Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 455. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 785  —  455. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2009.

1. Inngangur.
    Af þeim fjölmörgu og margþættu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) á árinu 2009 eru nokkur atriði sem Íslandsdeild þykir standa upp úr, með áherslu á markmið sambandsins, sem er að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi.
    Fyrst ber að nefna umræðu um þingræði, friðarumleitanir, lýðræði og þróun á tímum alþjóðlegrar fjármálakreppu sem fór fram í Addis Ababa í apríl. Þar var m.a. rætt um nauðsyn þess að koma á fót traustu, öruggu og umfram allt heiðarlegu fjármálakerfi þar sem áhersla væri á mannúðleg gildi og mannréttindi. Þá fór fram utandagskrárumræða um alþjóðlegu fjármálakreppuna með áherslu á Afríku. Í umræðunni voru þingmenn sammála um að ekki mætti láta núverandi efnahagskreppu stofna í hættu þeim ávinningi sem náðst hefur í Afríku á síðustu árum. Enn fremur var umræða um fæðuöryggi í heiminum áberandi á árinu og fjallaði önnur neyðarályktun samtakanna um það viðfangsefni. Í því sambandi var sjónum m.a. beint að þúsaldarmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um að helminga fjölda þeirra sem þjást af hungri fyrir árið 2015 og rætt með hvaða hætti væri hægt að stuðla að framgangi þess.
    Þá ber að nefna mikilvægt starf Alþjóðaþingmannasambandsins til að efla lýðræði en mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Þingmenn frá slíkum þingum kynnast lýðræðislegum vinnubrögðum á þingum sambandsins, en jafnframt vinnur sambandið mikilvægt starf í þessa veru milli þinga. Námskeið og ráðstefnur eru haldnar fyrir þing sem eru að feta sig áfram á lýðræðisbraut um ýmsa þætti þingstarfsins, stundum í samvinnu við viðeigandi stofnun Sameinuðu þjóðanna eða aðra alþjóðastofnun. Sem dæmi um slíkt starf árið 2009 má nefna þingmannaráðstefnu um lýðræði í Afríku sem haldin var í Botsvana, námstefnu í Víetnam fyrir þjóðþing Asíu og á Kyrrahafssvæðinu um baráttuna gegn HIV og ráðstefnu fyrir þingkonur í Flóaríkjunum sem haldin var í Barein. Alþjóðaþingmannasambandið veitir jafnframt einstökum þingum tæknilega aðstoð og þjálfun.
    Þá gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur fyrir þingmenn til að hjálpa þeim að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum auk þess sem það hefur lagt ríka áherslu á jafnréttismál í stjórnmálum og hlutskipti kvenna og barna. Á árinu 2009 voru m.a. gefnar út handbækur um baráttuna gegn mansali og horfnar manneskjur.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2009 má nefna loftslagsbreytingar og endurnýjanlega orku, tjáningarfrelsi og réttinn til upplýsinga, afvopnun, bann við útbreiðslu kjarnavopna og tryggingu þess að samningum um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn sé framfylgt og baráttuna við ungbarnadauða og heilsufar mæðra og ungbarna í tengslum við þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

2. Almennt um Alþjóðaþingmannasambandið.
    Aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu eiga nú 152 þjóðþing en aukaaðild að sambandinu eiga átta svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið sambandsins er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi í heiminum sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur sambandið að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvö þing á ári, eitt stærra þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og eitt minna þing að hausti sem er haldið í Genf, nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.
    Þrjár fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     1.      nefnd um friðar- og öryggismál,
     2.      nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál,
     3.      nefnd um lýðræði og mannréttindamál.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef sendinefnd samanstendur ekki af fulltrúum beggja kynja í fleiri en þrjú þing í röð), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Á milli funda hefur sautján manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila aðrar nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en um er að ræða nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna, nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhóp um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar Alþjóðaþingmannasambandsins og vinnuhóp um samstarf kynjanna. Nefnd um mannréttindi þingmanna vinnur mikið starf á milli þinga og gefur út skýrslu fyrir hvert þing sambandsins þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi ríki, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til einhver niðurstaða fæst. Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar.
    Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Vegna virkrar þátttöku þingmanna í umræðum á þingum sambandsins og ólíkra sjónarmiða þeirra hafa alþjóðastofnanir lagt áherslu á að fylgjast vel með ályktunum sambandsins, enda hafa þær iðulega bent á nýjar leiðir og nýjar hugmyndir að lausn mála.

3. Skipan og starfsemi Íslandsdeildar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru Einar K. Guðfinnsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Guðbjartur Hannesson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Þuríður Backman, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru Atli Gíslason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ólöf Nordal, þingflokki sjálfstæðismanna, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Á fundi Íslandsdeildar hinn 18. maí var Þuríður Backman kosin formaður og Guðbjartur Hannesson varaformaður deildarinnar. Arna Gerður Bang var ritari deildarinnar.
    Íslandsdeildin hélt fimm fundi á árinu, en á þeim fór aðallega fram undirbúningur fyrir þátttöku í þingum Alþjóðaþingmannasambandsins.

