Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 569. máls.

Þskj. 960  —  569. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög
og lögum um ársreikninga (minnihlutavernd o.fl.) .

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




I. KAFLI
Lög um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „ráðherra“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: eða sá sem hann framselur vald sitt.
     b.      Á eftir orðinu „Ráðherra“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: eða sá sem hann framselur vald sitt.

2. gr.

    Á eftir 26. gr. laganna kemur ný grein, 26. gr. a, svohljóðandi:
    Hluthafi getur krafist dóms fyrir því að félagið innleysi hlut hans í félaginu enda standi veigamikil rök til þess að honum verði gert kleift að losna úr félaginu vegna þess að:
     1.      Félagsstjórn, framkvæmdastjóri eða aðrir, sem fram koma fyrir hönd félags, hafa brotið gegn ákvæðum 76. og 95. gr. um öflun ótilhlýðilegra hagsmuna.
     2.      Annar hluthafi í félaginu hefur misbeitt áhrifum sínum í félaginu.
     3.      Djúpstæður og langvarandi ágreiningur er milli hluthafans og annarra hluthafa um rekstur félagsins.
    Ef innlausn skv. 1. mgr. leiðir til umtalsverðs tjóns fyrir félagið eða leiðir með öðrum hætti til ósanngjarnrar niðurstöðu fyrir það skal ekki taka kröfu hluthafans til greina. Sama máli gegnir ef félagið finnur einhvern sem er reiðubúinn til að kaupa hlutabréfin gegn greiðslu er svarar til innlausnarverðsins. Ákvæði 4. mgr. 22. gr. gilda eftir því sem við á.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 53. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „ráðherra“ í 2. mgr. kemur: eða þeim sem hann framselur vald sitt.
     b.      Í stað orðanna „stjórn félags og endurskoðendum“ í 3. mgr. kemur: öllum aðalmönnum stjórnar félags og endurskoðanda.

4. gr.

    Við 3. mgr. 55. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í félagi þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) skal þó miðað við síðasta skráða dagslokagengi á markaði áður en samningur var gerður. Í öðrum hlutafélögum geta hluthafar, sem ráða yfir minnst 5% hlutafjár, krafist þess við stjórn félagsins, innan mánaðar frá því að stjórn tilkynnir um samning, að endurskoðanda verði falið að meta að hve miklu leyti verð sé sanngjarnt og efnislega rökstutt.

5. gr.

    Á eftir orðinu „ráðherra“ í 1. málsl. 2. mgr. 66. gr. laganna kemur: eða sá sem hann framselur vald sitt.

6. gr.

    Orðið „bersýnilega“ í 1. mgr. 76. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

    Við 79. gr. a laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
    Við gerð starfskjarastefnu skal höfð hliðsjón af EES-samþykktum, m.a. um eftirfarandi:
     1.      Takmörk skulu vera á breytilegum starfskjaraþáttum sem tengjast skulu fyrir fram ákveðnum og mælanlegum árangursviðmiðunum þar sem langtímahagsmunir félags eru hafðir í huga.
     2.      Fresta skal greiðslu vegna breytilegra starfskjaraþátta í hæfilegan tíma og gera ráð fyrir endurgreiðslu ef greiðslur hafa verið inntar af hendi á grundvelli bersýnilega ónákvæmra gagna.
     3.      Starfslokagreiðslur skulu ekki fara fram úr ákveðinni fjárhæð og almennt ekki miðast við meira en tveggja ára laun. Starfslokagreiðslurnar skulu ekki fara fram ef starfslok verða vegna ófullnægjandi árangurs.
     4.      Hlutir skuli ekki afhentir fyrr en a.m.k. þremur árum eftir að viðkomandi öðlast rétt til þeirra. Þá má eigi neyta kaupréttar á hlutum og því um líku fyrr en að loknum þriggja ára biðtíma. Ákveðið hlutfall af hlutum skal geyma til starfsloka.
     5.      Stjórnarmenn skulu ekki njóta kaupréttar á hlutum og því um líku, sbr. 3. tölul. 1. mgr.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 81. gr. laganna:
     a.      Orðið „málfrelsi“ í 3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hluthafa er heimilt að gefa ráðgjafa sínum orðið fyrir sína hönd.
     c.      Í stað orðsins „fimm“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: eitt.

9. gr.

    Í stað „ 1/ 10“ í 2. málsl. 85. gr. laganna kemur: 1/ 20.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 88. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „viku“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: tveimur vikum.
     b.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þó má halda hluthafafund sem boðaður er með skemmst einnar viku fyrirvara ef hluthafar, sem ráða yfir a.m.k. 90% af hlutafé, samþykkja það fyrir fram skriflega.
     c.      Í stað orðanna „Viku fyrir hluthafafund hið skemmsta“ í 4. mgr. kemur: Tveimur vikum fyrir hluthafafund hið skemmsta nema boðunarfrestur sé skemmri, sbr. 1. mgr.

11. gr.

    Á eftir orðunum „Þegar hluthafi krefst þess og slíkt má verða án“ í 1. málsl. 1. mgr. 91. gr. laganna kemur: verulegs.

12. gr.

    Orðið „bersýnilega“ í 95. gr. laganna fellur brott.

13. gr.

    Á eftir 95. gr. laganna kemur ný grein, 95. gr. a, svohljóðandi:
    Samningur milli félagsins og hluthafa, móðurfélags hluthafa, stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra félagsins, sem nemur að raunvirði meira en 1/ 20hlutafjárins á þeim tíma sem framsal eða afhending fer fram, bindur eigi félagið nema að fengnu samþykki hluthafafundar. Þetta gildir þó ekki um:
     1.      Samninga sem gerðir hafa verið í samræmi við reglur 5.–6. gr., 6. gr. a – 6. gr. c, 7.–8. gr. og 37. gr. um öflun sérfræðiskýrslu við stofnun félags og hlutafjárhækkun.
     2.      Samninga og ákvarðanir um laun og starfskjör stjórnarmanna og æðstu stjórnenda skv. 79. gr. og 79. gr. a.
     3.      Samninga um framsal fjármálagerninga samkvæmt skráðu gengi þeirra á skipulegum verðbréfamarkaði.
     4.      Samninga sem gerðir eru í tengslum við venjulegan rekstur félags og hafa að geyma verð og aðra skilmála sem eðlilegt er að séu í slíkum samningum.
    Falli samningur undir þessa grein er félagsstjórn skylt að afla sérfræðiskýrslu skv. 6. gr., sbr. 6. gr. a – 6. gr. c og 7.–8. gr. Skýrslan skal geyma yfirlýsingu þess efnis að samræmi sé milli greiðslu félagsins og þess endurgjalds sem félagið fær, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sérfræðiskýrslan skal fylgja fundarboði til hluthafafundar og skal send hlutafélagaskrá.
    Sé samningur ekki bindandi fyrir félagið skulu greiðslur ganga til baka að því marki sem þær hafa verið inntar af hendi. Ákvæði 102. gr. gilda eftir því sem við á.
    Ákvæði 1.–3. mgr. gilda einnig um samninga er félag hefur gert við aðila sem er nákominn hluthafa eða nákominn móðurfélagi hluthafa eða einhvern sem kemur fram samkvæmt samningi eða með öðrum hætti með heimild einhverra þeirra sem nefndir eru í 1. mgr. Með nákomnum í þessari grein er átt við:
     1.      Hjón og þá sem búa í óvígðri sambúð, aðila í staðfestri samvist eða aðila í skráðri sambúð.
     2.      Þá sem eru skyldir í beinan legg eða fyrsta legg til hliðar en með skyldleika er í þessu sambandi einnig átt við tengsl sem skapast við ættleiðingu eða fóstur.
     3.      Þá sem tengjast með hjúskap, óvígðri sambúð, staðfestri samvist eða skráðri sambúð með sama hætti og um ræðir í 2. tölul.
     4.      Félag sem viðkomandi sjálfur eða einhver þeirra sem nefndir eru í 1.–3. tölul. hefur yfirráð yfir í skilningi 2. gr. laganna.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 97. gr. laganna:
     a.      Við 3. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ráðherra er í þess stað heimilt að setja það skilyrði að sá er biður um rannsókn skuli setja tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar. Félagið ber þá kostnaðinn endanlega. Greiði félagið ekki reikning innan þriggja mánaða frá dagsetningu hans glatar rannsóknarbeiðandi þó tryggingarfé sínu en á í þess stað kröfu á félagið.
     b.      Í stað orðsins „viku“ í 4. mgr. kemur: tvær vikur.

