vernd sem felst í reglum um neytendavernd sem kveðið er á um í gildandi neytendalöggjöf í aðildarríki þeirra.
3.     Aðildarríkin skulu beita ákvæðum þessarar tilskipunar í samræmi við reglur sáttmálans um réttinn til staðfestu og frjálsrar þjónustustarfsemi.

4. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1)    „þjónusta“: öll sjálfstæð atvinnustarfsemi, sem að öllu jöfnu er veitt gegn þóknun, eins og um getur í 50. gr. sáttmálans,
2)    „þjónustuveitandi“: einstaklingur, sem er ríkisborgari aðildarríkis, eða lögaðili, sem um getur í 48. gr. sáttmálans og hefur staðfestu í aðildarríki, sem býður eða veitir þjónustu,
3)    „viðtakandi“: einstaklingur, sem er ríkisborgari aðildarríkis eða nýtur góðs af réttindum sem honum eru veitt með gerðum Bandalagsins, eða lögaðili, sem um getur í 48. gr. sáttmálans og hefur staðfestu í aðildarríki, sem nýtir sér eða óskar eftir að nýta sér þjónustu, starfs síns vegna eða af annarri ástæðu,
4)    „staðfestuaðildarríki“: aðildarríki þar sem veitandi viðkomandi þjónustu hefur staðfestu,
5)    „staðfesta“: raunveruleg atvinnustarfsemi þjónustuveitanda, eins og um getur í 43. gr. sáttmálans, í ótiltekinn tíma og í traustu grunnvirki þaðan sem þjónustan er veitt í reynd,
6)    „fyrirkomulag leyfisveitinga“: hver sú málsmeðferð þar sem krafa er gerð um að þjónustuveitandi eða viðtakandi geri ráðstafanir í því skyni að fá formlega ákvörðun eða óbeina ákvörðun frá lögbæru yfirvaldi um aðgang að þjónustustarfsemi eða um það að stunda hana,
7)    „krafa“: hver sú skuldbinding, bann, skilyrði eða takmörkun sem kveðið er á um í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna eða vegna dómaframkvæmdar, stjórnsýsluvenju, reglna fagfélaga eða vegna sameiginlegra reglna sem fagsamtök og aðrar fagstofnanir hafa samþykkt á grundvelli lagalegs sjálfstæðis; ekki skal litið svo á að reglur, sem kveðið er á um í kjarasamningum, sem aðilar vinnumarkaðarins semja um, séu kröfur í skilningi þessarar tilskipunar,
8)    „brýnir almannahagsmunir“: hagsmunir sem eru viðurkenndir sem slíkir í dómaframkvæmd Dómstólsins, þ.m.t. eftirfarandi: allsherjarregla, almannaöryggi, lýðheilsa, varðveisla fjárhagslegs jafnvægis almannatryggingakerfisins, vernd neytenda, viðtakenda þjónustu og starfsmanna, sanngirni í viðskiptum, barátta gegn svikum, vernd umhverfisins og þéttbýlisumhverfis, heilbrigði dýra, hugverkaréttur, varðveisla sögulegs og listræns þjóðararfs, markmið félagsmálastefnu og markmið stefnu í menningarmálum,
9)    „lögbært yfirvald“: hver sá aðili eða yfirvald sem gegnir eftirlits- eða stjórnunarhlutverki í aðildarríki í tengslum við þjónustustarfsemi og má þar einkum nefna stjórnvöld, þ.m.t. dómstólar sem starfa sem slíkir, fagfélög og þau fagsamtök eða aðrar fagstofnanir sem, á grundvelli lagalegs sjálfstæðis, setja sameiginlegar reglur um aðgang að þjónustustarfsemi eða um það að stunda hana,
10)    „aðildarríki þar sem þjónusta er veitt“: aðildarríki þar sem þjónustuveitandi með staðfestu í öðru aðildarríki veitir þjónustu,
11)    „lögvernduð starfsgrein“: atvinnustarfsemi eða ýmsar hliðar atvinnustarfsemi eins og um getur í a-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2005/36/EB,
12)    „viðskiptaorðsending“: hver sú orðsending sem ætlað er að kynna, beint eða óbeint, vörur, þjónustu eða ímynd fyrirtækis, samtaka eða einstaklings sem leggur stund á starfsemi á sviði viðskipta, iðnaðar eða iðnar eða lögverndaða starfsgrein. Eftirfarandi telst í sjálfu sér ekki vera viðskiptaorðsending:
    a)    upplýsingar sem gera mönnum kleift að fá beinan aðgang að starfsemi fyrirtækis, stofnunar eða aðila, má þar einkum nefna lénsheiti eða netfang,
    b)    orðsending sem varðar vörur, þjónustu eða ímynd fyrirtækis, stofnunar eða aðila og sem tekin er saman á sjálfstæðan hátt, einkum þegar hún er lögð fram án endurgjalds.

II. KAFLI
EINFÖLDUN STJÓRNSÝSLU
5. gr.
Einföldun málsmeðferðar

1.     Aðildarríkin skulu taka til athugunar þá málsmeðferð og þau formsatriði sem gilda um aðgang að þjónustustarfsemi og um það að stunda hana. Ef málsmeðferð og formsatriði sem eru tekin til athugunar samkvæmt þessum lið eru ekki nægilega einföld skulu aðildarríkin einfalda þau.
2.     Framkvæmdastjórnin getur tekið upp samræmd eyðublöð á vettvangi Bandalagsins í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 40. gr. Þessi eyðublöð skulu vera jafngild vottorðum, staðfestingum og öllum öðrum skjölum sem krafist er af þjónustuveitanda.
3.     Ef aðildarríkin krefjast þess að þjónustuveitandi eða viðtakandi leggi fram vottorð, staðfestingu eða hvers konar önnur skjöl, sem sanna að krafa hafi verið uppfyllt, skulu þau viðurkenna hvert það skjal frá öðru aðildarríki sem þjónar sama tilgangi eða þar sem kemur skýrt fram að viðkomandi krafa hafi verið uppfyllt. Þau geta ekki krafist þess að skjal frá öðru aðildarríki sé í frumriti eða að það sé staðfest endurrit eða löggilt þýðing nema í tilvikum sem kveðið er á um í öðrum gerningum Bandalagsins eða ef slík krafa er rökstudd með vísan til brýnna almannahagsmuna, þ.m.t. allsherjarregla og almannaöryggi.
Fyrsta undirgrein skal ekki hafa áhrif á rétt aðildarríkjanna til að krefjast þýðingar, sem ekki er löggilt, á skjölum yfir á eitt opinberra tungumála þeirra.
4.     Ákvæði 3. mgr. skulu ekki aðeins gilda um skjölin sem um getur í 2. mgr. 7. gr. og 50. gr. í tilskipun 2005/36/EB, í 3. mgr. 45. gr., 46., 49. og 50. gr. í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/18/EB frá 31. mars 2004 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga ( 1 ), í 2. mgr. 3. gr. í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/5/EB frá 16. febrúar 1998 um að auðvelda lögmönnum að starfa til frambúðar í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi ( 2 ), í fyrstu tilskipun ráðsins 68/ 151/EBE frá 9. mars 1968 um samræmingu verndarráðstafana, sem ætlað er að vera jafngildar í Bandalaginu og aðildarríki krefjast af félögum í skilningi annarrar málsgreinar 58. gr. sáttmálans, til að vernda hagsmuni félagsmanna og annarra ( 3 ) og í elleftu tilskipun ráðsins 89/666/EBE frá 21. desember 1989 um birtingarkröfur gagnvart útibúum sem stofnuð eru í aðildarríki af vissum gerðum félaga er lög annars ríkis taka til ( 4 ).

6. gr.
Upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að þjónustuveitendum sé gert kleift að ljúka eftirfarandi málsmeðferð og formsatriðum fyrir milligöngu upplýsinga- og þjónustumiðstöðva:
a)    allri nauðsynlegri málsmeðferð og formsatriðum vegna aðgangs að þjónustustarfsemi þeirra, einkum öllum yfirlýsingum, tilkynningum eða umsóknum sem eru nauðsynlegar vegna leyfis frá lögbærum yfirvöldum, þ.m.t. umsóknir um að komast í skrá, lista eða gagnagrunn, eða vegna skráningar í fagfélag eða -samtök,
b)    öllum nauðsynlegum umsóknum um leyfi til að stunda þjónustustarfsemi sína.
2.     Uppsetning upplýsinga- og þjónustumiðstöðva skal ekki hafa áhrif á skiptingu starfsemi og valds meðal yfirvalda á landsvísu.

7. gr.
Réttur til upplýsinga

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að eftirfarandi upplýsingar séu auðveldlega aðgengilegar þjónustuveitendum og viðtakendum í upplýsinga- og þjónustumiðstöðvunum:
a)    kröfur sem gilda um þjónustuveitendur með staðfestu á yfirráðasvæði þeirra, einkum kröfur varðandi málsmeðferð og formsatriði sem verður að ganga frá til að fá aðgang að þjónustustarfsemi og til að stunda hana,
b)    upplýsingar um hvernig unnt er að ná sambandi við lögbær yfirvöld svo að hægt sé að hafa beint samband við þau, þar á meðal ítarlegar upplýsingar um þau yfirvöld sem bera ábyrgð á málum sem tengjast því að stunda þjónustustarfsemi,
c)    leiðir til og skilyrði fyrir því að fá aðgang að opinberum skrám og gagnagrunnum um þjónustuveitendur og þjónustu,
d)    úrlausnarleiðir sem alla jafna eru tiltækar komi upp ágreiningur milli lögbærra yfirvalda og þjónustuveitanda eða viðtakanda eða milli þjónustuveitanda og viðtakanda eða milli þjónustuveitenda,
e)    upplýsingar um hvernig unnt er að ná sambandi við samtök eða stofnanir, aðrar en lögbær yfirvöld, þar sem þjónustuveitendur eða viðtakendur geta fengið hagnýta aðstoð.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að þjónustuveitendur og viðtakendur geti, þegar þeir þess óska, fengið aðstoð frá lögbærum yfirvöldum í formi upplýsinga um það hvernig kröfurnar, sem um getur í a-lið 1. mgr., eru alla jafna túlkaðar og hvernig þeim er beitt. Slík ráðgjöf skal, ef við á, fela í sér einfaldar leiðbeiningar um hvert skref fyrir sig. Upplýsingarnar skulu settar fram á skýru og skiljanlegu máli.
3.     Aðildarríkin skulu tryggja að upplýsingarnar og aðstoðin, sem um getur í 1. og 2. mgr., séu sett fram á skýran og ótvíræðan hátt, að aðgengi að þeim sé auðvelt með fjarmiðlun og með rafrænum hætti og að þær séu uppfærðar.
4.     Aðildarríkin skulu tryggja að upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar og lögbær yfirvöld bregðist svo fljótt sem auðið er við fyrirspurnum um upplýsingar eða aðstoð, sem um getur í 1. og 2. mgr., og í þeim tilvikum þar sem beiðni er gölluð eða ekki á rökum reist verði umsækjandanum tafarlaust greint frá því.
5.     Aðildarríkin og framkvæmdastjórnin skulu gera hliðarráðstafanir í því skyni að hvetja upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar til að gera upplýsingarnar, sem kveðið er á um í þessari grein, tiltækar á öðrum tungumálum Bandalagsins. Þetta hefur ekki áhrif á löggjöf aðildarríkjanna um notkun tungumála.
6.     Sú skylda lögbærra yfirvalda að aðstoða þjónustuveitendur og viðtakendur gerir þessum yfirvöldum ekki skylt að veita lögfræðilega ráðgjöf í einstökum tilvikum heldur aðeins að þau veiti almennar upplýsingar um það hvernig kröfur eru alla jafna túlkaðar eða þeim beitt.

