Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 371. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1029  —  371. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum.

Frá minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



    Þegar frumvarp um veiðieftirlitsgjald var lagt fram í febrúarmánuði sl. mátti hvorki ráða af athugasemdum sem því fylgdu né framsöguræðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort um var að ræða skatt eða þjónustugjald sem ætlað væri að standa undir skilgreindri þjónustu. Það var fyrst þegar eftir því var gengið við 1. umræðu málsins að ráðherra greindi frá því að hér væri á ferðinni ný skattheimta. Þessi nýi strandveiðiskattur er sértæk skattlagning á hluta fiskveiðiflotans.
    Hinn nýi skattur er afar óvanalegur, svo ekki sé meira sagt. Hann er lagður á hvert útgefið strandveiðileyfi, innheimtur af Fiskistofu og síðan úthlutað til þeirra hafna þar sem afla strandveiðibáta er landað, í hlutfalli við aflamagnið. Skatturinn er ekki sérstaklega ætlaður til þess að standa straum af kostnaðarauka hafnanna vegna strandveiðanna sjálfra. Hafnirnar hafa til þess tiltekna tekjustofna, svo sem aflagjald og aðrar gjaldskrár. Nýi skatturinn er því eingöngu hugsaður sem almennur viðbótartekjustofn fyrir hafnirnar í landinu. Fyrir þær er þetta því væntanlega kærkomin búbót.
    Á síðasta fiskveiðiári fengu tæplega 600 bátar leyfi til strandveiða. Öruggt má telja að þeir verði síst færri nú. Sennilega verða þeir mun fleiri í ljósi þess að mjög hefur nú gengið á þorskkvóta og strandveiðarnar fela í sér 6.000 tonna kvótaaukningu, sem einvörðungu er ætluð til handfæraveiða að sumarlagi. Hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra brugðist þannig við kröfum um auknar aflaheimildir að vísa á strandveiðarnar. Ætla má að margir útgerðarmenn minni báta bregðist jákvætt við ábendingum ráðherrans. Því má telja að hin sértæka skattheimta af strandveiðibátunum geti numið um 30–40 millj. kr. á yfirstandandi fiskveiðiári.
    Minni hlutinn óskaði eftir því að máli þessu yrði vísað til efnahags- og skattanefndar vegna eðlis málsins. Nefndin fær til umfjöllunar skattamál sem fyrir Alþingi eru lögð og því þótti rökrétt að kalla a.m.k. eftir áliti hennar á þessu skattafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Álit nefndarinnar fylgir með sem fylgiskjal.
    Margt mjög athyglisvert kemur fram í áliti efnahags og skattanefndar. Nefndin kallaði til ráðslags við sig fulltrúa fjármálaráðuneytisins og í áliti nefndarinnar segir um ábendingar ráðuneytisins: „Athygli var vakin á því af hálfu fjármálaráðuneytis að ráðstöfun skattsins gæti raskað samkeppnisgrundvelli hafna auk þess að samræmast illa stefnu um að draga úr vægi markaðra tekjustofna. Einnig kom fram að gjaldskrárákvarðanir hafna tækju almennt mið af kostnaði við að veita viðkomandi þjónustu.“
    Það er því ekki að undra að efnahags- og skattanefnd teldi tilefni til þess að finna ráðstöfun skattsins annan farveg. Velti nefndin upp tveimur möguleikum. Í fyrsta lagi að hækka framlög til Hafnabótasjóðs. Í annan stað að eftirláta Fiskistofu að gera þjónustusamninga við hafnir undir tilgreindum viðmiðunarmörkum, en Fiskistofa lagðist gegn því.
    Niðurstaða efnahags- og skattanefndar er mjög skýr hvað þetta mál áhrærir. Niðurstöðuna er að finna í lok álitsins, þar sem segir: „Nefndin telur að það samræmist fjárveitingarvaldi Alþingis betur að framlög til málaflokka séu ákveðin í fjárlögum fremur en í almennum lögum en hún skilur markmið frumvarpsins.“
    Hér er afdráttarlaust kveðið að orði. Efnahags- og skattanefnd bendir á að sú leið sem farin er í skattafrumvarpi sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar sé ekki góð. Ætla má af álitinu að nefndin telji skynsamlegra að hækka einfaldlega fjárveitingar til hafnanna, sem nemur fjárhæðinni. Engu að síður leggur meiri hlutinn til að ekki verði gerðar breytingar á frumvarpinu og að ekki verði tekið tillit til álits þeirrar þingnefndar sem fer með skattaleg málefni á Alþingi.
    Þetta frumvarp er brennt sama marki og mörg önnur sem hafa verið lögð fram á sviði sjávarútvegs af hálfu ráðherra málaflokksins. Málið er illa undirbúið, ekki hefur verið haft fyrir því að vinna að því í eðlilegu samráði innan stjórnsýslunnar og er það bersýnilega í blóra við stefnu ríkisvaldsins um að draga úr vægi markaðra tekjustofna. Hér rekur sig hvað á annars horn, eins og fyrri daginn.
    Þessi nýja skattlagning er vitaskuld á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarmeirihlutans á Alþingi. Ætla má vegna forsögunnar og þess sem hefur komið fram við meðferð málsins í þingnefndum að hinn nýi strandveiðiskattur, þessi sértæka skattlagning á hluta fiskveiðiflotans, verði ekki ýkja langlífur og að fyrr en síðar reynist nauðsynlegt að endurskoða hann.