II. KAFLI
Lög um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum.
15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „ráðherra“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: eða sá sem hann framselur vald sitt.
     b.      Á eftir orðinu „Ráðherra“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: eða sá sem hann framselur vald sitt.

16. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, svohljóðandi:
    Hluthafi getur krafist dóms fyrir því að félagið innleysi hlut hans í félaginu enda standi veigamikil rök til þess að honum verði gert kleift að losna úr félaginu vegna þess að:
     1.      félagsstjórn, framkvæmdastjóri eða aðrir, sem fram koma fyrir hönd félags, hafa brotið gegn ákvæðum 51. og 70. gr. um öflun ótilhlýðilegra hagsmuna;
     2.      annar hluthafi í félaginu hefur misbeitt áhrifum sínum í félaginu;
     3.      djúpstæður og langvarandi ágreiningur er milli hluthafans og annarra hluthafa um rekstur félagsins.
    Ef innlausn skv. 1. mgr. leiðir til umtalsverðs tjóns fyrir félagið eða leiðir með öðrum hætti til ósanngjarnrar niðurstöðu fyrir það skal ekki taka kröfu hluthafans til greina. Sama máli gegnir ef félagið finnur einhvern sem er reiðubúinn til að kaupa hlutina gegn greiðslu er svarar til innlausnarverðsins.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „ráðherra“ í 2. mgr. kemur: eða þeim sem hann framselur vald sitt.
     b.      Í stað orðanna „stjórn félags og endurskoðendum“ í 3. mgr. kemur: öllum aðalmönnum stjórnar félags og endurskoðanda.

18. gr.

    Á eftir orðinu „Ráðherra“ í 3. málsl. 2. mgr. 42. gr. laganna kemur: eða sá sem hann framselur vald sitt.

19. gr.

    Orðið „bersýnilega“ í 1. mgr. 51. gr. laganna fellur brott.

20. gr.

    Við 54. gr. a laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
    Við gerð starfskjarastefnu skal höfð hliðsjón af EES-samþykktum, m.a. um eftirfarandi:
     a.      Takmörk skulu vera á breytilegum starfskjaraþáttum sem tengjast skulu fyrir fram ákveðnum og mælanlegum árangursviðmiðunum þar sem langtímahagsmunir félags eru hafðir í huga.
     b.      Fresta skal greiðslu vegna breytilegra starfskjaraþátta í hæfilegan tíma og gera ráð fyrir endurgreiðslu ef greiðslur hafa verið inntar af hendi á grundvelli bersýnilega ónákvæmra gagna.
     c.      Starfslokagreiðslur skulu ekki fara fram úr ákveðinni fjárhæð og almennt ekki miðast við meira en tveggja ára laun. Starfslokagreiðslurnar skulu ekki fara fram ef starfslok verða vegna ófullnægjandi árangurs.
     d.      Hlutir skuli ekki afhentir fyrr en a.m.k. þremur árum eftir að unnið er til þeirra. Þá má eigi neyta kaupréttar á hlutum og því um líku fyrr en að loknum þriggja ára biðtíma. Ákveðið hlutfall af hlutum skal geyma til starfsloka.
     e.      Stjórnarmenn skulu ekki njóta kaupréttar á hlutum og því um líku, sbr. a-lið 1. mgr.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
     a.      Orðið „málfrelsi“ í 3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hluthafa er heimilt að gefa ráðgjafa sínum orðið fyrir sína hönd.
     c.      Í stað orðsins „fimm“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: eitt.

22. gr.

    Í stað „ 1/ 10“ í 2. málsl. 60. gr. laganna kemur: 1/ 20.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „viku“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: tveimur vikum.
     b.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þó má halda hluthafafund sem boðaður er með skemmst einnar viku fyrirvara ef hluthafar, sem ráða yfir a.m.k. 90% af hluta, samþykkja það fyrir fram skriflega.
     c.      Í stað orðanna „Viku fyrir hluthafafund hið skemmsta“ í 4. mgr. kemur: Tveimur vikum fyrir hluthafafund hið skemmsta nema boðunarfrestur sé skemmri, sbr. 1. mgr.

24. gr.

    Á eftir orðunum „Þegar hluthafi krefst þess og slíkt má verða án“ í 1. málsl. 1. mgr. 66. gr. laganna kemur: verulegs.

25. gr.

    Orðið „bersýnilega“ í 70. gr. laganna fellur brott.

26. gr.

    Á eftir 70. gr. laganna kemur ný grein, 70. gr. a, svohljóðandi:
    Samningur milli félagsins og hluthafa, móðurfélags hluthafa, stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra félagsins, sem nemur að raunvirði meira en 1/ 10hlutafjárins á þeim tíma sem framsal eða afhending fer fram, bindur eigi félagið nema að fengnu samþykki hluthafafundar. Þetta gildir þó ekki um:
     1.      Samninga sem gerðir hafa verið í samræmi við reglur 5.–6. gr., 6. gr. a – 6. gr. b og 26. gr. um öflun skýrslu við stofnun félags og hlutafjárhækkun.
     2.      Samninga og ákvarðanir um laun og starfskjör stjórnarmanna og æðstu stjórnenda skv. 54. gr. og 54. gr. a.
     3.      Samninga um framsal fjármálagerninga samkvæmt skráðu gengi þeirra á skipulegum verðbréfamarkaði.
     4.      Samninga sem gerðir eru í tengslum við venjulegan rekstur félags og hafa að geyma verð og aðra skilmála sem eðlilegt er að séu í slíkum samningum.
    Falli samningur undir þessa grein er félagsstjórn skylt að afla skýrslu skv. 5. gr., sbr. 6. gr. og 6. gr. a – 6. gr. b. Skýrslan skal geyma yfirlýsingu þess efnis að samræmi sé milli greiðslu félagsins og þess endurgjalds sem félagið fær, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 5. gr. Skýrslan skal fylgja fundarboði til hluthafafundar og skal send hlutafélagaskrá.
    Sé samningur ekki bindandi fyrir félagið skulu greiðslu ganga til baka að því marki sem þær hafa verið inntar af hendi. Ákvæði 77. gr. gilda eftir því sem við á.
    Ákvæði 1.–3. mgr. gilda einnig um samninga er félag hefur gert við aðila sem er nákominn hluthafa eða nákominn móðurfélagi hluthafa eða einhvern sem kemur fram samkvæmt samningi eða með öðrum hætti með heimild einhverra þeirra sem nefndir eru í 1. mgr. Með nákomnum í þessari grein er átt við:
     1.      Hjón og þá sem búa í óvígðri sambúð, aðila í staðfestri samvist eða aðila í skráðri sambúð.
     2.      Þá sem eru skyldir í beinan legg eða fyrsta legg til hliðar en með skyldleika er í þessu sambandi einnig átt við tengsl sem skapast við ættleiðingu eða fóstur.
     3.      Þá sem tengjast með hjúskap, óvígðri sambúð, staðfestri samvist eða skráðri sambúð með sama hætti og um ræðir í 2. tölul.
     4.      Félag sem viðkomandi sjálfur eða einhver þeirra sem nefndir eru í 1.–3. tölul. hefur yfirráð yfir í skilningi 2. gr. laganna.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 72. gr. laganna:
     a.      Við 3. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ráðherra er í þess stað heimilt að setja það skilyrði að sá er biður um rannsókn skuli setja tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar. Félagið ber þá kostnaðinn endanlega. Greiði félagið ekki reikning innan þriggja mánaða frá dagsetningu hans glatar rannsóknarbeiðandi þó tryggingarfé sínu en á í þess stað kröfu á félagið.
     b.      Í stað orðsins „viku“ í 4. mgr. kemur: tvær vikur.