8. gr.
Rafræn málsmeðferð

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að auðvelt sé að ljúka allri málsmeðferð og formsatriðum, sem tengjast aðgangi að þjónustustarfsemi og því að stunda hana, með fjarmiðlun og með rafrænum hætti, fyrir milligöngu viðkomandi upplýsingaog þjónustumiðstöðva og hjá viðkomandi lögbærum yfirvöldum.
2.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki gilda um skoðun á húsnæði þar sem þjónusta er veitt eða á búnaði sem þjónustuveitandi notar eða um áþreifanlega skoðun á getu þjónustuveitanda eða ráðvendni hans eða starfsmanna hans sem bera ábyrgð.
3.     Framkvæmdastjórnin skal, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 40. gr., samþykkja nákvæmar reglur um framkvæmd 1. mgr. þessarar greinar í því skyni að greiða fyrir rekstrarsamhæfi upplýsingakerfa og notkun rafrænnar málsmeðferðar milli aðildarríkja með hliðsjón af sameiginlegum stöðlum sem hafa verið þróaðir á vettvangi Bandalagsins.

III. KAFLI
STAÐFESTURÉTTUR ÞJÓNUSTUVEITENDA
1. ÞÁTTUR
Leyfi

9. gr.
Fyrirkomulag leyfisveitinga

1.     Aðildarríkinu skulu ekki gera aðgang að þjónustustarfsemi eða það að stunda hana háða fyrirkomulagi leyfisveitinga nema eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
a)    fyrirkomulag leyfisveitinga felur ekki í sér mismunun gagnvart viðkomandi þjónustuveitanda,
b)    þörfin á fyrirkomulagi leyfisveitinga er rökstudd með vísan til brýnna almannahagsmuna,
c)    markmiðið, sem að er stefnt, næst ekki með minna takmarkandi ráðstöfunum, einkum vegna þess að skoðun eftir á færi fram of seint til að skila raunverulegum árangri.
2.     Í skýrslunni, sem um getur í 1. mgr. 39. gr., skulu aðildarríkin tilgreina eigið fyrirkomulag við leyfisveitingar og sýna fram á að það sé í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar.
3.     Þessi þáttur skal ekki gilda um þá þætti fyrirkomulags leyfisveitinga sem lúta öðrum gerningum Bandalagsins beint eða óbeint.

10. gr.
Skilyrði fyrir veitingu leyfis

1.     Fyrirkomulag leyfisveitinga skal grundvallað á viðmiðunum sem koma í veg fyrir að lögbær yfirvöld geti beitt matsvaldi sínu handahófskennt.
2.     Viðmiðanirnar, sem um getur í 1. mgr., skulu vera:
a)    án mismununar,
b)    rökstuddar með vísan til brýnna almannahagsmuna,
c)    í réttu hlutfalli við það markmið um almannahagsmuni,
d)    skýrar og ótvíræðar,
e)    hlutlægar,
f)    birtar fyrir fram,
g)    gagnsæjar og aðgengilegar.
3.     Aðildarríki er óheimilt að binda leyfi fyrir nýrri starfsstöð jafngildum eða í meginatriðum sambærilegum skilyrðum eða eftirliti og þjónustuveitandi hefur þegar þurft að uppfylla í öðru eða sama aðildarríki. Tengiliðirnir, sem um getur í 2. mgr. 28. gr., og þjónustuveitandi skulu aðstoða lögbært yfirvald með því að veita allar nauðsynlegar upplýsingar varðandi þessar kröfur.
4.     Leyfið skal gera þjónustuveitanda kleift að fá aðgang að þjónustustarfsemi eða að stunda þá starfsemi á öllu yfirráðasvæði lands, þar á meðal með því að setja upp umboð, dótturfélög, útibú eða skrifstofur, nema leyfi fyrir hverri einstakri starfsstöð eða leyfi, sem er takmarkað við ákveðinn hluta yfirráðasvæðisins, sé rökstutt með vísan til brýnna almannahagsmuna.
5.     Leyfið skal veitt um leið og gengið hefur verið úr skugga um, með viðeigandi athugun, að skilyrðin fyrir leyfi hafi verið uppfyllt.
6.     Að undanskilinni veitingu leyfis skulu allar ákvarðanir lögbærra yfirvalda, þar á meðal synjun eða afturköllun leyfis, vera að fullu rökstuddar og heimilt að bera þær undir dómstóla eða aðra áfrýjunaraðila.
7.     Þessi grein skal ekki vefengja skiptingu valdheimilda, á stað- eða svæðisbundnum vettvangi, þeirra yfirvalda í aðildarríkjunum sem veita leyfi.

11. gr.
Gildistími leyfis

1.     Leyfi til þjónustuveitanda skal ekki gilda í takmarkaðan tíma nema:
a)    leyfið endurnýist sjálfkrafa eða það sé aðeins háð því að kröfur séu áfram uppfylltar,
b)    fjöldi tiltækra leyfa sé takmarkaður með vísan til brýnna almannahagsmuna
    eða
c)    hægt sé að réttlæta takmarkaðan gildistíma leyfisins með vísan til brýnna almannahagsmuna.
2.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki varða þann hámarkstíma sem þjónustuveitandi hefur til að hefja í reynd starfsemi sína eftir að hann fær leyfið.
3.     Aðildarríkin skulu skylda þjónustuveitanda til að upplýsa viðkomandi upplýsinga- og þjónustumiðstöð, sem kveðið er á um í 6. gr., um eftirfarandi breytingar:
a)    stofnun dótturfélaga með starfsemi sem fellur innan gildissviðs fyrirkomulags leyfisveitinga,
b)    breytingar á aðstæðum hans sem leiða til þess að skilyrðin fyrir leyfi eru ekki lengur uppfyllt.
4.     Þessi grein skal ekki hafa áhrif á möguleika aðildarríkjanna til að afturkalla leyfi þegar skilyrðin fyrir leyfi eru ekki lengur uppfyllt.

12. gr.
Val úr hópi nokkurra umsækjenda

1.     Þegar fjöldi tiltækra leyfa í tiltekinni starfsemi er takmarkaður vegna skorts á tiltækum náttúruauðlindum eða tæknigetu skulu aðildarríkin, við val milli þeirra sem koma til álita, beita aðferð þar sem óhlutdrægni og gagnsæi eru að fullu tryggð, má þar einkum nefna fullnægjandi kynningu á því hvenær málsmeðferðin hefst, hvernig hún fer fram og hvenær henni lýkur.
2.     Í þeim tilvikum, sem um getur í 1. mgr., skal veita leyfi í tiltekinn tíma, svo sem þurfa þykir og ekki skal vera hægt að endurnýja það sjálfkrafa né heldur skal það fela í sér annan ávinning fyrir þjónustuveitanda sem er með nýútrunnið leyfi eða annan aðila sem hefur einhver tiltekin tengsl við þann þjónustuveitanda.
3.     Með fyrirvara um 1. mgr. og um 9. og 10. gr. geta aðildarríkin, þegar þau setja reglur um valaðferðina, tekið tillit til sjónarmiða um lýðheilsu, markmið félagsmálastefnu, heilbrigði og öryggi starfsmanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga, vernd umhverfisins, varðveislu menningararfleifðar og aðra brýna almannahagsmuni í samræmi við lög Bandalagsins.

13. gr.
Málsmeðferð við leyfisveitingar

1.     Málsmeðferð við leyfisveitingar og formsatriði skal vera skýr, birt fyrir fram og til þess fallin að veita umsækjendum tryggingu fyrir því að umsókn þeirra fái hlutlæga og óhlutdræga meðferð.
2.     Málsmeðferð við leyfisveitingar og formsatriði skal ekki vera letjandi og hún skal ekki flækja eða tefja að óþörfu fyrir veitingu þjónustu. Greiður aðgangur skal vera að henni og öll gjöld sem umsækjendur kunna að stofna til vegna umsóknar sinnar skulu vera sanngjörn og í réttu hlutfalli við kostnað vegna viðkomandi málsmeðferðar við leyfisveitingu og skulu ekki vera hærri en kostnaðurinn við málsmeðferðina.
3.     Málsmeðferð við leyfisveitingar og formsatriði skal veita umsækjendum tryggingu fyrir því að umsókn þeirra fái eins skjóta meðferð og unnt er og undir öllum kringumstæðum innan sanngjarns frests sem er fastsettur og birtur fyrir fram. Fresturinn hefst ekki fyrr en öllum gögnum hefur verið skilað inn. Lögbært yfirvald getur framlengt frestinn einu sinni, í takmarkaðan tíma, þegar unnt er að réttlæta það með því hvað málefnið er flókið. Framlengingin og tímalengd hennar skal vera tilhlýðilega rökstudd og skal tilkynna umsækjandanum um það áður en upphaflegi fresturinn rennur út.
4.     Ef ekki hefur borist svar innan veitts frests eða framlengingar á honum í samræmi við 3. mgr. skal litið svo á að leyfi hafi verið veitt. Þó er hægt að koma á annars konar fyrirkomulagi ef það er rökstutt með vísan til brýnna almannahagsmuna, þ.m.t. lögmætir hagsmunir þriðju aðila.
5.     Viðtaka allra umsókna um leyfi skal staðfest eins fljótt og auðið er. Í staðfestingunni skal tilgreina eftirfarandi:
a)    frestinn, sem um getur í 3. mgr.,
b)    tiltækar kæruleiðir,
c)    að litið skuli svo á, ef svo ber undir, að leyfið hafi verið veitt hafi svar ekki borist innan tilgreinds frests.
6.     Þegar umsókn er ábótavant skal tilkynna umsækjanda eins og fljótt og auðið er um að hann þurfi að leggja fram viðbótargögn, svo og um öll hugsanleg áhrif á frestinn sem um getur í 3. mgr.
7.     Þegar beiðni er hafnað af því að hún er ekki í samræmi við viðeigandi málsmeðferð eða formsatriði skal umsækjanda tilkynnt um synjunina eins fljótt og auðið er.

