Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 515. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1198  —  515. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fengið á sinn fund Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti og Ólaf Kjartansson og Guðlaug Sverrisson frá Úrvinnslusjóði. Þá bárust umsagnir frá Umhverfisstofnun, tollstjóranum í Reykjavík, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, ríkisskattstjóra, Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa og Bændasamtökum Íslands.
    Í frumvarpinu eru lagðar til þrjár breytingar á lögum um úrvinnslugjald. Í fyrsta lagi er lögð til hækkun úrvinnslugjalds á pappírs-, pappa- og plastumbúðir, heyrúlluplast, halógeneruð efnasambönd, ísósýanöt, olíumálningu og blýsýrurafgeyma. Í annan stað er lögð til hækkun úrvinnslugjalds á lífræn leysiefni og í þriðja lagi er lagt til að hefja innheimtu úrvinnslugjalds af fleiri tollnúmerum leysiefna.
    Nefndin hefur fjallað um framangreinda endurskoðun gjalda sem er ætlað að draga úr sjóðshalla sem orðið hefur í ákveðnum uppgjörsflokkum, en lögum samkvæmt skal tekjum hvers uppgjörsflokks eingöngu varið til að mæta gjöldum þess flokks og hver flokkur vera fjárhagslega sjálfstæður. Nefndin telur rétt að árétta að sú hækkun sem frumvarpið felur í sér vegur ekki upp fyrri lækkun sem varð þegar gjald á heyrúlluplast og plastumbúðir var sameinað í einn vöruflokk með sama gjaldi í ársbyrjun 2008. Miðað er við að magntengd greiðsla til þjónustuaðila hækki um 5% milli áranna 2009 og 2010 og skilahlutfall aukist hlutfallslega á milli ára. Frumvarpinu er því ætlað að tryggja að nægt fjármagn sé til reksturs Úrvinnslusjóðs þar sem tekjur af úrvinnslugjaldi renna óskiptar til úrvinnslu úrgangs á vegum sjóðsins að frádregnu 0,5% umsýslugjaldi sem rennur í ríkissjóð.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Birgitta Jónsdóttir og Vigdís Hauksdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. júní 2010.



Ólína Þorvarðardóttir,


form., frsm.


Birgir Ármannsson.


Margrét Pétursdóttir.



Kristján Þór Júlíusson.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.



Þuríður Backman.