III. KAFLI
Lög um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum.
28. gr.

    Í stað orðanna „einn fimmta“ í 1. málsl. 2. mgr. 96. gr. laganna kemur: einn tíunda.

IV. KAFLI
Gildistaka o.fl.
29. gr.

    Með lögum þessum eru innleidd tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2009/385/EB frá 30. apríl 2009 um breytingu á tilmælum 2004/913/EB og 2005/162/EB að því er varðar starfskjör stjórnenda í félögum sem hafa fjármálagerninga sína tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

30. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er byggt á skýrslu þeirri er viðskiptaráðherra bað Lagastofnun Háskóla Íslands um að semja um minnihlutavernd í hlutafélögum og einkahlutafélögum og frumvarpsdrögum á þeim grundvelli. Að því verki stóðu Stefán Már Stefánsson og Eyvindur G. Gunnarsson. Þar að auki er bætt við ákvæðum um breytingu á reglum um starfskjör stjórnar og æðstu stjórnenda í hlutafélögum og einkahlutafélögum á grundvelli nýrra EES-tilmæla, ákvæðum um einfaldari leiðir varðandi undanþágu frá innköllunarskyldu við lækkun hlutafjár í hlutafélögum og einkahlutafélögum og fleiri atriði til einföldunar við undanþágur varðandi m.a. heimilisfesti stofnenda, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og útibússtjóra, svo og ákvæðum um tryggingu fyrir kostnaði vegna rannsóknar á hlutafélögum og einkahlutafélögum. Þar að auki er gert ráð fyrir þrengingu ákvæða varðandi sölu og kaup á eigin hlutum með tilliti til hæstaréttardóma nr. 228/2009 (Glitnir) og 350/2009 (Straumur-Burðarás).
    Tilgangur þessa lagafrumvarps er samkvæmt framansögðu fyrst og fremst að styrkja minnihlutavernd í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Það er grundvallarregla í félagarétti að meiri hluti hluthafa ræður öllu jöfnu ferðinni við ákvarðanatöku á hluthafafundi og fer því með æðsta vald í málefnum hvers hlutafélags, sbr. 1. mgr. 80. gr. nr. 2/1995, um hlutafélög, og 1. mgr. 55. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Meiri hlutinn hefur því afgerandi áhrif á niðurstöðu hluthafafundar og félagi er sjaldan eða aldrei unnt að mæta öllum óskum minni hlutans. Þó að hagsæld félagsins sé alla jafna helsta hagsmunamál hluthafa fara hagsmunir meiri hlutans og minni hlutans ekki ávallt saman. Áætlunum minni hlutans, jafnvel forsendum fjárfestingar hans í félaginu, kann að vera kastað fyrir róða með ákvörðunum hluthafafundar og hann verður að öllu jöfnu að láta sér það lynda ef félagið skilar takmörkuðum hagnaði eða jafnvel tapi af þeim ráðstöfunum. Reglum um minnihlutavernd er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að veita valdi meiri hlutans ákveðið mótvægi. Reglur um minnihlutavernd verða þó að hafa sín takmörk sem byggjast á því að virða verður ótvíræðan rétt meiri hlutans til þess að stjórna félaginu og fara með hagsmuni þess. Slík sjónarmið leiða einnig til þess að reglur um minnihlutavernd mega ekki íþyngja félagi um of.
    Reglur um minnihlutavernd eiga rætur að rekja til siðferðislegra og hagfræðilegra raka. Í hlutafélagalögum er leitast við að tryggja ákveðin siðferðileg grunngildi á borð við jafnræði og sanngirni. Væru þau gildi ekki tryggð í lögum gætu sterkir hópar auðgast með óréttmætum hætti á kostnað hópa sem njóta veikari stöðu. Þar sem vernd utanaðkomandi fjárfesta er tryggð með lögum og fylgt eftir af krafti eru fjárfestar taldir fúsari en ella til að fjármagna félög og fjármálamarkaðir fjölbreyttari og verðmætari í slíkum réttarkerfum.
    Umræða um minnihlutavernd hefur aukist á undanförnum árum og tengist gjarnan umræðu um stjórnarhætti fyrirtækja. Minnihlutavernd hluthafa er þó langt frá því að vera ný af nálinni. Frá setningu fyrstu laga um hlutafélög hér á landi hefur t.d. ávallt verið gert ráð fyrir að hverjum hlut fylgdu sömu réttindi þó að reglan hafi verið ólögfest fram til ársins 1978. Þrátt fyrir að réttindi minni hluthafa hafi frá setningu fyrstu hlutafélagalaganna, nr. 77/1921, verið tryggð að vissu marki var það ekki fyrr en við setningu laga nr. 32/1978, um hlutafélög, að sá vilji löggjafans að tryggja vernd minni hluta hluthafa birtist skýrt í lögum og lögskýringargögnum. Lögin höfðu að geyma fjölmörg nýmæli sem tryggja áttu minni hlutanum aukna vernd auk þess sem grundvallarreglur um jafna meðferð hluthafa og bann við ótilhlýðilegum ráðstöfunum voru lögfestar með ákvæðum laganna. Sem dæmi um réttindi, sem tekin voru upp í lögin frá 1978 og ætlað var að stuðla að sterkari stöðu minni hlutans gagnvart meiri hlutanum, má nefna réttinn til að fá ákveðið mál tekið til meðferðar á hluthafafundi, sbr. 86. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og fyrirspurnarrétt hluthafa og upplýsingaskyldu stjórnar á hluthafafundi, sbr. 91. gr. sömu laga. Við setningu gildandi laga nr. 2/1995, um hlutafélög, hélt þessi þróun áfram með ýmsum hætti, m.a. á grundvelli þeirra tilskipana Evrópubandalagsins sem þá höfðu verið teknar upp í íslensk lög.
    Lög nr. 89/2006, um breytingu á lögum um hlutafélög, stuðluðu einnig að aukinni vernd minni hlutans. Frumvarpið var samið með hliðsjón af niðurstöðum nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis sem viðskiptaráðherra skipaði í ársbyrjun 2004 og var meðal annars ætlað að taka á því hvernig bregðast mætti við aukinni samþjöppun í íslensku viðskiptalífi og hvernig haga bæri reglum til að tryggja skilvirkni og traust viðskiptalífsins. Meðal helstu nýmæla laganna voru reglur um starfskjarastefnu stjórnenda, rafræna hluthafafundi og samskipti og upplýsingaskyldu frambjóðenda til stjórnar um hagsmunatengsl. Auk þess var hluthöfum auðveldað að fara fram á sérstaka rannsókn á starfsemi félags (mörkin færð úr 1/4 hlutafjárins í 1/10 þess) og höfða skaðabótamál í nafni félags gegn forráðamönnum félags (mörkin færð úr 1/5 hlutafjárins í 1/10 þess). Þýðingarmiklar tillögur, sem nefnd viðskiptaráðherra hafði lagt til og var að finna í drögum að frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 89/2006, voru hins vegar ekki teknar upp í hlutafélagalög. Má þar nefna tillögur um lengingu lágmarksfrests til boðunar hluthafafundar í fjórtán daga, bann við því að stjórnarformaður taki að sér önnur störf fyrir félög en þau sem eru í verkahring hans og reglur um viðskipti tengdra aðila í hlutafélögum.
    Af öðrum breytingum, sem lagðar hafa verið til á undanförnum árum, má nefna frumvarp sem lagt var fyrir Alþingi á 130. og 131. löggjafarþingi. Þar var lögð til sú regla að áskilja sérfræðiskýrslu í tengslum við kaup félags á eignum hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og félögum sem fyrrgreindir aðilar eiga ráðandi hlut í. Frumvarpið fékk ekki mikla umfjöllun á Alþingi enda ríkti um það sátt þvert á flokkslínur. Málið kallaði hins vegar á nokkrar umræður í þjóðfélaginu og margir voru ekki á eitt sáttir um efni frumvarpsins. Frumvarpinu var vísað til efnahags- og viðskiptanefndar eftir fyrstu umræðu með samhljóða samþykki viðstaddra þingmanna. Þar hefur frumvarpið verið skráð til umfjöllunar í rúm fjögur ár en það var þó látið fylgja með þingsályktunartillögu um stöðu minni hluthafa sem lögð var fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi árið 2009.
    Að lokum ber að nefna nýlega samþykkt lög um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, lög nr. 13/2010. Í lögunum eru lagðar til breytingar á gildandi lögum er varða eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn. Mestu máli fyrir umfjöllunarefnið skipta þær breytingar sem lagðar eru til á reglum um eignarhald en þær varða aðeins hlutafélagalög. Í stuttu máli má segja að lögunum nr. 13/2010 sé markaður sá tilgangur að auka gagnsæi á eignarhaldi og atkvæðisrétti hluthafa og um leið skerpa á upplýsingaskyldu stjórnenda. Nú ber félagsstjórn til að mynda að sjá til þess að hlutaskrá geymi réttar upplýsingar á hverjum tíma, m.a. um atkvæðisrétt hluthafa og samstæðutengsl og undirbúa stutta samantekt um hlutafjáreign einstakra hluthafa og atkvæðisrétt þeirra og þær breytingar sem orðið hafa á árinu. Þessu til viðbótar nær upplýsingaskylda félagsstjórnar og framkvæmdastjóra á grundvelli 91. gr. hlutafélagalaga nú einnig til hlutafjáreignar einstakra hluthafa og atkvæðisréttar þeirra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að fyrir hendi sé svipuð heimild til handa efnahags- og viðskiptaráðherra til að framselja undanþáguvald til hlutafélagaskrár og vikið er að í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins varðandi undanþágu frá innköllunarskyldu vegna lækkunar hlutafjár. Ákvæði greinarinnar snerta nánar tiltekið undanþágu frá reglum um heimilisfesti stofnenda hlutafélaga, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna, og undanþágu þannig að t.d. frjáls félagasamtök geti verið meðal stofnenda hlutafélaga, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna.