2. ÞÁTTUR
Kröfur sem eru bannaðar eða háðar mati
14. gr.
Bannaðar kröfur

Aðildarríkjunum er óheimilt að setja fram einhverja af eftirfarandi kröfum vegna aðgangs að þjónustustarfsemi eða þess að stunda hana á yfirráðasvæði sínu:
1)    kröfur sem fela í sér mismunun og grundvallast beint eða óbeint á þjóðerni eða, þegar um fyrirtæki er að ræða, staðsetningu skráðrar skrifstofu, má þar einkum nefna:
    a)    kröfur um þjóðerni þjónustuveitanda, starfsmanna hans, aðila sem eru eigendur hlutafjár eða stjórnarmenn í framkvæmdastjórn eða hjá eftirlitsaðila þjónustuveitanda,
    b)    kröfu um að þjónustuveitandi, starfsmenn hans, aðilar sem eru eigendur hlutafjár eða stjórnarmenn í framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn þjónustuveitanda séu búsettir á yfirráðasvæðinu,
2)    bann við því að hafa starfsstöð í fleiri en einu aðildarríki eða við því að þjónustuveitandi sé færður í skrár eða skráður í fagfélög eða -samtök í fleiri en einu aðildarríki,
3)    takmarkanir á frelsi þjónustuveitanda til að velja á milli aðalstarfsstöðvar og aukastarfsstöðvar, einkum þá skyldu að þjónustuveitandi hafi aðalstarfsstöð sína á yfirráðasvæði þeirra eða takmarkanir á frelsi til að velja á milli þess að starfsstöðin verði í formi umboðs, útibús eða dótturfélags,
4)    skilyrði um gagnkvæmni við aðildarríkið þar sem þjónustuveitandi hefur þegar starfsstöð, að undanskildum skilyrðum um gagnkvæmni sem kveðið er á um í gerningum Bandalagsins varðandi orku,
5)    að efnahagslegri greiningu verði beitt í hverju tilviki fyrir sig og þar með verði veiting leyfis undir því komin að færðar séu sönnur á að efnahagsleg þörf eða eftirspurn á markaði sé fyrir hendi, mat á hugsanlegum eða núverandi efnahagslegum áhrifum af starfseminni eða mat á því hvort starfsemin eigi rétt á sér með tilliti til markmiða hagrænna áætlana sem lögbært yfirvald hefur sett; bann þetta lýtur ekki að kröfum áætlanagerðar sem eru án hagrænna markmiða heldur þjóna brýnum almannahagsmunum,
6)    beina eða óbeina aðild samkeppnisaðila, þ.m.t. innan ráðgefandi stofnana, að veitingu leyfa eða að samþykkt annarra ákvarðana lögbærra yfirvalda, að undanskildum fagfélögum og -samtökum eða öðrum stofnunum sem gegna hlutverki lögbærs yfirvalds; bann þetta lýtur ekki að samráði stofnana, s.s. verslunarráða eða aðila vinnumarkaðarins, um önnur málefni en einstakar umsóknir um leyfi eða samráði við almenning í heild,
7)    skyldu til að veita eða eiga aðild að fjárhagslegri ábyrgð eða kaupa tryggingu frá þjónustuveitanda eða aðila með staðfestu á yfirráðasvæði þeirra. Þetta hefur ekki áhrif á að aðildarríkin geti gert kröfu um vátryggingar eða fjárhagslegar ábyrgðir sem slíkar, né heldur hefur þetta áhrif á kröfur um aðild að sameiginlegum jöfnunarsjóði, t.d. fyrir félagsmenn fagfélaga eða -stofnana,
8)    kvöð um að hafa verið forskráður í tiltekinn tíma í skrár á yfirráðasvæði þeirra eða að hafa áður stundað starfsemina í tiltekinn tíma á yfirráðasvæði þeirra.

15. gr.
Kröfur sem skal meta

1.     Aðildarríkin skulu kanna hvort í réttarkerfi þeirra sé að finna einhverjar af þeim kröfum sem eru taldar upp í 2. mgr. og þau skulu sjá til þess að allar slíkar kröfur séu í samræmi við skilyrðin sem kveðið er á um í 3. mgr. Aðildarríkin skulu aðlaga lög sín og stjórnsýslufyrirmæli svo að þau samrýmist þessum skilyrðum.
2.     Aðildarríkin skulu kanna hvort réttarkerfi þeirra gerir aðgang að þjónustustarfsemi eða það að stunda hana háð því að farið sé að einhverri af eftirtöldum kröfum sem fela ekki í sér mismunun:
a)    fjöldatakmörkunum eða svæðisbundnum takmörkunum, einkum mörkum sem eru fastsett miðað við fólksfjölda eða landfræðilega lágmarksfjarlægð milli þjónustuveitenda,
b)    kvöð á þjónustuveitanda um að hafa tiltekið, lögákveðið rekstrarform,
c)    kröfum sem tengjast hlutafjáreign í félagi,
d)    kröfum, öðrum en þeim sem varða málefni sem tilskipun 2005/36/EB tekur til eða sem kveðið er á um í öðrum gerningum Bandalagsins, sem binda aðgang að viðkomandi þjónustustarfsemi við tiltekna þjónustuveitendur með skírskotun til sérstaks eðlis starfseminnar,
e)    banni við því að hafa fleiri en eina starfsstöð á yfirráðasvæði sama ríkis,
f)    kröfum um lágmarksfjölda starfsmanna,
g)    fastsettum lágmarks- og/eða hámarksgjaldskrám sem þjónustuveitandi verður að fara eftir,
h)    kvöð á þjónustuveitanda um að reka tiltekna þjónustustarfsemi samhliða þjónustu sinni.
3.     Aðildarríkin skulu ganga úr skugga um að kröfurnar, sem um getur í 2. mgr., uppfylli eftirfarandi skilyrði:
a)    bann við mismunun: kröfurnar mega ekki, hvorki beint né óbeint, mismuna á grundvelli þjóðernis, né heldur, að því er varðar félög, á grundvelli staðsetningar skráðrar skrifstofu,
b)    nauðsyn: færa verður rök fyrir kröfum með vísan til brýnna almannahagsmuna,
c)    meðalhóf: kröfur verða að vera til þess fallnar að tryggja að markmiðið, sem stefnt er að, náist; þær mega ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til að ná því markmiði og ekki má vera hægt að láta aðrar ráðstafanir sem eru ekki jafn takmarkandi en sem ná sama árangri koma í þess þessara krafna.
4.     Ákvæði 1., 2. og 3. mgr. skulu aðeins gilda um löggjöf á sviði þjónustu sem hefur almenna, efnahagslega þýðingu að því marki sem beiting þessara málsgreina kemur ekki í veg fyrir framkvæmd þess verkefnis sem fellur undir þjónustuna, hvorki að lögum né í reynd.
5.     Í gagnkvæmu matsskýrslunni, sem kveðið er á um í 1. mgr. 39. gr., skulu aðildarríkin tilgreina eftirfarandi:
a)    þær kröfur sem þau ætla að viðhalda og ástæðurnar fyrir því að þau telja þessar kröfur í samræmi við skilyrðin sem koma fram í 3. mgr.,
b)    þær kröfur sem hafa verið felldar niður eða mildaðar.
6.     Frá 28. desember 2006 skulu aðildarríkin ekki koma fram með nýja kröfu af þeirri tegund sem er talin upp í 2. mgr. nema hún uppfylli skilyrðin sem mælt er fyrir um í 3. mgr.
7.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um öll ný lög eða stjórnsýslufyrirmæli þar sem settar eru fram kröfur, sem um getur í 6. mgr., svo og um ástæðurnar fyrir þessum kröfum. Framkvæmdastjórnin skal senda viðkomandi ákvæði til annarra aðildarríkja. Tilkynning af því tagi kemur ekki í veg fyrir að aðildarríkin geti samþykkt viðkomandi ákvæði. Framkvæmdastjórnin skal, innan þriggja mánaða frá því að hún tekur við tilkynningunni, kanna hvort nýjar kröfur séu í samræmi við lög Bandalagsins og, ef við á, taka ákvörðun um að óska eftir því að viðkomandi aðildarríki láti hjá líða að samþykkja þær eða felli þær niður. Tilkynning um frumvarp til laga í samræmi við tilskipun 98/34/EB skal uppfylla tilkynningaskylduna sem kveðið er á um í þessari tilskipun.

IV. KAFLI
FRJÁLS ÞJÓNUSTUSTARFSEMI
1. ÞÁTTUR
Frelsi til að veita þjónustu og tengdar undanþágur
16. gr.
Frelsi til að veita þjónustu

