Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 575. máls.

Þskj. 966  —  575. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála, með síðari breytingum (gæðamál, tryggingarfjárhæðir).

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
              f.      leggja fram staðfestingu um ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi,
              g.      búa yfir nægilegri þekkingu eða starfsreynslu til að geta gegnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt að mati Ferðamálastofu.
     b.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ferðamálastofu er heimilt að óska frekari gagna í tengslum við leyfisveitingu.

2. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um umsóknir um leyfi, framkvæmd leyfisveitinga og eftirlit með leyfishöfum, þar á meðal um flokkun leyfa og öryggismál.

3. gr.

    Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, svohljóðandi:
    Vegna mikilla breytinga á neytendamarkaði er Ferðamálastofu heimilt samkvæmt rökstuddri beiðni ferðaskrifstofu og framlagningu tilskilinna gagna skv. 4. mgr. 18. gr. að veita tímabundna undanþágu varðandi mat á tryggingarfjárhæð fyrir árið 2010. Skilyrði fyrir undanþágunni eru þau að verulegur samdráttur hafi orðið í sölu alferða ferðaskrifstofu. Við ákvörðun Ferðamálastofu um veitingu undanþágu samkvæmt ákvæðinu skal tekið mið af 14. gr. Að öðru leyti gilda ákvæði 17. gr.
    Ferðamálastofu er heimilt að endurskoða ákvörðun sína til hækkunar ef í ljós kemur að aukning hefur orðið á farþegafjölda og/eða alferðum hefur fjölgað og/eða rekstrartekjur vegna alferða hafa aukist hjá ferðaskrifstofu sem hlotið hefur undanþágu skv. 1. mgr. Við mat á því hvort aukning hjá ferðaskrifstofu hafi orðið svo mikil að rétt sé að endurskoða ákvörðun, skal leggja til grundvallar hagsmuni neytenda.

4. gr.