4. Yfirlit yfir fundi.
    Íslandsdeildin var venju samkvæmt mjög virk í starfi Alþjóðaþingmannasambandsins á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndum og á þingum sambandsins. Hér á eftir verður gerð grein fyrir því sem fram fór á fundunum á árinu og öðrum störfum Íslandsdeildar.

Norrænt samstarf.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlönd skiptast á að fara með stjórn norræna hópsins og voru Norðmenn í forustu á árinu. Fyrri fundurinn var haldinn í Haugasundi 13. mars og sá síðari í Ósló 16. september 2009.
    Þuríður Backman, formaður Íslandsdeildar, sótti fundinn í Ósló. Finn Martin Wallersnes, formaður norsku landsdeildarinnar, stýrði fundinum. Wallersnes er jafnframt formaður ráðgjafahóps um nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna hjá Alþjóðaþingmannasambandinu sem tók til starfa á haustþingi 2007 og sagði hann nefndarmönnum frá starfi nefndarinnar. Hann sagði nefndina á krossgötum og var svartsýnn á framhaldið. Hann hafi ítrekað óskað eftir upplýsingum frá síðustu vettvangsferð nefndarinnar en engin svör fengið. Hann sagði það vonbrigði að mál hefðu þróast á þessa vegu og vonaðist til að umskipti yrðu á starfseminni á næstu missirum. Sjálfur bauð hann sig ekki fram til endurkjörs í kosningunum í Noregi sem fóru fram 14. september og hætti því sem formaður nefndarinnar í Genf í október 2009.
    Í upphafi fundar skýrði Þuríður Backman nefndarmönnum frá ákvörðun sinni um að hún gæfi ekki kost á sér sem norrænn fulltrúi Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins í stað Ástu Möller. Hún sagði meginástæður fyrir ákvörðun sinni vera erfitt ástand í íslensku samfélagi vegna algjörs efnahagshruns í kjölfar gjaldþrota allra helstu banka landsins. Undir þessum kringumstæðum stæðu stjórnvöld frammi fyrir miklum niðurskurði í ríkisútgjöldum og skattahækkunum sem skapaði álag á öllum sviðum stjórnsýslu og stjórnmála. Þuríður sat sem varamaður Ástu Möller í framkvæmdastjórninni út haustþingið í október 2009.
    Þá hélt Þuríður Backman erindi um þróun mála á Íslandi eftir bankahrunið í október 2008 til september 2009. Þuríður fjallaði m.a. um fall bankerfisins á Íslandi, hvernig Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn Landsbanka Íslands og afleiðingar þess, niðurstöður þingkosninganna í apríl, aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu, Icesave-deiluna og lánveitingar norrænu ríkjanna til Íslands. Í framhaldinu svaraði Þuríður spurningum nefndarmanna m.a. um niðurstöður nýlegra kannana varðandi lítið fylgi við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, traust á ríkisstjórninni, viðbrögð unga fólksins við kreppunni og þátttöku í þingkosningunum í apríl 2009.
    Næsti dagskrárliður var fyrirlestur Jan Austad, yfirsérfræðings í dómsmálaráðuneytinu í Noregi, um mansal. Austad sagði það jákvæða þróun að öll Norðurlöndin hefðu kynnt aðgerðaáætlanir sínar um baráttuna gegn mansali. Hann sagði mansal á börnum vera að aukast enn frekar og nefndi í því sambandi Austur-Evrópu. Þá lagði hann ríka áherslu á að beina þyrfti athyglinni að veikri stöðu fórnarlamba mansals og huga að velferð þeirra við úrvinnslu mála, jafnvel þó það þýði að hætt verið við að sækja sakborninga til saka. Í þeim tilfellum sé oft hægt að ákæra viðkomandi sakborninga fyrir aðra glæpi þar sem iðulega sé tenging milli mansals, peningaþvættis og/eða þjófnaða svo að dæmi séu tekin. Fyrirlesturinn var haldinn í tengslum við umræðuefni 1. nefndar á haustþingi Alþjóðaþingmannasambandsins í október 2009 sem beindi sjónum sínum að baráttunni gegn mansali, skipulögðum glæpum, smygli á eiturlyfjum og ólöglegri vopnasölu.
    Enn fremur upplýsti Þuríður Backman nefndarmenn um áhersluatriði framkvæmdastjórnar Alþjóðaþingmannasambandsins og hvað helst hefði verið til umræðu á fundum hennar. Í máli sínu lagði hún áherslu á mikilvægi þess að norræni hópurinn hefði fulltrúa í framkvæmdastjórninni og voru nefndarmenn henni sammála. Í framhaldinu varð Krister Örnfjäder frá Svíþjóð við þeirri áskorun og tilkynnti fundargestum um framboð sitt til stjórnarinnar. Sammælst var um að norrænu landsdeildirnar styddu framboð Örnfjäder til framkvæmdastjórnarinnar. Jafnframt kynnti Þuríður hann sem fulltrúa norræna hópsins á fundi framkvæmdastjórnar Tólfplús-hópsins sem haldinn var í London 25. september 2009. Þá var farið yfir umræðuefni haustþingsins í Genf og hugsanlegar tillögur að neyðarályktun. Tvær tillögur höfðu verið lagðar fram, annars vegar af landfræðihóp arabaríkja um ástandið á Gasa og hins vegar af landfræðihóp Afríkuríkja um þingræðislega samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar til að stuðla að bættum landbúnaði og rannsóknum á náttúruhamförum og afleiðingum þeirra. Talið var líklegt að fleiri tillögur yrðu lagðar fram þegar nær drægi þinginu og tóku nefndarmenn ekki sérstaka afstöðu til þessara tillagna. Þá var rætt um úttekt á þeim breytingum sem gerðar voru á starfsreglum Alþjóðaþingmannasambandsins 2007 og voru nefndarmenn sammála um að þær hefðu bætt starf samtakanna og aukið skilvirkni. Breytingarnar voru gerðar á haustþingi samtakanna og fólust m.a. í því að það var stytt úr fimm dögum í þrjá og ráðsfundir voru lengdir. Þá var ný nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna skipuð og fram fara pallborðsumræður um efni fastanefndanna þriggja til undirbúnings næsta vorþingi um þau mál sem þar verða tekin fyrir.