1.     Aðildarríkin skulu virða rétt þjónustuveitenda til að veita þjónustu í öðru aðildarríki en því þar sem hann hefur staðfestu.
Aðildarríkið, þar sem þjónustan er veitt, skal tryggja frjálsan aðgang að þjónustustarfsemi og frelsi til að stunda hana innan yfirráðasvæðis síns.
Aðildarríkin skulu ekki gera aðgang að þjónustustarfsemi eða það að stunda hana á yfirráðasvæði sínu háð því að farið sé að kröfum sem virða ekki eftirfarandi meginreglur:
a)    bann við mismunun: krafan má hvorki beint né óbeint mismuna á grundvelli þjóðernis eða, þegar um er að ræða lögpersónur, á grundvelli aðildarríkisins þar sem þær hafa staðfestu,
b)    nauðsyn: krafan verður að vera réttlætt á grundvelli allsherjarreglu, almannaöryggis, lýðheilsu eða verndar umhverfisins,
c)    meðalhóf: krafan verður að vera til þess fallin að markmiðið, sem stefnt er að, náist og hún má ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til að ná því markmiði.
2.     Aðildarríkin mega ekki takmarka frelsi til að veita þjónustu, þegar um er að ræða þjónustuveitanda, sem hefur staðfestu í öðru aðildarríki, með því að setja fram einhverja af eftirtöldum kröfum:
a)    að lögð sé á þjónustuveitanda sú kvöð að hafa starfsstöð á yfirráðasvæði þeirra,
b)    að lögð sé á þjónustuveitanda sú kvöð að fá leyfi frá lögbærum yfirvöldum þeirra, þ.m.t. upptaka í skrá eða skráning í fagfélag eða -samtök á yfirráðasvæði þeirra, nema þar sem kveðið er á um það í þessari tilskipun eða öðrum lagagerningum Bandalagsins,
c)    að þjónustuveitanda sé bannað að setja upp tiltekið form eða tegund grunnvirkis á yfirráðasvæði þeirra, þ.m.t. skrifstofa eða lögmannsstofa sem þjónustuveitandi þarfnast til að geta veitt viðkomandi þjónustu,
d)    að beitt sé sérstöku, samningsbundnu fyrirkomulagi milli þjónustuveitanda og viðtakanda sem kemur í veg fyrir eða takmarkar að sjálfstætt starfandi aðili geti veitt þjónustu,
e)    að lögð sé á þjónustuveitanda sú kvöð að hafa undir höndum vottorð, sem lögbær yfirvöld gefa út, um hæfi til að stunda þjónustustarfsemi,
f)    kröfur, sem hafa áhrif á notkun búnaðar og tækja, sem eru óaðskiljanlegur hluti þjónustunnar, nema þær sem eru nauðsynlegar vegna heilbrigðis og öryggis á vinnustað,
g)    takmarkanir á frelsi til að veita þjónustuna sem um getur í 19. gr.
3.     Ekki skal staðið í vegi fyrir því að aðildarríki, sem þjónustuveitandi flytur til, setji fram kröfur að því er varðar þjónustustarfsemi ef þær eru rökstuddar með tilliti til allsherjarreglu, almannaöryggis, lýðheilsu eða verndunar umhverfisins og í samræmi við 1. mgr. Ekki skal heldur staðið í vegi fyrir því að aðildarríki beiti, í samræmi við lög Bandalagsins, reglum sínum um ráðningarskilmála, þ.m.t. þær sem kveðið er á um í kjarasamningum.
4.     Framkvæmdastjórnin skal, að höfðu samráði við aðildarríkin og aðila vinnumarkaðarins á vettvangi Bandalagsins, skila skýrslu til Evrópuþingsins og ráðsins um beitingu þessarar greinar fyrir 28. desember 2011 og skal hún fjalla um hvort nauðsynlegt sé að gera tillögu um samræmingarráðstafanir að því er varðar þjónustustarfsemi sem þessi tilskipun tekur til.

17. gr.
Viðbótarundanþágur frá frelsi til að veita þjónustu

Ákvæði 16. gr. gilda ekki um:
1)    Þjónustu sem hefur almenna, efnahagslega þýðingu og er veitt í öðru aðildarríki, t.d.:
    a)    þjónustu í póstgeiranum sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/67/EB frá 15. desember 1997 um sameiginlegar reglur varðandi þróun innri markaðar Bandalagsins á sviði póstþjónustu og umbætur á þeirri þjónustu ( 1 ) tekur til,
    b)    þjónustu í raforkugeiranum sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku ( 2 ) tekur til,
    c)    þjónustu í gasgeiranum sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/55/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir jarðgas ( 3 ) tekur til,
    d)    þjónustu við dreifingu og afhendingu vatns og skólpþjónustu,
    e)    meðhöndlun úrgangs.
2)    Mál sem tilskipun 96/71/EB tekur til.
3)    Mál sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 4 ) tekur til.
4)    Mál sem tilskipun ráðsins 77/249/EBE frá 22. mars 1977 um að auðvelda lögmönnum að neyta réttar til að veita þjónustu ( 5 ) tekur til.
5)    Starfsemi við innheimtu skulda fyrir dómi.
6)    Mál sem II. bálkur tilskipunar 2005/36/EB tekur til, svo og kröfur í aðildarríkjunum þar sem þjónustan er veitt um að starfsemi sé bundin við tiltekna starfsgrein.
7)     Mál sem reglugerð (EBE) nr. 1408/71 tekur til.
8)    Að því er varðar stjórnsýsluleg formsatriði varðandi frjálsa för fólks og búsetu þess, mál sem ákvæði tilskipunar 2004/38/EB, sem kveður á um stjórnsýsluleg formsatriði lögbærra yfirvalda aðildarríkisins þar sem þjónustan er veitt sem rétthafar verða að fara að, taka til.
9)    Að því er varðar ríkisborgara þriðja lands, sem flytja til annars aðildarríkis vegna þjónustustarfsemi, möguleika aðildarríkja til að krefja ríkisborgara þriðja lands um vegabréfsáritun eða dvalarleyfi ef þeir falla ekki undir gagnkvæma viðurkenningarferlið, sem kveðið er á um í 21. gr. í samningnum um framkvæmd Schengensamkomulagsins frá 14. júní 1985 um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum ( 6 ), eða möguleikann til að skylda ríkisborgara þriðja lands til að tilkynna sig til lögbærra yfirvalda í aðildarríkinu þar sem þjónustan er veitt þegar þeir koma til landsins eða eftir að þeir eru komnir.
10)    Að því er varðar flutning úrgangs, mál sem reglugerð ráðsins (EBE) nr. 259/93 frá 1. febrúar 1993 um umsjón og eftirlit með flutningi úrgangs innan, til og út úr Evrópubandalaginu ( 7 ) tekur til.
11)    Höfundarrétt, skyld réttindi og réttindi sem tilskipun ráðsins 87/54/EBE frá 16. desember 1986 um vernd svæðislýsinga smárása á hálfleiðurum ( 1 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/9/EB frá 11. mars 1996 um lögverndun gagnagrunna ( 2 ) taka til, svo og eignarrétt á sviði iðnaðar.
12)    Verk þar sem lög gera kröfu um aðkomu lögbókanda.
13)    Mál sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga ( 3 ) tekur til.
14)    Skráningu ökutækja sem eru tekin á leigu í öðru aðildarríki.
15)    Ákvæði varðandi samningsbundnar skuldbindingar og skuldbindingar sem eru ekki samningsbundnar, þ.m.t. form samninga, sem ákvarðast samkvæmt reglum um alþjóðlegan einkamálarétt.

18. gr.
Undanþágur í einstökum tilvikum

1.     Þrátt fyrir 16. gr. og aðeins í undantekningartilvikum getur aðildarríki gert ráðstafanir varðandi öryggi í þjónustu að því er varðar þjónustuveitanda með staðfestu í öðru aðildarríki.
2.     Aðeins má grípa til ráðstafananna, sem kveðið er á um í 1. mgr., ef farið er að málsmeðferð um gagnkvæma aðstoð sem mælt er fyrir um í 35. gr. og ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
a)    ákvæði landslaga, sem ráðstöfunin er gerð í samræmi við, hafa ekki orðið tilefni samræmingar á sviði öryggis í þjónustu,
b)    ráðstafanirnar kveða á um meiri vernd viðtakanda en ráðstafanir sem staðfestuaðildarríkið myndi gera í samræmi við ákvæði landslaga sinna,
c)    staðfestuaðildarríkið hefur ekki gert neinar ráðstafanir eða hefur gert ráðstafanir sem eru ófullnægjandi miðað við þær sem um getur í 2. mgr. 35. gr.,
d)    gætt sé meðalhófs í ráðstöfunum.
3.     Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu ekki hafa áhrif á ákvæðin, sem mælt er fyrir um í gerningum Bandalagsins, sem tryggja frelsi til að veita þjónustu eða heimila undanþágur frá þeim.

2. ÞÁTTUR
Réttindi viðtakenda þjónustu
19. gr.
Bannaðar takmarkanir

Aðildarríkin geta ekki gert kröfur til viðtakanda sem takmarka notkun þjónustu sem þjónustuveitandi með staðfestu í öðru aðildarríki veitir, einkum eftirfarandi kröfur:
a)    gert það að skyldu að afla leyfis hjá lögbærum yfirvöldum þeirra eða gefa þeim yfirlýsingu,
b)    sett takmarkanir á veitingu fjárhagsaðstoðar sem mismuna á grundvelli þess að þjónustuveitandi hefur staðfestu í öðru aðildarríki eða á grundvelli staðsetningar þjónustunnar.

20. gr.
Bann við mismunun

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að viðtakandi sé ekki beittur mismunun á grundvelli þjóðernis hans eða búsetu.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að í almennum skilyrðum fyrir aðgangi að þjónustu, sem þjónustuveitandi býður öllum almenningi, séu ekki ákvæði sem mismuna á grundvelli þjóðernis eða búsetu viðtakanda en sem útiloka ekki að gert sé ráð fyrir mismunandi skilyrðum fyrir aðgangi þegar þessi mismunur er rökstuddur beint með hlutlægum viðmiðunum.

21. gr.
Aðstoð við viðtakendur

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að viðtakendur geti fengið eftirfarandi upplýsingar í aðildarríkinu þar sem þeir eru búsettir:
a)    almennar upplýsingar um kröfur sem gilda í öðrum aðildarríkjum varðandi aðgang að þjónustustarfsemi og það að stunda hana, einkum kröfur varðandi vernd neytenda,
b)    almennar upplýsingar um tiltækar leiðir til að leggja fram kvartanir komi upp ágreiningur milli þjónustuveitanda og viðtakanda,
c)    upplýsingar um hvernig unnt er að ná sambandi við samtök eða stofnanir, þ.m.t. miðstöðvar í Evrópuneti neytendamiðstöðva, þar sem þjónustuveitendur eða viðtakendur geta fengið hagnýta aðstoð.
Ef við á skulu ráð frá lögbærum yfirvöldum fela í sér einfaldar leiðbeiningar um hvert skref fyrir sig. Upplýsingar og aðstoð skal veita á skýran og ótvíræðan hátt, aðgengi að þeim skal vera auðvelt með fjarmiðlun, þ.m.t. með rafrænum hætti, og þær skulu vera uppfærðar.
2.     Aðildarríkin geta falið upplýsinga- og þjónustumiðstöðvum ábyrgð verkefnisins sem um getur í 1. mgr. eða öðrum aðilum, s.s. miðstöðum í Evrópuneti neytendamiðstöðva, neytendasamtökum eða evrópskum upplýsingamiðstöðvum. Aðildarríkin skulu skýra framkvæmdastjórninni frá nafni tilnefndra aðila og frá því hvernig unnt er að ná sambandi við þá. Framkvæmdastjórnin skal senda upplýsingarnar til allra aðildarríkja.
3.     Til að uppfylla kröfurnar sem eru settar fram í 1. og 2. mgr. skal aðilinn, sem viðtakandi hefur snúið sér til, hafa samband við viðeigandi aðila í viðkomandi aðildarríki, ef nauðsyn krefur. Hinn síðarnefndi skal senda umbeðnar upplýsingar eins fljótt og auðið er til aðilans sem óskar eftir þeim og skal sá framsenda þær til viðtakandans. Aðildarríkin skulu tryggja að þessir aðilar veiti hvor öðrum gagnkvæma aðstoð og þau skulu gera allar hugsanlegar ráðstafanir til að samstarfið verði árangursríkt. Aðildarríkin skulu ásamt framkvæmdastjórninni setja á laggirnar hentugt fyrirkomulag sem er nauðsynlegt vegna framkvæmdar 1. mgr.
4.     Framkvæmdastjórnin skal, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 40. gr. samþykkja ráðstafanir um framkvæmd 1., 2. og 3. mgr. þessarar greinar og tilgreina sérstaklega tæknilegar aðferðir við upplýsingaskipti milli aðila í hinum ýmsu aðildarríkjum og einkum rekstrarsamhæfi upplýsingakerfa, að teknu tilliti til sameiginlegra staðla.

