Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 197. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 891  —  197. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd. Umsagnir um málið bárust frá ASÍ, embætti sérstaks saksóknara, Félagi atvinnurekenda, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Hagsmunasamtökum heimilanna, Íbúðalánasjóði, Neytendastofu, réttarfarsnefnd, Samtökum atvinnulífsins, Seðlabanka Íslands, tollstjóranum í Reykjavík og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvæði verði bætt við XXVII. kafla laganna þess efnis að tímamörk og frestir til að rifta ráðstöfunum þrotamanns skv. XX. kafla laganna skuli á tímabilinu 6. október 2008 til 31. desember 2011 vera fjögur ár.
    Nefndin ræddi þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Í XX. kafla laganna er að finna almennar reglur um riftun og eru riftunarreglurnar í 131.–139. gr. bundnar við nánar tilgreind atvik sem átt hafa sér stað á tilteknu tímabili fyrir frestdag við skiptin. Þessir tímafrestir eru í flestum tilvikum sex mánuðir en rýmri frestir allt upp í tvö ár geta átt við þegar í hlut eiga þeir sem eru nákomnir þrotamanni. Með riftunarreglunum er þrotabúi gert kleift að ná undir skiptin eignum sem ráðstafað hefur verið í aðdraganda skipta eða leiðrétta mismun milli kröfuhafa og tryggja jafnræði meðal lánardrottna skuldarans. Flestar riftunarreglur eru hlutlægar í þeim skilningi að þrotabúið þarf ekki að sanna að sá sem riftunarkrafa beinist að hafi verið grandsamur um fjárhag skuldara (þrotamanns) á þeim tíma sem riftanleg ráðstöfun fór fram.
    Í umsögn réttarfarsnefndar um málið kom m.a. fram gagnrýni á það að með frumvarpinu er lagt til að allir frestir til að rifta ráðstöfunum verði rýmkaðir tímabundið í fjögur ár óháð því hvort um sex mánaða frest eða allt að tveggja ára frest samkvæmt lögunum er að ræða. Samkvæmt frumvarpinu skal riftunarfrestur ná aftur til 6. október 2008 og eru því sex mánaða frestir sem byrjuðu að líða frá þeim tíma nú löngu liðnir. Af því leiðir að ráðstöfun gæti verið riftanleg verði frumvarpið að lögum þótt svo hafi ekki verið samkvæmt gildandi lögum í nærfellt sautján mánuði. Bendir réttarfarsnefnd á að með þessu feli frumvarpið í sér afturvirkni sem mjög hljóti að orka tvímælis hvort staðist geti ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins. Nefndin telur þessar athugasemdir réttmætar og leggur því til breytingu á frumvarpinu í samræmi við almennar lagaskilareglur þannig að ekki verði hróflað við þeim tímafrestum sem liðnir eru en þeir frestir sem ekki eru liðnir, þ.e. tveggja ára frestir, verði rýmkaðir. Nefndin tekur í því sambandi fram að mál verða sífellt flóknari og því tímafrekara að fara t.d. ofan í það hvort kröfuhöfum hafi verið mismunað eða hvort um málamyndagerninga sé að ræða. Nefndin telur því nauðsynlegt að framlengja frestina og leggur til að þeir frestir verði rýmkaðir tímabundið þannig að þeir gildi í þeim málum sem höfðuð eru fyrir árslok 2012.
    Nefndin ræddi einnig um málshöfðunarfresti gjaldþrotalaga á fundum sínum en skv. 148. gr. þeirra verða þrotabú að höfða riftunarmál innan sex mánaða frá því að skiptastjóri átti þess fyrst kost að gera kröfuna. Samkvæmt gildandi lögum um fjármálafyrirtæki er málshöfðunarfresturinn tvö ár. Í umsögn réttarfarsnefndar er tekið fram að þegar krafa um gjaldþrotaskipti hefur verið tekin til greina liggur fyrir frestdagur við skiptin en af honum ráðast riftunarfrestir. Hún bendir sérstaklega á að á hinn bóginn sé hættara við að málshöfðunarfrestir 148. gr. laganna renni út ef skiptin ganga ekki greiðlega. Nefndin telur því ljóst að við þessu þurfi að bregðast með sömu rökum og búa að baki tillögum um lengingu riftunarfresta. Nefndin leggur því til að við bráðabirgðaákvæðið bætist að málshöfðunarfrestur skuli vera tólf mánaða frestur fram til ársloka 2012.
    Nefndin tekur fram að við þær aðstæður sem nú eru í viðskiptalífinu sé í reynd verið að gefa aðilum lengri fresti til að vera í rekstri án þess að beita vanefndaúrræðum en telur að sama skapi sé nauðsynlegt að veita aðhald og lengja fresti ekki um of til þess að gæta jafnræðis gagnvart réttindum kröfuhafa. Telur nefndin að með lögfestingu þessara lengdu fresta sé meðalhófs gætt og að þetta sé mikilvægur þáttur í því að byggja upp traust í þjóðfélaginu að nýju.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    1.     gr. orðist svo:
    Við XXVII. kafla laganna bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Að því leyti sem í ákvæðum 2. mgr. 131. gr., 2. mgr. 132. gr., 2. mgr. 133. gr., 2. mgr. 134. gr., 2. mgr. 137. gr. og 2. mgr. 138. gr. laganna er kveðið á um tuttugu og fjögurra mánaða frest skal sá frestur vera fjörutíu og átta mánuðir í þeim málum sem höfðuð eru fyrir árslok 2012.
    Jafnframt skal sex mánaða málshöfðunarfrestur í 148. gr. laganna vera tólf mánaða frestur fram til ársloka 2012.

    Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir og Þráinn Bertelsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þór Saari er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 24. mars 2010.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Birgir Ármannsson.


Ögmundur Jónasson.



Siv Friðleifsdóttir.


Ólöf Nordal.


Róbert Marshall.