Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 152. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1296  —  152. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um stjórnlagaþing.

Frá allsherjarnefnd.



     1.      Við 2. gr.
                  a.      Í stað dagsetninganna „17. júní 2010“ og „17. febrúar 2011“ í 2. mgr. komi: 15. febrúar 2011, og: 15. apríl 2011.
                  b.      3. mgr. falli brott.
                  c.      5. mgr. orðist svo:
                      Stjórnlagaþingi er heimilt að óska eftir því við Alþingi að starfstími þingsins verði framlengdur með þingsályktun um allt að tvo mánuði.
     2.      Við 3. gr.
                  a.      Við 6. tölul. 1. mgr. bætist: m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.
                  b.      Við 1. mgr. bætist tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
                  7.     Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.
                  8.     Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.
     3.      Í stað orðanna „samhliða kosningum til sveitarstjórna vorið 2010“ í 4. gr. komi: eigi síðar en 30. október 2010.
     4.      5. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Kosningarréttur og kjörskrár.

                      Kosningarrétt til stjórnlagaþings eiga þeir sem uppfylla skilyrði 1. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þegar boðað hefur verið til kosninga til stjórnlagaþings skal Þjóðskrá Íslands semja kjörskrá og setja á rafrænt form til að nota við atkvæðagreiðsluna.
                      Á kjörskrá skal taka þá sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga um kosningar til Alþingis og skráðir voru með lögheimili í tilteknu sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá Þjóðskrár Íslands þremur vikum fyrir kjördag. Enn fremur skal taka á kjörskrá þá sem uppfylla skilyrði 2. mgr. 1. gr. þeirra laga og síðast áttu skráð lögheimili hér á landi í tilteknu sveitarfélagi.
                      Sautján dögum fyrir kjördag skal Þjóðskrá Íslands birta hina rafrænu kjörskrá almenningi til sýnis á heimasíðum dómsmálaráðuneytisins og Þjóðskrár Íslands. Þjóðskrá Íslands skal þegar taka til meðferðar athugasemdir er henni berast við kjörskrá og gera viðeigandi leiðréttingar á henni ef við á. Slíka leiðréttingu má gera fram að kjördegi. Ákvörðun Þjóðskrár Íslands er endanleg.
                      Þremur vikum fyrir kjördag skal dómsmálaráðuneytið birta auglýsingu í Ríkisútvarpi og dagblöðum þar sem vakin er athygli almennings á því hvar nálgast megi hina rafrænu kjörskrá og hvernig megi gera athugasemdir við hana.
     5.      Orðið „menn“ í 6. gr. falli brott.
     6.      Í stað orðanna „helstu fjölmiðlum“ í 7. gr. komi: Ríkisútvarpi, dagblöðum.
     7.      Við 8. gr.
                  a.      Í stað orðanna „sex vikum“ í 1. mgr. komi: kl. 12 á hádegi fjörutíu dögum.
                  b.      Í stað 3. og 4. málsl. 2. mgr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Landskjörstjórn í samráði við dómsmálaráðuneytið útbýr sérstakt eyðublað í þessu skyni sem skal skilað á því formi sem landskjörstjórn fer fram á.
                  c.      Í stað orðanna „framboði er skilað“ í 4. mgr. komi: framboðsfrestur rennur út.
                  d.      5. mgr. orðist svo:
                      Náist ekki tilskilinn lágmarksfjöldi frambjóðenda, sbr. 1. mgr. 2. gr., þegar framboðsfrestur rennur út skal landskjörstjórn framlengja frestinn um tvær vikur. Nái fjöldi frambjóðenda þá ekki tilskildu lágmarki koma lögin ekki til framkvæmda.
                  e.      Við bætist þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Landskjörstjórn auglýsir á vefsíðu sinni og vefsíðu á vegum dómsmálaráðuneytisins 24 dögum fyrir kjördag nöfn frambjóðenda, starfsheiti þeirra og sveitarfélög þar sem þeir eru búsettir.
                      Ákvæði laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra gilda um framlög eða styrki til frambjóðenda eftir því sem við á.
                      Kostnaður hvers frambjóðanda vegna kosningabaráttu má að hámarki nema 2 millj. kr.