V. KAFLI
GÆÐI ÞJÓNUSTU
22. gr.
Upplýsingar um þjónustuveitendur og þjónustu þeirra

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að þjónustuveitendur hafi eftirfarandi upplýsingar tiltækar fyrir viðtakanda:
a)    nafn þjónustuveitanda, réttarstöðu hans og rekstrarform að lögum, heimilisfang, þar sem hann hefur staðfestu, og nákvæmar upplýsingar um hvernig unnt er að komast fljótt í samband og hafa bein samskipti við hann og, eftir atvikum, með rafrænum hætti,
b)    ef þjónustuveitandi er skráður í viðskiptaskrá eða aðra sambærilega, opinbera skrá, heiti skrárinnar og skráningarnúmer þjónustuveitanda eða samsvarandi auðkenni hans í þeirri skrá,
c)    ef starfsemi er háð fyrirkomulagi leyfisveitinga, upplýsingar um viðkomandi lögbært yfirvald eða upplýsinga- og þjónustumiðstöðina,
d)    ef þjónustuveitandi stundar starfsemi sem er virðisaukaskattsskyld, virðisaukanúmerið, sem um getur í 1. mgr. 22.gr. sjöttu tilskipunar ráðsins 77/388/EBE frá 17. maí 1977 um samræmingu laga aðildarríkjanna um veltuskatt -sameiginlegt virðisaukaskattskerfi: samræmdur matsgrunnur ( 1 ),
e)    þegar um er að ræða lögverndaðar starfsgreinar, öll fagfélög eða sambærilegar stofnanir, þar sem þjónustuveitandi er skráður, starfsheiti og aðildarríkið þar sem starfsheitið var veitt,
f)    almenn skilyrði og ákvæði, ef einhver eru, sem þjónustuveitandi notar,
g)    hvort fyrir hendi er samningsákvæði sem þjónustuveitandinn notar að því er varðar lögin sem gilda um samninginn og/eða varðandi þar til bæra dómstóla,
h)    hvort fyrir hendi er ábyrgð eftir sölu sem er ekki lögbundin,
i)    verð þjónustunnar ef þjónustuveitandi hefur ákveðið verðið fyrir tiltekna tegund þjónustu fyrir fram,
j)    helstu þættir þjónustunnar ef ekki má þegar ráða þá af samhenginu,
k)    vátrygging eða ábyrgðir sem um getur í 1. mgr. 23. gr., einkum upplýsingar um hvernig unnt er að ná sambandi við vátryggjanda eða ábyrgðarmann og við hvaða yfirráðasvæði vátryggingin og ábyrgðirnar eru bundnar.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., samkvæmt eigin vali þjónustuveitanda:
a)    séu veittar af þjónustuveitanda að hans frumkvæði,
b)    séu vel aðgengilegar viðtakanda á þeim stað þar sem þjónustan er veitt eða samningurinn er gerður,
c)    séu vel aðgengilegar viðtakanda með rafrænum hætti á vistfangi sem þjónustuveitandi leggur fram,
d)    komi fram í öllum upplýsingaskjölum, sem þjónustuveitandinn afhendir viðtakandanum, þar sem sett er fram nákvæm lýsing á þjónustunni sem hann veitir.
3.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að þjónustuveitendur leggi fram, að beiðni viðtakanda, eftirfarandi viðbótarupplýsingar:
a)    verð þjónustunnar, ef þjónustuveitandi hefur ekki ákveðið það fyrir fram, eða, ef ekki er unnt að gefa upp nákvæmt verð, aðferðina sem notuð er til að reikna út verðið svo að viðtakandi geti kannað það, eða nægilega nákvæmt áætlað verð,
b)    að því er varðar lögverndaðar starfsgreinar, tilvísun í starfsreglur sem gilda í staðfestuaðildarríkinu og hvernig unnt er að nálgast þær,
c)    upplýsingar um starfsemi þeirra á mörgum sviðum og samstarf sem tengist beint viðkomandi þjónustu og um ráðstafanirnar sem hafa verið gerðar til að komast hjá hagsmunaárekstrum. Þessar upplýsingar skulu vera í öllum upplýsingaskjölum þar sem þjónustuveitendur gefa nákvæma lýsingu á þjónustu sinni,
d)    allar siðareglur starfsstéttar sem þjónustuveitandi er bundinn af og upplýsingar um hvar unnt er að kynna sér þessar siðareglur með rafrænum hætti og um það á hvaða máli þær eru tiltækar,
e)    ef þjónustuveitandi er bundinn af siðareglum starfsstéttar eða er félagi í atvinnugreinasamtökum eða fagfélagi þar sem kveðið er á um aðstoð við úrlausn deilumála utan dómstóla, upplýsingar þar að lútandi. Þjónustuveitandi skal tiltaka hvernig nálgast megi nákvæmar upplýsingar um hvað einkennir lausn deilumála utan réttar og skilyrðin fyrir notkun þeirra aðferða.
4.     Aðildarríkin skulu tryggja að upplýsingarnar, sem þjónustuveitandi verður að leggja fram í samræmi við þennan kafla, séu tiltækar eða settar fram á skýran og ótvíræðan hátt og tímanlega áður en samningur er gerður eða áður en þjónustan er veitt, ef ekki er um skriflegan samning að ræða.
5.     Upplýsingakröfur, sem mælt er fyrir um í þessum kafla, eru til viðbótar þeim kröfum sem þegar er kveðið á um í lögum Bandalagsins og þær koma ekki í veg fyrir að aðildarríkin geti gert kröfur um viðbótarupplýsingar frá þjónustuveitendum með staðfestu á yfirráðasvæði þeirra.
6.     Framkvæmdastjórnin getur, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 40. gr., tiltekið efni upplýsinganna, sem kveðið er á um í 1. og 3. mgr. þessarar greinar, samkvæmt sérstöku eðli tiltekinnar starfsemi og getur hún tiltekið raunhæfar leiðir til að hrinda 2. mgr. þessarar greinar í framkvæmd.

23. gr.
Starfsábyrgðartryggingar og ábyrgðir

1.     Aðildarríkin geta séð til þess að veitendur þjónustu, sem hefur beina og sérstaka áhættu í för með sér fyrir heilbrigði eða öryggi viðtakanda eða þriðja manns eða fyrir fjárhagslegt öryggi viðtakanda, kaupi starfsábyrgðartryggingu sem hæfir umfangi og eðli áhættunnar eða leggi fram ábyrgð eða bjóði svipað fyrirkomulag sem er jafngilt eða í meginatriðum sambærilegt að því er varðar tilgang.
2.     Þegar þjónustuveitandi hefur öðlast staðfestu á yfirráðasvæði aðildarríkjanna er þeim óheimilt að krefjast starfsábyrgðartryggingar eða ábyrgðar ef þjónustuveitandi er þegar tryggður í öðru aðildarríki en því þar sem hann hefur þegar staðfestu með ábyrgðartryggingu sem er jafngild eða í meginatriðum sambærileg að því er varðar tilgang og þá tryggingavernd sem hún veitir með tilliti til áhættunnar sem tryggt er gegn, tryggingafjárhæðarinnar eða efri marka ábyrgðarinnar og þess sem hugsanlega fellur utan ábyrgðarinnar. Ef tryggingin eða ábyrgðin eru aðeins jafngildar að hluta geta aðildarríkin krafist viðbótarábyrgðar vegna þeirra þátta sem falla ekki þegar undir ábyrgðina eða trygginguna.
Þegar aðildarríki gerir kröfu um að þjónustuveitandi með staðfestu á yfirráðasvæði þess kaupi starfsábyrgðartryggingu eða leggi fram aðra ábyrgð skal það aðildarríki taka staðfestingu á slíkri tryggingu, sem lánastofnanir og vátryggjendur gefa út í öðrum aðildarríkjum, sem fullgilda sönnun.
3.     Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu ekki hafa áhrif á fyrirkomulag starfsgreinatrygginga eða ábyrgða sem kveðið er á um í öðrum gerningum Bandalagsins.
4.     Við framkvæmd 1. mgr. getur framkvæmdastjórnin, í samræmi við stjórnsýslumeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 40. gr., tekið saman skrá yfir þjónustu sem hefur þau einkenni sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar. Framkvæmdastjórnin getur einnig, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 3. mgr. 40. gr., samþykkt ráðstafanir til breytingar á veigaminni atriðum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana og setja sameiginlegar viðmiðanir vegna skilgreiningar á því hvað hæfir eðli og umfangi áhættunnar vegna vátryggingarinnar eða ábyrgðanna sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar.
5.     Í þessari grein er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
—    „bein og sérstök áhætta“: áhætta sem er bein afleiðing þess að veita þjónustuna,
—    „heilbrigði og öryggi“: í tengslum við viðtakanda eða þriðja aðila, það að koma í veg fyrir dauðsfall eða alvarleg slys á fólki,
—    „fjárhagslegt öryggi“: í tengslum við viðtakanda, það að koma í veg fyrir verulegt fjárhagslegt tap eða að verðmæti eigna lækki,
—    „starfsábyrgðartrygging“: vátrygging sem þjónustuveitandi tekur vegna hugsanlegrar skaðabótaábyrgðar gagnvart viðtakendum og, ef við gagnvart, þriðja aðila í tengslum við þjónustuna.

24. gr.
Viðskiptaorðsendingar lögverndaðra starfsgreina

1.     Aðildarríkin skulu afnema allt allsherjarbann við viðskiptaorðsendingum lögverndaðra starfsgreina.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að viðskiptaorðsendingar lögverndaðra starfsgreina séu í samræmi við starfsreglur, í samræmi við lög Bandalagsins, sem tengjast einkum sjálfstæði, reisn og friðhelgi starfsgreinarinnar, svo og þagnarskyldu, svo að það samrýmist sértæku eðli hverrar starfsgreinar. Starfsreglur um viðskiptaorðsendingar skulu vera án mismununar, rökstuddar með vísan til brýnna almannahagsmuna og í þeim gætt meðalhófs.