Um 2. gr.


    Í þessari grein, sem er nýmæli ef að lögum verður, er mælt fyrir um að hluthafi geti krafist dóms fyrir því að félagið innleysi hlut hans í félaginu ef veigamikil rök standa til þess að honum verði gert kleift að losna úr félaginu vegna einhverra þeirra þriggja tilvika sem nefnd eru í 1.–3. tölul. 1. mgr. 26. gr. laganna. Það er þó skilyrði að innlausn leiði ekki til umtalsverðs tjóns fyrir félagið eða leiði með öðrum hætti til ósanngjarnrar niðurstöðu fyrir það. Auk þess á félagið þess kost að finna sjálft kaupanda að hlutabréfunum sem reiðubúinn er að greiða andvirði innlausnarverðsins. Reglan á sér fyrirmynd í norsku einkahlutafélagalögunum en sams konar innlausnarákvæði er ekki að finna í löggjöf annarra Norðurlanda. Leggja verður áherslu á að ströng skilyrði eru sett fyrir því að dómstóll geti beitt reglunni. Þannig verður að liggja fyrir brot á bannreglunni um öflun ótilhlýðilegra hagsmuna, misbeiting hluthafa á áhrifum sínum eða djúpstæður og langvarandi ágreiningur milli hluthafa. Ætla verður að talsvert þurfi til að koma svo að dómstólar fallist á kröfu þess hluthafa sem krefst innlausnar á grundvelli greinarinnar. Auk þess eru dómstólar bundnir þeirri reglu að krafa um innlausn verður ekki tekin til greina ef hún leiðir til umtalsverðs tjóns fyrir starfsemi félagsins eða er með öðrum hætti ósanngjörn fyrir það. Krafan verður heldur ekki tekin til greina ef félagið getur bent á annan hluthafa sem er reiðubúinn til þess að taka við hlutum þess hluthafa sem krefst innlausnar, gegn gjaldi sem svarar a.m.k. til innlausnarverðsins.
    Um innlausnarverðið er vísað til 4. mgr. 22. gr. hlutafélagalaga sem gildir eftir því sem við á. Liggi reikningsgrundvöllur ekki fyrir í samþykktunum eða samkomulag um innlausnarverðið verður mat að jafnaði að liggja fyrir. Það leiðir af eðli máls að málsókn má ekki dragast lengi frá þeim tíma er þeir atburðir gerðust sem urðu tilefni málsóknarinnar.