120. þing Alþjóðaþingmannasambandsins í Addis Ababa 5.–10. apríl.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar Alþjóðaþingmannasambandsins sótti fundina Ágúst Ólafur Ágústsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru loftslagsbreytingar, sjálfbær þróun og viðskipti, tjáningarfrelsi og réttur til upplýsinga og takmörkun vígbúnaðar og bann við útbreiðslu kjarnavopna. Þá fór fram almenn umræða um þingræði, friðarumleitanir, lýðræði og þróun á tímum kreppu, auk þess sem utandagskrárumræðuefni ráðstefnunnar var alþjóðlega fjármálakreppan með áherslu á Afríku. Um 600 þingmenn frá 123 ríkjum sóttu þingið, þar af 28 þingforsetar.
    Venja er að daginn fyrir upphaf þings hittist Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja. Hópurinn hittist síðan á fundum flesta morgna meðan þing stendur til að fara yfir öll helstu mál þingsins og samræma afstöðu eins og hægt er. Á þeim fundum eru jafnframt fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins valdir. Tveir þingmenn frá aðildarríkjum hópsins hafa seturétt á fundunum. Formaður hópsins, John Austin frá Bretlandi, stýrði fundunum. Ágúst Ólafur sótti fundina ásamt ritara.
    Á vorþinginu kynntu fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins, Geert Versnick (Belgíu) og Robert del Picchia (Frakklandi), helstu niðurstöður funda stjórnarinnar og gafst fundargestum kostur á að spyrja út í starf hennar. Enn fremur voru skipaðir fulltrúar hópsins í nefnd sem vann að drögum að neyðarályktun þingsins. Þá sagði Monika Griefahn (Þýskalandi) fundargestum frá niðurstöðum árlegs kvennafundar sambandsins sem haldinn var 5. apríl í Addis Ababa. Ágúst Ólafur tók þátt í fundinum en um 160 þingmenn frá 120 aðildarríkjum sóttu fundinn. Meginþema voru hlutskipti kvenna á tímum fjármálakreppu og hlutverk þeirra við að tryggja fjárhagslegan stöðugleika og framlag til arðbærrar þróunar. Þá var rætt um áhrif loftslagsbreytinga á hlutskipti kvenna og stjórnmálaþátttöku og lögð áhersla á að konur kæmu að öllum stigum ákvarðanatöku stjórnvalda.
    Við setningu 120. þings Alþjóðaþingmannasambandsins flutti forseti þess, Teshome Toga, forseti eþíópíska þingsins, ávarp þar sem hann bauð þátttakendur velkomna og kynnti dagskrá þingsins. Þá ávarpaði Meles Zenawi, forsætisráðherra Eþíópíu, þingið og sagðist trúa því að Alþjóðaþingmannasambandsins gæti gegnt mikilvægu hlutverki við að finna lausn á þeim vandamálum sem steðja að heimsbyggðinni með sanngirni og sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Á þann hátt gæti sambandið staðið undir markmiðum sínum um að stuðla að friði, lýðræði og þróun á tímum kreppu. Hann sagði alþjóðlegu fjármálakreppuna þarfnast altækrar úrlausnar allra þjóða og lagði áherslu á að Afríka hefði ekki átt neinn þátt í tilurð kreppunnar og sé einbert fórnarlamb hennar. Aðrir sem tóku til máls við setningu þingsins voru Ato Degefe Bula, varaforseti þings Eþíópíu, Abdoulie Janneh, framkvæmdastjóri hagfræðinefndar Sameinuðu þjóðanna í Afríku, sem flutti skilaboð frá aðalritara þeirra, Ban Ki-moon, Jean Ping, formaður nefndar Afríkusambandsins, og Theo-Ben Gurirab, forseti Alþjóðaþingmannasambandsins. Síðar á þinginu fluttu m.a. erindi Seyoum Mesfin, utanríkisráðherra Eþíópíu, og Tedros Adhanom, heilbrigðisráðherra Eþíópíu.
    Almenn umræða fór fram um þingræði, friðarumleitanir, lýðræði og þróun á tímum kreppu. Girma W. Giorgis, forseti Eþíópíu, hóf umræðuna og lýsti því m.a. hversu slæmt ástandið hefði verið í Afríku á níunda áratug síðustu aldar og hvernig tekist hefði síðustu ár að snúa þeirri þróun við til aukinnar hagsældar. Sá árangur hefði gefið íbúum álfunnar von um betra líf og ekki mætti láta núverandi efnahagskreppu stofna þeim ávinningi í hættu. Hann sagði Eþíópíu máttarstólpa friðar og stöðugleika í Afríku, tilbúna til samstarfs með frið og öryggi að leiðarljósi. Sjö tillögur um neyðarályktun eða utandagskrárefni voru lagðar fram fyrir upphaf þingsins, en aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum sambandsins. Tvær tillögur voru um fjármálakreppu heimsins og drógu aðrir tillögur sínar til baka. Tekin var samhljóða ákvörðun um að tillögur Venesúela og Kanada (með stuðningi frá Tólfplús-hópnum) yrðu settar á dagskrá þingsins. Utandagskrárumræðuefnið hafði yfirskriftina: Hlutverk þjóðþinga við að draga úr félagslegum og stjórnmálalegum áhrifum alþjóðlegu fjármálakreppunnar á viðkvæmustu svæðum samfélaga, sérstaklega í Afríku. Í umræðunni var m.a. lögð áhersla á nauðsyn þess að endurhanna og koma á fót traustu, heiðarlegu og öruggu fjármálakerfi þar sem áhersla væri á mannúðleg gildi og mannréttindi. Ályktun þingsins endurspeglaði málefni umræðunnar og var hún samþykkt einróma.