25. gr.
Þverfagleg starfsemi

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að þjónustuveitendur séu ekki bundnir af kröfum sem skylda þá til að stunda einvörðungu tiltekna starfsemi eða kröfum sem takmarka að ýmiss konar starfsemi sé stunduð í sameiningu eða í samstarfi við aðra. Þó geta eftirfarandi þjónustuveitendur verið bundnir af slíkum kröfum:
a)    lögverndaðar starfsgreinar, að því marki sem réttlætanlegt er til að unnt sé að ábyrgjast að farið sé að reglum um siðferðilega breytni starfsstétta sem eru mismunandi eftir eðli hverrar starfsgreinar og nauðsynlegt er til að tryggja sjálfstæði þeirra og óhlutdrægni,
b)    þjónustuveitendur sem veita þjónustu á sviði vottunar, faggildingar, tæknilegs eftirlits, prófana eða tilrauna, að því marki sem réttlætanlegt er til að tryggja sjálfstæði þeirra og óhlutdrægni.
2.     Ef þverfagleg starfsemi þjónustuveitenda, sem um getur í a- og b-lið 1. mgr., er heimiluð skulu aðildarríkin tryggja eftirfarandi:
a)    að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra og misræmi milli tiltekinna tegunda starfsemi,
b)    að sjálfstæði og óhlutdrægni, sem krafist er vegna tiltekinnar starfsemi, séu tryggð,
c)    að reglur um siðferðilega breytni starfsstétta fyrir mismunandi starfsemi samrýmist hver annarri, sérstaklega að því er varðar málefni sem lúta að þagnarskyldu.
3.     Í skýrslunni, sem um getur í 1. mgr. 39. gr., skulu aðildarríkin tilgreina hvaða þjónustuveitendur eru bundnir af kröfunum, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. þessarar greinar, efni þeirra krafna og ástæðurnar fyrir því að þau líta svo á að þær séu réttlætanlegar.

26. gr.
Stefna um gæði þjónustu

1.     Aðildarríkin skulu, í samstarfi við framkvæmdastjórnina, gera hliðarráðstafanir til að hvetja þjónustuveitendur til að grípa til aðgerða af fúsum og frjálsum vilja til að tryggja gæði þjónustustarfsemi, einkum með einni eftirfarandi aðferða:
a)    með vottun eða mati sjálfstæðra eða faggiltra aðila á starfsemi þeirra,
b)    með gerð eigin gæðasáttmála eða með þátttöku í gæðasáttmálum eða gæðamerkingum sem fagfélög fastsetja á vettvangi Bandalagsins.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að upplýsingar um þýðingu tiltekinna gæðamerkinga og um viðmiðanir vegna notkunar þessara gæðamerkinga og annarra gæðamerkja að því er varðar þjónustu séu aðgengilegar þjónustuveitendum og viðtakendum.
3.     Aðildarríkin skulu, í samstarfi við framkvæmdastjórnina, gera hliðarráðstafanir til að hvetja fagfélög, svo og verslunarráð, samtök handiðna og neytendasamtök á yfirráðasvæði sínu til að starfa saman á vettvangi Bandalagsins í því skyni að efla gæði þjónustu, sérstaklega með því að auðvelda mat á hæfni þjónustuveitanda.
4.     Aðildarríkin skulu, í samstarfi við framkvæmdastjórnina, gera hliðarráðstafanir til að hvetja til þróunar á sjálfstæðu mati, einkum af hálfu neytendasamtaka, á kostum og göllum þjónustu, einkum þróunar á vettvangi Bandalagsins á samanburðartilraunum eða -prófunum og miðlun niðurstaðna.
5.     Aðildarríkin skulu, í samstarfi við framkvæmdastjórnina, hvetja til þróunar á valfrjálsum evrópskum stöðlum í þeim tilgangi að greiða fyrir samhæfi þeirrar þjónustu sem þjónustuveitandi býður í mismunandi aðildarríkjum, upplýsingum til viðtakanda og gæðum þjónustunnar.

27. gr.
Lausn deilumála

1.     Aðildarríkin skulu gera almennar ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að tryggja að þjónustuveitendur leggi fram nákvæmar upplýsingar um hvernig unnt er að ná sambandi við þá, einkum póstfang, bréfsímanúmer eða netfang og símanúmer sem allir viðtakendur, þ.m.t. þeir sem eru búsettir í öðru aðildarríki, geta beint kvörtun til eða beiðni um upplýsingar um veitta þjónustu. Þjónustuveitendur skulu tilgreina lögheimili sitt ef það er ekki venjulegt póstfang þeirra. Aðildarríkin skulu gera almennar ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að tryggja að þjónustuveitendur bregðist við kvörtunum þeim, sem um getur í fyrstu undirgrein, á sem skemmstum tíma og að þeir geri sitt besta til að finna viðunandi lausn.
2.     Aðildarríkin skulu gera almennar ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að tryggja að þjónustuveitendur séu skyldaðir til að sýna fram á að þeir fari að skuldbindingunum sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun að því er varðar veitingu upplýsinga og til að sýna fram á að upplýsingarnar séu réttar.
3.     Ef þörf er á fjárhagslegri ábyrgð til að fara að dómsúrskurði skulu aðildarríkin viðurkenna jafngildar ábyrgðir sem eru varðveittar hjá lánastofnun eða vátryggjanda með staðfestu í öðru aðildarríki. Slíkar lánastofnanir verða að hafa starfsleyfi í aðildarríki í samræmi við tilskipun 2006/48/EB og slíkir vátryggjendur verða, eftir því sem við á, að hafa starfsleyfi í samræmi við fyrstu tilskipun ráðsins 73/239/EBE frá 24. júlí 1973 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum til að hefja og reka starfsemi á sviði frumtrygginga annarra en líftrygginga ( 1 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/ 83/EB frá 5. nóvember 2002 um líftryggingar ( 2 ).
4.     Aðildarríkin skulu gera almennar ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að tryggja að þjónustuveitendur, sem eru bundnir af siðareglum starfsstéttar eða eru félagar í atvinnugreinasamtökum eða fagfélagi, sem býður aðstoð við úrlausn deilumála utan réttar, upplýsi viðtakandann þar um og geti þess í öllum skjölum þar sem þjónusta þeirra er tíunduð í smáatriðum og tilgreini hvernig unnt er að fá nánari upplýsingar um úrlausnir af þessu tagi og skilyrði fyrir notkun þeirra.

VI. KAFLI
SAMVINNA Á SVIÐI STJÓRNSÝSLU
28. gr.
Gagnkvæm aðstoð – almennar skuldbindingar

1.     Aðildarríkin skulu veita hvert öðru gagnkvæma aðstoð og gera ráðstafanir til að starfa saman á árangursríkan hátt í því skyni að tryggja eftirlit með þjónustuveitendum og þjónustunni sem þeir veita.
2.     Með tilliti til þessa kafla skulu aðildarríkin tilgreina einn eða fleiri tengiliði og skal hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni tilkynnt hvernig unnt er að ná sambandi við þá. Framkvæmdastjórnin skal birta skrá yfir tengiliði og uppfæra hana reglulega.
3.     Óskir um upplýsingar og óskir um athuganir, skoðun og rannsóknir samkvæmt þessum kafla skulu vera tilhlýðilega rökstuddar, einkum skal tilgreina ástæðuna fyrir beiðninni. Upplýsingar, sem skipst er á, skal aðeins nota að því er varðar málið sem liggur til grundvallar beiðninni.
4.     Þegar aðildarríkin fá beiðni um aðstoð frá lögbærum yfirvöldum annars aðildarríkis skulu þau tryggja að þjónustuveitendur með staðfestu á yfirráðasvæði þeirra gefi lögbærum yfirvöldum sínum allar nauðsynlegar upplýsingar vegna eftirlits með starfsemi þeirra í samræmi við landslög.
5.     Ef erfitt reynist að koma til móts við beiðni um upplýsingar eða að framkvæma athuganir, skoðun eða rannsóknir skal viðkomandi aðildarríki strax tilkynna það aðildarríkinu, sem leggur fram beiðnina, með það í huga að finna lausn.
6.     Aðildarríkin skulu veita upplýsingarnar, sem hin aðildarríkin eða framkvæmdastjórnin óskar eftir, með rafrænum hætti og eins fljótt og við verður komið.
7.     Aðildarríkin skulu tryggja að skrár, sem veitendur hafa verið skráðir í og sem lögbær yfirvöld á yfirráðasvæði þeirra geta skoðað, séu einnig aðgengilegar, samkvæmt sömu skilmálum, jafngildum lögbærum yfirvöldum annarra aðildarríkja.
8.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni upplýsingar um tilvik þar sem önnur aðildarríki uppfylla ekki skuldbindingu sína um gagnkvæma aðstoð. Ef nauðsyn krefur skal framkvæmdastjórnin gera viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. þær sem kveðið er á um í 226. gr. sáttmálans, í því skyni að tryggja að viðkomandi aðildarríki standi við skuldbindingu sína um gagnkvæma aðstoð. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna aðildarríkjunum reglulega um framkvæmd ákvæðanna um gagnkvæma aðstoð.

29. gr.
Gagnkvæm aðstoð – almennar skuldbindingar staðfestuaðildarríkisins

1.     Staðfestuaðildarríkið skal, að því er varðar þjónustuveitendur sem veita þjónustu í öðru aðildarríki, veita upplýsingar um þjónustuveitendur með staðfestu á yfirráðasvæði þess þegar annað aðildarríki óskar eftir þeim og það skal einkum staðfesta að þjónustuveitandi hafi staðfestu á yfirráðasvæði þess og að hann stundi ekki starfsemi sína á ólögmætan hátt, eftir því sem best er vitað.
2.     Staðfestuaðildarríkið skal framkvæma þær athuganir, skoðun og rannsóknir sem annað aðildarríki óskar eftir og upplýsa það um niðurstöðurnar og, eftir atvikum, um þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til. Lögbær yfirvöld skulu í þessu sambandi haga gerðum sínum í samræmi við þær valdheimildir sem þau hefur í eigin aðildarríki. Lögbær yfirvöld geta ákveðið hvaða ráðstafanir eiga best við í hverju einstöku tilviki til að verða við beiðni frá öðru aðildarríki.
3.     Þegar staðfestuaðildarríki fær áreiðanlega vitneskju um að þjónustuveitandi, með staðfestu á yfirráðasvæði þess sem veitir þjónustu í öðrum aðildarríkjum, sýni af sér háttsemi eða aðhafist á tiltekinn hátt sem, eftir því sem best er vitað, gæti valdið alvarlegu tjóni á heilsu eða öryggi einstaklinga eða á umhverfinu, skal það upplýsa öll önnur aðildarríki og framkvæmdastjórnina um það eins fljótt og við verður komið.