Um 3. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 53. gr. hlutafélagalaga, m.a. með tilliti til þess að ríkisstjórn Íslands samþykkti í október 2006 aðgerðaáætlun, Einfaldara Ísland. Í kjölfarið var skipaður samráðshópur ráðuneyta, skrifstofu Alþingis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins sem er forsætisráðherra til aðstoðar við að framfylgja áætluninni. Á grundvelli tillagna samráðshópsins gaf forsætisráðuneytið í apríl 2007 út leiðbeiningar til stjórnvalda um einföldun opinbers regluverks og stjórnsýslu. Þar er bent á leiðir til að draga úr reglubyrði fyrir almenning og atvinnulífið. Með reglubyrði er átt við þann tíma og kostnað sem hlýst af því að fara eftir opinberum reglum. Þær tillögur sem hér koma fram eru hluti af einföldunaráætlun fyrir efnahags- og viðskiptaráðuneytið og miða að því að einfalda stjórnsýsluframkvæmd þegar sótt er um undanþágu hvað varðar innköllunarskyldu (birtingu um lækkun hlutafjár í Lögbirtingablaði) en skýrsla um það efni var samin af viðskiptaráðuneytinu í september 2007.
    Í a-lið er lagt til að ráðherra verði heimilt að framselja vald sitt t.d. til hlutafélagaskrár. Með því móti væri unnt að koma í veg fyrir að þeir fulltrúar félaga sem hyggjast lækka hlutafé og hafa þá samskipti við hlutafélagaskrá þurfi að fara sérstaka aukaferð til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins til að fá undanþágu frá innköllunarskyldu.
    Í núgildandi lögum er kveðið á um yfirlýsingu, sem undirrituð er af stjórn félags og endurskoðendum, þess efnis að skuldir við lánardrottna félagsins séu því ekki til fyrirstöðu að hlutafjárlækkun fari fram. Í b-lið er lagt til að nákvæmar verði lýst því hverjir það eru sem skrifa skulu undir yfirlýsinguna en í framkvæmd hefur borið á því að ekki hafi allir stjórnarmenn skrifað undir slíka yfirlýsingu. Er frumvarpi þessu ætlað að leysa úr þeim vafa sem kann að vera uppi. Allir aðalmenn stjórnar félags ásamt endurskoðanda þurfi að skrifa undir. Þá er einnig lagt til að nú þurfi aðeins einn endurskoðandi, sbr. lög nr. 79/2008, um endurskoðendur, að skrifa undir yfirlýsinguna.

Um 4. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir breytingu á 3. mgr. 55. gr. laganna m.a. með hliðsjón af hæstaréttardómi nr. 228/2009 sem kveðinn var upp 29. október 2009, í máli Þorsteins M. Jónssonar, Björns Inga Sveinssonar, Hauks Guðjónssonar, Jóns Sigurðssonar, Katrínar Pétursdóttur, Péturs Guðmundarsonar og Skarphéðins Bergs Steinarssonar gegn Vilhjálmi Bjarnasyni. Þykir rétt að takmarka heimild stjórnar í hlutafélögum, þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF), til að ákveða fjárhæð þá sem félagið má reiða fram sem endurgjald fyrir kaup á eigin hlutum. Ákvæðin taka líka til sölu á hlutum þessara félaga. Er kveðið á um að miða skuli við síðasta skráða dagslokagengi á markaði áður en samningur var gerður til að draga úr líkum á kaupum á yfirverði eða sölu á undirverði. Heimilt mun vera samkvæmt EES-rétti að setja slíka reglu.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að í öðrum hlutafélögum geti hluthafar, sem ráða yfir minnst 5% hlutafjár, krafist þess innan mánaðar frá því að stjórn tilkynnir um samning að endurskoðanda verði falið að meta hvort verð það sem stjórn hefur samið um sé sanngjarn og efnislega rökstutt. Komist endurskoðandi að þeirri niðurstöðu að verð það, sem stjórn samdi um, hafi verið ósanngjarnt eða ekki nægileg rökstutt getur hluthafi eftir atvikum átt bótaábyrgð á hendur félaginu eða stjórn þess. Vísast til skaðabótakafla laganna í því sambandi. Hugsast getur að stjórn hafi gert fyrirvara í samningi um hugsanlegar athugasemdir hluthafa þannig að gera megi breytingar og ekki reyni á skaðabótaábyrgð.

Um 5. gr.


    Hér er gert ráð fyrir breytingu á 1. málsl. 2. mgr. 66. gr. laganna, með öðrum orðum möguleika á framsali efnahags- og viðskiptaráðherra til hlutafélagaskrár á valdi til að veita framkvæmdastjórum og stjórnarmönnum undanþágu frá heimilisfesti, sbr. nánari athugasemdir við 1. og 3. gr. frumvarpsins. Ákvæði 1. mgr. 140. gr. laganna um heimilisfesti útibússtjóra fara eftir reglum um heimilisfesti framkvæmdastjóra þannig að framsal undanþáguheimildar getur samkvæmt því náð til útibússtjóra.

Um 6. gr.


    Hér er gert ráð fyrir breytingu á 1. mgr. 76. gr. laganna. Samkvæmt henni mega félagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Samkvæmt frumvarpsgreininni eru skilyrði stjórnar og framkvæmdastjóra þrengd með því að fella niður orðið „bersýnilega“, sbr. nánar athugasemdir við 12. gr. frumvarpsins. Af hálfu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins þótti rétt að bæta þessu ákvæði inn í frumvarpið til að styrkja minnihlutavernd.

Um 7. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar á 79. gr. a í hlutafélagalögum en með 3. gr. laga nr. 89/2006 voru innleidd ákvæði úr tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2004/913/EB frá 14. desember 2004 um að stuðla að viðeigandi fyrirkomulagi að því er varðar starfskjör stjórnenda í markaðsskráðum félögum. Lagaákvæðin hér á landi voru þó látin ná til fleiri hlutafélaga, svo og sambærilegra einkahlutafélaga.
    Tillögurnar eru fram komnar vegna tilmæla framkvæmdastjórnarinnar 2009/385/EB frá 30. apríl 2009 um breytingu á tilmælum 2004/913/EB og 2005/162/EB að því er varðar starfskjör stjórnenda í félögum sem hafa fjármálagerninga sína tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði (óopinber þýðing). Nýrri málsgrein yrði bætt við 79. gr. a. Síðarnefndu tilmælin voru samþykkt í Evrópusambandinu og síðar sem EES-tilmæli vegna fjármálahrunsins, sbr ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 116/2009 frá 22. október 2009. Þykir starfskjarastefna í fyrirtækjum stundum hafa tekið mið af skammtímasjónarmiðum í stað langtímahagsmuna félaga. Er nú m.a. leitast við að hafa árangur félaga í huga, setja takmörk á breytilega þætti starfskjara, fresta útborgunum og miða t.d. við þrjú til fimm ár, gera ráð fyrir endurgreiðslum í vissum tilvikum og reyna að tryggja að starfslokagreiðslur séu ekki inntar af hendi í kjölfar slaks árangurs.
    Í 5. tölul. þessarar greinar, þar sem segir að stjórnarmenn skuli ekki njóta kaupréttar á hlutum o.þ.u.l., sbr. 3. tölul. 1. mgr. 79. gr. a í lögunum, skal tekið fram að töluliðurinn hljóðar svo: Hlutabréfa, kaup- og söluréttar, forkaupsréttar og annars konar greiðslna sem tengdar eru hlutabréfum í félaginu eða þróun verðs á hlutabréfum í félaginu.
    Þá hafa verið samþykkt tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2009/384/EB frá 30. apríl 2009 um starfskjarastefnu í fjármálageiranum (óopinber þýðing) en sú gerð er ekki tekin til meðferðar í þessu frumvarpi heldur verður hugað að samningu sérákvæða. Almenn ákvæði þessarar greinar gilda þó um starfskjarastefnu í fjármálageiranum nema sérákvæði víki þeim til hliðar.
    Bent skal á að tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2005/162/EB frá 15. febrúar 2005 um hlutverk stjórnarmanna, sem eru ekki framkvæmdastjórar, eða eftirlitsstjórnarmanna markaðsskráðra félaga, svo og um stjórnarnefndir (eftirlitsstjórnarnefndir), er breytt með gerð 2009/385/EB en þær breytingar eru ekki heldur teknar til meðferðar hér þar eð gert er ráð fyrir að Kauphöll Íslands, Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins hugi sem fyrr að leiðbeiningum og reglum hvað þetta varðar, m.a. um starfskjaranefnd í félögum.