    Fastanefndirnar þrjár tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar. Ályktanir nefndanna voru síðan afgreiddar á þingfundi. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var rætt um útbreiðslu kjarnavopna, afvopnun, og tryggingu þess að samningum um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn sé framfylgt. Ágúst Ólafur Ágústsson tók þátt í störfum 2. nefndar, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, en þar var fjallað um loftslagsbreytingar og endurnýjanlega orku. Ágúst Ólafur tók jafnframt þátt í störfum 3. nefndar, um lýðræði og mannréttindi, en hún fjallaði um tjáningarfrelsi og rétt til upplýsinga. Nýrri handbók fyrir þingmenn um baráttuna gegn mansali var dreift til fundargesta. Bókinni er ætlað að hvetja þingmenn til að taka virkan þátt í baráttunni, og unnu Alþjóðaþingmannasambandið og Sameinuðu þjóðirnar að gerð og útgáfu hennar.
    Þá fóru fram tvær pallborðsumræður á þinginu, annars vegar um unglingsstúlkur sem hafa orðið undir í samfélögum og hins vegar um hvernig beri að nálgast fjölbreytni í samfélögum. Fyrri pallborðsumræðan var skipulögð í samvinnu við barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og stýrði Azeb Mesfin, forsetafrú Eþíópíu, þingmaður og formaður félagsmálanefndar, umræðunni. Rætt var um leiðir til að tryggja réttindi unglingsstúlkna til heilsugæslu, menntunar, verndar og þátttöku í samfélögum. Kynbundin mismunun, sem oft erfist milli kynslóða með menningarhefðum og efnahagslegum, félagslegum og stjórnmálalegum viðmiðum, hefur fjölmargar skaðlegar birtingarmyndir fyrir unglingsstúlkur. Í mörgum heimshlutum eru stúlkur stærstur hluti þeirra barna sem ekki sækir skóla og eru fórnarlömb líkamlegrar, kynferðislegrar, andlegrar og efnahagslegrar misnotkunar. Nicholas Alipui, forstöðumaður hjá UNICEF, taldi að stúlkur sem byggju við öryggi, heilbrigði, menntun og fjárhagslega getu væru flestar færar um að takast á við vandamál sem stöfuðu af fátækt og því brýnt að beina athyglinni sérstaklega að þeim þáttum. Enn fremur fór fram umræða um baráttuna við ungbarnadauða og heilsufar mæðra og ungbarna í tengslum við þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og niðurtalningu til ársins 2015.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins kom fjórum sinnum saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Þingið í Bangladess fékk endurinngöngu og þingum Gíneu og Madagaskar var vikið úr samtökunum. Aðildarríki sambandsins voru þá 153 talsins. Ráðið samþykkti skýrslu nefndar um málefni Miðausturlanda sem kynnt var af þingmanninum Serge Janquin (Frakklandi). Janquin sagði nefndina harma það að landsdeildir Ísraels og Palestínu væru ekki tilbúnar til að taka þátt í samræðum við nefndina. Nefndin hefði því komist að þeirri niðurstöðu að ekki þjónaði neinum tilgangi að heimsækja svæðið í nánustu framtíð og markmiðið nú væri að koma á fundi með fulltrúum þinganna í tengslum við haustþing Alþjóðaþingmannasambandsins í október 2009. Reynslan af slíkum fundum hefði gefið góða raun þar sem oft skapaðist ákjósanlegt andrúmsloft til umræðna í hlutlausu umhverfi. Þá samþykkti ráðið áætlun sambandsins um að halda í heiðri alþjóðlegan dag lýðræðis 2009 auk þess sem fallist var á Panamaborg sem vettvang fyrir 124. þing sambandsins sem haldið verður 16.–21. apríl 2011.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð sambandsins fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Formaður nefndarinnar sagði nefndina hafa til skoðunar mál 289 löggjafa, þar af opinber mál 238 þingmanna í 19 löndum. Ríkin sem í hlut eiga eru Afganistan, Bangladess, Hvíta-Rússland, Búrma, Búrundi, Kólumbía, Kongó, Ekvador, Egyptaland, Eritríea, Írak, Líbanon, Mongólía, Palestína/Ísrael, Filippseyjar, Rúanda, Srí Lanka, Tyrkland og Simbabve. Þess má geta að 27,6% þingfulltrúa á 120. þingi sambandsins voru konur, sem er lakari árangur en náðist á 119. þingi (29,7 %).

