Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 456. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 786  —  456. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

Flm.: Illugi Gunnarsson, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Birgitta Jónsdóttir,


Bjarni Benediktsson, Björgvin G. Sigurðsson, Einar K. Guðfinnsson,
Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson,
Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Jón Gunnarsson,
Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir,
Tryggvi Þór Herbertsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði laganna skal óheimilt frá og með deginum eftir gildistöku þessa ákvæðis og til og með 30. júní 2011 að krefja einstaklinga um dráttarvexti vegna ógreiddra peningakrafna sem þeir hafa stofnað til. Eftir sem áður skal þó heimilt að krefjast dráttarvaxta vegna skaðabótakrafna, sbr. IV. kafla laganna. Almenna vexti skv. II. kafla laganna skal áfram greiða af kröfu eftir gjalddaga og að greiðsludegi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpinu er lagt til nýtt bráðabirgðaákvæði sem mæli fyrir um að óheimilt verði að krefja einstaklinga um dráttarvexti frá og með deginum eftir gildistöku þess og til og með 30. júní 2011. Ákvæðinu er ætlað að mæta sérstökum aðstæðum í þjóðfélaginu, enda ræður mikill fjöldi einstaklinga og heimila í landinu ekki við skuldabyrði sína. Við þessar aðstæður er mjög umdeilanlegt að beita dráttarvaxtaúrræðum af jafnmikilli hörku og gert er. Skuldirnar hafa þegar margfaldast og þegar ekki er hægt að greiða skuldir á réttum tíma auka dráttarvextir enn á skuldabyrði þeirra heimila sem berjast nú þegar í bökkum. Sé um að ræða kröfu sem ber vexti samkvæmt samningi, lögum eða venju reiknast þeir þó áfram eftir gjalddaga og að greiðsludegi. Engar breytingar eru lagðar til vegna meðferðar á skaðabótakröfum.
    Dráttarvextir eru í reynd nokkurs konar lögákveðnar skaðabætur sem skuldara er gert að greiða standi hann ekki tímanlega skil á skuld sinni. Í 7. gr. laga um vexti og verðtryggingu segir þó að ef atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt valda því að greiðsla fer ekki fram skal ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum. Færa má fyrir því rök að þær aðstæður sem nú eru uppi megi í mörgum tilvikum rekja til aðstæðna sem skuldarar gátu ekki haft nokkra stjórn á. Hér varð efnahagshrun, gengishrun sem hefur margfaldað lán í erlendri mynt, verðbólguaukning sem hefur hækkað verðtryggð lán, kaupmáttur hefur rýrnað, verðlag hækkað og atvinnuleysi hefur aukist. Þessum atburðum höfðu einstaklingar og heimili í landinu enga stjórn á eða gátu haft áhrif á og því er frumvarpið í samræmi við þá hugsun sem fram kemur í framangreindu undanþáguákvæði 7. gr. Þó skal tekið fram að með þessu er ekki átt við að dráttarvextir hafi verið ólöglegir frá og með hruni íslensku bankanna, né heldur eru ákvæði 7. gr. ein og sér nægjanlegur grunnur fyrir framlagningu þessa frumvarps. Hins vegar er vakin athygli á 7. gr. til að undirstrika þá hugsun að aðstæður geti myndast sem geri greiðslu ómögulega og því sé rétt að meta sérstaklega í ljósi þeirra fordæmislausu og erfiðu aðstæðna sem myndast hafa hvort rétt sé að takmarka beitingu dráttarvaxtaúrræðisins með jafnvíðtækum hætti og nú er.
    Ákvæði frumvarpsins er eingöngu ætlað að ná til einstaklinga og þeirra skulda sem á þeim hvíla. Um lögaðila gilda áfram ákvæði laganna og þurfa þeir því bæði að greiða dráttarvexti og geta lagt þá á kröfur sínar gagnvart öðrum lögaðilum. Fyrirtæki eiga oft kröfur á önnur fyrirtæki vegna reksturs og skv. d-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/35/EB um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum skal vanefndaálag í verslunarviðskiptum vera a.m.k. 7% ofan á stýrivexti Seðlabanka Evrópu eða seðlabanka viðkomandi ríkis sé það ekki aðili að myntbandalaginu.
    Ef krafa er ógreidd eftir gjalddaga mun hún áfram bera almenna vexti í samræmi við II. kafla laganna. Við brottfall ákvæðisins munu hefðbundin ákvæði laganna fá gildi á ný og dráttarvexti mætti þá innheimta frá 1. júlí 2011 en ekki mætti hins vegar gera kröfu um dráttarvexti af ógreiddri kröfu fyrir þann tíma sem hún var ógreidd á gildistíma bráðabirgðaákvæðisins.