Um 8. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á 81. gr. hlutafélagalaga að því er varðar umboðsmenn og ráðgjafa. Í 1. mgr. tilvitnaðs ákvæðis er hluthafa tryggður réttur til þess að hafa með sér ráðgjafa á hluthafafund, t.d. lögmann. Aftur á móti nýtur ráðgjafinn ekki málfrelsis að gildandi rétti. Í þessu frumvarpi er lögð til sú breyting að ráðgjafi njóti málfrelsis á hluthafafundi í skjóli þess hluthafa sem fékk hann til starfans. Þetta er í samræmi við norskan og sænskan rétt. Hópur þeirra sem á hlut í félögum er fjölbreyttur. Ætla má að hluthafar séu ekki allir vel í stakk búnir til að taka til máls á hluthafafundi, t.d. þegar um flókin málefni er að ræða. Engu að síður er mikilvægt að sjónarmið slíkra hluthafi komi fram. Það er því til þess fallið að styrkja minnihlutavernd í félögum að veita ráðgjafa málfrelsi á hluthafafundi.
    Þá er lögð til sú breyting að umboð til handa umboðsmanni gildi aldrei lengur en eitt ár frá dagsetningu þess. Regla gildandi laga um að umboð megi veita til allt að fimm ára þykir geta stuðlað um of að því að hluthafar verði óvirkir með því að láta umboðsmanninn um málefni sín yfir mjög langt tímabil. Eins árs frestur er einnig í samræmi við danskan og sænskan rétt.

Um 9. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á 85. gr. hlutafélagalaga. Ákvæði íslenskra laga um kröfu hluthafa um aukafund eru sambærileg við dönsk og sænsk ákvæði. Í norskum rétti er minni hluthöfum hins vegar tryggður ríkari réttur til að krefjast fundar þar eð þeir sem eiga 5% hlutafjár eða meira geta farið fram á fund. Á móti má benda á að í íslenskum rétti sem dönskum er ekki hefð fyrir því að færa jafnlitlum hópi hluthafa tiltekin réttindi, heldur eru lægstu mörk miðuð við eigendur 1/10 hlutafjárins. Helgast það viðhorf sennilega af því að ella sé hætta á að smærri hluthafar misnoti þau réttindi sem þeim eru veitt í lögum, félaginu til tjóns. Ákvæði 85. gr. hlutafélagalaga tryggir hluthöfum mikilsverð réttindi sem felast í því að eiga þess kost að ræða málefni félagsins. Beiting ákvæðisins er félaginu að jafnaði heldur ekki þungbær. Því þykir rétt að lækka áskilnað greinarinnar niður í 1/20 hlutafjárins.

Um 10. gr.


    Þær breytingar sem hér eru lagðar til á 88. gr. hlutafélagalaga varðandi lengingu á fresti til að boða hluthafafund voru einnig lagðar til í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum, sem lagt var fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006 og varð að lögum nr. 89/2006. Ákvæðið, sem fellt var út úr frumvarpinu í meðförum þingsins, byggðist á niðurstöðum nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis er viðskiptaráðherra skipaði (Íslenskt viðskiptaumhverfi, september 2004). Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar (þskj. 1183, 444. mál), sem fylgdi breytingartillögu um að fella ákvæðið um lengdan fundarboðunartíma brott, sagði að nefndin teldi ekki þörf á að lengja nefndan frest.
    Hér er lagt til að lögfest verði sama regla og lögð var til í framangreindu frumvarpi. Það sjónarmið þykir eðlilegt, sem fram kemur í skýrslunni Íslenskt viðskiptaumhverfi, að alla jafna hljóti að vera æskilegt að hluthafar hafi nægan tíma til að afla gagna og kynna sér þau mál sem til umfjöllunar verða á hluthafafundi. Þó er lagt til að boða megi til hluthafafundar með skemmst sjö daga fyrirvara ef hluthafar, sem ráða yfir a.m.k. 90% af hlutafé, samþykkja það fyrirfram skriflega. Að öðru leyti þykir um rökin fyrir frumvarpsgreininni rétt að vísa til athugasemda með frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum, sem varð að lögum nr. 89/2006. Í athugasemdunum sagði svo:
    „Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 88. gr. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 1. málsl. 1. mgr. þar sem fjallað er um boðun hluthafafundar. Lagt er til að skemmsti frestur til boðunar hluthafafundar verði lengdur úr einni viku í tvær.
    Breytingin er lögð til þar eð frestur núgildandi laga þykir of stuttur til að hluthafar geti kynnt sér þau mál sem taka á fyrir á fundinum en það hlýtur að vera æskilegt að hluthafar hafi nægan tíma til að afla gagna og kynna sér þau mál sem til umfjöllunar verða á hluthafafundi. Til samanburðar má geta þess að í dönskum hlutafélagalögum er kveðið á um að skemmsti frestur til boðunar hluthafafundar sé vika en í öðrum ríkjum Evrópusambandsins er slíkur lágmarksfrestur fjórtán til þrjátíu dagar.
    Í öðru lagi er lagt til að lögfest verði undantekning frá reglunni þess efnis að boða megi hluthafafund með skemmst einnar viku fyrirvara ef hluthafar, sem ráða yfir minnst 90% af hlutafé félagsins, samþykkja það fyrir fram skriflega. Líklegt er að heimildin verði helst notuð af félögum með fáa hluthafa en í slíkum tilvikum er fjórtán daga boðunarfrestur e.t.v. óþarflega langur.
    Í þriðja lagi eru í tveimur liðum lagðar til breyting á 4. mgr. ákvæðisins þar sem kveðið er á um framlagningu og útsendingu gagna fyrir hluthafafund. Fyrri breytingin tengist breytingu þeirri sem lögð er til í 1. tölul. þessarar greinar og miðar að því að gefa hluthöfum nægan tíma til að afla nauðsynlegra gagna og kynna sér þau fyrir hluthafafund. Lagt er til að þau gögn, sem talin eru upp í ákvæðinu, skuli leggja fram í síðasta lagi tveimur vikum fyrir hluthafafund nema í þeim tilvikum þar sem hluthafar, sem ráða yfir minnst 90% af hlutafé félagsins, samþykkja styttri boðunarfrest. Í slíkum tilvikum gildir sami frestur varðandi framlagningu gagna.“
    Taka má fram hér að samkvæmt lögum nr. 126/2009 um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (réttindi hluthafa), sem taka til hlutafélaga þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, gildir sú meginregla að boða skuli til hluthafafundar í þessum hlutafélögum (markaðsfélögum) minnst þremur vikum fyrir fundinn í stað einnar viku minnst samkvæmt lögum um hlutafélög. Sé unnt að boða til hluthafafundar rafrænt nægja þó tvær vikur og tíu dagar ef um framhaldshluthafafundi er að ræða. Lengist lágmarksfrestur samkvæmt þessu til boðunar í framangreindum félögum á grundvelli EES-reglna.