     8.      9. gr. orðist svo:
                      Dómsmálaráðuneytið skal útbúa kynningarefni um frambjóðendur. Skal kynningarefni dreift á öll heimili hér á landi. Einnig skal kynningarefni birt á vefsíðu á vegum ráðuneytisins.
                      Dreifa skal til allra kjósenda í landinu afriti af kjörseðli, auðkenndum sem kynningarseðill, ásamt skýringum á því hvernig atkvæðagreiðslan fer fram. Kynningarseðillinn skal jafnframt birtur á vefsíðu á vegum ráðuneytisins ásamt skýringum. Kynningarseðilinn má kjósandi hafa með sér í kjörklefa.
     9.      1. mgr. 10. gr. orðist svo:
                      Dómsmálaráðuneytið sér um gerð og prentun kjörseðla og sendir þá ásamt öðrum kjörgögnum til þeirra sem annast framkvæmd atkvæðagreiðslunnar á kjörfundi og utan kjörfundar. Haga skal sendingunum í samræmi við lög um kosningar til Alþingis.
     10.      Við 11. gr.
                  a.      Í stað 1. mgr. komi tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Kjósandi getur greitt atkvæði á kjörfundi hvar sem er á landinu enda verði sýnilegt í rafrænu kjörskránni á öllum kjörstöðum að hann hafi neytt atkvæðisréttar síns. Um kjördeildir, kjörstaði og framkvæmd atkvæðagreiðslunnar fer að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á. Sveitarstjórnir leggja til tölvubúnað í hverri kjördeild til að tryggja aðgang að rafrænu kjörskránni.
                      Kjósandi sem greiðir atkvæði á kjörfundi setur tölustafinn 1 í ferning fyrir framan nafn þess frambjóðanda sem hann vill helst að nái kjöri, töluna 2 í ferninginn fyrir framan nafn þess frambjóðanda sem hann vill að komi næstur til álita, töluna 3 í ferninginn fyrir framan nafn þess frambjóðanda sem hann vill að komi næstur til álita o.s.frv.
                  b.      2. og 3. mgr. orðist svo:
                      Setji kjósandi önnur merki við nöfn frambjóðenda en 2. mgr. kveður á um, t.d. strikar yfir eitt eða fleiri nöfn, er atkvæðið gilt, enda séu ekki aðrir annmarkar á því, en horft skal fram hjá slíkum merkingum við talningu atkvæða, sbr. 14. gr.
                      Að atkvæðagreiðslu lokinni gengur undirkjörstjórn frá kjörgögnum í samræmi við 95. gr. laga um kosningar til Alþingis og sendir landskjörstjórn á öruggan hátt. Landskjörstjórn eða aðili sem hún tilnefnir gefur viðurkenningu fyrir móttöku þegar gögnin berast.
     11.      12. gr. orðist svo:
                      Kosningu utan kjörfundar skal hefja sautján dögum fyrir kjördag. Þar sem atkvæðagreiðsla fer fram skal kjörstjóri hafa aðgang að sérstakri skrá, utankjörfundarskrá, sem skal vera á rafrænu formi og sækir gögn í rafrænu kjörskrána. Í rafrænu kjörskránni verður sýnilegt að greitt hafi verið atkvæði utan kjörfundar, hvar það var gert og hvenær. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram hjá sömu kjörstjórum og við alþingiskosningar. Henni skal lokið í síðasta lagi kl. 12 daginn fyrir kjördag. Kjósanda, sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar, er óheimilt að greiða atkvæði á kjörfundi.
                      Eftir að kjósandi hefur gert grein fyrir sér á viðhlítandi hátt fyrir kjörstjóra fær hann afhent kjörgögn sem eru kjörseðill skv. 10. gr., kjörseðilsumslag og sendiumslag. Því næst greiðir hann atkvæði í einrúmi eins og lýst er í 2. mgr. 11. gr., leggur kjörseðilinn í kjörseðilsumslagið og lokar því. Því næst skal kjörseðilsumslagið sett í sendiumslagið og því lokað. Kjörstjóri skal gæta þess að nafn og kennitala kjósandans sé skráð á sendiumslagið og að það sé áritað til landskjörstjórnar. Merking í utankjörfundarskrá kemur í stað fylgibréfs, vottunar og skráar skv. 63. og 66. gr. laga um kosningar til Alþingis en um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar fer að öðru leyti eftir þeim lögum nema annað leiði af lögum þessum. Hafi kjörstjóri ekki aðgang að utankjörfundarskrá fer um framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eftir lögum um kosningar til Alþingis.
     12.      13. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Talning atkvæða.