    Við 18. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 4. mgr., svohljóðandi:
    Óski ferðaskrifstofa eftir undanþágu skv. 1. mgr. 17. gr. a er Ferðamálastofu heimilt að taka beiðnina til athugunar þegar eftirfarandi gögn hafa borist henni:
     a.      rökstudd beiðni fyrir undanþágu,
     b.      endurskoðaður ársreikningur fyrir árið á undan; þó er heimilt að leggja fram óendurskoðaðan ársreikning, áritaðan af endurskoðanda,
     c.      tryggingaskyld velta ársins á undan, sundurgreind eftir mánuðum, staðfest af endurskoðanda,
     d.      áætlun yfir tryggingaskylda veltu yfirstandandi árs, sundurgreind eftir mánuðum, staðfest af endurskoðanda.
    Að öðru leyti gilda ákvæði 3. mgr. um árleg skil ferðaskrifstofa.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á árinu 2009 barst iðnaðarráðuneytinu töluverður fjöldi kæra vegna ákvarðana Ferðamálastofu um fjárhæðir trygginga vegna alferða, í samræmi við lög nr. 73/2005, um skipan ferðamála. Í kjölfar þess ákvað iðnaðarráðherra að skipa nefnd sem m.a. skyldi leggja fram breytingar á ákvæðum laganna. Nefndin er skipuð fulltrúum iðnaðarráðuneytis, Ferðamálastofu, Samtaka ferðaþjónustunnar og Neytendasamtakanna og einum endurskoðanda. Iðnaðarráðherra fór einnig fram á það við nefndina að skoðuð yrðu ákvæðin um leyfisveitingar með tilliti til öryggis og gæðakrafna. Er það frumvarp sem nú er lagt fram afrakstur þeirrar nefndar.
    Gagnrýni ferðaskrifstofa vegna útreiknings fjárhæðar trygginga vegna alferða hefur m.a. beinst að því að sú regla, að miða við veltu ársins á undan, þegar það á við, við útreikning fjárhæðarinnar komi sér afar illa nú í kjölfar efnahagskreppu þar sem sala alferða til útlanda hafi dregist mjög mikið saman milli ára. Enn fremur hefur verið erfiðara fyrir ferðaskrifstofur að fá bankaábyrgðir fyrir umræddum tryggingum. Hins vegar er ljóst að allar breytingar, er varða útreikning tryggingarfjárhæðar, verða að taka mið af því markmiði laganna að tryggja neytendavernd.
    Í núgildandi lögum um skipan ferðamála hefur Ferðamálastofa ekki heimild til að halda tryggingum óbreyttum eða lækka mat tryggingarfjárhæðar ef framlögð gögn gefa tilefni til hækkunar, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna.
    Við síðustu ákvarðanir Ferðamálastofu um tryggingarfjárhæðir vegna alferða hafa ferðaskrifstofur í einhverjum tilvikum sætt verulegri hækkun á tryggingum, um tugi eða jafnvel hundruði milljóna, milli áranna 2009 og 2010, þrátt fyrir samdrátt í rekstri milli ára, fækkun ferða og farþega. Ástæðan er m.a. sú að tryggingar fyrir árið 2010 eru metnar út frá veltutölum 2008 sem var gott rekstrarár ferðaskrifstofa en verulegur samdráttur hefur orðið í ferðum til útlanda.
    Áríðandi er að geta komið til móts við ferðaskrifstofurnar og verða við óskum þeirra um óbreyttar tryggingar eða lækkun þeirra með tilliti til efnahagsástandsins án þess þó að skerða þá neytendavernd sem lögunum er ætlað að tryggja. Til að svo megi verða er þörf á lagabreytingu með setningu tímabundins undanþáguákvæðis, eins og hér er lagt til, þar sem Ferðamálastofu er veitt heimild til að ákveða að fjárhæð trygginga geti haldist óbreytt eða lækkað samkvæmt rökstuddri beiðni ferðaskrifstofu. Með því væri verið að koma til móts við fyrirtæki á erfiðum tímum en á sama tíma verði þess gætt að ekki verði gengið á neytendaverndina.
    Í ljósi ört vaxandi ferðaþjónustu er áríðandi að huga að gæðum ferðaþjónustu og öryggi ferðamanna. Í því sambandi verður að gera auknar kröfur til þjónustuveitenda. Ef gæði ferðaþjónustu eru ekki nægilega mikil og skortur er á öryggi ferðamanna er mikil hætta á að íslensk ferðaþjónusta standist ekki samanburð í harðri samkeppni við önnur lönd.
    Vegna margbreytileika afþreyingarfyrirtækja í ferðaþjónustu er lagt til í frumvarpi þessu að iðnaðarráðherra verði heimilt að setja ákvæði í reglugerð m.a. um flokkun leyfa, öryggismál og eftirlit. Mikilvægt er að samráð verði haft við fagaðila í ferðaþjónustunni við setningu slíkrar reglugerðar til að tryggt verði að framkvæmdin verði sem líkust milli ferðaþjónustuaðila. Þannig má ferðamönnum verða ljóst að sömu kröfur eru gerðar til öryggis hjá öllum ferðaþjónustuaðilum.
    Til að tryggja neytendasjónarmið er lagt til að umsækjendur um ferðaskrifstofu- og ferðaskipuleggjendaleyfi þurfi að leggja fram ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi sem og að tilhlýðileg þekking sé fyrir hendi af hálfu umsækjenda um ferðaskrifstofu- og ferðaskipuleggjendaleyfi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í a-lið er lagt til að tveir nýir stafliðir bætist við 2. mgr. 9. gr. laganna. Í núgildandi 2. mgr. er gerð grein fyrir skilyrðum þeim er þurfa að vera uppfyllt til að hægt sé að veita ferðaskrifstofu- eða ferðaskipuleggjendaleyfi. Lagt er til að við ákvæðið bætist nýr stafliður, f-liður, þar sem gert er að skilyrði að umsækjendur um ferðaskrifstofu- og ferðaskipuleggjendaleyfi þurfi að sýna fram á þeir hafi ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi. Mikilvægt er að ferðamenn geti treyst því að tryggingamál ferðaþjónustuaðila séu í lagi.