Alþingi, 28. apríl 2010.



Einar K. Guðfinnsson,


frsm.


Sigurður Ingi Jóhannsson.


Jón Gunnarsson.





Fylgiskjal.



Álit



         um frv. til l. um breyt. á l. nr. 116/2006, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pétur H. Fenger frá fjármálaráðuneytinu, Eyþór Björnsson frá Fiskistofu, Gísla Gíslason frá Hafnarsambandinu og Snorra Stefánsson frá Samkeppnisstofnun. Málinu var vísað til nefndarinnar 10. mars sl. frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.
    Í frumvarpinu, sem lagt er fram samhliða máli á þskj. 667, 370. mál (strandveiðar), er lagt til að heimilt verði að innheimta tilgreinda fjárhæð fyrir útgáfu leyfis til strandveiða og ráðstafa tekjunum í lok veiðitímabils til hafna þar sem strandveiðiafla hefur verið landað í samræmi við hlutdeild þeirra í veiddum heildarstrandveiðiafla á tímabilinu.
    Fram kom við umfjöllun málsins að umrædd gjaldtaka væri skattur. Athygli var vakin á því af hálfu fjármálaráðuneytis að ráðstöfun skattsins gæti raskað samkeppnisgrundvelli hafna auk þess að samræmast illa stefnu um að draga úr vægi markaðra tekjustofna. Einnig kom fram að gjaldskrárákvarðanir hafna tækju almennt mið af kostnaði við að veita viðkomandi þjónustu.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að bæta höfnum upp kostnað vegna umsýslu með strandveiðum og ræddi nefndin leiðir til að ná markmiðum þess: Í fyrsta lagi að samþykkja frumvarpið óbreytt, í öðru lagi að samþykkja ekki frumvarpið og reikna með að hafnir standi undir kostnaði með gjaldskrárhækkunum, í þriðja lagi að samþykkja ekki frumvarpið og hækka heldur framlög til málaflokksins á fjárlögum.
    Fram kom að tilurð frumvarpsins megi rekja til undirliggjandi óánægju sveitarfélaga með að þurfa að uppfylla kröfur fiskveiðistjórnarkerfisins um eftirlit án þess að fé frá ríkinu fylgi með. Hafnarsambandið lagði einnig áherslu á að frumvarpið hefði sérstaka þýðingu fyrir minni hafnir og hafnir með dreifða starfsemi. Samkeppnisstofnun tók fram að það væri ESA og fjármálaráðuneytisins að taka afstöðu til þess hvort í því fælist ríkisstyrkur. Fiskistofa telur ákvæði frumvarpsins vera framkvæmanleg.
    Í ljósi framangreinds og vegna greindrar andstöðu fjármálaráðuneytisins ræddi nefndin hugmyndir um að finna ráðstöfun skattsins annan farveg, til að mynda með því að hækka framlög til Hafnarbótasjóðs á fjárlögum eða eftirláta Fiskistofu að gera þjónustusamninga við hafnir undir tilgreindum viðmiðunarmörkum. Fiskistofa telur að síðarnefndi kosturinn komi ekki til álita þar sem þegar hafi verið komið á fót starfshópi með fulltrúum stofnunarinnar og Hafnarsambandsins sem taka á til skoðunar fyrirkomulag við vigtun og skráningu sjávarafla. Búast megi við að þar verði m.a. fjallað um viðbótarkostnað hafna vegna sérþarfa fiskveiðistjórnarkerfisins og því ótímabært að veita Fiskistofu heimild til þjónustusamninga sem aðeins varði einn afmarkaðan þátt kerfisins. Þá sé erfitt að finna hlutlægar viðmiðanir sem skeri úr um við hvaða hafnir stofnunin geti samið og hverjar ekki og hversu mikið fé stofnunin eigi að láta fylgja með slíkum samningum.
    Nefndin bendir á að það er á valdi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að taka afstöðu til þeirra kosta sem að framan eru raktir. Nefndin telur að það samræmist fjárveitingarvaldi Alþingis betur að framlög til málaflokka séu ákveðin í fjárlögum fremur en í almennum lögum en hún skilur markmið frumvarpsins.
    

Alþingi, 20. apríl 2010.

Helgi Hjörvar,
Tryggvi Þór Herbertsson, með fyrirvara,
Lilja Mósesdóttir,
Pétur H. Blöndal, með fyrirvara,
Ólafur Þór Gunnarsson,
Jónína Rós Guðmundsdóttir.