Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 394. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 1090  —  394. mál.
Leiðrétting.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/2007, um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Svein Þorgrímsson frá iðnaðarráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um frumvarpið frá Bændasamtökum Íslands, Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Samtökum atvinnulífsins, tækninefnd Vísinda- og tækniráðs og Vegagerðinni.
    Í 12. gr. gildandi laga er kveðið á um að iðnaðarráðherra skipi sjö menn til setu í stjórn Tækniþróunarsjóðs til þriggja ára í senn. Með frumvarpinu er lagt til að iðnaðarráðherra skipi stjórn Tækniþróunarsjóðs til tveggja ára í stað þriggja og jafnframt að iðnaðarráðherra skipi formann og varaformann. Enn fremur er lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipi einn fulltrúa í stað tveggja áður í ljósi þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti voru sameinuð árið 2008. Verði frumvarpið að lögum verða sex menn í stjórninni í stað sjö samkvæmt gildandi lögum. Nefndin fagnar þeirri tillögu að stytta skipunartíma stjórnarmanna og binda stjórnarsetu við tvö tímabil í senn. Sú breyting er til þess fallin að stuðla að örari endurnýjun innan stjórnar. Jafnframt leggur nefndin til að stjórn Tækniþróunarsjóðs verði ekki skipt út allri á sama tíma en með því er leitast við að auka samfellu og skilvirkni stjórnarinnar. Við umfjöllun um málið var m.a. rædd gagnrýni sem kemur fram í umsögn Bændasamtaka Íslands á þá fyrirætlun að fækka fulltrúum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í stjórninni. Nefndin minnir á að verkefni skulu metin faglega og hlutverk stjórnar er fyrst og fremst að setja fagráðum Tækniþróunarsjóðs verklagsreglur en ekki að gæta hagsmuna tiltekinna atvinnugreina. Áréttað er að það er ekki verkefni stjórnar heldur fagráða Tækniþróunarsjóðs sem skipuð eru af tækninefnd Vísinda- og tækniráðs að leggja mat á umsóknir og bera fram tillögur um úthlutun styrkja.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Við skipun í stjórn Tækniþróunarsjóðs fyrir 1. september 2010 skulu þrír menn skipaðir til eins árs. Skal það ár teljast sem eitt tímabil. Þetta á þó ekki við um þann sem ráðherra skipar án tilnefningar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. maí 2010.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Jón Gunnarsson.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Margrét Tryggvadóttir.


Tryggvi Þór Herbertsson.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.



Björn Valur Gíslason.