                      Landskjörstjórn eða aðili sem hún tilnefnir gengur úr skugga um að kjósendur, sem greitt hafa atkvæði utan kjörfundar, standi á kjörskrá og að þeir eigi rétt á að greiða atkvæði og metur að öðru leyti hvort atkvæðið skuli tekið til greina, sbr. 91. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þessa athugun má hefja á kjördegi. Atkvæði sem greidd hafa verið utan kjörfundar verða að hafa borist landskjörstjórn fyrir kl. 22 á kjördag.
                      Talning atkvæða fer fram fyrir opnum dyrum hjá landskjörstjórn. Hún skal auglýsa með nægum fyrirvara hvenær hún komi saman til að opna atkvæðakassa og hefja talningu atkvæða. Landskjörstjórn getur kvatt yfirkjörstjórnir í kjördæmunum í Reykjavík sér til aðstoðar. Um meðferð atkvæða, gildi þeirra og framkvæmd talningar fer eftir lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á að teknu tilliti til 14. gr. Heimilt er að beita rafrænum aðferðum við talningu og útreikning á því hver hafi náð kjöri. Landskjörstjórn úrskurðar um gildi atkvæða sem eru haldin einhverjum annmörkum og skal afl atkvæða ráða úrslitum.
     13.      Við 14. gr.
                  a.      Í stað 1. og 2. málsl. 1. mgr. komi nýr málsliður sem orðist svo: Úrslit kosninganna ráðast af eftirfarandi aðgerðum.
                  b.      Í stað orðsins „listans“ í 2. tölul. 1. mgr. komi: frambjóðanda.
                  c.      Í stað orðanna „tóman bunka í upphafi“ í 1. mgr. 3. tölul. 1. mgr. komi: í upphafi ígildi bunka þótt tómur sé.
                  d.      4. og 5. mgr. orðist svo:
                      Að lokinni talningu og úthlutun sæta birtir landskjörstjórn greinargerð um úrslitin opinberlega og boðar frambjóðendur til stjórnlagaþings til fundar. Þar lýsir hún úrslitum kosninganna og gefur út kjörbréf handa þjóðkjörnum fulltrúum á stjórnlagaþingi. Eftir að kjörbréf hafa verið afhent tilkynnir landskjörstjórn Stjórnarráðinu um niðurstöðu kosninganna og sendir nöfn hinna kjörnu fulltrúa til birtingar í Stjórnartíðindum.
                      Nú er ágreiningur um kjörgengi frambjóðanda til stjórnlagaþings sem náð hefur kjöri og sker landskjörstjórn þá úr.
     14.      15. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Kærur og fleira.

                      Ef kjósandi telur fulltrúa á stjórnlagaþingi skorta kjörgengisskilyrði, framboð hans hafi ekki uppfyllt skilyrði laga eða kjör hans sé af öðrum ástæðum ólögmætt, getur hann kært kosningu hans til Hæstaréttar sem sker úr um gildi hennar. Kæra skal afhent Hæstarétti innan tveggja vikna frá því að nöfn hinna kjörnu fulltrúa voru birt í Stjórnartíðindum. Hæstiréttur aflar greinargerðar og gagna frá landskjörstjórn og gefur viðkomandi fulltrúa færi á að tjá sig um kæruna áður en skorið er úr um gildi kosningarinnar.
                      Ákvæði 114. gr., XIX., XX., XXIV. og XXV. kafla laga um kosningar til Alþingis gilda um kosningar samkvæmt þessum lögum að svo miklu leyti sem við getur átt.
     15.      1. málsl. 4. mgr. 17. gr. falli brott.
     16.      Við 19. gr.
                  a.      Í stað orðsins „samkomutímabilum“ í 2. mgr. komi: samkomutímabili.
                  b.      Orðin „Þingfulltrúar í nefndum þingsins njóta launa allan starfstíma þingsins og“ í 3. mgr. falli brott.
     17.      Í stað orðsins „forsætisráðuneytið“ í 1. mgr. 21. gr. komi: forsætisnefnd Alþingis.
     18.      Í stað orðsins „Forsætisráðuneytið“ í 22. gr. komi: Forsætisnefnd Alþingis.
     19.      23. gr. orðist svo:
                  Í upphafi stjórnlagaþings skal þingið ákveða viðfangsefni og verkaskiptingu nefnda, með sérstöku tilliti til 3. gr.
     20.      24. gr. orðist svo:
                  Niðurstöður og tillögur nefnda þingsins skulu kynntar af nefndarformönnum og ræddar í samræmi við starfsreglur stjórnlagaþings.
     21.      Orðin „á fyrsta degi þriðja samkomutímabils þingsins“ í 2. mgr. 26. gr. falla brott.
     22.      Í stað orðsins „forsætisráðherra“ í 1. og 2. mgr. 28. gr. komi: forsætisnefnd Alþingis.
     23.      Við ákvæði til bráðabirgða.
                  a.      Í stað orðsins „forsætisráðherra“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: forsætisnefnd Alþingis.
                  b.      Í stað orðsins „Alþingi“ í 2. málsl. 1. mgr. komi: forsætisráðherra.
                  c.      2. mgr. falli brott.