Fundur stjórnarnefndar Tólfplús-hóps Alþjóðaþingmannasambandsins í London 25. september 2009.
    Þuríður Backman, formaður Íslandsdeildar, sótti fundinn sem fulltrúi framkvæmdastjórnar Alþjóðaþingmannasambandsins. Fundurinn var haldinn til undirbúnings þátttöku í 121. þingi sambandsins í Genf 19.–21. október. Hér á eftir fer stutt yfirlit helstu málefna sem voru til umræðu á fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá var yfirlit yfir störf og áhersluatriði framkvæmdastjórnar Alþjóðaþingmannasambandsins. Palestínska landsdeildin hafði óskað eftir því að ráð sambandsins breytti skipun sinni varðandi fulla aðild Palestínu að samtökunum frá árinu 2008 á þann veg að PNC (Palestinian National Council) yrði veitt full aðild að sambandinu í stað PLC (Palestinian Legislative Council) eins og nú er. John Austin, formaður Tólfplús-hópsins, sagði þetta mál hafa verið rætt í þaula á síðasta ári þegar umsókn Palestínu var afgreidd og þá hefði verið mikill meiri hluti fyrir því að PLC væri sú stofnun sem ætti tilkall til aðildar að sambandinu en ekki PNC. Þrátt fyrir skýra afstöðu framkvæmdastjórnar sambandsins hefði verið komið til móts við óskir Palestínumanna með því að PNC gæti komið að aðild Palestínu fyrst um sinn til að greiða fyrir málum þar sem margir þingmenn PLC hefðu ekki tök á að ferðast til að sækja fundi sambandsins. Fundarmenn voru sammála um að afstaða Tólfplús-hópsins hefði ekki breyst frá því að málið var rætt á síðasta þingi.
    Rætt var um niðurstöður svara við spurningalista sem sendur var til allra Tólfplús-landsdeildanna varðandi úttekt á þeim breytingum sem gerðar voru á starfsreglum Alþjóðaþingmannasambandsins 2007. Voru nefndarmenn sammála um að þær hefðu bætt starf samtakanna og aukið skilvirkni. Þá var rætt um skipan framkvæmdastjóra sambandsins og breytingartillögu bresku landsdeildarinnar þess efnis að gagnsæi og opin samkeppni væri samtökunum sæmandi þegar nýr framkvæmdastjóri væri valinn. Tekið var fram að tillagan beindist ekki gegn núverandi framkvæmdastjóra samtakanna og væri á engan hátt gagnrýni á verk hans. Fundarmenn voru sammála um að texti breytingartillögunnar ætti að útlista lýsingu á ráðningarferlinu fyrir árið 2014 og að Tólfplús-hópurinn styddi tillögu bresku landsdeildarinnar. Tekin var ákvörðun um að tillagan yrði formlega lögð fyrir framkvæmdastjórn sambandsins fyrir hönd Tólfplús-hópsins á næsta fundi stjórnarinnar sem fyrirhugað var að halda 16. október 2009.
    Þá var rætt um lausar stöður sem skipað átti í á haustþinginu í október 2009. Þuríður Backman, formaður Íslandsdeildar, skýrði nefndarmönnum frá ákvörðun sinni um að hún gæfi ekki kost á sér sem norrænn fulltrúi Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins í stað Ástu Möller. Hún sagði meginástæðurnar fyrir ákvörðun sinni vera erfitt ástand í íslensku samfélagi, bæði stjórnmálalega og efnahagslega, og vegna mikils álags í þingstörfum. Í framhaldinu kynnti Þuríður Krister