Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 475. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 990  —  475. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar um kostnað ríkissjóðs vegna reglugerðar nr. 190/2010.

     1.      Hvað er gert ráð fyrir að margir einstaklingar geti nýtt sér ákvæði reglugerðar nr. 190/ 2010, um þátttöku sjúkratrygginga í nauðsynlegum tannlækninga- og tannréttingakostnaði sjúkratryggðra vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, sjúkdóma og slysa?
    Miðað við þann fjölda einstaklinga sem á undanförnum árum hefur notið greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannlækna- og tannréttingakostnaðar sem fellur undir alvarlegar afleiðingar meðfæddra galla, sjúkdóma og slysa og að teknu tilliti til breytinga á íbúafjölda samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands er áætlað að um 77–80 einstaklingar geti nýtt sér ákvæði reglugerðarinnar á næstu árum.

     2.      Hvað eru það margir einstaklingar umfram þann fjölda sem gat nýtt sér eldri reglugerðir um sömu mál?
    Skilyrði fyrir greiðsluþátttöku sjúkratrygginga samkvæmt reglugerð nr. 190/2010 eru þau sömu og samkvæmt eldri reglugerðum um sama efni. Þannig njóta engir sjúkratryggðir einstaklingar réttinda til greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í tannlækna- og tannréttingakostnaði samkvæmt nýju reglugerðinni sem ekki nutu slíkra réttinda samkvæmt eldri reglugerðum.

     3.      Hvað er gert ráð fyrir að greiddar verði út háar fjárhæðir vegna reglugerðarinnar?
    Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld sjúkratrygginga vegna reglugerðarinnar á árinu 2010 verði 120 millj. kr.

     4.      Hversu hærri eru þær fjárhæðir þeim sem gert var ráð fyrir að greiða út samkvæmt eldri reglugerðum um sömu mál?
    Áætlað er að útgjöld sjúkratrygginga muni hækka um 60 millj. kr. á ári vegna reglugerðar nr. 190/2010 umfram kostnað af þeim reglugerðum sem hún leysir af hólmi. Af auknum kostnaði eru 28 millj. kr. vegna tannréttinga og 32 millj. kr. vegna tannlækninga á árinu 2010.

     5.      Hver eru kostnaðaráhrif 6. gr. reglugerðarinnar?
    Í 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram að Sjúkratryggingar Íslands greiða 95% nauðsynlegs kostnaðar vegna tannlækninga og tannréttinga þeirra sem undir reglugerðina heyra samkvæmt framlögðum reikningum. Greinin lýsir framkvæmd reglugerðarinnar og hefur ekki kostnað í för með sér umfram þann sem greint var frá í svari við 4. tölul. hér að framan.

     6.      Hve há er fjárheimild ársins 2010 til greiðslu kostnaðar samkvæmt reglugerðinni?
    Framlög til tannlækninga í fjárlögum eru ekki sérgreind eftir þeim reglugerðum sem liggja að baki greiðsluþátttöku. Er því ekki sérgreind fjárheimild í fjárlögum vegna reglugerðar nr 190/2010. Í fjárlögum ársins 2010 eru fjárveitingar tannlæknakostnaðar (08206-1.35) 1.672 millj. kr. og skal sú fjárhæð standa undir öllum kostnaði vegna greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í tannlækna- og tannréttingakostnaði sjúkratryggðra einstaklinga, þ.m.t. þess hóps sem fellur undir reglugerð nr. 190/2010. Á undanförnum árum hafa greiðslur sjúkratrygginga af þessum lið verið vel innan marka fjárveitinga og gera áætlanir Sjúkratrygginga Íslands ekki ráð fyrir að á því verði breyting á árinu 2010. Það svigrúm mun nýtast til að greiða aukinn kostnað sem reglugerð nr. 190/2010 kann að hafa í för með sér, sbr. 4. tölul. hér að framan.