Um 11. gr.


    Í 91. gr. hlutafélagalaga er mælt svo fyrir að félagsstjórn og framkvæmdastjóri verði að kröfu hluthafa að leggja fram upplýsingar um þau málefni sem skipta máli um mat á ársreikningi félagsins, stöðu þess að öðru leyti eða áhrif geta haft á afstöðu hluthafa til mála sem bíða afgreiðslu fundarins. Upplýsingaskyldan gildir einnig um samband félagsins við félög innan sömu samstæðu. Þetta ákvæði er mikilvægur og hagnýtur þáttur í minnihlutavernd, einkum í stórum félögum þar sem áhrif smærri fjárfesta eru takmörkuð og þeir hafa hagsmuni af því að draga málefni félagsins fram í dagsljósið.
    Eins og fram kemur í 91. gr. eru takmörk á því hvaða upplýsingar verði veittar. Þannig er stjórninni ekki skylt að leggja fram upplýsingarnar ef það er mat hennar að framlagning upplýsinga á hluthafafundi sé til tjóns fyrir félagið. Félagsstjórnin hefur því lokaorð um hvort upplýsingar séu skaðlegar félaginu. Í þessu ljósi virðist auðvelt fyrir stjórn að skýla sér bak við ákvæðið til þess að komast hjá upplýsingagjöf. Þess vegna má færa rök fyrir því að skilyrði núgildandi laga fyrir upplýsingagjöf sé of þröngt. Hér er því lagt til að skerpt verði á upplýsingaréttinum með því að áskilja að upplýsingar verði að valda félagi verulegu tjóni svo að félagsstjórn og framkvæmdastjóri geti vikist undan upplýsingagjöf. Þetta er til samræmis við norrænan rétt.

Um 12. gr.


    Í 95. gr. hlutafélagalaga er að finna meginreglu um minnihlutavernd. Þar kemur fram að hluthafafundur megi ekki taka ákvörðun sem bersýnilega er til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Ákvæðið á því aðeins við að ákvörðun sé „bersýnilega“ til þess fallin að ívilna hluthöfum eða öðrum með þeim hætti sem í greininni segir. Af þessu leiðir að talsvert þarf til að koma svo að reglunni verði beitt. Færa má gild rök fyrir því að skilyrðið sé of strangt fyrir hluthafa sem vilja véfengja ákvörðun hluthafafundar. Hér er því lagt til að orðið „bersýnilega“ verði fellt brott úr greininni. Breytingin er til þess fallin að styrkja minnihlutavernd með því að auðvelda einstökum hluthöfum að byggja rétt á 95. gr. hlutafélagalaga. Sú breyting sem hér er lögð til er í samræmi við norskan og sænskan rétt.

Um 13. gr.


    Þessi grein, sem er nýmæli ef að lögum verður (95. gr. a), á sér ákveðna hliðstæðu í II. kafla hlutafélagalaganna um stofnun hlutafélaga. Í 8. gr. hlutafélagalaga segir m.a. annars að afli félag annarra fjárhagsverðmæta en greinir í 6. gr. frá stofnanda eða hluthafa þurfi samþykki hluthafafundar ef endurgjaldið nemur að minnsta kosti 1/10 hlutafjárins. Í norskum lögum er að finna ákvæði sem eru efnislega samhljóða 8. gr. hlutafélagalaga enda eiga ákvæðin bæði rætur að rekja til 1. mgr. 11. gr. annarrar félagaréttartilskipunarinnar (77/91/ EBE). Greinunum er ætlað að tryggja þá hagsmuni hluthafa og lánardrottna að hlutaféð haldist innan félagsins enda eru umræddar ráðstafanir fyrirfram taldar tortryggilegar.
    Í norskum lögum eru svipuð ákvæði og hér eru lögð til og taka til viðskipta milli tengdra aðila. Reglan er hugsuð sem viðbót við þær reglur sem gilda um viðtöku félags við endurgjaldi í öðru en peningum þegar um stofnun hlutafélags og hlutafjárhækkun er að ræða. Hún verndar hluthafa og lánardrottna gegn því að aðrir hluthafar grípi til ótilhlýðilegra ráðstafana á kostnað félagsins.
    Umrætt ákvæði tekur til samninga milli félagsins og ýmissa fyrirsvarsmanna þess og tengdra aðila. Samningar, sem fara fram úr ákveðnu hámarki, þ.e. nema að raunvirði meira en 1/20 hlutafjárins, binda ekki félagið nema að fengnu samþykki hluthafafundar. Ákvæði þetta gildir fyrst og fremst milli félagsins og hluthafa, móðurfélags hluthafa, stjórnarmanns og framkvæmdastjóra. Skv. 4. mgr. þessarar greinar frumvarpsins tekur ákvæðið einnig til samninga sem félagið hefur gert við aðila sem er nákominn hluthafa eða nákominn móðurfélagi hluthafa eða einhvern sem kemur fram samkvæmt samningi eða með öðrum hætti með heimild einhverra þeirra sem nefndir eru í 1. mgr. Skilgreiningu hugtaksins nákomnir er ekki að finna í hlutafélagalögum. Aftur á móti er lagt til í þessari málsgrein að hugtakið verði skilgreint sérstaklega. Hefur það verið gert einkum með hliðsjón af norskum lögum en einnig var litið til 3. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Um 14. gr.


    Ákvæði íslensks réttar um sérstakar rannsóknir eru minni hluthöfum tiltölulega hliðhollar. Hluthöfum í íslenskum hlutafélögum er mun auðveldara að krefjast rannsóknar en t.d. hluthöfum danskra hlutafélaga. Í Noregi og Svíþjóð þarf hins vegar minna til að krefjast sérstakrar rannsóknar. Með tilliti til þess að sérstök rannsókn felur í sér talsvert inngrip í starfsemi félags og hætta getur skapast á að úrræðið verði misnotað, ef skilyrði fyrir beitingu eru gerð of rúm, er ekki talið tilefni til að rýmka skilyrðin til samræmis við norsk eða sænsk hlutafélagalög.
    Tvær breytingar eru lagðar til á 97. gr. hlutafélagalaga.
    Í a-lið er lagt til að sett sé svipað ákvæði um tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar af rannsókn og er í 87. gr. hlutafélagalaga um tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar vegna boðunar til fundar. Er ætlunin að taka af tvímæli um að þessi leið sé heimil enda getur núverandi ákvæði leitt til þess að erfitt verði að fá menn til að annast rannsóknir ef óljóst er með greiðslugetu félags. Er gert ráð fyrir því að sá er biður um rannsókn setji tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar í þessum tilvikum en félagið beri þann kostnað endanlega. Nú greiðir félagið ekki reikning innan þriggja mánaða frá dagsetningu hans og glati rannsóknarbeiðandi þá tryggingarfé sínu en á í þess stað kröfu á félagið. Núverandi leið laganna verður þó áfram fær, þ.e. að ráðherra tilnefni rannsóknarmann sem fái greidda þóknun frá félaginu samkvæmt ákvörðun ráðherra en beri áhættuna af því að fá ekki greiðslu frá félaginu.
    Í b-lið er lagt til að tímabilið, sem hluthafar hafa til að skoða skýrslu rannsóknarmanna, sé lengt úr einni viku í tvær. Er breytingunni ætlað að tryggja ákveðið samræmi milli 97. gr. og reglna hlutafélagalaga um boðun til hluthafafundar.