30. gr.
Eftirlit af hálfu staðfestuaðildarríkisins ef þjónustuveitandi flyst tímabundið til annars aðildarríkis

1.     Staðfestuaðildarríkið skal, að því er varðar þau tilvik sem falla ekki undir 1. mgr. 31. gr., sjá til þess að eftirlit með því að farið séð að kröfum þess sé í samræmi við eftirlitsvaldheimildir sem kveðið er á um í landslögum þess, einkum með eftirlitsráðstöfunum á þeim stað þar sem þjónustuveitandi hefur staðfestu.
2.     Staðfestuaðildarríkið skal ekki láta hjá líða að grípa til ráðstafana til eftirlits eða til að framfylgja lögum á yfirráðasvæði sínu á þeirri forsendu að þjónustan var veitt eða olli skaða í öðru aðildarríki.
3.     Skuldbindingin, sem mælt er fyrir um í 1. mgr., skal ekki fela í sér skyldu af hálfu staðfestuaðildarríkisins til að stunda raunverulegar athuganir og eftirlit á yfirráðasvæði aðildarríkisins þar sem þjónustan er veitt. Yfirvöld aðildarríkisins, þar sem þjónustuveitandinn hefur tímabundna staðfestu, skulu hafa þessar athuganir og eftirlit með höndum, að beiðni yfirvalda staðfestuaðildarríkisins og í samræmi við 31. gr.

31. gr.
Eftirlit af hálfu aðildarríkisins þar sem þjónustan er veitt ef þjónustuveitandinn flytur sig tímabundið um set

1.     Að því er varðar kröfur í hverju ríki, sem kunna að vera settar fram skv. 16. eða 17. gr., er aðildarríkið, þar sem þjónustan er veitt, ábyrgt fyrir eftirliti með starfsemi þjónustuveitandans á yfirráðasvæði sínu. Í samræmi við lög Bandalagsins skal aðildarríkið þar sem þjónustan er veitt:
a)    gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þjónustuveitandi fari að þessum kröfum að því er varðar aðgang að starfseminni og það að stunda hana,
b)    framkvæma athuganir, skoðun og rannsóknir sem eru nauðsynlegar til að hafa eftirlit með veittri þjónustu.
2.     Lögbær yfirvöld aðildarríkis, þangað sem þjónustuveitandi flytur tímabundið til að veita þjónustu án þess að hafa þar staðfestu, skulu taka þátt í eftirliti með þjónustuveitandanum í samræmi við 3. og 4. mgr. að því er varðar aðrar kröfur en þær sem um getur í 1. mgr.
3.     Lögbær yfirvöld í aðildarríkinu, þar sem þjónustan er veitt, skulu, að beiðni staðfestuaðildarríkisins, framkvæma athuganir, skoðun og rannsóknir sem eru nauðsynlegar til að tryggja árangursríkt eftirlit af hálfu staðfestuaðildarríkisins. Lögbær yfirvöld skulu í þessu sambandi haga aðgerðum sínum í samræmi við valdheimildir sínar í eigin aðildarríki. Lögbæru yfirvöldin geta ákvarðað hvaða ráðstafanir eiga best við í hverju einstöku tilviki í því skyni að uppfylla beiðni frá staðfestuaðildarríkinu.
4.     Lögbær yfirvöld í aðildarríkinu þar sem þjónustan er veitt geta, að eigin frumkvæði, framkvæmt athuganir, skoðun og rannsóknir á staðnum að því tilskildu að þessar athuganir, eftirlit eða rannsóknir mismuni ekki, að þær séu ekki rökstuddar með því að þjónustuveitandinn hafi staðfestu í öðru aðildarríki og að í þeim sé gætt meðalhófs.

32. gr.
Fyrirkomulag um viðvaranir

1.     Ef aðildarríki fær vitneskju um alvarlega tiltekna atburði eða kringumstæður í tengslum við þjónustustarfsemi, sem gætu valdið alvarlegu tjóni á heilsu eða öryggi einstaklinga eða á umhverfinu á yfirráðasvæði þess eða á yfirráðasvæði annarra aðildarríkja skal það upplýsa staðfestuaðildarríkið, hin aðildarríkin sem hlut eiga að máli og framkvæmdastjórnina um það eins fljótt og við verður komið.
2.     Framkvæmdastjórnin skal stuðla að og taka þátt í rekstri á evrópsku neti yfirvalda í aðildarríkjunum í því skyni að hrinda 1. mgr. í framkvæmd.
3.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja og uppfæra reglulega, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 40. gr., ítarlegar reglur um stjórnun netsins sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar.

33. gr.
Upplýsingar um góðan orðstír þjónustuveitenda

1.     Aðildarríkin skulu, að beiðni lögbærs yfirvalds í öðru aðildarríki, leggja fram upplýsingar, í samræmi við eigin landslög, um aðgerðir vegna agabrota eða stjórnsýsluaðgerðir eða refsiviðurlög og ákvarðanir varðandi greiðsluþrot eða gjaldþrot þar sem svik koma við sögu, sem lögbær yfirvöld þeirra hafa tekið að því er varðar þjónustuveitanda, enda hafi það beina þýðingu fyrir starfshæfi þjónustuveitandans eða faglegan áreiðanleika hans. Aðildarríkið, sem leggur fram upplýsingarnar, skal upplýsa þjónustuveitandann þar um. Beiðni, sem er sett fram samkvæmt fyrstu undirgrein, verður að vera vel rökstudd, einkum að því er varðar ástæður fyrir því að farið er fram á upplýsingar.
2.     Aðeins skal tilkynna um þau viðurlög og aðgerðir sem um getur í 1. mgr. ef lokaákvörðun hefur verið tekin. Aðildarríkið, sem leggur fram upplýsingarnar, skal, að því er varðar aðrar framfylgjanlegar ákvarðanir sem um getur í 1. mgr., tilgreina hvort tiltekin ákvörðun sé endanleg eða hvort henni hafi verið áfrýjað en í því tilviki skal viðkomandi aðildarríki gefa vísbendingu um hvenær vænta megi ákvörðunar um áfrýjunina.
Auk þess skal aðildarríkið tilgreina þau ákvæði landslaga sem lágu til grundvallar því að þjónustuveitandinn var fundinn sekur eða honum refsað.
3.     Framkvæmd 1. og 2. mgr. verður að vera í samræmi við reglur um veitingu persónuupplýsinga og réttindi sem einstaklingum, sem hafa verið fundnir sekir eða hefur verið refsað í viðkomandi aðildarríkjum, eru tryggð, þar á meðal af fagfélögum. Allar viðkomandi upplýsingar sem eru opinberar skulu vera aðgengilegar neytendum.

34. gr.
Hliðarráðstafanir

1.     Framkvæmdastjórnin skal, í samstarfi við aðildarríkin, setja á laggirnar rafrænt kerfi, með hliðsjón af núverandi upplýsingakerfum, til að aðildarríkin geti skipst á upplýsingum.
2.     Aðildarríkin skulu, með aðstoð framkvæmdastjórnarinnar, grípa til hliðarráðstafana til að auðvelda skipti á embættismönnum sem hafa umsjón með framkvæmd gagnkvæmrar aðstoðar og starfsþjálfun slíkra embættismanna, þ.m.t. þjálfun í notkun tungumála og tölvuþjálfun.
3.     Framkvæmdastjórnin skal meta þörfina á að setja á laggirnar áætlun til margra ára í því skyni að skipuleggja viðeigandi embættismannaskipti og starfsþjálfun.

35. gr.
Gagnkvæm aðstoð ef um er að ræða undanþágur í einstökum tilvikum

1.     Ef aðildarríki hyggst gera ráðstafanir skv. 18. gr. skal málsmeðferðin, sem mælt er fyrir um í 2.–6. mgr. þessarar greinar, gilda án þess að hafa áhrif á málarekstur fyrir dómstóli, þ.m.t. frummeðferð og athafnir í tengslum við rannsókn á sakamáli.
2.     Aðildarríkið, sem um getur í 1. mgr., skal biðja staðfestuaðildarríkið um að gera ráðstafanir að því er varðar þjónustuveitandann og leggja fram allar upplýsingar í tengslum við viðkomandi þjónustu og um málsatvik. Staðfestuaðildarríkið skal kanna, eins fljótt og við verður komið, hvort þjónustuveitandinn stundi löglegan rekstur og sannreyna þær forsendur sem beiðnin byggist á. Það skal upplýsa aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, eins fljótt og við verður komið, um ráðstafanirnar sem hafa verið gerðar eða eru fyrirhugaðar eða, eftir atvikum, um ástæður fyrir því að það hefur ekki gert neinar ráðstafanir.
3.     Í kjölfar orðsendingar staðfestuaðildarríkisins, sem kveðið er á um í annarri undirgrein 2. mgr., skal aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, tilkynna framkvæmdastjórninni og staðfestuaðildarríkinu um þá fyrirætlan sína að grípa til aðgerða og greina frá eftirfarandi:
a)    ástæðunum fyrir því að það telur ráðstafanirnar sem staðfestuaðildarríkið hefur gert eða fyrirhugað ófullnægjandi,
b)    ástæðunum fyrir því að það telur ráðstafanirnar, sem það hyggst gera, uppfylla skilyrðin sem mælt er fyrir um í 18. gr.
4.     Ekki má gera ráðstafanirnar fyrr en fimmtán virkum dögum eftir dagsetningu tilkynningarinnar sem kveðið er á um í 3. mgr.
5.     Framkvæmdastjórnin skal, með fyrirvara um möguleika aðildarríkisins sem leggur fram beiðni um að gera viðkomandi ráðstafanir við lok frestsins sem er tilgreindur í 4. mgr., kanna eins fljótt og við verður komið hvort ráðstafanirnar, sem hafa verið tilkynntar, samrýmist lögum Bandalagsins. Ef framkvæmdastjórnin kemst að þeirri niðurstöðu að ráðstöfunin samrýmist ekki lögum Bandalagsins skal hún samþykkja ákvörðun þar sem viðkomandi aðildarríki er beðið um að grípa ekki til fyrirhugaðra ráðstafana sem hafa verið lagðar til eða binda tafarlaust enda á ráðstafanirnar.
6.     Ef um bráðatilvik er að ræða getur aðildarríki, sem hyggst grípa til aðgerða, fengið undanþágu frá 2., 3. og 4. mgr. Í slíkum tilvikum skal tilkynna framkvæmdastjórninni og staðfestuaðildarríkinu um aðgerðirnar eins fljótt og við verður komið og greina frá ástæðum þess að aðildarríkið telur að um bráðatilvik sé að ræða.

36. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

Framkvæmdastjórnin skal, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 3. mgr. 40. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem ætlað er að breyta veigaminni atriðum í þessum kafla með því að bæta við hann tímafrestinum sem kveðið er á um í 28. og 35. gr. Framkvæmdastjórnin skal einnig samþykkja, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 40. gr., fyrirkomulag upplýsingaskipta með rafrænum hætti milli aðildarríkjanna, einkum ákvæði um rekstrarsamhæfi upplýsingakerfa.

