Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 373. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 793  —  373. mál.



Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um heilbrigðisstofnanir á Blönduósi og Sauðárkróki.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Er áætlað að kostnaður þeirra sem njóta þjónustu heilbrigðisstofnananna á Blönduósi og Sauðárkróki aukist vegna sparnaðaraðgerða ríkisstjórnarinnar?

Heilbrigðisstofnunin Blönduósi.
    Hugsanlegt er að ferðakostnaður sjúklinga sem leggja þarf inn á sjúkrasvið aukist ef fjögur sjúkrarými stofnunarinnar eru full og sjúklingar þurfa að sækja þjónustu til Akureyrar eða Reykjavíkur. Á stofnuninni eru fjögur bráðarými, auk hjúkrunarrýma og dvalarrýma. Nýting bráðarýma hefur oft verið yfir 100% og hafa þá önnur rými stofnunarinnar verið nýtt til að leggja inn sjúklinga. Hjúkrunarrýmum hefur verið fækkað um fimm (úr 32 í 27) og því fylgir minnkun starfshlutfalla í aðhlynningu.
    Þá má benda á að við ákvörðun ráðuneytisins um fækkun hjúkrunarrýma lágu fyrir upplýsingar um tíu vannýtt hjúkrunarrými á stofnuninni. Ákveðið var að fækka þeim um fimm og því standa eftir fimm vannýtt rými. Samkvæmt vistunarmati 18. febrúar sl. bíður enginn eftir hjúkrunarrými á stofnuninni. Því ættu sjúklingar ekki að þurfa að flytjast til Akureyrar eða Reykjavíkur til að sækja þá þjónustu sem eðlilegt er að Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi veiti.

Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki.
    Kostnaður þeirra sem sækja geð-, endurhæfingar-, barna- og öldrunarlæknaþjónustu eykst vegna aksturs ef sækja þarf þjónustu til Akureyrar eða Reykjavíkur. Sálfélagsleg þjónusta verður keypt í stað þeirrar þjónustu sem geðlæknir stofnunarinnar hefur sinnt.
    Einnig eykst ferðakostnaður fæðandi kvenna ef þær kjósa að fæða börn sín á Akureyri, Akranesi eða í Reykjavík. Ljósmæður stofnunarinnar sinna konum á þjónustusvæði Heilbrigðisstofnunarinnar Blönduósi til viðbótar sínu svæði. Fimmtán konur fæddu á Sauðárkróki á árinu 2009 en fæðingar kvenna á þjónustusvæði heilbrigðisstofnananna tveggja hafa verið á bilinu 67–82 síðastliðin fimm ár.
    Þurfi sjúklingar að sækja þjónustu út fyrir hérað má benda á að samkvæmt reglugerð nr. 871/2004 taka Sjúkratryggingar Íslands þátt í kostnaði við tvær ferðir sjúklings þegar um er að ræða nauðsynlega ferð til að sækja óhjákvæmilega sjúkdómsmeðferð á opinberum sjúkrastofnunum eða hjá öðrum aðilum heilbrigðiskerfisins sem Sjúkratryggingar hafa gert samning við til greiningar, meðferðar, eftirlits eða endurhæfingar.
    Að auki taka Sjúkratryggingar Íslands þátt í kostnaði vegna nauðsynlegra ítrekaðra ferða ef um er að ræða eftirtalda alvarlega sjúkdóma: illkynja sjúkdóma, nýrnabilun, alvarlega augnsjúkdóma, brýnar lýtalækningar, bæklunarlækningar barna og tannréttingar vegna meiri háttar galla eða alvarlegra tilefna. Enn fremur er á sama hátt heimilt að endurgreiða ferðir vegna annarra sambærilegra sjúkdóma, alvarlegra vandamála í meðgöngu og vegna glasafrjóvgunarmeðferðar.