Örnfjäder frá Svíþjóð sem norrænan Tólfplús-kandídat fyrir stöðu í framkvæmdastjórn sambandsins. Fyrirhugað var að Örnfjäder kynnti framboð sitt á næsta fundi Tólfplús-hópsins en kosnir verða fulltrúar hópsins í tvö sæti í framkvæmdastjórn sambandsins á haustþinginu í október. Einnig höfðu fulltrúar frá Ítalíu, Slóveníu, Þýskalandi og Sviss tilkynnt um framboð sitt auk Örnfjäder. Fram kom að Þuríður mun sitja sem varamaður Ástu Möller í framkvæmdastjórninni út haustþingið í október 2009.
    Jafnframt var farið yfir umræðuefni haustþingsins í Genf og hugsanlegar tillögur að neyðarályktun. Þrjár tillögur höfðu verið lagðar fram, í fyrsta lagi tillaga frá Óman fyrir hönd landfræðihóps arabaríkja um ástandið á Gasa, í öðru lagi tillaga frá Úganda fyrir hönd landfræðihóps Afríkuríkja um þingræðislega samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar til að stuðla að bættum landbúnaði og rannsóknum á náttúruhamförum og afleiðingum þeirra og í þriðja lagi tillaga Ástralíu um þingræðislegar aðgerðir til að tryggja fæðuframboð í heiminum. Nefndarmenn tóku ekki sérstaka afstöðu til þessara tillagna. Formaður benti á að deila mætti um hvort nokkur tillagnanna þriggja samræmdist skilgreiningu samtakanna á utandagskrárumræðuefni samkvæmt reglu 11.2 (a) þar sem kveðið er á um að efnið þurfi að tengjast atburði sem varðar meiri háttar alþjóðahagsmuni og í því ljósi sé nauðsynlegt fyrir Alþjóðaþingmannasambandið að láta í ljós skoðun sína.
    Enn fremur ræddi formaður um skýrslu stjórnmálanefndar Evrópuráðsþingsins um stofnun þingmannavettvangs innan Sameinuðu þjóðanna með áherslu á 75. gr. skýrslunnar þar sem sagt er að Alþjóðaþingmannasambandið hafi hvorki getu né metnað til að skipa umrædda þingmannavídd. Voru fundarmenn afar óánægðir og undrandi yfir fullyrðingum skýrsluhöfundar um sambandið. Eftir umræður um málið var tekin ákvörðun um að formaður ritaði bréf til allra landsdeilda Evrópuráðsþingsins og lýsti yfir óánægju Tólfplús-hópsins með 75. gr. skýrslunnar. Alþjóðaþingmannasambandið hafi unnið náið að því með skrifstofu Sameinuðu þjóðanna að verða þingmannavettvangur Sameinuðu þjóðanna og hafi bæði metnað og getu til þess. Nú þegar hafi sambandið sérstaka stöðu innan Sameinuðu þjóðanna þar sem það hafi rétt til að dreifa gögnum á þingi Sameinuðu þjóðanna auk þess sem samtökin eiga í samstarfi við fjölmargar stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Þá hafi árið 2007 verið stofnuð sérstök nefnd innan sambandsins um málefni Sameinuðu þjóðanna. Í framhaldinu hafði Þuríður Backman samband við Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins og vakti athygli á málinu.
    Farið var yfir mál Kanada sem hefur óskað eftir því að fá að halda vorþing Alþjóðaþingmannasambandsins 2012 þar sem vandamál varðandi vegabréfsáritanir fyrir fundargesti hafi verið leyst. Framkvæmdastjóri samtakanna á þó eftir að staðfesta boð Kanada og gagnrýndi fulltrúi þeirra svör hans og seinagang í málinu.

