Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 567. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1249  —  567. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Karl Alvarsson, Sigurð Örn Guðleifsson og Valgerði Guðmundsdóttur frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Jóhönnu H. Halldórsdóttur frá Flugmálastjórn Íslands, Signýju Sigurðardóttur frá Samtökum verslunar og þjónustu, Hilmar Baldursson frá Icelandair ehf., Árna Gunnarsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Þórunni Önnu Árnadóttur frá Neytendastofu. Umsagnir bárust frá Flugvirkjafélagi Íslands, Icelandair ehf., Isavia ohf., Landhelgisgæslu Íslands, Neytendasamtökunum, Neytendastofu, Ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum verslunar og þjónustu og Veðurstofu Íslands.
    Tilgangur frumvarpsins er tvíþættur. Annars vegar er ætlunin að gera breytingar á gildandi loftferðalögum þannig að íslenska ríkið uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist með aðild sinni að Alþjóðaflugmálastofnuninni og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Er þannig stefnt að því að íslenskt lagaumhverfi endurspegli þær breytingar sem orðið hafa á hinu alþjóðlega. Hins vegar er tilgangur frumvarpsins að endurspegla þá áherslubreytingu sem orðið hefur hérlendis sem erlendis og varðar mikilvægi neytendasjónarmiða í flugsamgöngum.
    Á fundum nefndarinnar var frumvarpið rætt og einkum það álitamál hvort frumvarpið endurspeglaði nægilega anda þeirra Evrópugerða sem því er ætlað að innleiða. Um þetta komu fram skiptar skoðanir, ekki síst í því ljósi að með frumvarpinu fær Flugmálastjórn Íslands auknar heimildir til eftirlits og eftirfylgni við ákvarðanir sínar. Skilningur nefndarinnar er sá að í þeim Evrópugerðum sem liggja til grundvallar gerð frumvarpsins sé stefnt að því að í Evrópu gildi sambærilegar reglur um flugmál, um gjaldtöku í flugvallarstarfsemi, öryggi í flugi og umhverfisvernd. Nefndin telur að Flugmálastjórn Íslands búi yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu á sviði flugmála, þar á meðal hvað varðar framkvæmd í samræmi við alþjóðlegar reglur og þjóðréttarlegar skuldbindingar landsins. Ákvæði frumvarpsins fela í sér að reynt getur verulega á slíka þekkingu og reynslu. Er því líklegt að innsýn í alla þætti flugvalla- og flugrekstrar muni reynast dýrmæt. Enn fremur hefur verið undirstrikað að margar þær eftirlits- og rannsóknarheimildir sem Flugmálastjórn Íslands þarfnast til rækslu hlutverks síns eru nú þegar til staðar í þeirri löggjöf er liggur til grundvallar starfsemi stofnunarinnar. Nægir þar að nefna þær heimildir er felast í 5., 6. og 8. gr. laga nr. 100/2006.
    Það sjónarmið kom fram hjá umsagnaraðilum að eðlilegt væri að vald til að ákvarða um gildi gjaldskráa rekstraraðila flugvalla yrði sett í hendur annarra aðila en Flugmálastjórnar Íslands en yrði ella áfram í höndum ráðherra. Skilningur nefndarinnar er sá að slík útfærsla kynni að leiða til ósamræmis við ákvæði þeirrar Evrópugerðar sem verið er að innleiða með frumvarpinu.
    Nefndin ræddi rökin fyrir því að setja eftirlit með verðlagningu aðila er starfa á sviði flugmála í hendur Flugmálastjórn Íslands. Skilningur nefndarinnar er sá að væri framkvæmd slíks eftirlits falin öðru stjórnvaldi en Flugmálastjórn Íslands kynni það að útheimta mikla og kostnaðarsama þekkingaröflun þess stjórnvalds. Einnig hefur nefndin litið til þess að eftirlit með birtingu verðupplýsinga lýtur ekki aðeins að vernd neytenda heldur einnig flugrekstraraðila.
    Þá ræddi nefndin rök sem fram voru færð gegn því að Flugmálastjórn Íslands væri falið vald til þess að leysa með ákvörðun úr deilum á milli einkaaðila. Er það mat nefndarinnar að fordæmi slíks megi finna í íslenskri löggjöf auk þess sem framkvæmd eftirlitsaðila á viðkomandi sviðum mæli ekki gegn því að slík leið sé fær.
    Að lokum telur nefndin rétt að taka fram að samkvæmt hennar skilningi felur frumvarpið að hluta til í sér breytingar á lögum nr. 60/1998 vegna fyrirhugaðra skuldbindinga íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Hefur sameiginlega EES-nefndin ekki tekið ákvarðanir um téðar skuldbindingar. Telur nefndin rétt að vekja athygli á þessari málsmeðferð.
    Það sjónarmið kom fram á fundi nefndarinnar að rétt væri að gera breytingu á frumvarpinu er fæli í sér efnislega breytingu á 2. mgr. 146. gr. laga nr. 60/1998. Er það skilningur nefndarinnar að í gildandi 2. mgr. téðrar lagagreinar sé sérstaklega vísað til reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1592/2002 frá 15. júlí 2002, um stofnun Flugöryggisstofunar Evrópu. Hafi sú reglugerð verið felld úr gildi innan Evrópusambandsins með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008 frá 20. febrúar 2008, um sameiginlegar reglur í almenningsflugi og stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu. Þá hafi reglugerð nr. 216/2008 ekki verið innleidd í íslenskan rétt en svo muni verða gert í þeim tilgangi að skyldur Íslands vegna aðildar að EES-samningnum verði uppfylltar. Þannig sé ekki rétt að vísa til tiltekinnar Evrópureglugerðar sem heimilt er að innleiða heldur til innihalds þeirra gerða sem heimilt er að innleiða. Af gefnu tilefni vekur nefndin athygli á nauðsyn þess að gætt sé meginreglna um þörf settra laga og heimildir stjórnvalda til setningar almennra stjórnvaldsfyrirmæla við innleiðingu Evrópugerða.
    Loks leggur nefndin til nokkrar tæknilegar breytingar á greinum frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 1. gr. Tilvísanirnar „7. mgr. 28. gr.“ og „2. mgr. 146. gr.“ falli brott.
     2.      Í stað orðsins „fjárhæðarinnar“ í 10. gr. og a–c-lið 12. gr. komi: tölunnar.
     3.      Í stað tilvísunarinnar „2. mgr. 102. gr.“ í 10. gr. komi: 2. og 3. mgr. 102. gr.
     4.      Í stað orðanna „Viðbótar valkvæður kostnaður“ í lokamálslið 1. efnismgr. 13. gr. komi: Valkvæður viðbótarkostnaður.
     5.      Á eftir 16. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  2. mgr. 146. gr. laganna orðast svo:
                  Ráðherra skal setja reglugerð, sbr. 1. mgr., sem felur í sér innleiðingu þeirra reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins er varða stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu í íslenskan rétt.

    Árni Johnsen, Ólína Þorvarðardóttir og Mörður Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. júní 2010.



Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Róbert Marshall.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.



Guðmundur Steingrímsson.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Ásbjörn Óttarsson.