    Einnig er lagt til að bætt verði við nýjum staflið, g-lið, þar sem gert er að skilyrði að þeir sem bjóða upp á afþreyingarferðir búi yfir nægilegri þekkingu eða starfsreynslu til að geta gegnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt. Mikil fjölgun hefur orðið á útgáfu ferðaskipuleggjendaleyfa síðastliðin tvö ár. Mikilvægt er að þeir sem selja þjónustu hafi þekkingu eða reynslu á sínu sviði. Núverandi staða gefur hverjum sem er tækifæri til að hefja starfsemi óháð því hvort þekking og/eða reynsla búi að baki. Líklegt er að sá sem býr yfir reynslu eða þekkingu hafi aflað sér hennar t.d. með námskeiðum og viðeigandi menntun, í björgunarsveit, fyrra starfi o.s.frv.
    Í b-lið er lagt til að Ferðamálastofu verði heimilt að óska frekari gagna í tengslum við leyfisveitingu. Það er Ferðamálastofu að meta í hverju tilfelli fyrir sig hvort þörf sé á frekari gögnum í tengslum við leyfisveitingu.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að heimild ráðherra til setningar reglugerðar verði afmörkuð á skýrari hátt en áður, þ.e. ráðherra er heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um umsóknir um leyfi, framkvæmd leyfisveitinga og eftirlit með leyfishöfum, þar á meðal um flokkun leyfa og öryggismál.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. er að finna undanþáguákvæði sem veitir Ferðamálastofu heimild til að víkja frá skilyrðum 1. mgr. 17. gr. laganna. Um er að ræða heimildarákvæði sem skýra ber þröngt og á aðeins við um ástæður sem rekja má til mikils samdráttar í efnahagslífi og breyttu ferðamynstri ferðamanna í kjölfarið. Í undanþágunni felst að Ferðamálastofu er heimilt að ákvarða hæsta gildi tryggingarfjárhæðar skv. 1. mgr. 17. gr. á grundvelli nýrra gagna samkvæmt nýrri 4. mgr. 18. gr. laganna, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Enn fremur er það gert að skilyrði að verulegur samdráttur hafi orðið í rekstri ferðaskrifstofu. Því þarf beiðni ferðaskrifstofu að vera vel rökstudd og ítarleg. Í því felst að fram þurfa að koma m.a. ástæður beiðninnar, upplýsingar um hvort farþegar eru að koma frá útlöndum eða fara til útlanda á vegum ferðskrifstofunnar, fækkun farþega á milli ára staðfest af endurskoðanda, hvenær árs flestir farþegar eru erlendis á vegum ferðaskrifstofunnar o.s.frv.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að Ferðamálastofu sé heimilt að endurskoða ákvörðun sína þegar hún telur að skilyrði undanþágunnar skv. 1. mgr. 17. gr. a séu ekki lengur fyrir hendi. Má sem dæmi nefna ef ferðaskrifstofa tekur yfir rekstur annarrar ferðaskrifstofu þá sé Ferðamálastofu heimilt að endurskoða ákvörðun vegna þeirrar ferðaskrifstofu sem tekur yfir reksturinn.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um framlagningu gagna vegna undanþágubeiðni ferðaskrifstofa skv. 1. mgr. 17. gr. a. Ferðamálastofu er heimilt að taka til athugunar hvort veita skuli undanþágu skv. 1. mgr. 17. gr. a þegar eftirfarandi gögn hafa borist: a) rökstudd beiðni fyrir undanþágunni, b) endurskoðaður ársreikningur fyrir árið á undan, en þó er veitt heimild til að leggja fram óendurskoðaðan ársreikning ef endurskoðaður ársreikningur er ekki tilbúinn; hins vegar er gerð sú krafa að óendurskoðaður ársreikningur sé áritaður af endurskoðanda, c) tryggingaskyld velta ársins á undan staðfest af endurskoðanda og d) áætlun yfir tryggingaskylda veltu yfirstandandi árs. Áætlunin skal staðfest af endurskoðanda. Að öðru leyti gilda ákvæði 3. mgr. 18. gr. um árleg skil ferðaskrifstofa. Þrátt fyrir að ferðaskrifstofum sé veitt undanþága verða þær engu að síður að skila inn gögnum fyrir 1. október skv. 3. mgr. 18. gr.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 73/2055,
um skipan ferðamála.

    Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi er lagt til tímabundið undanþáguákvæði þar sem Ferðamálaskrifstofu er veitt heimild til að ákveða að fjárhæð trygginga vegna alferða geti haldist óbreytt eða lækka hana samkvæmt rökstuddri beiðni ferðaskrifstofu. Í öðru lagi er lagt til að iðnaðarráðherra verði heimilt að setja ákvæði í reglugerð m.a. um flokkun leyfa, öryggismál og eftirlit. Í þriðja lagi er lagt til að umsækjendur um ferðaskrifstofu- og ferðaskipulagsleyfi leggi fram ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi sem og að viðeigandi þekking sé fyrir hendi af hálfu umsækjenda um ferðaskrifstofu- og ferðaskipulagsleyfi.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.