121. þing Alþjóðaþingmannasambandsins í Genf 19.–21. október.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu fundina Þuríður Backman, formaður, og Guðbjartur Hannesson, varaformaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru baráttan gegn mansali og skipulögðum glæpum, þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna með áherslu á samstarf ríkja sunnan miðbaugs og þátttaka æskunnar í uppbyggingu lýðræðis. Enn fremur fór fram utandagskrárumræða um matvælaöryggi heimsins. Um 500 þingmenn frá 128 ríkjum sóttu þingið, þar af 24 þingforsetar.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist á fundum flesta morgna meðan á þinginu stóð til að fara yfir öll helstu mál þingsins og samræma afstöðu eins og hægt var. Þuríður Backman sótti fundina ásamt ritara. Á haustþinginu kynntu að venju fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins, Geert Versnick (Belgíu) og Robert del Picchia (Frakklandi), helstu niðurstöður og umræður funda stjórnarinnar. Þá sagði Monika Griefahn (Þýskalandi) fundargestum frá skipulagningu árlegs kvennafundar Alþjóðaþingmannasambandsins sem fyrirhugað er að halda í tengslum við vorþingi samtakanna í Bangkok 2010. Einnig fór fram umræða um ráðningarferli framkvæmdastjóra Alþjóðaþingmannasambandsins og kom hópurinn sér saman um að leggja fram breytingartillögu við reglur sambandsins sem miði að því að ferlið verði gert gagnsærra, opnara og skýrara.
    Fram fór kosning um tvær lausar stöður Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins, m.a. um eftirmann Ástu Möller sem kosin var í stjórnina á vorþingi sambandsins 2008. Fjórir þingmenn buðu sig fram og kosningu hlutu sænski þingmaðurinn Krister Örnfjäder og svissneska þingkonan Doris Stump. Tólfplús-hópurinn á fjóra fulltrúa í 17 manna stjórninni. Enn fremur voru skipaðir fulltrúar hópsins í nefnd sem vann að drögum að neyðarályktun þingsins.
    Við setningu 121. þingsins flutti forseti Alþjóðaþingmannasambandsins, Theo-Ben Gurirab, ávarp þar sem hann bauð þátttakendur velkomna og kynnti dagskrá þingsins. Fimm tillögur um neyðarályktun eða utandagskrárefni voru lagðar fram fyrir upphaf þingsins, en aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum sambandsins. Tvær tillögur voru lagðar fram um fæðuöryggi heimsins, af Ástralíu og Úganda, og tvær um ástandið á herteknu svæðunum í Palestínu með áherslu á Gasa, af Óman og Íran. Þá drógu fulltrúar Kúbu tillögu sína um valdaránið í Hondúras til baka. Kosið var um utandagskrárumræðuefnið og fengu tillögur Ástralíu og Úganda yfirburðakosningu, eða 1.197 atkvæði, en tillaga Óman og Íran fékk 538 atkvæði. Yfirskrift tillögunnar var þingræðislegar aðgerðir til að tryggja fæðuöryggi í heiminum. Í umræðunni var m.a. lögð áhersla á mikilvægi þess að hrint sé í verk þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að ná þúsaldarmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um að helminga fjölda þeirra sem þjást af hungri fyrir árið 2015. Einnig var fjallað um loftslagsbreytingar með áherslu á þróunarlönd og neikvæð áhrif breytinganna á fæðuöryggi. Þingmenn lýstu yfir áhyggjum af því að þrátt fyrir þann árangur sem náðst hefði hjá alþjóðasamfélaginu undanfarin ár við að uppræta hungur hefði fjöldi vannærðra í þróunarlöndunum aukist og væri tala þeirra nú komin yfir milljarð. Alþjóðafjármálakreppan leiði til frekari fátæktar með auknum skorti á mat fyrir þá fátækustu og breikkun þess bils sem er milli ríkra og fátækra. Ályktun þingsins endurspeglaði málefni umræðunnar og var hún samþykkt einróma.
    Fæðuöryggi heimsins var í forgrunni í umræðum þingsins og hélt Jacques Diouf, aðalframkvæmdastjóri Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, erindi þess efnis á fundi nefndar um málefni Sameinuðu þjóðanna. Þá var þingmönnum einnig kynnt efni fyrirhugaðrar ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í Kaupmannahöfn í desember 2009. Enn fremur var dreift til fundargesta nýrri handbók fyrir þingmenn um horfnar manneskjur. Handbókin var unnin í sameiningu af Alþjóðaþingmannasambandinu og Rauða krossinum. Varaformaður Rauða krossins, Christine Beerli, kynnti bókina og sagði henni ætlað að benda á hlutverk löggjafans við að koma í veg fyrir að fólk hverfi í vopnuðum átökum. Þá geti bókin hjálpað til við að útskýra örlög horfinna manneskja og hvernig styðja megi betur við fjölskyldur þeirra.