VII. KAFLI
SAMLEITNIÁÆTLUN
37. gr.
Siðareglur starfsstétta á vettvangi Bandalagsins

1.     Aðildarríkin skulu, í samstarfi við framkvæmdastjórnina, gera hliðarráðstafanir til að stuðla að því á vettvangi Bandalagsins, einkum meðal fagfélaga, -stofnana og -samtaka, að samdar verði siðareglur starfsstétta sem miða að því að greiða fyrir því að unnt sé að veita þjónustu eða að þjónustuveitandi öðlist staðfestu í öðru aðildarríki, í samræmi við lög Bandalagsins.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að þær siðareglur starfsstétta, sem um getur í 1. mgr., séu aðgengilegar með fjarmiðlun, með rafrænum hætti.

38. gr.
Viðbótarsamræming

Framkvæmdastjórnin skal, fyrir 28. desember 2010, meta möguleikann á því að leggja fram tillögur um samræmingarskjöl um eftirfarandi viðfangsefni:
a)    aðgang að starfsemi við innheimtu skulda fyrir dómi,
b)    einkarekna öryggisþjónustu og flutning á reiðufé og verðmætum.

39. gr.
Gagnkvæmt mat

1.     Aðildarríkin skulu, eigi síðar en 28. desember 2009, leggja fyrir framkvæmdastjórnina skýrslu með upplýsingum sem eru tilgreindar í eftirfarandi ákvæðum:
a)    ákvæðum 2. mgr. 9. gr. um leyfisveitingakerfi,
b)    ákvæðum 5. mgr. 15. gr. um kröfur sem skal meta,
c)    ákvæðum 3. mgr. 25. gr. um starfsemi á mörgum sviðum.
2.     Framkvæmdastjórnin skal senda skýrslurnar, sem kveðið er á um í 1. mgr., til aðildarríkjanna sem skulu leggja fram athugasemdir sínar um hverja skýrslu innan sex mánaða frá viðtöku þeirra. Innan sama tíma skal framkvæmdastjórnin hafa samráð við hagsmunaaðila um þessar skýrslur.
3.     Framkvæmdastjórnin skal leggja skýrslurnar og athugasemdir aðildarríkjanna fyrir nefndina sem um getur í 1. mgr. 40. gr. og hefur heimild til að gera athugasemdir.
4.     Í ljósi athugasemdanna, sem kveðið er á um í 2. og 3. mgr., skal framkvæmdastjórnin, eigi síðar en 28. desember 2010, leggja yfirlitsskýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið ásamt tillögum um viðbótarframtaksverkefni ef við á.
5.     Eigi síðar en 28. desember 2009 skulu aðildarríkin leggja skýrslu fyrir framkvæmdastjórnina um kröfur í hverju ríki um sig, sem við beitingu gætu fallið undir þriðju undirgrein 1. mgr. 16. gr. og fyrsta málslið 3. mgr. 16. gr., þar sem gefnar eru ástæður fyrir því að þau telja beitingu þessara krafna uppfylla þær viðmiðanir sem um getur í þriðju undirgrein 1. mgr. 16. gr. og í fyrsta málslið 3. mgr. 16. gr.
Eftir það skulu aðildarríkin senda framkvæmdastjórninni allar breytingar á kröfum sínum, þ.m.t. nýjar kröfur, eins og um getur hér að framan, ásamt ástæðunum fyrir þeim.
Framkvæmdastjórnin skal tilkynna öðrum aðildarríkjum um sendar kröfur. Slík sending skal ekki koma í veg fyrir að aðildarríkin geti samþykkt viðkomandi ákvæði. Framkvæmdastjórnin skal árlega eftir það leggja fram greiningu og stefnumið um beitingu þessara ákvæða í tengslum við þessa tilskipun.

40. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr.
Fresturinn, sem um getur í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.     Ef vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1.–4. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.

41. gr.
Endurskoðunarákvæði

Framkvæmdastjórnin skal, fyrir 28. desember 2011 og á þriggja ára fresti eftir það, gefa Evrópuþinginu og ráðinu ítarlega skýrslu um beitingu þessarar tilskipunar. Skal sú skýrsla, í samræmi við 4. mgr. 16. gr., einkum fjalla um beitingu 16. gr. Í henni skal einnig fjallað um þörf fyrir viðbótarráðstafanir að því er varðar málefni sem falla utan gildissviðs þessarar tilskipunar. Með henni skulu fylgja, ef við á, tillögur um breytingar á þessari tilskipun sem miða að því að koma á innri markaði fyrir þjónustu.

42. gr.
Breyting á tilskipun 98/27/EB

Eftirfarandi liður bætist við í viðaukann við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/27/EB frá 19. maí 1998 um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda ( 1 ):
„13.    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/ 123/EB frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum (Stjtíð. EB L 376, 27.12. 2006, bls. 36)“.

43. gr.
Vernd persónuupplýsinga

Við framkvæmd og beitingu þessarar tilskipunar og einkum ákvæða hennar um eftirlit skal farið að reglum um vernd persónuupplýsinga eins og kveðið er á um í tilskipun 95/46/EB og 2002/58/EB.

VIII. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI
44. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 28. desember 2009. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ráðstafana. Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

45. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

46. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 12. desember 2006.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BORRELL FONTELLES M. PEKKARINEN
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 124, 8.5.2008, bls. 27, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 26, 8.5.2008, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 162, 25.6.2009, bls. 28, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 33, 25.6.2009, bls. 13.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. ESB L 376, 27.12.2006, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. ESB C 221, 8.9.2005, bls. 113.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Stjtíð. ESB C 43, 18.2.2005, bls. 18.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 16. febrúar 2006 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB), sameiginleg afstaða ráðsins frá 24. júlí 2006 (Stjtíð. ESB C 270 E, 7.11.2006, bls. 1) og afstaða Evrópuþingsins frá 15. nóvember 2006. Ákvörðun ráðsins frá 11. desember 2006.
Neðanmálsgrein: 8
(1)    Stjtíð. ESB L 177, 30.6.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 9
(2)    Stjtíð. EB L 108, 24.4.2002, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 10
(3)    Stjtíð. EB L 108, 24.4.2002, bls. 21.
Neðanmálsgrein: 11
(4)    Stjtíð. EB L 108, 24.4.2002, bls. 33.
Neðanmálsgrein: 12
(5)    Stjtíð. EB L 108, 24.4.2002, bls. 51.
Neðanmálsgrein: 13
(6)    Stjtíð. EB L 201, 31.7.2002, bls. 37. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 2006/24/EB (Stjtíð. ESB L 105, 13.4.2006, bls. 54).
Neðanmálsgrein: 14
(1)    Stjtíð EB L 149, 5.7.1971, bls. 2. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 629/2006 (Stjtíð. ESB L 114, 27.4.2006, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 15
(2)    Stjtíð. ESB L 255, 30.9.2005, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 16
(3)    Stjtíð. ESB L 149, 11.6.2005, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 17
(1)    Stjtíð. ESB L 364, 9.12.2004, bls. 1. Reglugerðinni var breytt með tilskipun 2005/29/EB.
Neðanmálsgrein: 18
(2)    Stjtíð. ESB L 16, 23.1.2004, bls. 44.
Neðanmálsgrein: 19
(3)    Stjtíð. ESB L 124, 20.5.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 20
(1)    Stjtíð. ESB L 158, 30.4.2004, bls. 77.
Neðanmálsgrein: 21
(1)    Stjtíð. EB L 13, 19.1.2000, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 22
(2)    Stjtíð. EB L 178, 17.7.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 23
(1)    Stjtíð. EB L 18, 21.1.1997, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 24
(1)    Stjtíð. EB L 204, 21.7.1998, bls. 37. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 2003.
Neðanmálsgrein: 25
(1)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23. Ákvörðuninni var breytt með ákvörðun 2006/512/EB (Stjtíð. ESB L 200, 22.7.2006, bls. 11).
Neðanmálsgrein: 26
(2)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 27
(1)    Stjtíð. EB L 298, 17.10.1989, bls. 23. Tilskipuninni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/ 36/EB (Stjtíð. EB L 202, 30.7.1997, bls. 60).
Neðanmálsgrein: 28
(1)    Stjtíð. ESB L 134, 30.4.2004, bls. 114. Tilskipuninni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2083/2005 (Stjtíð. ESB L 333, 20.12.2005, bls. 28).
Neðanmálsgrein: 29
(2)    Stjtíð. EB L 77, 14.3.1998, bls. 36. Tilskipuninni var breytt með aðildarlögunum frá 2003.
Neðanmálsgrein: 30
(3)    Stjtíð. EB L 65, 14.3.1968, bls. 8. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/58/EB (Stjtíð. ESB L 221, 4.9.2003, bls. 13).
Neðanmálsgrein: 31
(4)    Stjtíð. EB L 395, 30.12.1989, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 32
(1)    Stjtíð. EB L 15, 21.1.1998, bls. 14. Tilskipuninni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1882/2003 (Stjtíð. ESB L 284, 31.10.2003, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 33
(2)    Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 37. Tilskipuninni var síðast breytt með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2006/653/EB (Stjtíð. ESB L 270, 29.9.2006, bls. 72).
Neðanmálsgrein: 34
(3)    Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 57.
Neðanmálsgrein: 35
(4)    Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31. Tilskipuninni var breytt með reglugerð (EB) nr. 1882/2003.
Neðanmálsgrein: 36
(5)    Stjtíð. EB L 78, 26.3.1977, bls. 17. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 2003.
Neðanmálsgrein: 37
(6)    Stjtíð. EB L 239, 22.9.2000, bls. 19. Samningnum var síðast breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1160/2005 (Stjtíð. ESB L 191, 22.7.2005, bls. 18).
Neðanmálsgrein: 38
(7)    Stjtíð. EB L 30, 6.2.1993, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2557/2001 (Stjtíð. EB L 349, 31.12.2001, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 39
(1)    Stjtíð. EB L 24, 27.1.1987, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 40
(2)    Stjtíð. EB L 77, 27.3.1996, bls. 20.
Neðanmálsgrein: 41
(3)    Stjtíð. ESB L 157, 9.6.2006, bls. 87.
Neðanmálsgrein: 42
(1)    Stjtíð. EB L 145, 13.6.1977, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2006/18/EB (Stjtíð. ESB L 51, 22.2.2006, bls. 12).
Neðanmálsgrein: 43
(1)    Stjtíð. EB L 228, 16.8.1973, bls. 3. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB (Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 44
(2)    Stjtíð. EB L 345, 19.12.2002, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/68/EB.
Neðanmálsgrein: 45
(1)    Stjtíð. EB L 166, 11.6.1998, bls. 51. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/29/EB.