Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 517. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1220  —  517. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi í tengslum við uppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.


                                  
    Nefndin fjallaði að nýju um frumvarpið eftir 2. umræðu. Á fund nefndarinnar komu Ástríður Jóhannesdóttir frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Gunnar Viðar frá NBI hf., Jakob Bjarnason fyrir hönd skilanefndar Landsbanka Íslands hf., Jóhannes Karl Sveinsson hrl. og Þórólfur Jónsson hdl.
    Það sem einkum var rætt á fundi nefndarinnar var aðdragandi frumvarpsins. Við umfjöllun um málið í nefndinni kom fram að í desember 2009 hefði verið samið um að NBI hf. gæfi út skuldabréf til Landsbanka Íslands hf. sem skyldi tryggt með veði í eignum bankans. Þegar samningaviðræðurnar stóðu yfir komu upp efasemdir um hvort íslensk lög um samningsveð næðu yfir veðsetningu á svo stóru eignasafni í svo langan tíma.
    Vegna þessa var veðsetningum slegið á frest fram í apríl og skuldbatt fjármálaráðherra sig til að undirbúa frumvarp til laga þess efnis að setja ákveðinn ramma utan um veðsetningar af þessu tagi. Í því fólust þó engin fyrirheit um að slíkt frumvarp yrði samþykkt sem lög frá Alþingi.
    Meiri hlutinn bendir á að frumvarpið veitir fjármálafyrirtækjum ekki heimild til að veita veð í eigum sínum til tryggingar fjárskuldbindingum því að slíka heimild hafa þau nú þegar. Frumvarpið miðar að því að auðvelda uppgjör fjármálafyrirtækja sem Fjármálaeftirlitið tók yfir á grundvelli neyðarlaganna og ljúka því ferli sem hófst með setningu neyðarlaganna, sbr. einkum 5. mgr. 5. gr. þeirra um heimild Fjármálaeftirlitsins til að taka eignir fjármálafyrirtækis í sínar vörslur, láta meta verðmæti þeirra og ráðstafa þeim til greiðslu áfallinna krafna eins og þörf krefur. Þau ákvæði sem felast í frumvarpinu gera þeim fjármálafyrirtækjum sem frumvarpið nær til auðveldara fyrir en að óbreyttum lögum að viðhalda fullnægjandi veðhlutfalli með því að bæta við eignum í veðsafn sem og að skipta út einstökum eignum.
    Efni frumvarpsins er skýrt afmarkað í 1. gr. þess þar sem mælt er fyrir um að fjármálafyrirtæki sé heimilt að veita veð í eignum sínum í tengslum við uppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum fjármálafyrirtækis á grundvelli 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 125/2008 (neyðarlaganna). Í frumvarpinu felst grundvallarfrávik frá 1. mgr. 3. gr. laga um samningsveð um að veðréttur verði ekki stofnaður í einu lagi þannig að gildi hafi að lögum í öllu því sem veðsali á eða eignast kann. Vegna þessa leggur meiri hlutinn til að gildistími frumvarpsins verði 10 ár.
         Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 6. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði laga þessara falla úr gildi að liðnum 10 árum frá gildistöku þeirra.

Alþingi, 7. júní 2010.



Lilja Mósesdóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Þuríður Backman.



Mörður Árnason.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.