    Umræður um skýrslur fastanefndanna þriggja fóru fram sem pallborðsumræður þar sem efni skýrslnanna var kynnt af skýrsluhöfundum og sérfræðingum og í framhaldinu tóku þingmenn þátt í umræðum um málefnin. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var rætt um baráttuna gegn mansali, skipulagða glæpi, smygl á eiturlyfjum og ólöglega vopnasölu. Skýrsluhöfundar skýrðu fundargestum frá framgangi vinnu nefndarinnar við undirbúning skýrslunnar sem flutt verður á vorþinginu 2010. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, var fjallað um hlutverk þjóðþinga við að koma á samvinnu milli ríkja á suðurhveli jarðar með það að markmiði að flýta fyrir framgangi þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þingmenn voru sammála um mikilvægi samstarfsins sem skapaði raunhæf tækifæri fyrir þróunarlönd til að ná markmiðum stöðugs efnahagskerfis. Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, var fjallaði um þátttöku æskunnar í uppbyggingu lýðræðis. Í umræðu um drög að skýrslu nefndarinnar ræddu þingmenn m.a. mikilvægi þess að Alþjóðaþingmannasambandið beitti sér fyrir málefnum æskunnar í auknum mæli í starfsemi sambandsins.
    Þá fóru fram tvær pallborðsumræður á þinginu, annars vegar um HIV og hins vegar um hlutverk þjóðþinga við að koma í veg fyrir brot á alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Seinni pallborðsumræðan var skipulögð í samvinnu Alþjóðaþingmannasambandsins og Rauða krossins þar sem kallað var eftir auknu eftirliti löggjafarvaldsins með alþjóðlegri mannréttindalöggjöf. Jafnframt sendi forseti þingsins frá sér tvær yfirlýsingar. Önnur yfirlýsingin var um H1N1-inflúensuveiruna, sem hefur verið skilgreind sem heimsfaraldur af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Í yfirlýsingunni eru fjölmiðlar m.a. hvattir til að aðstoða við að auka meðvitund almennings um hvernig forðast megi smit og miðla upplýsingum um ráðleggingar frá heilbrigðisyfirvöldum. Í seinni yfirlýsingunni var stjórnmálaástandið í Hondúras gagnrýnt, valdarán hersins fordæmt og kallað eftir endurskipan lýðræðislega kjörins forseta Hondúras, Manuel Zelaya.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins kom þrisvar sinnum saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Þinginu í Níger var vikið úr sambandinu og það fordæmt fyrir ofsóknir og handtökur á þingmönnum. Jafnframt óskaði ráðið eftir því að nefnd sambandsins um mannréttindi þingmanna rannsakaði núverandi ástand í landinu. Aðildarríki Alþjóðaþingmannasambandsins voru þá 152 talsins.
    Anders B. Johnsson var endurkjörinn framkvæmdastjóri Alþjóðaþingmannasambandsins til næstu fjögurra ára. Miklar umræður fóru fram um ráðningarferli framkvæmdastjóra sambandsins og fól ráðið framkvæmdastjórninni að undirbúa tillögu að breytingu á starfsreglunum með það að markmiði að gera ráðningarferli framkvæmdastjóra opnara og skýrara. Breytingartillagan verður lögð fyrir ráðið á vorþingi sambandsins 2010. Enn fremur voru fluttar skýrslur landfræðihópa sambandsins varðandi þær breytingar sem gerðar voru á haustþingi sambandsins 2007. Ýmsar tillögur voru ræddar sem bætt gætu enn frekar starf haustþinganna og verður áframhald á umræðunni á vorþingi sambandsins 2010. Þá kynnti forseti sambandsins undirbúningsnefnd vegna þriðju ráðstefnu þingforseta sem haldin verður í Genf í júlí 2010. Í nefndinni sitja um tuttugu þingforsetar. Þá var samþykkt að undantekning yrði gerð varðandi staðsetningu þinganna 2012, sem bæði verða haldin utan Genf. Ráðgert er að vorþingið 2012 verði haldið í Kampala í Úganda og haustþingið í Quebec í Kanada. Tíðrætt vandamál varðandi vegabréfsáritanir til Kanada fyrir landsdeildir sambandsins hafði verið leyst. Þá er ráðgert að vorþingið 2011 verði haldið í Panama og haustþingið í Genf, eins og venja er.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð sambandsins fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Þess má geta að 32% þingfulltrúa á 121. þingi sambandsins voru konur, sem er hærra hlutfall en náðist á 120. þingi (27 %). Vorþing Alþjóðaþingmannasambandsins 2010 verður haldið 27 mars–1. apríl í Bangkok.

5. Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2009.
     Ályktanir 120. þings Alþjóðaþingmannasambandsins vörðuðu eftirfarandi efni:
     1.      Að stuðla að afvopnun og banni við útbreiðslu kjarnavopna og tryggingu þess að samningum um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn sé framfylgt: Hlutverk þjóðþinga.
     2.      Loftslagsbreytingar og endurnýjanlega orku.
     3.      Tjáningarfrelsi og rétt til upplýsinga.
     4.      Hlutverk þjóðþinga við að draga úr félagslegum og stjórnmálalegum áhrifum alþjóðlegu fjármálakreppunnar á viðkvæmustu svæðum samfélaga, sérstaklega í Afríku.

Ályktun 121. þings Alþjóðaþingmannasambandsins varðaði eftirfarandi efni:
         Hlutverk þjóðþinga við að tryggja fæðuöryggi í heiminum.

Yfirlýsingar forseta Alþjóðaþingmannasambandsins á 121. þingi:
     1.      Um H1N1-inflúensuveiruna.
     2.      Um stjórnmálaástandið í Hondúras.

Alþingi, 11. mars 2010.



Þuríður Backman,


form.


Guðbjartur Hannesson,


varaform.


Einar K. Guðfinnsson.