Um 15. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á 3. gr. laganna um einkahlutafélög. Vísað er til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.

Um 16. gr.


    Í þessari grein er lagt til að á eftir 18. gr. laganna um einkahlutafélög komi ný grein er verði 18. gr. a. Vísað er til athugasemda við 2. gr. frumvarpsins.

Um 17. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á 36. gr. laganna um einkahlutafélög. Vísað er til athugasemda við 3. gr. frumvarpsins.

Um 18. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á 3. málsl. 2. mgr. 42. gr. laganna um einkahlutafélög. Vísað er til athugasemda við 5. gr. frumvarpsins. Ákvæði 1. mgr. 114. gr. laganna um heimilisfesti útibússtjóra fara eftir reglum um heimilisfesti framkvæmdastjóra þannig að framsal undanþáguheimildar getur samkvæmt því náð til útibússtjóra.

Um 19. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á 1. mgr. 51. gr. laganna um einkahlutafélög. Vísað er til athugasemda við 6. gr. frumvarpsins.

Um 20. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á 54. gr. a í lögunum um einkahlutafélög. Vísað er til athugasemda við 7. gr. frumvarpsins en tilvísun skal vera í c-lið 1. mgr. 54. gr. a í lögunum um einkahlutafélög.

Um 21. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á 56. gr. laganna um einkahlutafélög. Vísað er til athugasemda við 8. gr. frumvarpsins.

Um 22. gr.


    Í þessari grein er lögð til breyting á 60. gr. laganna um einkahlutafélög. Vísað er til athugasemda við 9. gr. frumvarpsins.

Um 23. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 63. gr. laganna um einkahlutafélög. Vísað er til athugasemda við 10. gr. frumvarpsins.

Um 24. gr.


    Í greininni er lögð til breyting á 66. gr. laganna um einkahlutafélög. Vísað er til athugasemda við 11. gr. frumvarpsins.

Um 25. gr.


    Í greininni er lögð til breyting á 70. gr. laganna um einkahlutafélög. Vísað er í athugasemdir við 12. gr. frumvarpsins.

Um 26. gr.


    Hér er lagt til að á eftir 70. gr. laganna um einkahlutafélög komi ný grein er verði 70. gr. a. Vísað er til athugasemda við 13. gr. frumvarpsins. Sá munur er þó á að í einkahlutafélögum er miðað við 1/10 hlutafjárins en ekki 1/20 eins og í hlutafélögum.

Um 27. gr.


    Í greininni er lögð til breyting á 72. gr. laganna um einkahlutafélög. Vísað er til athugasemda við 14. gr. frumvarpsins.

Um 28. gr.


    Í 2. mgr. 96. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, er mælt fyrir um að félagsmenn sem fara með minnst einn fimmta hluta þeirra atkvæða á aðalfundi, þar sem kjósa skal endurskoðendur, endurskoðunarfélag eða skoðunarmenn, geti krafist þess að stjórn félags beini þeim tilmælum til ársreikningaskrár að hún tilnefni endurskoðanda til að taka þátt í endurskoðunarstörfum með þeim sem kjörnir eru fram til næsta aðalfundar. Telji skráin ástæðu til að verða við ósk hluthafanna skal hún tilnefna endurskoðanda til starfans. Þóknun endurskoðandans skal greidd af félaginu. Augljóst er að ákvæðinu er ætlað að tryggja minnihlutavernd enda er endurskoðandi, sem ráðinn er á grundvelli svipaðra ákvæða í norrænni löggjöf, nefndur endurskoðandi minni hlutans (minoritetsrevisor). Endurskoðandi, sem tilnefndur er af ársreikningaskrá, stendur jafnfætis endurskoðendum sem kjörnir eru á hluthafafundum. Hann nýtur sömu réttinda og ber sömu skyldur. Í danskri réttarframkvæmd hefur verið talið að ekki sé unnt að þrengja verksvið endurskoðanda minni hlutans, t.d. með því að fela honum ákveðin verkefni. Ætla verður að sömu sjónarmið gildi hér á landi.
    Reglur íslensks réttar um tilnefningu endurskoðanda að kröfu hluthafa eru frábrugðnar reglum annarra samanburðarlanda að tvennu leyti. Í fyrsta lagi er regluna ekki að finna í hlutafélagalögunum sjálfum, líkt og í öðrum samanburðarlöndum. Helgast þetta væntanlega af því að í íslenskum hlutafélagalögum er ekki að finna sérstakan kafla um endurskoðun líkt og annars staðar. Ekki verður séð að það skipti sköpum um minnihlutavernd að ákvæðið sé í hlutafélagalögunum sjálfum. Í öðru lagi eru hlutfallslegar kröfur íslensku greinarinnar til verndar minni hlutanum strangastar í öllum samanburðarlöndunum. Þannig þarf krafan að stafa frá hluthöfum sem ráða yfir 20% hlutafjárins eða meira hér á landi en sama skilyrði er 10% í Danmörku og 5% í Noregi. Í Svíþjóð þarf ýmist samþykki hluthafa er ráða yfir 10% hlutafjárins eða 33,3% þess hlutafjár sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundinum. Á tveimur stöðum í íslenskri hlutafélagalöggjöf er krafist samþykkis hluthafa sem ráða yfir minnst 1/5 hluta hlutafjárins. Á það við um kröfu um dóm um félagsslit, sbr. 1. mgr. 106. gr. hlutafélagalaga, og kröfu um hlutfalls- og margfeldiskosningu við stjórnarkjör í félögum þar sem hluthafar eru 200 eða færri, sbr. 7. mgr. 63. gr. hlutafélagalaga. Í félögum, þar sem hluthafar eru fleiri en 200, geta hluthafar, sem ráða yfir minnst 1/10 hlutafjárins, einnig gert slíka kröfu. Þótt slík regla kunni að vera réttlætanleg þegar um félagsslit er að ræða verður ekki talið að tilnefning endurskoðanda að kröfu hluthafa feli í sér svo mikið inngrip í rekstur félags að það þörf sé á áskilnaði um samþykki hóps sem ræður yfir 1/5 hlutafjárins eða meira. Í þessari grein er því lagt til að mörkin verði færð niður í 1/10 hlutafjárins. Slík breyting stuðlar bæði að bættri minnihlutavernd og auknu samræmi lagaákvæða sem tryggja slíka vernd.

Um 29. gr.


    Í greininni er greint frá heimild vegna innleiðingar EES-tilmæla um starfskjör stjórnenda, sbr. athugasemd við 7. gr. frumvarpsins.

Um 30. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um hlutafélög,
lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga.

    Markmið frumvarpsins er að styrkja minnihlutavernd í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Í því eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga. Í frumvarpinu er einnig lögð til breyting á reglum um starfskjör stjórna og æðstu stjórnenda í hlutafélögum og einkahlutafélögum á grundvelli nýrra EES-tilmæla. Er það gert til að halda starfskjörunum innan hóflegra marka, m.a. með tilliti til varanlegs árangurs í rekstri félaganna. Þá eru í frumvarpinu ákvæði sem heimila ráðherra að framselja vald sitt til hlutafélagskrár, meðal annars um innköllunarskyldu við lækkun hlutafjár.
    Verði frumvarpið lögfest verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.